UPPLÝSINGAÓREIÐA

Umræða samtakastjórnar um námumálið innan og utan KSDA hefur einkennst af misvísandi og óljósum upplýsingum. Stundum hefur samtakastjórn farið með hálfsannar, villandi eða beinlínis rangar staðhæfingar. Stundum hefur þessi umfjöllun samtakastjórnar verið gegn þeim upplýsingum sem hún sjálf er meðvituð um og því erfitt að forðast þá niðurstöðu að þetta sé viljandi gert.

Hér á eftir fylgja tvær fullyrðingar samtakastjórnar sem höfundur telur að séu rangar eða villandi. Þær eru aðeins dæmi því höfundur hefur ekki haft tíma til að taka allar rangar fullyrðingar saman.

1. KSDA er ekki aðili að fyrirhuguðum framkvæmdum eða efnistöku

Í viðtali Vísis við Gavin Anthony formann KSDA þann 3. september 2022 og yfirlýsingu stjórnar KSDA í Hafnarfréttum þann 27. janúar 2023 stendur:

Rétt er að halda því til haga að Kirkja sjöunda dags aðventista er á engan hátt aðili að áformum um fyrirhugaða efnistöku eða uppbyggingu sementsverksmiðju. Kirkjan hefur gert samkomulag við Eden Mining um námuréttindi í Litla-Sandfelli, en hefur að öðru leyti ekki beinna hagsmuna að gæta.[1]

Þetta er kannski tæknilega rétt ef „aðili“ merkir „framkvæmdaraðili“. En tónninn var annar þegar stjórnin kynnti samning KSDA við Eden Mining fyrir meðlimum í vikulega fréttabréfi sínu Kirkjufréttir þann 1. febrúar 2022. Þar er rætt ítarlega um efnistöku Eden Mining og um aðkomu Heidelberg Materials í beinu samhengi við samninginn og þar kemur m.a. þetta fram:

Skilmálar hafa verið samdir fyrir hönd Kirkjunnar af samningslögfræðingum hjá Lex. Í þessu ferli hafa tekið þátt lögfræðingar Kirkjunnar, Eden Mining og Heidelberg [Materials].[2]

Í opnu bréfi stjórnar KSDA til safnaðarstjórna er fjallað um hlutina á svipaðan hátt:

Samningurinn [við Eden Mining] gerir ráð fyrir framlengingu samningsins ef áreiðanleikakannanir þýska fyrirtækisins HeidelbergCement Group [Heidelberg Materials er nýja nafn fyrirtækisins] heppnast. Heidelberg er stærsti birgir Evrópu á malarefni og annar stærsti sementsframleiðandi Evrópu. Verkefnið beinist að því að framleiða vistvænni sementsvörur sem er mögulegt með því að nýta steinefnin sem finnast í námunum á landi Kirkjunnar. Með þessu samstarfi verður efnið úr námunum okkar unnið í verksmiðju sem Heidelberg mun byggja í Þorlákshöfn sem verður hluti af birgðakeðju Heidelberg.[3]

Framsetning stjórnar KSDA í yfirlýsingu sinni í Hafnarfréttum er því villandi. H ún reynir að draga úr ábyrgð KSDA á fyrirhuguðum framkvæmdum og viðskiptalegri tengingu KSDA við Heidelberg Materials.

2. KSDA hefur engra hagsmuna að gæta hvað varðar fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg Materials

Þessi fullyrðing kemur fram í yfirlýsingu stjórnar KSDA í Hafnarfréttum (sjá tilvitnunina að ofan) þar sem stendur að fyrir utan samning sinn við Eden Mining hafi KSDA „að öðru leyti ekki beinna hagsmuna að gæta“.

Þetta er tæknilega rétt að því leyti að KSDA gerði ekki beinan samning við Heidelberg Materials. En tónninn var annar þegar stjórnin kynnti samninginn fyrir meðlimum í fyrrnefndu tölublaði Kirkjufrétta. Þar er útskýrt að samningur KSDA við Eden Mining byggist á samstarfi síðari aðilans við Heidelberg Materials. Síðan skrifar stjórnin:

 

Mögulega veitir þessi samningur ekki aðeins fjárhagslegt öryggi fyrir kirkjuna til lengri tíma litið. Hann opnar líka möguleika fyrir Kirkjuna okkar að geta fjármagnað boðunarstarf.[4]

 

Í opnu bréfi stjórnar KSDA til safnaðarstjórna (bls. 1) stendur ennfremur:

Þetta tryggir sanngjarna ávöxtun og langtíma tekjulind fyrir Kirkjuna. Gangi þetta verkefni [fyrirtækisins Heidelberg Materials] eftir munu árlegar lágmarkstekjur Kirkjunnar verða hærri en sem nemur núverandi heildar tíundartekjum okkar. Þetta er spennandi verkefni sem mun gefa Kirkjunni okkar góðan fjárhagslegan grundvöll.[5]

Ef samningur KSDA við Eden Mining byggist á samstarfi Eden Mining við Heidelberg Materials og ef stjórnin skrifar að gangi verkefni Heidelberg Materials eftir þá muni KSDA öðlast „fjárhagslegt öryggi“ og „góðan fjárhagslegan grundvöll“ – hvernig hefur þá KSDA engra hagsmuna að gæta?


[1]      Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista“; Samtakastjórn KSDA, „Yfirlýsing frá Kirkju Sjöunda dags aðventista vegna umræðna á íbúasíðu Ölfuss“.

[2]      Stjórnendur KSDA, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[3]      Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 1.

[4]      Stjórnendur KSDA, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[5]      Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 1.