NÁMURNAR
Áður en námurekstur KSDA er athugaður er best að byrja á því að útskýra hvernig á því stendur að trúfélagið eigi námurnar til að byrja með.
Fjárhagslegur grundvöllur starfs aðventista
Kirkja sjöunda dags aðventista á heimsvísu á vanalega ekki aðrar eignir en þær sem hún þarf til að sinna markmiði sínu beint. (Markmið trúfélagsins er að boða fagnaðarerindið.[1]) Slíkar eignir eru kirkjubyggingar, skrifstofur fyrir stjórnsýsluna, land/byggingar fyrir sumarmót og aðra viðburði, skólar og heilbrigðisstofnanir.
Aðventkirkjan stendur vanalega ekki í fyrirtækjarekstri öðrum en þeim sem tengist beint markmiði hennar. Ástæðan fyrir því er sú að hún þarf þess ekki. Aðventkirkjan er rekin með tíund og gjöfum frá safnaðarmeðlimum. Fjárhagslegur grundvöllur hennar felst ekki í viðskiptaumsvifum eða skatti frá ríkinu.[2]
Breiðabólstaður og Hlíðardalsskóli
Á fyrrihluta 20. aldar sáu aðventistar á Íslandi að þá vantaði skóla fyrir unglingana sína.[3] Þetta voru erfiðir tímar á Íslandi en safnaðarmeðlimir voru fórnfúsir og samhuga og söfnuðu saman peningum á rúmum áratug til verksins. Árið 1947 var jörðin Breiðabólstaður keypt. Safnaðarmeðlimir héldu áfram að gefa af sínum persónulegu peningum og tíma og starfi til verksins: Þeir sem gátu hjálpuðu við byggingarvinnuna og fólk lagði af mörkum í innbúið. Hlíðardalsskóli var reistur á undraskömmum tíma. Öll þjóðin tók eftir því með undrun og virðingu að þessi smái söfnuður hafði reist veglegan skóla og rak hann fyrir eigið fé.
Aðventistar unnu áfram mjög fórnfúst starf á Hlíðardalsskóla þá tæpu hálfu öld sem hann var við lýði. En tímarnir breytast og heimavistarskólar liðu undir lok þegar menntakerfið á Íslandi breyttist. Á endanum var ekki fýsilegt að halda skólastarfinu fyrir austan fjall til streitu og Suðurhlíðarskóli (sem hafði tekið til starfa í borginni árið 1990) innlimaði starf eldri bekkjanna.
En hvað átti að gera við allt þetta land og þessar byggingar eftir að Hlíðardalsskóla var lokað árið 1995? Aðventistar mundu eftir öllu því fórnfúsa starfi sem hafði farið fram á Hlíðardalsskóla og hversu mikilvægur skólinn hafði verið safnaðarlífinu. Þeim fannst líka að skólinn og landið hefði verið Guðs gjöf – en það fannst t.d. heitt vatn á ögurstundu þegar ósýnt var að hægt væri að reka skólann áfram með þeim mikla kostnaði sem olíukyndingu fylgdi. Aðventistum fannst því að það hlyti að vera einhver tilgangur áfram með þessari góðu eign – en vissu ekki hver sá tilgangur gæti verið ef hann væri ekki skólastarf. Á aukaaðalfundi í desember 1996 samþykktu því fulltrúar að veita samtakastjórn umboð til að selja Hlíðardalsskóla.[4] Hann var auglýstur til sölu[5] en á endanum varð ekkert úr sölunni.
Árið 1999 stofnuðu þrenn hjón – Kristján Friðbergsson og Unnur Halldórsdóttir, Eric Guðmundsson og Laila Panduro, og Elías Theodórsson og Ester Ólafsdóttir – fyrirtækið Hlíðardalssetrið ehf.[6] Þeim bauðst að ganga inn í kauptilboð sem lá fyrir en þar sem þau vildu að eignin héldist í eigu KSDA buðust þau þess í stað til þess að sjá um húsakostinn og landsvæðið í kring fyrir KSDA svo ekki þyrfti að selja. Hlíðardalssetrið ehf. tók á sig að greiða allan fastan kostnað, svo sem fasteignagjöld, tryggingar o.þ.h. ásamt því að sjá um viðhald og endurbyggingu húsakostsins. Tekjur myndu myndast við útleigu og allt vinnuframlag Hlíðardalssetursins ehf. yrði gefins. Með þessu móti hélst Hlíðardalsskóli og jörðin í eigu Kirkju SDA, af henni hafa hlotist tekjur og henni hefur haldið við. Ennfremur hefur Kirkja SDA haft aðgang að byggingunum endurgjaldslaust. Það er í samræmi við markmið Hlíðardalssetursins ehf. sem var að staðurinn myndi áfram vera í eigu trúfélagsins og nýtast því til boðunar[7] eins og hann gerði þegar þar var rekinn skóli. Hlíðardalssetrið hefur starfað síðan þá fram á þennan dag.
