GCAS-RANNSÓKNIN

Við [samtakastjórn] erum með úttekt sem GCAS gerir til að sannreyna að fyrri námusamningar hafi verið framkvæmdir á réttan hátt og réttar tekjur hafi borist Kirkjunni.

       – Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 1.

 

Frá því að námuvinnslan hófst fyrir alvöru 2017 hafa sífellt fleiri safnaðarmeðlimir velt því fyrir sér hvernig málum væri háttað. Þessar vangaveltur urðu með árunum að fyrirspurnum og síðan gagnrýni, einkum og sér í lagi þar sem samtakastjórn svaraði ekki þessum spurningum. Þess í stað ákvað hún að biðja General Conference Auditing Service (GCAS) eða Endurskoðunarþjónustu Aðalsamtakanna um að rannsaka vissa punkta í starfsháttum Edens. Samtakastjórn gerði eftirfarandi ljóst (bæði í einkasamtölum og -tölvupóstum, fundum við safnaðarstjórn Hafnarfjarðar og í opnu bréfi sínu til safnaðarstjórna 16. mars 2022): Samtakastjórn myndi ekki gera neitt í námumálinu eða tjá sig um það sjálf fyrr en rannsókn GCAS lyki. Niðurstöður GCAS myndi svara spurningum um námureksturinn og vera þannig lokaúrskurður.[1] 

Samtakastjórn áleit þessa rannsókn svo mikilvæga að hún taldi ekki ráðlegt að halda aðalfund án þess að hún lægi fyrir. Aðalfundur átti að vera í maí 2022 en var frestað fram á haust svo það væri öruggt að rannsóknarskýrslan hefði borist þegar hann væri haldinn.

Það tók hinsvegar lungann úr árinu að biðja GCAS um að rannsaka námumálið. Það var ákveðið í maí 2021 að biðja GCAS um að rannsaka málið[2] en svo var hætt við þessa ákvörðun[3] og hún síðan endurnýjuð í breyttu formi í október 2021. Upphaflega átti GCAS að svara fimm rannsóknarspurningum (en spurningar 3–5 voru svo dregnar til baka): [4]

1. Hafa tekjur frá Eden verið í samræmi við samninginn?

2. Ef ekki, hvað ætti að vera gert varðandi þær tekjur sem virðast vanta?

3. Eru núverandi skilmálar í samningnum ásættanlegir og geta þeir talist góð ráðsmennska fyrir kirkjuna?

4. Ef ekki, hvaða ráðleggingar væru gerðar varðandi breytingar á samningnum?

5. Eru haldbær rök fyrir því að endurskrifa/rifta samningnum við Eden?[5] 

Þessi rannsókn hefur óhjákvæmilega lögfræðilega hlið: Hvað segir samningurinn um greiðslur og útreikninga á þeim og voru þessi samningsákvæði haldin eður ei?  

GCAS-skýrslan barst í maí og samtakastjórn boðaði safnaðarstjórnir til fundar 24. maí 2022.[6] Safnaðarstjórnir voru beðnar um að senda inn spurningar um námumálið fyrir fundinn.[7] Á fundinum las Michael Merrifield, fulltrúi GCAS-teymisins, skýrsluna og svaraði spurningum um hana.[8] Hann tók það hinsvegar skýrt fram að GCAS hefði aðeins rannsakað fjármálahlið málsins og hefði ekki tekið neina lögfræðilega afstöðu til þess hvort Eden hefði brotið gegn samningnum eða ekki.[9] Spurningar safnaðarstjórna voru ekki teknar fyrir á fundinum og þó meirihluti safnaðarstjórnanna greiddi atkvæði með því að samtakastjórn myndi halda annan fund fyrir slíkar spurningar ákvað samtakastjórn á endanum að halda ekki slíkan fund.[10] 

Veturinn 2021–2022 neitaði samtakastjórn að tjá sig um námuspurningar og vísaði til GCAS.[11] En á GCAS-fundinum kom í ljós að GCAS neitar að svara lögfræðilegum spurningum og vísaði þeim til samtakastjórnar. Aðilarnir vísuðu sem sagt hvor á annan. GCAS-rannsóknin svaraði því ekki spurningum safnaðarmeðlima sem hafa viljað fá alhliða upplýsingar um námumálið. Og enn sem komið er hefur samtakastjórn ekki svarað spurningum þeirra heldur. Hvers vegna ekki? Samkvæmt „Skýrslu um námuna“ sem samtakastjórn sendi í fundargögnum til fulltrúa fyrir aðalfund 22.–25. september 2022 er ástæðan „sú að hafa fund einungis til þess að svara spurningum myndi líklegast leiða til meiri frekar en minni sársauka innan Kirkjunnar og myndi samt skilja Kirkjuna eftir án þess að lausn væri fundin“ og að umræða og svör við spurningum muni valda „skaða fyrir kirkjufjölskylduna okkar“ og „opinberri vanvirðingu við Guð.“[12] 

Geta safnaðarmeðlimir unað við slíkar röksemdafærslur?


