ANDLEGT LÍF OG FJÁRMÁL

Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?

      – Lúkasarguðspjall 16.10–11.

 

Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar.

      – Fyrra Korintubréf 10.31.

 

Órofa tengsl hins andlega og efnislega í kristinni trú

Það er oft sagt að kristnin snúist um andlega lífið. Það er satt að hin ýmsu boð og bönn Biblíunnar snúast um „efnislegan veruleika“: hvað má borða og drekka, hvenær hvíldardagurinn er, hvenær má stunda kynlíf og með hverjum, hversu mikinn hluta Guð eignar sér af tekjum, o.s.frv.  

Það eru tvenn meginmistök sem kristið fólk hefur gert þegar það hefur skilgreint andlegt líf í gegnum söguna. Fyrri mistökin eru að einblína á efnislega þátt boðorðanna og missa af andlegu megininntaki þeirra. Jesús ávítaði t.d. faríseana fyrir það að gæta þess að skila tíund af ómerkilegustu tekjum (af jurtum sem uxu í garðinum þeirra) á sama tíma og þeir brutu gegn anda lögmálsins sjálfs með því að sýna hvorki náungakærleika eða miskunn. 

Seinni mistökin eru að telja að þar sem efnislegi þátturinn sé ekki megininntakið þá sé efnið aðeins hismi og jafnvel hindrun í andlega lífinu. Það er t.d. alþekkt hvernig einsetumenn reyndu að verða sem andlegastir með því að forðast allt efnislegt, hvort sem það var vinna, matur, drykkur, kynlíf, eða bara yfirhöfuð samfélag við aðrar manneskjur. 

Við aðventistar höfum aðra sýn á þessa hluti. Við teljum að hið andlega sé mikilvægara en hið efnislega. En við teljum að hið efnislega sé líka mikilvægt. Og við teljum að hið andlega geti ekki þrifist án hins efnislega. Guð vill að við njótum þess að vera til og það getum við aðeins gert með því að vera það sem við erum, bæði andlegar og efnislegar verur. Þetta sést t.d. í því að ólíkt mörgum kirkjudeildum teljum við ekki að himnaríki sé „andlegra“ en jörðin og að fólk eigi eftir að verða sálir án líkama. Þvert á móti teljum við að himnaríki verði eins og hin upphaflega paradís: efnislegur staður með fólki sem hefur bæði góðan líkama og gott hjarta. 

Hið efnislega er nauðsynlegur þáttur í því að vera til, að vera mennsk(ur) og að vera kristin(n). Það er ekki hægt að lifa og elska og gera öðrum gott og vera kristin/n án þess að vera í hinum efnislega heimi. Hið efnislega er aðeins óandlegt ef hið andlega samhengi er hunsað: Að borða og drekka og lifa með sjálfa(n) sig eina(n) og ánægju manns sjálfs að markmiði án þess að hugsa um Guð eða aðra. 

Það er hér sem hugtakið ráðsmennska kemur inn. Guð hefur gefið okkur allt sem við eigum og erum og vill að við notum það allt á réttan hátt. Ráðsmennska er að sýna persónulega ábyrgð í því hvernig við förum með gjafir Guðs. Hvort sem það er okkar eiginn líkami, fjárhagur, tími, forréttindi, tækifæri, hæfileikar, hlutir eða eignir. Guð ætlast til þess að við förum vel með allt – og þessi góða meðferð á öllu er hluti af hinu andlega lífi. Að vera kristin/n er ekki aðeins að biðja og boða og brosa heldur líka að fara vel með allt.

 

Útmálun samtakastjórnar á námumálinu sem efnislegri umræðu

Samtakastjórn hefur útmálað námumálið sem efnislega umræðu sem eyðir kröftum KSDA í því að deila um fjármál og leiðir huga safnaðarmeðlima frá andlegum málefnum. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi. 

Í mars 2022 dreifði samtakastjórn opnu bréfi til safnaðarstjórna. Því lauk með því að samtakastjórn leitaðist við að beina huga lesenda frá námumálinu til þarfari þanka: endurkomu Jesú Krists: 

Ellen White leggur áherslu á mikilvægi þess að einbeita sér að því að berjast saman við yfirnáttúrulegan óvin okkar frekar en að berjast hver við annan. . . . Við erum fjölskylda Guðs og við erum að undirbúa okkur sjálf og aðra fyrir bráða endurkomu Jesú. Og eins og við sjáum í atburðunum sem gerast í kringum okkur, þá gæti það verið miklu fyrr en við höldum.[1] 

