EÐLI NÁMUVINNSLU

Þegar rætt er um námumálið og þegar lagt er mat á ýmis svör samtakastjórnar er nauðsynlegt að skilja eðli námuvinnslu á Íslandi. Hér verður minnst á þrjá punkta sem er mjög mikilvægt að hafa í huga þegar þetta mál er rætt og skoðað. 

Í fyrsta lagi er námuvinnsla rekstur í örri þróun. Námuvinnsla fyrir tuttugu árum er ólík þeirri sem viðgengst í dag og námuvinnsla á líka eftir að breytast á næstu tuttugu árum. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu. Tækninni hefur fleygt fram svo það er ekki hægt að bera vinnuvélar frá 1960 og afköst þeirra saman við nútímavélar og þeirra afköst. Það er síðan líklegt að tæknin haldi áfram að þróast. Eftirspurn eftir jarðefni hefur líka breyst í gegnum tíðina en hún hefur haldið áfram að aukast undanfarna áratugi á Íslandi. Námum nálægt höfuðborgarsvæðinu hefur líka fækkað ‏‏því umhverfisreglur eru strangari núna en þær voru fyrir langalöngu og þetta merkir að það eru færri námur, þær eru orðnar sjaldgæfari og því dýrmætari.  

Samtakastjórn hefur staðhæft að ekki hafi verið nauðsynlegt að leggja námusamningana við Eden (2008, 2009, 2022) undir ákvörðun aðalfundar af því að það hafi ekki verið venjan með fyrri námusamninga trúfélagsins.[1] En þessi fyrsti punktur um eðli námuvinnslu sýnir að samtakastjórn er að bera saman epli og appelsínur: fyrri samninga um litla efnistöku og nýlega samninga um gríðarlega mikla efnistöku. 

Í öðru lagi er námurekstur vanalega boðinn út. Það tryggir landeiganda að hann fái sem flest og sem best tilboð í vinnslu námunnar sinnar. 

Í þriðja lagi er skynsamlegur samningstími tiltölulega skammur, e.t.v. um tíu ár.[2] Þar sem verð á jarðefni getur breyst mjög mikið með áframhaldandi þróun námuiðnaðarins er það landeiganda í hag að semja ekki af sér möguleikann að geta hækkað leiguverðið eftir tiltölulega stuttan tíma. Að semja um marga áratugi fram í tímann er ekki landeiganda í hag. Aftur á móti er það nauðsynlegt fyrir viðsemjanda að semja um nægilega langan tíma svo að hann sé byrjaður að hagnast á því fé sem hann lagði upphaflega í reksturinn (möguleg kaup eða endurnýjun vinnuvéla, kostnaður við upphaf framkvæmda og að koma hjólunum af stað o.s.frv.). Áratugur ætti að vera nægur tími til þess ef um einfalda jarðefnatöku og -sölu er að ræða. 

Þegar samtakastjórn gekk að samningsborðinu við Eden 2008 og 2009 var námureksturinn ekki boðinn út og það er ólíklegt að samtakastjórn hafi gert sjálfstæða rannsókn á kjörum og kostum námureksturs á Íslandi. Hvers vegna var leigan ekki boðin út svo KSDA bærust sem flest tilboð? Það eru til fyrirtæki sem vilja taka að sér rekstur Lambafellsnámunnar sem myndu greiða trúfélaginu um og yfir 100 milljónir á ári.[3] Af hverju var ekki rætt við þau? Af hverju fór ekki fram útboð? Þar sem Eden hafði brotið gegn gamla samningnum var samtakastjórn frjálst að rifta samningi við Eden og gera samning við annað fyrirtæki. 

Samningurinn við Eden um Litla-Sandfell (árið 2008) gilti til 20 ára og mögulega til 30 ára eða til 2028 eða 2038. Samningurinn við Eden um Lambafell (árið 2009) gilti til 25 ára eða til 2034. Þetta eru nokkuð löng samningatímabil. Nýi samningurinn við Eden (árið 2022) gildir til 15 ára og að uppfylltum vissum skilyrðum til 30 ára, þ.e. til 2037 eða 2051. Enn á ný er samningatímabilið langt. Hvers vegna vildi samtakastjórn semja til svona langs tíma? Hvernig var það trúfélaginu í hag?


[1] „Við viljum líka benda á að samþykkt slíks samnings þarf ekki samkvæmt lögum Kirkjunnar að vera borin fyrir aðalfund. Einungis óvenjuleg kaup eða sala á eignum þarf að greiða atkvæði um á aðalfundi.

Frá því að námuvinnslan hófst fyrir mörgum áratugum (ca.1965) er okkur ekki kunnugt um að nokkurn tímann hafi verið kosið um námusamninga á aðalfundi.“ Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 2.

[2] Þennan punkt hefur höfundur eftir námurekstraraðilum öðrum en Eden.

[3] Þessar upplýsingar hafa t.d. höfundur og Kristján Ari Sigurðsson. En þetta eru auðfengnar upplýsingar sem samtakastjórn ætti að vera kunnugt um þar sem mikil eftirspurn er eftir þeim fáu jarðefnanámum sem eru í boði á íslenskum markaði.