GRÆNÞVOTTUR?

Samtakastjórn, Eden Mining, og Heidelberg Materials hafa lýst því yfir að fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg Materials í Þorlákshöfn snúist um framleiðslu á íblöndunarefni í steypu sem sé vistvænna en nú tíðkast.  

Yfirlýsingarnar hafa verið stórorðar. Samtakastjórn lýsti því t.d. yfir í Hafnarfréttum 27. janúar 2023 að kolefnissparnaðurinn við þessa vistvænni steypu samsvaraði útblæstri íslenska bílaflotans – sennilega á einu ári? (yfirlýsingin útskýrir ekki meir) og „þar með góð áhrif á heimsbyggðina alla“. 

Höfundur vildi vita á hverju þessir útreikningar væru byggðir. Hann senti því fyrirspurn til samtakastjórnar, eigenda Eden Mining og Þorsteins Víglundssonar (talsmanns Heidelberg Materials á Íslandi) og spurði á hvaða gögnum þessir útreikningar væru byggðir og hvar væri hægt að nálgast þau.[1] Enginn þessara aðila hefur svarað fyrirspurninni. 

Sólveig Hjördís Jónsdóttir spurðist fyrir um réttmæti þessara fullyrðinga KSDA, Eden Mining og Heidelberg Materials hjá Landvernd. Guðrún Schmidt svaraði. Jón Hjörleifur Stefánsson spurði Jean-Rémi Chareyre sem heldur úti vefnum Kolefni og Menn. Þessir aðilar sögðu að þessar fullyrðingar gengju seint upp, t.d. í ljósi svokallaðrar þversagnar Jevons sem gengur út á það að því náttúruvænni nýtingarleiðir á náttúruauðlindum eru notaðar, þeim mun meiri verður neyslan á náttúruauðlindunum þar sem hagkerfi ganga út á hagvöxt en ekki sparnað. Það væri líka spurning hvers vegna verið væri að senda jarðefnin úr landi í stað þess að nota þau hér í landi.[2]


[1] Jón Hjörleifur Stefánsson, tölvupóstur til samtakastjórnar og Eden Mining, 7. apríl 2023; Jón Hjörleifur Stefánsson, tölvupóstur til Þorsteins Víglundssonar, 13. apríl 2023.

[2] Guðrún Schmidt, tölvupóstur til Sólveigar Hjördísar Jónsdóttur, 1. febrúar 2023; Jean-Rémi Chareyre, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 11. apríl 2023.