MEINT SAMNINGSBROT EDENS

Engir samningar hafa verið brotnir, fyrir því liggja lögfræðiálit.

       – Eden, opið bréf, 14. mars 2022, bls. [1].

 

Af lögfræðiráðgjöf sem við fengum frá okkar eigin lögfræðingum á síðasta ári voru samningarnir frá 2008 og 2009 gildir og lagalega bindandi.

       – Samtakastjórn, opið bréf, 16. mars 2022, bls. 3.

 

Svo virðist sem framkvæmd Edens á samningnum um Lambafell hafi brotið í bága við hann á eftirfarandi hátt:

  1. Tilgangur samnings (inngangsklausa, 2. og 8. grein): KSDA og Eden „gera með sér eftirfarandi samning um einkarétt námuréttarhafa til nýtingar jarðefnanámu eiganda í Lambafelli.“ Samningurinn virðist skilgreina nýtingu námunnar sem rekstur hennar (jarðefnataka og sala, sbr. inngangsklausu og 2. grein). Eden virðist hafa látið aðra um að reka námuna og kom í raun ekki að ferlinu.[1] Það virðist erfitt að túlka þetta öðruvísi en framsal. En framsal er bannað skv. 8. grein. GCAS benti á þetta meinta samningsbrot[2]

  2. Greiðslur Edens til KSDA (3. og 7. grein): Eden átti að borga þrjár ákveðnar upphæðir á ári. GCAS bað Eden ekki um gögn þótt GCAS hafi verið falið að rannsaka hvort Eden hafi borgað samkvæmt samningi. Kristján Ari Sigurðsson hefur bent höfundi á að svo virðist sem Eden hafi ekki reiknað upphæðirnar rétt vegna þess að þeir færðu sumt til bókar árið eftir í ársreikningum sínum og það hefur áhrif á hvernig þessar upphæðir eru reiknaðar.[3]

  3. 10% af brúttóandvirði selds jarðefnis af svæðinu (3. grein): Ein upphæðin sem Eden átti að greiða KSDA átti að vera 10% af brúttóandvirði jarðefnis sem var selt af svæðinu. Orðanna hljóðan er sú að KSDA hafi átt að fá 10% af lokaverði jarðefnisins – þ.e. því verði sem greitt var fyrir það þegar það var keypt og flutt af svæðinu. En Eden seldi verktökum jarðefnið fyrir visst rúmmetraverð og verktakarnir tóku efnið, unnu það og það voru þeir sem seldu það af svæðinu – fyrir miklu hærra verð á rúmmetrann en það sem þeir höfðu keypt rúmmetrann á af Eden – sem merkir að KSDA fékk ekki 10% af endanlegu söluverði jarðefnisins

  4. Ekki borgað á réttum tíma (3. grein): Eden virðist (oft) ekki hafa borgað á réttum tíma.[4] Þetta er litið alvarlegum augum í samningnum sjálfum því í 7. grein stendur: „Það telst veruleg vanefnd ef námuréttarhafi greiðir ekki gjaldfallnar kröfur samkvæmt samningi þessum á réttum gjalddaga.“ GCAS benti á þetta meinta brot[5]

  5. Greiðslur ekki byggðar á endurskoðuðum ársreikningum (3. grein): Eden senti KSDA greiðslur og KSDA senti Eden síðan afturvirka reikninga byggða á greiðslunum. Greiðslurnar voru ekki byggðar á endurskoðuðum ársreikningum. GCAS benti á þetta meinta samningsbrot[6]

  6. Framsal námuréttinda (8. grein): Ef samningurinn er lesinn í heild sinni virðist það auðskilið að Eden átti að reka námuna og til þess var samningurinn gerður. En Eden virðist ekki hafa rekið námuna – það virðast hafa verið þriðju aðilar sem sáu um námuvinnsluna frá A til Ö: GT-verktakar (og síðar Lambafell ehf.) tóku efnið úr námunni, unnu það og seldu. Þegar Lambafell ehf. rak námuna var það fullyrt á vefsíðu þeirra. Ennfremur er orðalag í sölusamningi Edens við GT-verktaka[7] þannig orðaður að erfitt er að skilja hann öðruvísi en svo að Eden hafi framselt námuréttindin/námunýtinguna í hendur GT-verktökum


[1] Sjá kaflann „Meint framsal“.

[2] Sjá t.d. aðra efnisgreinina í „Helstu niðurstöðum“ í GCAS-skýrslunni, bls. 5.

[3] Kristján Ari Sigurðsson hefur ekki skrifað um þetta enn sem komið er enda er um nokkuð flókna bókhaldslega útskýringu að ræða.

[4] Þessu til vitnis eru samtakastjórnarmeðlimir 2016–2019, m.a. Kristján Ari Sigurðsson. Höfundur og aðrir safnaðarmeðlimir báðu Judel Ditta fjármálastjóra um hreyfingarlistann sem myndi staðfesta vanskilin fyrir tímabilið 2019–2022 en var synjað um þær upplýsingar án þess að ástæðan væri gefin upp.

[5] GCAS-skýrslan, bls. 4.

[6] GCAS-skýrslan, bls. 4.

[7] Samningur Edens við GT Hreinsun, 2018, er í heimildaskrá þessarar vefsíðu.