SAGA MÁLSINS Í STUTTU MÁLI

Útskýrt hefur verið hvers vegna KSDA á námurnar í Lambafelli og Litla-Sandfelli og að þar hafi námuvinnsla átt sér stað frá miðbiki síðustu aldar. Um hvað snýst þá málið um námurekstur Edens? Þessi kafli rekur þá sögu – sögu „námumálsins“ í grófum dráttum til að veita lesandanum heildaryfirsýn áður en kafað er dýpra í einstaka efnisþætti í síðari köflum.

Á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu KSDA eru tvær námur, í Litla-Sandfelli og í Lambafelli í Þrengslunum. KSDA fór að nota námurnar á seinnihluta 20. aldar, í tiltölulega litlu magni þar sem vinnuvélar og námureksturinn allur var frumstæðari en hann er í dag, mörgum áratugum síðar.

Árin 2008 og 2009 gerði samtakastjórn samning um rekstur þessara náma við Eden,[1] fyrirtæki sem tveir safnaðarmeðlimir, Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, stofnuðu sérstaklega til að skapa trúfélaginu stöðugar tekjur[2] með því að selja jarðefni til Noregs í steinullarframleiðslu.[3] 

Eftir fyrsta farm til Noregs kom í ljós að jarðefnin pössuðu ekki í slíka framleiðslu.[4] (Svo virðist vera að hvorki samtakastjórn né Eden hafi látið athuga þetta nægilega vel áður en skrifað var undir samninga.[5]) Samkvæmt samningum átti að rifta þeim ef ekki næðist að semja við væntanlegan kaupanda[6] (í Noregi) en það var ekki gert. Námuvinnsla lá að mestu leyti niðri í tæpan áratug. 

Árið 2015 kom fyrsta opinbera gagnrýnin á námurekstur Edens fram í skýrslu Hlíðardalsskólanefndar (ekki það sama og Hlíðardalssetrið). Skýrslunni var dreift á aðalfundi 2015.[7] 

Árið 2017 tók námureksturinn gríðarlegan kipp og varð reglulegur og mikill. Samtakastjórn tók eftir því að Eden greiddi ekki á réttum tíma og að sumt þyrfti að skoða betur í starfsháttum Edens. Samtakastjórn hóf rannsókn á málinu og bað Kristján Ara Sigurðsson að skoða málið ásamt Judel Ditta fjármálastjóra.[8] Sökum mikilla anna samtakastjórnar hófst þessi rannsókn þegar kjörtímabilið var að renna út en rannsóknin átti auðvitað að halda áfram á tíma næstu samtakastjórnar. Fjármálastjóri veitti hinsvegar Kristjáni ekki allar þær upplýsingar sem hann þurfti á að halda.[9]

Eftir 2017 fóru margir safnaðarmeðlimir sem búa fyrir austan fjall (og keyrðu framhjá námunum á leiðinni í borgina) að taka eftir því hve mikið efni var tekið úr Lambafelli (það var sama og engin vinnsla í Litla-Sandfelli) og þeim þóttu greiðslurnar sem komu til KSDA ekki passa við það magn sem var tekið. Þessum vangaveltum óx fiskur um hrygg á næstu árum. Í fyrsta lagi fjölgaði spurningunum og í öðru lagi varð umræðan æ sýnilegri: Safnaðarmeðlimir ræddu málið ekki aðeins sín á milli heldur einnig við stjórnendur og samtakastjórnarmeðlimi.[10] 

Samtakastjórnin (2019–2023) veitti safnaðarmeðlimum ekki svör við spurningum þeirra og gagnrýni og stöðvaði að lokum rannsóknina sem samtakastjórnin á undan þeim (2016–2019) hafði hafið.[11] Án vitneskju safnaðarmeðlima hóf samtakastjórn samningaviðræður við Eden vorið 2021[12] til að semja nýjan samning sem myndi fella gömlu samningana úr gildi. Á sama tíma, vorið 2021,[13] lét samtakastjórn undan þrýstingi safnaðarmeðlima og ákvað að biðja Endurskoðunarþjónustu Aðalsamtakanna (General Conference Auditing Service, eða GCAS) um að rannsaka málið til að úrskurða hvort eitthvað væri til í fyrirspurnum og gagnrýni safnaðarmeðlima.[14] Þarna var leikið tveimur skjöldum: Á sama tíma og samtakastjórn bað GCAS um að rannsaka hvort Eden hefði haldið samninginn var hún að vinna að nýjum samningi við fyrirtæki sem lá undir rannsókn sem hún hafði sjálf beðið um

