DÓMSMÁL OG SÁTTARFERLI
Innan safnaðarins á að ríkja eining sem byggist á kærleika og sannleika. Til þess að slíkt andrúmsloft og menning haldist er nauðsynlegt að leysa deilumál þegar þau koma upp. En hvernig á að leysa þau?
Samtakastjórn hefur stuðst við þrennt í því sáttarferli sem hún bauð upp á í námumálinu:
Það er ekkert að athuga við Eden svo vandamálið er hjá safnaðarmeðlimum
Það á að fylgja sáttarferlinu sem lýst er í 18. kafla Matteusarguðspjalls
Lögsókn á hendur safnaðarmeðlimum – t.d. eigendum Edens – er ókristilegt úrræði samkvæmt orðum Páls postula í sjötta kafla Fyrra Korintubréfs
Viðhorf samtakastjórnar gagnvart Eden
Í fyrsta lagi hefur samtakastjórn – af einhverjum ástæðum – stöðugt varið Eden.[1] Samtakastjórn varði Eden áður en GCAS hóf rannsókn, á meðan GCAS rannsakaði málið og eftir að GCAS lauk rannsókn. Að fullyrða að ekkert sé athugavert við fyrirtæki sem liggur undir rannsókn sem maður bað sjálfur um er í hæsta máta undarlegt – og hvernig veit maður að ekkert er að þegar rannsókninni er ekki einu sinni lokið? Það sama má segja um viðhorf samtakastjórnar eftir að rannsókn lauk. Þótt að það hafi verið niðurstaðan að GCAS rannsakaði ekki málið til hlítar og þótt GCAS hafi farið eins nálægt því að kalla samningsbrot samningsbrot án þess að nota orðið – þá staðhæfði formaður á GCAS-fundinum að samtakastjórn hafi aldrei séð einu sinni fræðilega ástæðu til að lögsækja Eden.[2] Og þrátt fyrir að formaður segði á þeim fundi að ósvaraðar spurningar safnaðarstjórna væru upp á margar blaðsíður[3] þá fullyrða samt stjórnendur – án þess að svara spurningum – að ekkert sé athugavert við starfshætti Edens. Þetta viðhorf er augljóslega óásættanlegt fyrir safnaðarmeðlimi og undirbýr engar sáttir. Samtakastjórn virðist ekki vilja að málið verði rannsakað að neinu ráði á Íslandi og lýsti því yfir í skýrslu sinni í fundargögnum aðalfundar september 2022 að hún teldi frekari umræðu um námumálið skaðlega.
Sáttarferli samtakastjórnar
Í öðru lagi hóf samtakastjórn þriggja stiga sáttarferli sem hún sagði að byggðist á Matteusarguðspjalli 18. kafla:
Samtakastjórn bauð helstu fyrirspyrjendum námumálsins á fund 2. mars 2022.[4] Samtakastjórn ætlaði að halda einn fund með hverjum aðila fyrir sig. Það var ekki útskýrt hvers vegna þeir mættu ekki allir mæta saman á einn fund. Þeim leist flestum ekki á þetta óútskýrða fyrirkomulag. Sumir afþökkuðu fund, aðrir svöruðu seint vegna veikinda og sumir spurðu hvort þeir mættu ekki koma saman sem heild á fundinn (þeirri beiðni var aldrei svarað). Og tveir-þrír funduðu að lokum með stjórnendum[5]
Næst bauð samtakastjórn safnaðarstjórnum (en ekki hópnum sem var boðaður á fyrsta stigi sáttarferlisins) á fund 24. maí 2022 þar sem GCAS-skýrslan var kynnt. Innsendar spurningar safnaðarstjórna voru ekki teknar fyrir á fundinum
Samtakastjórn bauð safnaðarstjórnum að greiða atkvæði um hvort þær vildu annan og opnari upplýsingafund um námumálið. Meirihluti safnaðarstjórna greiddi atkvæði fylgjandi. Samtakastjórn ákvað að halda ekki fundinn og lagði fram tillögu í aðalfundargögnum 2022 að safnaðarmeðlimir ákvæðu að hætta allri umræðu um námumálið því að svara spurningum safnaðarstjórna og -meðlima myndi aðeins leiða til ills
Sáttarferli samtakastjórnar getur varla talist vænlegt til sátta ef hún vill ekki svara þeim spurningum sem safnaðarmeðlimir og safnaðarstjórnir hafa varðandi námumálið. Ennfremur endurspeglar ferlið ekki sáttarferlið í Matteusarguðspjalli 18. kafla. Í þeim kafla er sáttarferli lýst þegar einn safnaðarmeðlimur gerir á hlut annars. Sá sem telur að á sér hafi verið brotið á að tala einslega við þann sem gerði á hluta hans, síðan með vitnum og svo frammi fyrir öllum söfnuðinum:
Ef bróðir þinn [eða systir] syndgar skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast skaltu taka með þér einn eða tvo að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna‘. Ef hann skeytir þeim ekki þá seg það söfnuðinum. Matt 18.15–17.
