Seinnihluti 41. aðalfundar: 2. Stutt greining á aðferðarfræði námunefndarinnar

Aðdragandi skýrslu

Undanfarin ár hafa safnaðarmeðlimir KSDA beðið samtakastjórn um upplýsingar um námurekstur samtakanna. Vegna upplýsingabeiðna þeirra bað samtakastjórnin Endurskoðunarsamtök aðventista (GCAS[1]) um skýrslu. GCAS-skýrslan svaraði fáum spurningum safnaðarstjórna og þær báðu því um annan upplýsingafund. Samtakastjórn ákvað að halda hann ekki. Þess í stað lagði stjórnin skýrslu fyrir 41. aðalfund í september 2022 þar sem hún sagðist ekki myndu svara frekari spurningum. Fulltrúar brugðust við með því að taka skýrsluna af dagskrá og báðu Stór-Evrópudeildina (TED) um að fá „óháða aðila“ til „að fara yfir málsatvik og staðreyndir varðandi námuvinnslu[na]“.[2] Ekki er hægt að túlka aðdragandann og samþykktina öðruvísi en svo að það ríki mikill vilji hjá safnaðarmeðlimum fyrir því að fá upplýsingar um námumálið í heild sinni svo þeir skilji það til fulls og geti leyst það. 

Fulltrúar samþykktu ennfremur að fresta lokum aðalfundar til 11. desember 2022. Þá átti að ljúka dagskrá fundarins sem fól m.a. í sér lestur námuskýrslunnar.[3] Námunefndin hóf hinsvegar ekki störf fyrr en síðla vors 2024. Stór-Evrópudeild og samtakastjórn hafa ekki veitt fulltrúum neinar útskýringar á þessum fresti. Námunefndin tekur fram að „mikill skaði“ hafi orðið vegna þessara tafa[4] og því er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að Stór-Evrópudeildin og samtakastjórn upplýsi fulltrúa um ástæður þessarar seinkunar. En öllu verra er að skýrslan tekur ekki fyrir það sem fulltrúar báðu um og verður því gert skil hér í stuttu máli.

 

Rannsóknarefni

Nefndin átti að skoða „staðreyndir og málsatvik“ námureksturins. Í ljósi almenns orðalags og fyrirliggjandi spurninga safnaðarstjórna ber að skilja samþykktina sem beiðni um gagngera úttekt á námumálinu. Það er því ekki rétt hjá nefndinn þegar hún segir að fulltrúar hafi beðið um „að sett yrði á laggirnar óháð nefnd sem myndi fara yfir skýrslu GCAS og samninginn frá 2009“.[5] Nefndin segir að vegna beiðni TED hafi hún skoðað fimm atriði í stað þessara tveggja.[6] Atriðin fimm uppfylla ekki heldur almennt orðalag samþykktarinnar og það sem meira er: nefndin gerir þessum fimm atriðum ófullnægjandi skil eins og tekið verður fyrir hér á eftir.

 

Aðferðarfræði

Samþykkt aðalfundar biður óháðan aðila um að „fara yfir“ námumálið. Það liggur í hlutarins eðli að hér er verið að biðja um óháða rannsókn sem byggist á faglegum vinnubrögðum þó það sé ekki sagt fullum fetum. Rannsókn felur í sér sjálfstæða öflun gagna á málefni, greiningu á gögnunum og rökstudda niðurstöðu. Birting rannsóknar felur í sér fagleg skrif eða skýrslu þar sem skýrsluhöfundur styður greiningu sína og niðurstöður með tilvísunum í þau gögn sem hann studdist við. 

En námunefndin stundaði ekki sjálfstæða rannsókn:

  1. Nefndin stundaði litla sem enga sjálfstæða gagnaöflun.[7] Þess í stað bauð hún hverjum sem vildi að hafa samband við sig og færa sér gögn. En slíkt ferli tryggir ekki að nefndin hafi fengið öll gögn málsins.

  2. Nefndin aflaði sér ekki allra gagna málsins. Námunefndin viðurkennir að hún hafi ekki fengið að sjá mörg áríðandi gögn eins og t.d. nýja námusamninginn í heild sinni og bókhald Eden Mining.[8] Þetta merkir að nefndin er í sömu stöðu og safnaðarmeðlimir – sem hafa ekki fengið að sjá öll gögn málsins og báðu einmitt um skýrslu til að öðlast heildarmynd á málið – og hefur því uppá ekkert nýtt að bjóða.

  3. Nefndin tiltekur ekki hvaða gögn liggja að baki skýrslunni og vísar ekki til heimilda. Þó að námunefndin hafi lesið þau gögn sem henni bárust er hvorki heimildaskrá í skýrslunni né vísað skipulega til heimilda.[9] En ef ekki er vísað til heimilda er lesanda ekki ljóst á hverju greining og niðurstöður byggjast.

  4. Nefndin viðurkennir að hún hafi ekki hægt nægan tíma til starfa.[10] Þetta merkir í raun að nefndin lauk ekki því verkefni sem henni var falið, sem var að útskýra málsatvik og staðreyndir námurekstursins fyrir safnaðarmeðlimum.

