HEIDELBERG MATERIALS

„Ef námuréttarhafi [Eden] gerir langtímasamning við Heidelberg Group eða annan aðila sem landeigandi samþykkir sérstaklega fyrir 31. desember 2025 um kaup á unnu efni úr námunum og tilkynnir eiganda um það . . . framlengist gildistími samnings þessa til 31. desember 2051.“

       – Samningur KSDA við Eden, 2022, 3. grein.

 

Samningur KSDA við Eden frá 18. janúar 2022 byggist að miklu leyti á samningi Edens við Heidelberg Materials. Sameiginlega snúast samningarnir um þetta: Heidelberg Materials mun sækja jarðefni í Lambafell og Litla-Sandfell, flytja til Þorlákshafnar og vinna þar í verksmiðju og flytja á skipum til Þýskalands.

 

Viðbrögð íbúa Þorlákshafnar og ýmissa íslenskra stofnana

Þessar fyrirhuguðu framkvæmdir munu gjörbreyta ásýnd og eðli Þorlákshafnar sem mun verða að stóriðjubæ. Mótmælin gegn framkvæmdunum hafa verið hávær í bænum:

  1. Bæjarfulltrúar hafa mótmælt verkefninu

    a. Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi, skrifaði grein gegn verkefninu[1]

    b. Hrönn Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, bæjarfulltrúar, hafa lýst því yfir í fjölmiðlum að þær sjái eftir því að hafa greitt atkvæði með verkefninu[2]

    c. Ása Berglind Hjálmarsdóttir, bæjarfulltrúi, hefur talað gegn verkefnin[3]

    d. Ása Berglind, Hrönn og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson gagnr‎‎ýndu verklag Skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss í þessu máli[4]

  2. A.m.k. einn íbúi fyrir utan bæjarfulltrúa hefur skrifað í blöðin gegn framkvæmdunum[5]

  3. Umræða og fyrirspurnir bæjarbúa á kynningarfundi Heidelberg Materials 15. nóvember 2022 voru að mestu leyti neikvæðar[6]

  4. Að kynningarfundinum loknum hófu Ása Berglind og Hrafnhildur bæjarfulltrúar undirskriftasöfnun gegn framkvæmdunum sem var síðan sett á netið[7]  

Eftirfarandi ríkisstofnanir hafa gagnrýnt framkvæmdirnar:[8]

  1. Vegagerðin

  2. Samgöngustofa

  3. Umhverfisstofnun 

Enn fremur fóru félagasamtökin Landvernd af stað með undirskriftasöfnun á móti verkefninu[9] og hvöttu sveitastjórnir til að hafna námuvinnslu.[10]  

Málið hefur líka ratað inn á alþingi: Einn þingmaður gagnrýndi verkefnið um miðjan nóvember 2022.[11] 

Þótt margir bæjarbúar séu ósáttir við verkefnið telur Gavin Anthony formaður það vera gott fyrir þá. Í viðtali við Vísi 3. september 2022 sagði hann: „Náman hefur í fyrirhuguðu fyrirkomulagi bæði í för með sér atvinnusköpun í sveitarfélaginu auk mikils sparnaðar á kolefnislosun í byggingariðnaði og þar með afleidd góð áhrif á heimsbyggðina alla.“[12]  

Formaður tók það hinsvegar skýrt fram að framkvæmdirnar væru ekki beintengdar KSDA: „Rétt er að halda því til haga að Kirkja sjöunda dags aðventista er á engan hátt aðili að áformum um fyrirhugaða efnistöku eða uppbyggingu sementsverksmiðju.“[13] En samningur KSDA við Eden frá 18. janúar 2022 byggist að miklu leyti á þessum áformum[14] svo orð formanns eru í mesta falli rétt í tæknilega þröngum skilningi. Án samnings KSDA við Edens virðast fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg Materials vera ómögulegar.

 

Hvaða fyrirtæki er Heidelberg Materials?

Samningur KSDA tengist augljóslega fyrirhuguðum framkvæmdum Heidelberg Materials í Þorlákshöfn. Svo hvaða fyrirtæki er það sem KSDA ákvað að fara í óbeint viðskiptasamband við? 