Þegar samtakastjórn tengdi sáttarferlið sitt við þennan texta, átti hún við að þeir sem voru boðaðir á fund hefðu gert á hlut KSDA? Og af hverju voru fundarboðaðir ekki hluti af næstu skrefum? Þetta ruglingslega og óskýra ferli endurspeglar því miður vinnubrögð núverandi samtakastjórnar (2019–2023) en ekki merkingu og tilætlun textans.
Fyrra Korintubréf 6
Í þriðja lagi hefur samtakastjórn ítrekað lýst því yfir að bæði Biblían og Ellen White kenni að það sé rangt og ókristilegt að safnaðarmeðlimur lögsæki annan safnaðarmeðlim. Í þessu samhengi hefur samtakastjórn vitnað hvað helst í sjötta kafla Fyrra Korintubréfs.[6] Í þeim texta segir Páll nokkuð skýrlega að trúsystkini eigi ekki að fara með ágreiningsefni sín fyrir veraldlega dómstóla. Postulinn segir að það sé hinum trúuðu smán að geta ekki gert upp deilur sín á milli og að leita til vantrúaðra með þær:
Hvernig getur nokkur ykkar, sem á sökótt við annan, fengið af sér að fara með málið fyrir dóm ranglátra en ekki heilagra? Eða vitið þið ekki að heilagir eiga að dæma heiminn? Og ef þið eigið að dæma heiminn eruð þið þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum? Vitið þið eigi að við eigum að dæma engla? Hvað þá heldur hversdagsleg efni! Þegar þið eigið að dæma um hversdagsleg efni, þá kveðjið þið að dómurum menn sem að engu eru hafðir í söfnuðinum. Ég segi það ykkur til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal ykkar sem skorið geti úr málum milli safnaðarmanna? Í stað þess eigið þið í málum innbyrðis og það fyrir vantrúuðum. Það út af fyrir sig að þið standið í málaferlum hvert við annað er í sjálfu sér hnekkir fyrir ykkur. Hví líðið þið ekki heldur órétt? Hví látið þið ekki heldur hafa af ykkur? Þess í stað gerið þið öðrum rangt til og hafið af þeim og það trúsystkinum. 1Kor 6.1–8.
En hvernig ber að fara eftir þessum texta? Samtakastjórn hefur ekki reynt að útskýra hvernig maður eigi að fara eftir textanum í heild sinni. Til að skilja þessi orð Páls þarf að skilja sögu (hvaða hlutverki gegndu dómstólar á tíma Páls?), lögfræði og guðfræði. Hér eru nokkur atriði sem þurfa að vera á hreinu svo hægt sé að fara eftir textanum:
Páll meinar trúuðum að fara með ágreiningsefni sín til dómstóla. En hvert var verksvið dómstóla á fyrstu öld? Ef textinn á við enn í dag er nauðsynlegt að vita þetta, því bann Páls merkir að trúaðir í dag eigi ekki að leita til þeirra stofnana sem sinna því hlutverki sem dómstólar til forna gegndu. Hér geta mál auðveldlega orðið flókin. Var t.d. lögregla til á tímum Páls? Eða gegndu dómstólar þá hlutverki lögreglu? Ef svo var, eiga þá trúaðir í dag ekki að leita til lögreglu með lögbrot sem urðu þeirra á milli? Með þessu dæmi er ekki verið að bendla neinn í dag við glæpi – hér er aðeins verið að benda á að það er mögulega mun flóknara að fylgja þessum texta en samtakastjórn vill vera láta
Ef aðventisti skaðar annan aðventista alvarlega án þess að það sé glæpur – sölsar undir sig mikið af fjármunum hans á óréttlátan en löglegan hátt – og sá seki neitar að endurbæta skaðann – á þá sá sem varð fyrir skaðanum að gera ekkert? Samtakastjórn segir já[7]
Það er þekkt í sögunni (og Biblíunni) að það reynist fólki oft auðvelt að nota trúarbrögð sem sauðagæru til að fela ranglæti. Ef aðventisti gerir á hlut annars aðventista en hlustar á engan í kirkjunni og neitar sáttarviðræðum sem fara eftir 18. kafla Matteusarguðspjalls – hvernig á þá að leysa málið?