  5. Nefndin leitaði ekki til óháðra aðila. Þegar það kom t.d. að lögfræðispurningum ráðfærði nefndin sig aðeins við lögfræðinga KSDA. Það er eðlilegt að spyrja þá að áliti en að spyrja þá einungis en ekki óháða lögfræðinga er ekki einusinni fréttamennska (sem kynnir sér báðar eða allar hliðar), hvað þá rannsókn.

Skýrslan byggir því ekki á sjálfstæðri rannsókn sem unnin er eftir faglegum vinnubrögðum. Þess í stað byggir hún aðallega á viðtölum og ónægum upplýsingum sem nefndin aflaði sér ekki sjálf heldur fékk í hendurnar.

 

Lokaorð

Námunefndin viðhafði ekki fagleg vinnubrögð og stundaði ekki sjálfstæða rannsókn heldur byggði skýrslu sína á því sem viðmælendur henni sögðu henni og færðu henni. Aðferðarfræði námunefndar er því allverulega ábótavant. Á skýrslunni eru of miklir annmarkar til að hún uppfylli þær kröfur sem fulltrúar settu fram.

Þrátt fyrir þessa miklu galla er hægt að læra mjög margt af lestri skýrslunnar. En til að skoða það þarf að líta á efni skýrslunnar en ekki aðeins aðferðarfræði nefndarinnar. Það verður gert í seinnihluta þessarar greiningar. (Fyrir þá sem vilja vita niðurstöðu efnisgreiningar strax í stuttu máli: námunefndin viðurkennir marga aðalpunkta í gagnrýni safnaðarmeðlima, þó að hún reyni líka að vera sammála samningsaðilum í ýmsu en þá því miður oftast án aðgangs að gögnum.)


[1] General Conference Auditing Service.

[2] Samþykkt 15b, fundargerð fyrrihluta 41. aðalfundar KSDA, bls. [4].

[3] Samþykkt 15c, fundargerð fyrrihluta 41. aðalfundar KSDA, bls. [5].

[4] Námunefnd, skýrsla, bls. 3.

[5] Námunefnd, skýrsla, bls. 1.

[6] Námunefnd, skýrsla, bls. 2.

[7] Námunefndin tók það fram í tilkynningu sinni í Kirkjufréttum að hún myndi líta á viss skjöl svo hún tók eitthvert frumkvæði: „Athugun á helstu skjölum sem innihalda en takmarkast ekki við fundargerðir stjórnar Kirkjunnar, samninga, bréf, tölvupósta frá meðlimum stjórnar Kirkjunnar og meðlimum Kirkjunnar, lögmönnum Kirkjunnar.“ Námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“ (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 31. maí 2024. Það er hinsvegar ýmislegt alvarlegt við þessi vinnubrögð. Hvernig vissi nefndin að helstu skjöl væru það sem hún lýsir áður en hún störf? Og af hverju er ekki minnst á fjármálagögn í þessari lýsingu, eins og bókhald Eden Mining, eða tölvupóstasamskipti Eden Mining og samtakastjórnar? Og svo mætti áfram telja. Ennfremur hefur námunefndin ekki tiltekið hvaða skjöl hún leit á og hvernig hún aflaði sér þeirra.

[8] Nefndin segir að hún hafi ekki haft „aðgengi að öllum upplýsingum um hvað fram fór“. Námunefnd, skýrsla, bls. 4. „Nefndin hefur einfaldlega hvorki haft nægilegan tíma né aðgengi að upplýsingum“. Námunefnd, skýrsla, bls. 5. Nefndin hefði aðeins fengið að sjá nýja námusamninginn í heild sinni hefði hún skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu og þar sem hún vildi ekki gera það sá hún ekki samninginn í heild sinni. Námunefnd, skýrsla, bls. 6.

[9] Nefndin vitnar aðeins í þrjár heimildir:

1.   Safnaðarhandbókina því til stuðnings að safnaðarmeðlimir ættu ekki að fara í málaferli (bls. 4, 9).

2.   Starfsstefnu Aðalsamtakanna (Working Policy of the General Conference) þegar hún ræðir 18. grein samþykkta KSDA (bls. 7).

3.   svör lögfræðinga KSDA við fyrirspurnum námunefndinnar (bls. 8). Svörin voru á þá leið að samtakastjórn hefði staðið rétt að öllu málum. Nú er lögfræðingum borgað til að verja skjólstæðinga sína svo svör þeirra eru augljóslega ekki heildarsýn á tiltekið mál.

[10] „Tíminn sem nefndin hafði til starfa sinna gerði það að verkum að ómögulegt var að framkvæma nákvæma skoðun“. Námunefnd, skýrsla, bls. 4. „Nefndin hefur einfaldlega hvorki haft nægilegan tíma né aðgengi að upplýsingum.“ Námunefnd, skýrsla, bls. 5.

Previous
Previous

Seinnihluti 41. aðalfundar: 3. Stutt greining á umfjöllun námunefndarinnar

Next
Next

Seinnihluti 41. aðalfundar: 1. Heilagur Andi, lýðræði eða bara pólitík?