VIÐSKIPTI VIÐ EIRÍK INGVARSSON

Námurekstur Edens er aðeins einn þáttur í margþættri aðkomu Eiríks Ingvarssonar, meðeiganda Edens, að viðskiptum KSDA. (Mun minna hefur farið fyrir Kristni Ólafssyni í viðskiptum KSDA.) Höfundur leggur ekki mat á það hversu mikil eða lítil viðskiptaáhrif eins safnaðarmeðlims ættu að vera í trúfélaginu. En hann telur að það sé mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeim, burtséð frá því hver á í hlut og hvaða mat lagt er á viðskiptin.

 

Ónægt upplýsingaaðgengi um viðskipti KSDA

Til hvers þarf að upplýsa safnaðarmeðlimi um viðskipti Eiríks Ingvarssonar? Það er vegna þess að síðustu áratugi hefur upplýsingaflæði samtakastjórnar til safnaðarmeðlima verið nokkuð stopult:

  1. Aðventfréttir, formlegt málgagn trúfélagsins, var gefið út óreglulega síðustu árgangana og hætti útgáfu með öllu árið 2018

  2. Þrátt fyrir að samtakastjórn sendi vikulega út Kirkjufréttir er þar helst að finna tilkynningar um komandi viðburði en lítið um greinargóða fréttaumfjöllun um atburði eftir að þeir hafa átt sér stað

  3. Skjalasafn samtakanna er í óreiðu og ekkert stafrænt skjalasafn er til (fyrir utan GoogleDrive-möppu með fundargerðum núverandi samtakastjórnar). Mikilvæg gögn eins og fundargerðir samtakastjórnar, fundargögn aðalfunda, opinberar nefndarskýrslur og önnur skjöl hafa ekki verið gerð öllum safnaðarmeðlimum aðgengileg

  4. Samþykktir samtakastjórnar voru ekki birtar stöðugt undanfarna áratugi og nú síðast þegar núverandi samtakastjórn hóf að birta þær hafa þær verið ritskoðaðar

 

Upplýsingaleysið merkir að það er hinum almenna safnaðarmeðlimum nær ómögulegt að henda reiður á heildarmynd framkvæmda trúfélagsins undanfarna áratugi, nema þeir leggi út í persónulega rannsókn. Þetta merkir að fáir safnaðarmeðlimir gera sér sennilega grein fyrir umfangi viðskiptasögu Eiríks Ingvarssonar við KSDA. Hér verður aðeins minnst á nokkur atriði.

 

Viðskiptaleg tengsl Eiríks við KSDA 

Námusamningar (2008, 2009)

Um þá er öll þessi skýrsla svo það er óþarfi að fjalla um þá hér.

 

Raufarhólshellir (2016) og heilsumiðstöð á Breiðabólstað (2016–2018)

Um þessi mál hefur þegar verið rætt í 16. kafla þessarar skýrslu.

 

Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla (2015–2016)

Nefndina skipuðu fyrst Harald R. Óskarsson nefndarformaður, Elías Theodórsson og Harpa Theodórsdóttir. Tilgangur hennar var, skv. samþykkt samtakastjórnar, „að skoða hvernig hægt sé að nýta tekjulindir svæðisins, hver sé framtíðarsýn Kirkjunnar fyrir svæðin og hvort húsnæðin séu nothæf í framtíðarsýninni.“ Nefndin starfaði frá janúar til mars 2015[1] og skilaði skýrslu á aðalfundi í apríl 2015.[2] Skýrslan gagnrýndi starfshætti Edens.[3] Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson andmæltu þessari skýrslu við samtakastjórn.[4]

 

Nefnd um nýtingu Breiðabólstaðar (?–2021)

Nefndin um nýtingu Breiðabólstaðar skilaði skýrslu á öndverðu ári 2021. Skýrslan ítrekar viðskiptahugmyndir Eiríks Ingvarssonar.[5] Á aðalfundi 2022 kynnti Brynjar Ólafsson nefndarmeðlimur skýrsluna og undirstrikaði það mikla starf og þær mörgu hugmyndir sem Eiríkur hefur varðandi nýtingu á jörðinni. Hann hvatti fulltrúa til að láta tækifærin ekki ganga sér úr greipum því sum þeirra væru tímaviðkvæm og það lægi á þeim. 

Fleira hefði verið hægt að taka til hefði höfundur haft tíma til. Í bígerð eru nokkur önnur viðskiptaverkefni sem hægt er að lesa um í birtum fundargerðum núverandi samtakastjórnar. Sum þeirra tengjast að öllum líkindum hugmyndum Eiríks þar sem um sömu möguleika er að ræða og hann hefur sýnt áhuga og hvatt trúfélagið til að gera að veruleika, eins og sölu heita vatnsins á Breiðabólstað o.s.frv.

 

Niðurstaða

Eins og sagt var í upphafi þessa kafla leggur höfundur ekki mat á viðskiptahugmyndir Eiríks Ingvarssonar. Kaflanum er ætlað að hjálpa safnaðarmeðlimum til að átta sig á heildarmynd viðskiptaumsvifa Eiríks í tengslum við trúfélagið. Einnig er reynt að benda á að aðrir möguleikar hafa verið í stöðunni en hugmyndir hans.  

Á endanum er það auðvitað aðalfundar og samtakastjórnar að ákveða út í hvaða viðskiptaverkefni KSDA á að halda og hversu mikið svigrúm hún er tilbúin að veita einstökum safnaðarmeðlimum. 

Hjá því verður hinsvegar ekki komist að sjá í ljósi kaflans hér á undan – um fjölskyldutengsl og hagsmuni – að eftir að tillögunefnd var lögð niður[6] hefur samtakastjórn tekið sér það fyrir hendur að ráðstafa viðskiptum KSDA ein án samráðs við aðalfund. Og hún hefur kosið að veita Eiríki mikið pláss til að setja fram hugmyndir sínar og virðist vera áhugasöm að hrinda mörgum þeirra í framkvæmd.


[1] Um nefndarmenn, tilgang og starfstímabil, sjá Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla, „Tillaga að framtíðarsýn Kirkjunnar varðandi Hlíðardalsskólaeignina“, bls. 1.

[2] „Tillaga frá Steinunni H. Theodórsdóttur

Að skýrsla nefndar um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla verði lögð fyrir fundinn.

Samþykkt.“ Samþykkt nr. 9, fundargerð aðalfundar 2015, án blaðsíðutals, fundargögn fyrir aðalfund 2019.

[3] Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla, „Tillaga að framtíðarsýn Kirkjunnar varðandi Hlíðardalsskólaeignina“, bls. 3, 4–5.

[4] Þetta er staðfest í fundargerðum frá þessum tíma.

[5] Nefnd um nýtingu Breiðabólstaðar, „Skýrsla nefndar um nýtingu Breiðabólstaðar“, 2022, bls. 5–6.

[6] Laganefnd, „Skýrsla laganefndar“, fundargögn aðalfundar 2012, bls. 62.