Staðreyndin er nefnilega sú að þrátt fyrir yfirlýsingar KSDA hefur Aðventkirkjan stundum þurft að standa í málaferlum – t.d. við eigin safnaðarmeðlimi, t.d. þegar gjaldkerar hafa gerst sekir um stuld. Höfundur hefur ekki haft tíma til að safna gögnum sem dæmi en hver sem er getur leitað að þeim á netinu eða grennslast fyrir um það innan Aðventkirkjunnar.
Viðhorf samtakastjórnar kemur í veg fyrir sátt í söfnuðinum. Hún hefur ekki viljað svara spurningum safnaðarmeðlima eða rannsaka málið almennilega. Það er erfitt að sjá hvernig hún hefur farið eftir sáttarferlinu í Matteusarguðspjalli þar sem aðilar hvers stigs hafa breyst og þriðja skrefið hefur ekki verið stigið. Ennfremur útilokar samtakastjórn lögfræðilegar aðgerðir utan safnaðarins. M.ö.o., samtakastjórn telur að það sé ekkert mál til staðar – eina vandamálið sem hún sér eru fólkið sem hefur sett fram spurningar og ábendingar.
Ef það verður hinsvegar farið réttilega eftir þessum þremur þáttum þá næst sátt í söfnuðinum. Hér verður þeim gert stuttlega skil.
Rannsókn
Í fyrsta lagi þurfa safnaðarmeðlimir að fá svör við spurningum sínum og það þarf að rannsaka námumálið almennilega með aðkomu íslenskra lögfræðinga. Ef niðurstaða slíkrar upplýsingagjafar og rannsóknar er sú að Eden hefur brotið samningana og að nýi samningurinn hafi brotið í bága við samþykktir KSDA – þá er það Eden (en ekki gagnrýnir safnaðarmeðlimir) sem hefur gert á hluta trúfélagsins og þá þarf að taka á því máli. Það ætti að vera gert m.a. með því sáttarferli fyrir deilumál sem Matteusarguðspjall 18. kafli útlistar.
Matteusarguðspjall 18. kafli
Matteusarguðspjall 18.15–17 útlistar Kristur þrjú stig sáttaferlis innan safnaðarins og hverjar afleiðingarnar eiga að verða ef sættir nást ekki með ferlinu:
Ef bróðir þinn [eða systir] syndgar skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn.
En láti hann sér ekki segjast skaltu taka með þér einn eða tvo að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna‘.
Ef hann skeytir þeim ekki þá seg það söfnuðinum.
Skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður [þ.e., ekki lengur meðlimur, en þó ekki hunsaður – Jesús sem sagði þessi orð gefur sjálfur persónuleg dæmi um hvernig umgangast beri tollheimtumenn – sem menn sem hann vildi gera að lærisveinum]
Þetta ferli er ætlað til sátta: Á hverju stigi er talað við þann sem hefur gert af sér í þeirri von að hann sjái að sér og hægt sé að ná sáttum. En ferlið er einnig ætlað til þess að gera málið upp. Og ef aðilar máls vilja ekki undirgangast ferlið eða trúfélagið vill ekki nýta sér ferlið – hvernig eiga mál þá að vera gerð upp? Það telst varla niðurstaða í máli að „horfa fram á veginn“ þegar mál eru enn óleyst.