Árið 2004 ætlaði samtakastjórn sér að selja hluta af jörðinni til Orkuveitunnar sem falaðist sterklega eftir henni. Hefði sá skiki verið seldur allur hefðu námurnar verið seldar með. Það var fyrir atbeina Elíasar Theodórssonar og Erics Guðmundssonar í Hlíðardalssetrinu að samtakastjórn undanskildi námurnar úr sölunni.[8]
Á skólanum er einnig búið Breiðabólstaður sem hjónin Pétur Ottósson og Ólöf Haraldsdóttir tóku á leigu 1991. Eftir að skólanum var lokað héldu þau áfram að leigja búið og störfuðu þar út árið 2021. Samvinna var með ágætum milli þeirra búhjóna Ólafar og Péturs og Hlíðardalssetursins ehf.
Með þessu móti bjargaði Hlíðardalssetrið, Pétur og Ólöf Hlíðardalsskóla og Breiðabólstað svo byggingarnar og jörðin er enn í eigu KSDA. Hefði það ekki verið fyrir þennan mannskap hefði KSDA selt eignina.
Námurnar í Litla-Sandfelli og Lambafelli
Jörðin Breiðabólstaður sem keypt var til að reisa Hlíðardalsskóla er talsvert stór. Hún nær t.d. frá Hlíðardalsskóla alveg upp í Þrengslin. Á þessari jörð eru m.a. fellin Lambafell í Þrengslunum og Litla-Sandfell.
Á sjöunda áratug síðustu aldar (um eftir 1960) fór KSDA að nýta sér námuréttindi í þessum tveimur fellum og námuvinnsla hófst. Námuvinnslan var fyrst um sinn í engum líkindum við það mikla magn sem nútímavélar geta tekið.
Eftir að skólahald var lagt niður og ákveðið var að reyna að selja Hlíðardalsskóla og landið hefðu þessar námur líka verið seldar, ef ekki hefði verið fyrir þá forsjálu safnaðarmeðlimi sem höfðu þá framtíðarsýn að telja að það væri KSDA í hag að halda í byggingarnar og jörðina. Og ef það hefði ekki verið fyrir aðkomu fólks í Hlíðardalssetrinu árin 1999 og 2004 þá hefðu námurnar glatast úr eign trúfélagsins því þær átti að selja.
Niðurstaða
KSDA á tvær námur því það vildi svo til að fell hentug til námuvinnslu er að finna á því landi sem trúfélagið keypti fyrir skólastarf árið 1947. KSDA á þessar námur í dag af því að hún rak skóla á sama landi af mikilli fórnfýsi og af því að nokkrir safnaðarmeðlimir börðust fyrir því að jörðin yrði ekki seld þegar skólanum var lokað. Þessi sögulega beintenging má ekki gleymast í umræðunni í dag um nýtingu námanna og tekjur sem af þeim má hafa.
[1] Lög og starfsreglur Aðalsamtakanna (General Conference Working Policy) eru innanhússskjal sem hefur að geyma m.a. aðallög (constitution), samþykktir (bylaws), og hlutverk (mission statement) Aðalsamtakanna. Aðalsamtökin (General Conference) eru efsta stjórnsýslusvið sjöunda dags aðventista og lög og starfsreglur þeirra eru því bindandi og mótandi fyrir Aðventkirkjuna í heild sinni. Í 2. grein aðallaganna og hlutverksskilgreiningunni kemur skýrt fram að „markmið Aðalsamtakanna er að kenna öllum þjóðum hið eilífa fagnaðarerindi“. Aðalsamtök sjöunda dags aðventista, General Conference Working Policy 2010–2011 (Hagerstown, MD: Review and Herald, 2010), bls. 1, 29. Þetta markmið er tekið fram í upphafi samþykkta KSDA en þar stendur í 2. grein: „Markmið Kirkjunnar er að boða Jesú Krist sem persónulegan frelsara og hið eilífa fagnaðarerindi.“ Samþykktir KSDA, 2019, 2. gr.
[2] „Samkvæmt áformi Biblíunnar er verk Guðs borið uppi af tíund og gjöfum fólks hans.“ Safnaðarhandbókin (Reykjavík: Frækornið, 2014), bls. 126. Upphaf kaflans sem heitir „Fjármál“.