Stjórnendur kynntu fyrirtækið fyrir safnaðarmeðlimum með þessum orðum 1. febrúar 2022: „Eden Mining hefur unnið að verkefni í samvinnu við HeidelbergCement Group, þýskt fyrirtæki sem starfar í 50 löndum um allan heim. Heidelberg er stærsti birgir Evrópu á malarefni og annar stærsti sementsframleiðandi Evrópu.“[15] Formaður jós lofi á verkefnið í Vísis-viðtalinu: 

Náman hefur í fyrirhuguðu fyrirkomulagi bæði í för með sér atvinnusköpun í sveitarfélaginu auk mikils sparnaðar á kolefnislosun í byggingariðnaði og þar með afleidd góð áhrif á heimsbyggðina alla. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum verður sparnaðurinn af kolefnislosun við nýtingu efnis úr námunni hið minnsta á pari við það sem allur íslenski bílaflotinn veldur.[16] 

Ef samtakastjórn hefði áhuga á að kynna sér alþjóðlega starfsemi Heidelberg Materials frekar yrði ímynd fyrirtækisins strax nokkuð flóknari. (Íslenskir fjölmiðlar fóru loksins að skrifa um Heidelberg í janúar 2023, eftir að þessi kafli hafði verið skrifaður og birtur 13. janúar.)[17] Árið 2020 fékk Heidelberg Materials t.d. 7/26 í einkunn hjá Corporate Human Rights Benchmark[18] – frjálsum félagasamtökum sem meta hvernig stærstu fyrirtæki heims standa sig í mannréttindamálum[19] – og að því er virðist 15,8/100 í einkunn árið 2019.[20] Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt af umhverfisverndarsinnum, mannréttindabaráttufólki og rannsóknarblaðamönnum fyrir að brjóta á fólki, a.m.k. í Egyptalandi,[21] Indónesíu,[22] Palestínu,[23] Tógó[24] og Vestur-Sahara[25] – löndum þar sem réttarstaða almennings á undir högg að sækja gagnvart spilltum yfirvöldum. Höfundur hafði því miður ekki tíma til að kafa í þessi mál. Með þessu er ekki verið að reyna að sverta nafn fyrirtækisins að óþörfu en aðeins er bent á það að ástand heimsins sem við búum í er þannig að það er öllum augljóst sem vita vilja að risastór fyrirtæki með alþjóðleg umsvif eru sjaldan dýrlingasamtök.

 

Umfang viðskiptatengsla KSDA við Heidelberg Materials

Það er tvennt sem hægt er að segja um viðskiptatengsl KSDA við Heidelberg Materials sem höfundur telur að eðlilegt hefði verið að ræða innan trúfélagsins áður en farið var út í samningaviðræður vorið 2021. 

Í fyrsta lagi er KSDA trúfélag sem segist fylgja háleitum siðferðisstaðli. Það ætti því að skipta slíku trúfélagi miklu máli að eiga aðeins í viðskiptatengslum við það sem samræmist siðferðisstaðli hennar að mestu eða öllu leyti. Gerir Heidelberg Materials það? Hafa safnaðarmeðlimir og samtakastjórn yfirhöfuð skoðað það mál gaumgæfilega? Hvers konar starfsemi og verkefni er KSDA að leggja nafn sitt við með því að taka þátt í þessu verkefni? 

Í öðru lagi er KSDA trúfélag og ekki fyrirtæki. Markmið þess er að boða fagnaðarerindið. KSDA stundar viðskipti og fyrirtækjarekstur einungis þegar slíkt er nauðsynlegt markmiði hennar: KSDA rekur menntastofnanir til að kenna sín fræði, heilbrigðisstofnanir því hún telur hluta lýðheilsu hluta af fagnaðarerindinu, og bókabúðir til að selja bækur um kenningar sínar og boðskap. Eina ástæðan fyrir því að KSDA á Breiðabólstað er sú að trúfélagið rak þar unglingaskóla tæpa hálfa öld. Það er því tilviljun að KSDA eigi yfirhöfuð námur.  