Lögsóknir og Fyrra Korintubréf 6. kafli
Það er vert að undirstrika það að ef vel er að gáð er Páll ekki á móti því að það sé dæmt í málum milli trúaðra – honum er aðeins ekki sama hver það er sem dæmir. Samkvæmt Páli á söfnuðurinn að geta gert upp sín eigin deilumál án þess að leita til dómstóla.
Og hvernig á söfnuðurinn að dæma í deilumálum sínum? Það er útlistað í Matteusarguðspjalli 18. kafla.
Ef aðilar máls vilja ekki undirgangast sáttarferlið er vafasamt hvort bann Páls við lögfræðilegri lausn eigi við. Að hafna sáttarferli og halda í bann Páls getur því miður einfaldlega merkt það að fólk komist upp með að gera á hlut hvert annars í söfnuðinum. Það er varla vilji trúfélagsins. Og það leiðir varla til einingar og kærleika að gera ekki upp mál.
Lögsóknir og Safnaðarhandbókin
Um lögsóknir er fjallað í Safnaðarhandbókinni í kaflanum um safnaðaraga, á bls. 48–50. Þótt almennt sé talað þar á móti lögsóknum á milli trúsystkina og gegn trúfélaginu, er engu að síður viðurkennt að stundum séu lögsóknir nauðsynlegar eða leyfilegar, gegn trúsystkini:
Þó að vísu megi finna þær aðstæður í nútímanum að leita þurfi til dómstóla til að fá skorið úr málum manna eiga kristnir menn fremur að kjósa að leita lausnar sinna mála innan valdsviðs og lögsögu safnaðar síns. Þegar þeir leitast eftir að fá úrskurð í sínum málum ættu þeir að miða að því að leita einungis til borgaralegra dómstóla í þeim málum sem greinilega falla undir lögsögu þeirra en ekki undir valdsvið safnaðar þeirra eða í þeim málum sem söfnuðurinn telur sig ekki ráða yfir viðhlítandi ferli sem dygði til þess að afla viðunandi lausnar. . . . Sem dæmi um slíkan málarekstur mætti nefna sáttargerð vegna tryggingarkröfu, úrskurð í máli er varðar eignarrétt á fasteign, til hvaða hluta fasteignarinnar eignarrétturinn nær og úrskurð í máli sem varðar skiptingu á búi og veitingu yfirráðaréttar yfir ólögráða börnum.[8]
Og einnig gegn trúfélaginu:
Safnaðarsystkini eiga ekki að fara í mál við neina félagsheild innan safnaðarins nema þegar söfnuðurinn hefur ekki séð fyrir leið til að útkljá ágreining sem kann að rísa innan hans eða þar sem eðli málsins er slíkt að það er greinilega ekki á valdssviði safnaðarins að útkljá slíka deilu.[9]
[1] „Svo virðist sem stjórn KSDA hafi alls ekki gætt hagsmuna KSDA nægilega, a.m.k. ekki í tveimur fyrstu samningunum, og ekki gengið eftir framkvæmd og efndum þeirra, en upplýsingar liggja ekki fyrir um raunveruleg efnisatriði þriðja samningsins . . . Annað tveggja hefur stjórn KSDA verið blekkt af viðsemjendum sínum, eða vísvitandi gengið annarra erinda en að gæta hagsmuna KSDA við framkvæmd og eftirfylgni samninganna.“ Kristinn Hallgrímsson, lögfræðingur hjá ARTA-lögmönnum, lögfræðiálit, tilvitnun í Kristján Ari Sigurðsson, „Hverjum ber að gæta hagsmuna Kirkju sjöunda dags aðventista?“, viðauki 3.
[2] „We must make the point that the Executive Committee at no time has seen even a theoretical reason to sue Eden Mining.“ Gavin Anthony, inngangsræða, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundar.
[3] „We [samtakastjórn] have literally received pages and pages and pages of questions from people.“ Gavin Anthony formaður, inngangserindi, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundar.