[3] Höfundur hefur tekið saman blaðagreinar og fundargerðir um sögu Hlíðardalsskóla í eitt vinnuskjal og styðst þessi samantekt um skólann við hana. Vinnuskjalið kallast „Greinar um Hlíðardalsskóla, 1948–2011“ og er fáanlegt hjá höfundi.
[4] Eric Guðmundsson. „Aukaaðalfundur Samtakanna 1. desember 1996“, Aðventfréttir, 4. tbl. 1996, 3, ttps://timarit.is/page/5830988.
[5] „Hlíðardalsskóli í Ölfusi til sölu“, Morgunblaðið, 21. janúar 1997, C 2; fasteignaauglýsing, Morgunblaðið, 27. maí 1997, C 6; fasteignaauglýsing, Morgunblaðið, 1. júní 1997, 39.
[6] Hlíðardalssetrið dreifði skýrslu um starfsemi sína á fyrrihluta aðalfundar 2022 og þar er hægt að lesa margt um sögu þess, tilgang og áhrif.
[7] Markmiðið kemur ekki fram í samþykktum Hlíðardalssetursins. En það kemur fram í elstu skrifum félagsins, sögu rekstrar þess, og í ótal samræðum höfundar við stofnendur þess í gegnum síðustu rúmu tvo áratugi.
Í bréfi „áhugahópsins um framtíð Hlíðardalsskóla“ sem hann skrifaði í upphafi sögu félagsins sem seinna varð Hlíðardalssetrið kemur skoðun stofnenda Setursins á markmiðum félagsins fram: „Í tengslum við yfirstandandi umræðu um framtíð Hlíðardalsskóla viljum við minna stjórn Samtaka sjöunda dags aðventista á Íslandi á tilvist áhugahóps um Hlíðaralsskóla sem starfar að eftirfarandi markmiðum:
1. Að halda Hlíðardalsskóla í eigu safnaðarins.
2. Að vera söfnuði aðventista í heild til gagns og uppbyggingar.“ Áhugahópurinn um framtíð Hlíðaralsskóla, bréf til samtakastjórnar, 12. september 1999. Stuttu síðar skrifaði hópurinn opið bréf til safnaðarmeðlima þar sem stóð: „Markmið okkar eru eftirfarandi:
1. Að varðveita Hlíðardalsskóla í eigu safnaðarins fyrir komandi kynslóðir. …
3. Að Hlíðardalsskóli verði kirkju og málefni aðventista í heild til uppbyggingar og sóma.
Hlíðardalsskóli var stofnaður á sínum tíma til þess að efla söfnuðinn með því að ala æsku safnaðarins og aðra nemendur skólans upp í kristilegu umhverfi og til að koma á framfæri meginmarkmiðum aðventhreyfingarinnar. Styrkur Hlíðardalsskóla hefur ávallt verið í beinu hlutfalli við trúmennsku hans við þetta frum- og meginmarkmið og er það stefna okkar að framtíðarstarf stofnunarinnar verði í samræmi við þetta markmið. Áhugahópurinn [um framtíð Hlíðardalsskóla], opið bréf til safnaðarmeðlima, 8. október 1999.
Í elstu hugmyndaskjölum Hlíðardalssetursins, þegar stofnendur voru að móta félagið, er að finna svipaðar skoðanir á markmiðum félagsins: „Starfsemi Hlíðardalsskóla skal hafa það markmið
1. Að halda HDS í eigu safnaðarins.
2. Að stuðla að starfsemi HDS verði söfnuði aðventista í heild til gagns og uppbyggingar“.
[Hlíðardalssetrið], Ráðstefnusetrið í Hlíðardal: Hugmyndir varðandi framtíðarrekstur Hlíðardalsskóla, ódagsett, [bls. 1]. Í öðru svipuðu skjali kemur fram áhugi stofnenda Hlíðardalssetursins á beinu boðunarstarfi: „Öll starfsemi Biblíuskólans Hlíðardalsskóla skal hafa það sem meginmarkmið að styðja starf safnaða aðventista á Íslandi með því að leiða einstaklinga til nánari þekkingar á Jesú Kristi, lúta boðum hans og auka hæfni þeirra til þátttöku í uppskerunni miklu við framkvæmd boðunarskipunarinnar í Mt 28.16–19.“ [Hlíðardalssetrið], Biblíuskólinn Hlíðardalsskóli: Hugmyndir varðandi framtíðarrekstur Hlíðaralsskóla, ódagsett, [bls. 1].
[8] „Sala hluta lands Hlíðardalsskólans“, Aðventfréttir, 1. tbl. 2004, 8–9, https://timarit.is/page/5831550; Elías Theodórsson. Ekki hefur verið nægilega skrifað um þetta mál í málgögnum KSDA.