Það að reka námurnar eins og gert var fyrir nýja samninginn er eitt – um „venjulegt malarnám“ var að ræða sem hafði engin róttæk þjóðfélagsáhrif. En nýi samningurinn felur í sér miklu meira og allt annað en venjulegt malarnám. Fyrirhuguðu framkvæmdirnar fela í sér náin viðskiptatengsl við risafyrirtæki, gjörbreytingu á sveitarfélagi og áhrif á þjóðarstefnu í umhverfis- og viðskiptamálum. Til þess að taka þátt í verkefni af þessari stærðargráðu er KSDA óbeint að móta sér skoðun á alls konar þjóðfélagsmálum – en vanalega reynir Aðventkirkjan að vera pólitískt hlutlaus þar sem hún telur sig eiga erindi til allra manneskna, hvaða flokk sem þær kjósa. (Undantekningar á þessari stefnu snúast vanalega um mannréttindamál.) Höfundur telur að með nýja samningnum sé KSDA komin út í djúpu laugina á stað þar sem hún á einfaldlega ekki heima. Og þó KSDA teldi sig eiga heima þar hefði samtakastjórn, samkvæmt 18. grein kirkjulaganna, átt að ræða alla fleti fyrirhugaðra framkvæmda við safnaðarmeðlimi áður en farið var út í samningaviðræður og undirritun nýja samningsins 2022.  

Með undirritun nýja samningsins við Eden og óbein tengsl sín við Heidelberg Materials hefur KSDA blandað nafni aðventista inn í alls konar flókin þjóðfélagsmál að safnaðarmeðlimum forspurðum. Ef af framkvæmdum verður og samningi verður ekki rift mun KSDA í kjölfarið bæði hljóta lof og last landsmanna eftir því hvaða mat þeir leggja á framkvæmdirnar og bera mikla ábyrgð á áhrifum verkefnisins á íslenskt samfélag, hver sem þau verða.


[1] Guðmundur Oddgeirsson, „Matvæli eða öskuhaugar“, Vísir.is, 3. maí 2022, https://www.visir.is/g/20222256245d/mat-vaeli-eda-osku-haugar.

[2] Hrönn Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, „Að kjósa gegn eigin sannfæringu“, Hafnarfrettir.is, 21. ágúst 2022, http://hafnarfrettir.is/2022/08/21/ad-kjosa-gegn-eigin-sannfaeringu/.

[3] Sjá t.d. Jakob Bjarni og Óttar Kolbeinsson Proppé, „Óttast að breyta eigi Þorlákshöfn í ruslakistu fyrir iðnað sem enginn annar vill“, Vísir.is, 19. ágúst 2022, https://www.visir.is/g/20222299481d.

[4] Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Baldur Guðmundsson, „Hvaða hagsmunir ráða för?“, Dagskráin, 12. janúar 2023.

[5] Ásta Ragnarsdóttir. „Þorpið mitt“, Hafnarfrettir.is, 19. ágúst 2022, http://hafnarfrettir.is/2022/08/19/thorpid-mitt/; „Þorpið mitt“, Visir.is, 20. ágúst 2022, https://www.visir.is/g/20222300459d.

[6] Sunna Ósk Logadóttir, „Litla þorpið sem á að bjarga þýska risanum“, Kjarninn.is, 19. nóvember 2022, https://kjarninn.is/skyring/litla-thorpid-sem-a-ad-bjarga-thyska-risanum/; Jakob Bjarnar, „Mótmæla harðlega fyrirhugaðri risaverksmiðju í Þorlákshöfn“, Visir.is, 16. nóvember 2022, https://www.visir.is/g/20222339738d/mot-maela-hard-lega-fyrir-hugadri-risa-verk-smidju-i-thor-laks-hofn.

[7] Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, „Enga jarðefnaverksmiðju í Þorlákshöfn“, https://is.petitions.net/enga_jarefnaverksmiu_i_orlakshofn; Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Hrafnhildur Lilja Harðardóttir, „Áskorun að loknum íbúafundi Heidelberg Material“, Visir.is, 16. nóvember 2022, https://www.visir.is/g/20222339723d/askorun-ad-loknum-ibuafundi-heidelberg-material.