[4] Höfundur var einn þeirra sem var boðaður á fund samtakastjórnar. Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 2. mars 2022. Höfundur var í síma- og tölvupóstasamskiptum við hina fundarboðuðu og byggist frásagan á þeim samskiptum.
[5] Eric Guðmundsson fór á fund samtakastjórnar 8. mars 2022. Samtakastjórn, bókun 2022/24, 8. mars 2022. Elísa Elíasdóttir fór einnig á fund stjórnenda.
[6] „Jafnframt höfum við miklar áhyggjur af því að meðlimir hafi farið fram á að Eden Mining verði kært fyrir það sem þeir telja vera tapaðar tekjur fyrir Kirkjuna. Páll postuli gefur mjög skýr ráð um málaferli milli trúaðra. Hann segir að við ættum ekki að gera slíkt, og við ættum frekar að láta svindla á okkur en að fara með málin fyrir veraldlega dómstóla sem veldur vanvirðu á Guði og kirkju hans:
Hvernig getur nokkur ykkar, sem á sökótt við annan, fengið af sér að fara með málið fyrir dóm ranglátra en ekki heilagra? Eða vitið þið ekki að heilagir eiga að dæma heiminn? Og ef þið eigið að dæma heiminn eruð þið þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum? Vitið þið eigi að við eigum að dæma engla? Hvað þá heldur hversdagsleg efni! Þegar þið eigið að dæma um hversdagsleg efni, þá kveðjið þið að dómurum menn sem að engu eru hafðir í söfnuðinum (Fyrra Korintubréf 6.6).
Ég segi það ykkur til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal ykkar sem skorið geti úr málum milli safnaðarmanna? Í stað þess eigið þið í málum innbyrðis og það fyrir vantrúuðum. . . . Að lesa fjölmargar ásakanir um að einstakir meðlimir Kirkjunnar eða stjórn Kirkjunnar séu spillt, hóta öðrum meðlimum því að fara með þá fyrir dómstóla, hóta að finna lagalegar leiðir til að eyðileggja nýja samninginn, hóta að fara með þessi mál í fjölmiðla og deila þessum ásökunum með utanaðkomandi aðilum — allt þetta veldur miklum persónulegum sársauka fyrir trúsystkini í Kristi — dýrmætu fólki sem Kristur hefur dáið fyrir. Slík hegðun veldur vanvirðingu fyrir Guð og kirkju hans.“ Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 3–4.
„This is one reason why, previously, we publicly stated Paul’s advice for church members not talking about suing each other [1Kor 6.1–4]. This has regularly been raised both in writing and in conversation: that we should sue Eden Mining for what . . . people think they believe is lost money. We cannot say anything more than what the Bible has already said on this subject but if anyone is in doubt we can provide you with Ellen White’s very tough comments on this particular subject. She says that going to outside lawyers dishonors God, reveals our own lack of faith, and is an example of biting and devouring each other as is described in Galatians 5:15. She further goes on to say that by rejecting God’s advice not to sue each other we crucify Jesus again and demonstrate that we are not converted. Like Paul says in Corinthians: If we are defrauded, then we should suffer loss and allow God to judge the fraud“. Gavin Anthony formaður, inngangsræða, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundar.
„Biblían [er] mjög skýr um að draga ekki trúsystkini þína fyrir dómstóla vegna þess að það sé valdi vanvirðingu á Guði að setja fram ágreining milli fólks Guðs á almannafæri (1. Korintubréf 6.1-7).“ „Að setja ágreining Kirkjunnar fram á opinberum vettvangi, felur hins vegar í sér þann möguleika að koma sömu vanvirðingu á Guð – varðandi það að setja fram ágreining milli kristinna manna opinberlega – sem Páll varar kirkjuna við í 1. Korintubréfi 6.1-7.“ Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, fundargögn fyrir aðalfund 2022, bls. 83, 84.
[7] „Like Paul says in Corinthians: If we are defrauded, then we should suffer loss and allow God to judge the fraud.“ Gavin Anthony formaður, inngangsræða, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundar.
[8] General Conference of the Seventh-day Adventists, Safnaðarhandbókin (Reykjavík: Frækornið, 2014), bls. 48.
[9] Safnaðarhandbókin, bls. 49.