Á GCAS-fundinum í maí 2022 lýsti Gavin Anthony formaður áhyggjum safnaðarmeðlima á námumálinu sem fjárhagslegum áhyggjum sem hefðu eytt allt of miklum tíma samtakastjórnar. Á slíkri ögurstundu sem nú, á síðustu tímum, færi betur að safnaðarmeðlimir hættu að hugsa um þessi peningamál og einbeittu sér frekar að trúboði:

Almost all of the correspondence that we [samtakastjórn] have received on this issue is related to money, particularly when the Church has gone through covid and is struggling. We have tremendous events happening in the world. And for the Executive Committee, we have spent hour upon hour upon hour looking at these things. . . . think. But the question for everyone of us here is the next step. What is in the best interest of the Church and for mission, for God’s work?  . . . I am very saddened that we are having to spend so much time talking about money.[2]

Í skýrslu sinni um námumálið sem var í fundargögnum fyrir aðalfund 22.–25. september 2022 segir samtakastjórn að „það sem er í húfi er mikilvægara en peningar“[3] því umræða um námumálið skaði KSDA og komi í veg fyrir að hún geti sinnt trúboðsstarfi sínu af krafti: 

Það verður að taka fram að sérstaklega á síðasta ári hefur margt verið sagt og ritað sem hefur valdið mörgum miklum persónulegum sársauka og leitt til þess að sambönd og traust milli meðlima hafa rofnað. Þó að sumir telji að þetta mál skipti miklu máli og réttlætismál séu í húfi, þá er raunveruleikinn sá að bæði hjá söfnuðum og hjá stjórn Kirkjunnar hafa þessar umræður leitt athyglina frá trúboði og umhyggju [hvert fyrir öðru]. Þetta hefur einnig leitt til þess að fjöldi fólks hefur fjarlægst Kirkjuna okkar. Slíkur sársauki, rof á ævilöngu samböndum og löngun til að vera ekki lengur tengdur Kirkjunni, er kostnaður sem enginn auka peningur getur bætt upp fyrir. Við teljum því ekki að Kirkjan okkar geti haldið áfram í þessa átt. Þess vegna er ætlun þessarar skýrslu að reyna að loka þessu máli til þess að við getum snúið aftur að aðaltilgangi okkar sem Kirkju – að koma fólki í samband við Jesú í ljósi bráðrar endurkomu hans.[4] 

Þessi útmálun samtakastjórnar er misleiðandi. Hvernig samtakastjórn hefur farið með efnislega dýrmætustu eign KSDA er ekki einhvers konar peningalegt aukaatriði, úr öllum tengslum við andlegt líf trúfélagsins. Hvernig við förum með námurnar er hluti af ráðsmennsku okkar sem trúfélag. Ef óréttlátir stjórnarhættir, fjárhagslegt eða lögfræðilegt misferli, eða jafnvel peningagræðgi á sér stað í samtakastjórn, þá er það auðvitað eitthvað sem ekki er hægt að hunsa af því að Jesús er að koma til jarðarinnar eða af því að við eigum að hugsa um boðun eða þess í stað að elska hvert annað. Þessi andlegu atriði krefjast þess þvert á móti siðbótar í stjórnarháttum KSDA. 

Við sem höfum gagnrýnt samtakastjórn fyrir ráðsmennsku þeirra á námunum erum því ekki að einblína á peningaleg (og óandleg) aukaatriði. Okkur er annt um andlegan hag KSDA og þess vegna er okkur einnig annt um ráðsmennsku veraldlegra eigna hennar. Við teljum að þegar samtakastjórn – sem leiðir bæði í andlegum og efnislegum skilningi – sinnir ekki veraldlegum málum sínum vel sé það mjög alvarlegt mál. 

Spurningin er því ekki hvort að námumálið sé óandlegt eða ekki. Það er í órofa tengslum við andlegt líf okkar sem trúfélag. Spurningin er frekar hvort samtakastjórn hafi annast námurnar vel eða ekki. Þeir safnaðarmeðlimir sem hafa gagnrýnt samtakastjórn telja að hún hafi ekki farið vel með námumálið og ekki upplýst safnaðarmeðlimi um gang mála. Það er enn og aftur röng guðfræði að útmála áhyggjur safnaðarmeðlima eins og þeir einblíni á veraldleg gæði og missi sjónar á andlegum málefnum. Það er einmitt vegna andlegs áhuga þeirra á velferð KSDA að þeir vilja sjá góða ráðsmennsku og stjórnarhætti.


[1] Samtakastjórn, opið bréf, 16. mars 2022, bls. 4.

[2] Gavin Anthony formaður, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, í upphafi og lok fundarins, vélritun höfundar.

[3] Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, bls. 84.

[4] Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, bls. 81.