[8] Sjá t.d. Sunna Ósk Logadóttir, „Að flytja Litla-Sandfell úr landi myndi auka losun, slíta vegum og fjölga slysum“, Kjarninn.is, 20. október 2022, https://kjarninn.is/frettir/ad-flytja-litla-sandfell-ur-landi-myndi-auka-losun-slita-vegum-og-fjolga-slysum/; Sunna Ósk Logadóttir, „Of lítið gert úr umhverfisáhrifum námu í Litla-Sandfelli“, Kjarninn.is, 31. október 2022, https://kjarninn.is/frettir/of-litid-gert-ur-umhverfisahrifum-namu-i-litla-sandfelli/.

[9] Landvernd, „Áskorun: Höfnum námuvinnslu á Mýrdalssandi og í Þrengslunum“, Landvernd.is, https://landvernd.is/askorun-namuvinnsla-i-myrdal-og-threngslum/.

[10] Jakob Bjarnar, „Landvernd skorar á sveitastjórnir að hafna námuvinnslu“, Visir.is, 6. september 2022, https://www.visir.is/g/20222307740d/land-vernd-skorar-a-sveitar-stjornir-ad-hafna-namu-vinnslu.

[11] „Það er gott að búa í Ölfusi en dálítið erfitt, held ég, svona síðustu mánuði þegar birtast fréttir af hálfbrjáluðum verkefnum sitthvorum megin á Suðurlandinu, þar sem á . . . að taka heilt fjall ofan af Þrengslum og flytja til Þorlákshafnar til uppskipunar. Íbúum líst ekki vel á þetta. Það var íbúafundur nú fyrr í vikunni þar sem, fyrir utan áhyggjur fólks af umhverfisáhrifum þar sem efnistakan er, þá er fólk líka eðlilega með áhyggjur af því hvernig áhrifin eru á hafnarbakkanum í Þorlákshöfn, vegna þess að fyrirtæki sem ætlar að taka Litla-Sandfell ofan af Þrengslunum og koma því í sement úti í löndum, ætlar að taka allar iðnaðarlóðir á hafnarbakkanum. Það ætlar að skerma það af sem við getum kallað miðbæ Þorlákshafnar frá austurhluta Suðurlands. 55 000 fermetra lóð, eða í rauninni ef ég man rétt, tólf lóðir sem á að steypa saman, eiga að fara undir verksmiðjuna í þetta eina verkefni, lóðir sem gætu nýst til fjölbreyttari atvinnuuppbyggingar til að gera Þorlákshöfn að miklu skemmtilegri stað heldur en ein einasta uppskipunarverksmiðja gæti gert. En þetta leiðir líka hugann að áhyggjum sem fólk hefur alltaf af aðgerðum sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið, vegna þess að lög um mat á umhverfisáhrifum eru enn löskuð á þann hátt að neikvæð niðurstaða í umhverfismati hefur ekki áhrif, hefur ekki föst áhrif vegna þess að leyfisveitandi, í þessu tilviki sveitarfélagið, getur hunsað þau, getur veitt leyfi engu að síður. Og í tilfelli Ölfuss þá er kannski ástæða til að hafa áhyggjur.“ Andrés Ingi Jónsson, FB-reikningurinn „Andrés Ingi á Þingi“, FB-færsla, 18. nóvember 2022, https://fb.watch/gWas2WGIGT/.

[12] Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista vegna sölu á heilu fjalli“, Visir.is, 3. september 2022, https://www.visir.is/g/20222306014d/olga-medal-adventista-vegna-solu-a-heilu-fjalli.

[13] Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista“.