[1] Hér má t.d. minnast á orð Þóru Sigríðar Jónsdóttur aðalritara í lok GCAS-fundarins 24. maí eftir að ljóst var að meirihluti safnaðarstjórna vildi annan upplýsingafund um námumálið: „Við [í samtakastjórn] vorum að vonast til að þær spurningar sem voru sendar inn . . . við vorum að vonast til þess að fundurinn í kvöld myndi svara sem flestum af þeim spurningum sem að þið í öllum [safnaðar]stjórnunum hafið haft.“ Þóra Sigríður Jónsdóttir, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022.

[2] Samþykktin um GCAS-rannsóknina er ekki hægt að finna í birtum fundargerðum; hún er sennilega ein af „trúnaðarmálunum“ sem eru merkt sem slík í fundargerðunum. Það er líklegt að samþykktin sé 2021/47, samþykktin áður en rannsókn Kristjáns Ara var hafnað (samþykkt 2021/48) þar sem rannsókn hans var hafnað á þeim forsendum að GCAS-rannsóknin kæmi í staðinn. Samtöl skýrsluhöfundar við Kristján Ara Sigurðsson.

[3] Þessi ákvörðun kemur ekki fram í birtum fundargerðum samtakastjórnar 2021. En þessu til staðfestingar eru orð formanns: „The Executive committee has requested the TED to facilitate an external audit of Eden mining. This was originally to be performed by GCAS but the cost was deemed too high and alternative arrangements are being sought with another GC body. We had hoped this audit would have been finished early Summer, but due to the need for alternative arrangements, we are unsure when this will take place, although we have requested this to be completed as quickly as possible. Until this audit is completed, the Conference will not be commenting further on matters relating to Eden Mining.“ Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 20. ágúst 2021.

[4] „ÞAR SEM Kirkjan hefur undanfarið unnið að því að gera nýjan samning við Eden Mining sem kallar á aðkomu lögfræðideildar Aðalsamtakanna sem og Evrópudeildarinnar og lögfræðings á Íslandi, 

SAMÞYKKT

Að fjarlægja atriði 1,4 og 5 úr tillögubréfi frá GCAS og fara fram á lækkun kostnaðar í samræmi. Eftirfarandi tvö atriði verði lögð fram til rannsóknar GCAS

1. Að ákvarða hvort tekjur frá Eden mining hafa verið í samræmi við samninginn.

2. Greina þá þætti sem þarf að hafa í huga varðandi tekjur sem hefðu ekki borist samkvæmt skilmálum samningsins.“ Samtakastjórn, samþykkt 2021/92, 5. október 2021.

[5] Upprunalegu spurningunum fimm var lekið til skýrsluhöfundar.

[6] Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til safnaðarleiðtoga, 30. mars 2022.

[7] „If your board has specific questions, we would like ask your board send us your questions ahead of time so we can prepare as best we can.“ Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til safnaðarleiðtoga, 30. mars 2022.

[8] Skýrsluhöfundur er vitni að fundinum en hann fylgdist með Zoom-streyminu sem var opið öllum safnaðarmeðlimum.

[9] „I am not an attorney, I‘m not trying to interpret the contract . . . There are findings associated with [our analysis] and I am not going to call them non-compliances, I am not an attorney, I am not pretending to be one, but our findings indicated that there were some issues with the application of the terms of the articles of the contract. But the key finding with that is the fact right here [GCAS-skýrslan, bls. 5] that neither party ‘exercised their rights to rescission’ and [did not consider] any of these findings that we had identified as major defaults in the contract. So both parties [Eden og samtakastjórn] continued. So it doesn’t really matter to us [GCAS og Kristján Ari viðmælandi hans] as non-principals to this contract whether we think they’re [Eden] in violation of the contract or not. The fact is that they [Eden og samtakastjórn] continued with prevailing terms of the contract.” Michael Merrifield, fulltrúi GCAS-rannsóknarnefndarinnar, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, áhersla mælanda. Sjá einnig GCAS-skýrslu, apríl 2022, bls. 3.

[10] 30. maí ákvað samtakastjórn að halda upplýsingafund 23. júní og ákvað dagskrána. Einnig var ákveðið að „birta allar spurningar / bréf sem okkur hafa borist ásamt skriflegum svörum fyrir fundinn.“ Samtakastjórn, samykkt 2022/56, 30. maí 2022. Þessi fundur var aldrei auglýstur. Á næsta stjórnarfundi, 21. júní, tveim dögum fyrir fyrirhugaðan upplýsingafund, ákvað samtakastjórn að skoða fundarmöguleikann nánar þar sem hún beið „eftir lagalegri útskýringu varðandi námumálið“ frá lögfræðingi sínum. Samtakastjórn, samþykkt 2022/57, 21. júní 2022. Á næsta stjórnarfundi, 4. júlí, ræddi samtakastjórn „hvernig sé best að halda áfram með ástandið sem hefur skapast í kring um rekstur námunnar“ en tók enga ákvörðun. Bókun samþykktarstjórnar 2022/58, 4. júlí 2022. Ekki var rætt frekar um námumálið á næstu stjórnarfundum (nema trúnaðarmál 2022/66, 4. ágúst 2022 hafi verið um námumálið). En það er augljóst að samtakastjórn ákvað að halda ekki fundinn: Samtakastjórn skrifaði skýrslu um námumálið þar sem kemur fram að hún hætti við að halda upplýsingafundinn. Sjá samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“.

[11] Sjá t.d. tölvupóst Gavins Anthony formanns til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 20. ágúst 2021.

[12] Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, bls. 81, 84.