VINNA Á HVÍLDARDÖGUM

En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né . . . þræll þinn né ambátt [önnur þýðing: þjónn þinn né þjónustukona] . . .  eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna.

       – 2Mós 20.10.

 

Hvíldardagurinn er grundvallaratriði í trúarsetningum Aðventkirkjunnar.[1] Mikilvægi hans í Biblíunni endurspeglast í því að helgihald hans er eitt af boðorðunum tíu (2Mós 20.8–11) og staða hans í Aðventkirkjunni í formlegu nafni trúfélagsins: Sjöunda dags aðventistar. Umræða um hvíldardaginn og helgihald hans er því hluti af kenningu, starfi og boðun KSDA. 

Þegar það kemur að tengslum safnaðarmeðlima við utansafnaðaraðila hvað hvíldardaginn varðar getur það stundum reynst flókið hvar ábyrgð safnaðarmeðlima endar hvað helgihaldið varðar. Í námumálinu eru þó nokkrir punktar sem eru tiltölulega augljósir hvað varðar hvíldardaginn.

 

Hvíldardagsvinna í námunum

Fyrst ber að nefna skort á umræðu. Það er tiltölulega nýlegt að Kirkja SDA sé í beinum viðskiptalegum tengslum við einstaklinga/fyrirtæki utan trúarsamfélagsins með því móti að það hafi leitt til vinnu á hvíldardögum. Hér hefði samtakastjórn getað upplýst safnaðarmeðlimi um hvers vegna ‏það var hennar mat að þetta var ásættanleg starfsemi og hefði getað haldið umræðu um hvíldardaginn í þessu samhengi. Þannig hefði hún virt samvisku og trú safnaðarmeðlima en það er augljóst að vinna á hvíldardögum hefur vakið spurningar hjá mörgum safnaðarmeðlimum. Engin slík umræða hefur átt sér stað. 

Næst er hægt að benda á að hvíldardagsborðorðið tekur það skýrt fram að maður eigi ekki að láta aðra vinna fyrir sig á hvíldardegi. Þar sem vinnutengsl nútímans eru margbrotin þarf að nota skynsemi auk samvisku til að sjá hvenær þetta ákvæði á við. KSDA lætur aðra reka námurnar fyrir sig gegn gjaldi til að skapa sér tekjur. Engin lífsnauðsyn er fyrir því að náman sé rekin dag og nótt eða alla daga vikunnar. KSDA hefur hinsvegar því af því beinan hagnað að það sé unnið sem hvað mest og hagnast þ.a.l. meira ef það er einnig unnið á hvíldardögum. Hér á ákvæðið í hvíldardagsboðorðinu því við: KSDA er í sjálfsvald sett hver leiguskilyrðin eru og hefði getað haft þau þannig að þau yrðu fordæmisgefandi fyrir safnaðarmeðlimi sem þurfa sjálfir að finna út úr hvíldardagshaldi sínu í tengslum við sín veraldlegu störf. Þetta kaus samtakastjórn ekki að gera. 

Að síðustu er hægt að benda á að Eden er alfarið í eigu tveggja safnaðarmeðlima og er rekið af þeim. Fyrirtækið snýst nær alfarið um námuvinnsluna og þó að aðrir sjái um jarðefnatökuna og -söluna vinna þeir beint fyrir Eden. Eden er í sjálfsvald sett hvenær þessir aðilar vinna, en eigi að síður er ljóst að Eden hefur kosið að heimila þeim sem starfa fyrir sig ótakmarkaða starfsemi fyrir sig á hvíldardögum.  

Hér virðist gengið þvert á grunnboðskap hvíldardagsins um leið og misst hefur verið af öflugu tækifæri til vitnisburðar sem hefði verið mjög sýnilegt í þjóðfélaginu. Áhrifin og boðskapurinn til þjóðfélagsins virkar mögulega gagnstætt: Hversu miklu máli skiptir hvíldardagshelgihald KSDA ef fyrirtæki í eigu aðventista starfar á hvíldardögum þegar engin augljós þörf eða nauðsyn liggur við?


[1] Aðalsamtök sjöunda dags aðventista (the General Conference of the Seventh-day Adventist Church), „§20 The Sabbath“, í „28 Fundamental Beliefs“, heimasíða Aðventkirkjunnar á heimsvísu, Adventist.org, https://www.adventist.org/beliefs/, pdf-skjal til niðurhals neðst á síðunni.