[14] Þannig var samningurinn a.m.k. kynntur fyrir safnaðarmeðlimum: „Fyrir tæpu ári síðan hófust viðræður milli Kirkjunnar á Íslandi og Eden Mining um möguleika á nýju verkefni varðandi námur okkar. . . . Eden Mining hefur unnið að verkefni í samvinnu við HeidelbergCement Group . . . Verkefnið beinist að því að framleiða vistvænni sementsvöru sem er mögulegt með því að nýta steinefnin sem finnast í námunum á landi kirkjunnar. Með þessu samstarfi verður mölin hluti af aðfangakeðju Heidelbergs . . . Kirkjan hefur skrifað undir nýjan samning við Eden Mining sem kemur í stað allra fyrri samninga. . . . Skilmálar hafa verið samdir fyrir hönd Kirkjunnar af samningslögfræðingum hjá Lex. Í þessu ferli hafa tekið þátt í lögfræðingar Kirkjunnar, Eden Mining og Heidelberg.“ Samtakastjórn, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[15] Samtakastjórn, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[16] Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista“.

[17] Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson. „Heidelberg hefur þurft að greiða hundruð milljóna í sektir vegna mengunar“, Heimildin.is, 29. janúar 2023, https://heimildin.is/grein/16589/hafa-thurft-ad-greida-hundrud-milljona-i-sektir-vegna-mengunar/.

[18] Corporate Human Rights Benchmark (CHRB) eru frjáls félagasamtök sem meta hvernig stærstu fyrirtækjum heims gengur í mannréttindamálum, nánar tiltekið, hve vel þau fara eftir leiðarstefnu Sameinuðu þjóðanna varðandi viðskipti og mannréttindi (e. UN Guiding Principles on Business and Human Rights). „Methodology“, Corporate Human Rights Benchmark, World Benchmarking Alliance, https://www.worldbenchmarkingalliance.org/publication/chrb/methodology/.

[19]HeidelbergCement“, Corporate Human Rights Benchmark, World Benchmarking Alliance, https://www.worldbenchmarkingalliance.org/publication/chrb/2020/companies/heidelbergcement/, sjá einnig pdf-link neðst á síðunni og þá er hægt að sækja skjalið „Corporate Human Rights Benchmark 2020 Company Scoresheet“ fyrir Heidelberg Materials.

[20]HeidelbergCement“, Business & Human Rights Centre, https://www.business-humanrights.org/en/companies/heidelbergcement/.

[21] Sjá „Tourah Cement lawsuit (re workers’ prison charge for illegal protest, Egypt)“, Business & Human Rights Resource Centre, https://www.business-humanrights.org/en/latest-news/tourah-cement-lawsuit-re-workers-prison-charge-for-illegal-protest-egypt/; sjá einnig hlekki á fleiri greinar tengdar þessu máli neðst á síðunni.

[22] Deutsche Welle, Ben Knight, „Indonesian farmer joins May 1 rally to protest German cement”, 1. maí 2017, https://www.dw.com/en/indonesian-farmer-joins-may-1-rally-to-protest-german-cement/a-38653827; Der Spiegel, Nils Klawitter, „Indonesische Landarbeiter wehren sich gegen deutschen Zementgiganten“, 9. september 2020, https://www.spiegel.de/wirtschaft/unternehmen/oecd-beschwerde-indonesische-landarbeiter-klagen-gegen-deutschen-zementgiganten-a-7b216329-2565-442e-bffe-155ce9f85506.

[23] Maha Abdallah og Lydia de Leeuw, „Violations Set in Stone: HeidelbergCement in the Occupied Palestinian Territory“, skýrsla birt af Centre for Research on Multinational Corporations (SOMO), 4. febrúar 2020, sjá pdf-link, https://www.somo.nl/violations-set-in-stone/.

[24] Aktion Bleiberecht, „Demonstration am 15.02. für Demokratie und Gerechtigkeit in Togo!“, 17. febrúar 2020, https://www.aktionbleiberecht.de/2020/02/gegen-die-diktatur-und-die-umweltzerstoerung-u-a-durch-heidelbergcement-in-togo/.

[25] RobinWood, „Greenwashing von HeidelbergCement provoziert Proteste“, 5. maí 2021, https://www.robinwood.de/pressemitteilungen/greenwashing-von-heidelbergcement-provoziert-proteste.