Safnaðarmeðlimum var ekki tjáð hvenær þeir gætu búist við niðurstöðum GCAS. Þeir safnaðarmeðlimir sem voru hvað best að sér í málinu sáu sér ekki annað fært en að koma spurningum sínum og gagnrýni á framfæri á opinberari hátt svo málsumræðan yrði ekki lengur hunsuð af samtakastjórn: Fimm safnaðarmeðlimir skrifuðu opið bréf til samtakastjórnar 5. desember 2021 þar sem þeir reifuðu málið og settu fram spurningar.[15] Bréfið var einnig sent til safnaðarstjórna. Undirrituð hvöttu samtakastjórn til að íhuga það alvarlega að segja af sér og rifta gömlu samningunum. Undirrituð voru Jón Hjörleifur Stefánsson, Ólöf Haraldsdóttir, Ómar Torfason, Sigurgeir Bjarnason og Sólveig Hjördís Jónsdóttir. Samtakastjórn svaraði ekki bréfinu

Opna bréfið frá 5. desember 2021 var tekið fyrir á fundi stjórnar Hafnarfjarðarsafnaðar snemma í janúar 2022. Gavin Anthony formaður var á fundinum. Aðspurður út í námumálið svaraði formaður því að samtakastjórn myndi ekki tjá sig um málið þar sem GCAS-rannsókn væri í gangi og hún myndi svara spurningunum. Þangað til myndi samtakastjórn ekki aðhafast neitt í námumálinu. 

Það kom því flestum safnaðarmeðlimum að óvörum þegar það var tilkynnt í Kirkjufréttum 1. febrúar 2022 að samtakastjórn hefði skrifað undir nýjan samning til margra áratuga við Eden.[16]  

Samtakastjórn þótti ekki ástæða til þess að bíða eftir niðurstöðum GCAS-rannsóknarinnar áður en skrifað var undir nýjan samning. Á sama tíma þótti þeim GCAS-rannsóknin það mikilvæg að hún taldi það óráð að halda aðalfund áður en hún bærist. Aðalfundi var því frestað frá vorinu 2022 fram til september.[17] 

Leynilegar viðskiptaumræður af þessum toga hafa ekki þekkst í KSDA fram að þessu og það að skrifað var undir nýjan samning áður en áhyggjum safnaðarmeðlima var svarað eða GCAS-rannsóknarniðurstöður bárust ollu vandlætingu margra safnaðarmeðlima. 61 safnaðarmeðlimur skrifaði undir undirskriftalista á einungis tveimur-þremur dögum þar sem samtakastjórn var beðin um að halda opinn upplýsingafund um námumálið til að svara spurningum safnaðarmeðlima.[18] (Þetta er mikill fjöldi: Um 100–150 yfir 18 ára sækja KSDA að staðaldri á landinu öllu. Sumir meðlimir eru eldri en 80 ára eða ekki virkir og aðeins virkum meðlimum var boðið að skrifa undir.) 

GCAS-skýrslan barst í maí 2022 og samtakastjórn boðaði safnaðarstjórnir til fundar 24. maí[19] þar sem GCAS-skýrslan og niðurstöður hennar voru kynntar. Samtakastjórn bað einnig safnaðarstjórnir um að senda sér spurningar þeirra um námumálið[20] fyrir fundinn og skv. formanni barst samtakastjórn margar blaðsíður af spurningum.[21] Þær voru ekki teknar fyrir á fundinum

Á fundinum kom í ljós að GCAS vék sér undan því að koma með lögfræðilega greiningu á starfsháttum Edens[22] og reyndi að halda sig aðeins við takmarkaða fjármálalega greiningu. Það var vitaskuld ómögulegt því samningurinn segir til um hvað á að borga svo ekki var undan því komist að skoða bæði lögfræðilega og fjármálalega hlið málsins til að fá nokkurn botn í það. GCAS-skýrslan inniheldur lista af athugasemdum frá GCAS við starfshætti Eden og þótt GCAS hafi veigrað sér við að kalla þessar athugasemdir ábendingar um samningabrot er varla hægt að skilja þær öðruvísi.  

Á fundinum var haldin atkvæðagreiðsla um hvort safnaðarstjórnir vildu að samtakastjórn héldi annan upplýsingafund um námumálið. Þar sem spurningum safnaðarstjórna var ekki svarað á fundinum kom það fæstum á óvart að fjórar af fimm safnaðarstjórnum voru því fylgjandi.[23] Þar sem safnaðarstjórnir geta ekki skipað samtakastjórn fyrir verkum (öðruvísi en að biðja um aukaaðalfund) var atkvæðagreiðslan aðeins ráðgefandi. Samtakastjórn fundaði allt sumarið um hvort þau ættu að halda fundinn eða ekki en ákváðu að lokum að gera það ekki.[24] Þessa ákvörðun kynnti samtakastjórn ekki fyrir safnaðarmeðlimum fyrr en 7. september þegar hún sendi aðalfundarfulltrúum gögn fyrir aðalfund 2022. 

41. aðalfundur KSDA var haldinn 22.–25. september 2022 í Suðurhlíðarstofu. Í fundargögnum sem voru send til fulltrúa sem sóttu fundinn er að finna „Skýrslu varðandi námuna“.[25] Í henni er ekki að finna svör við spurningum safnaðarstjórna og -meðlima. Þvert á móti lýsir samtakastjórn því yfir að hún telji umræðu um málið skaðlega:  

Niðurstaða stjórnarinnar [eftir GCAS-fundinn, á stjórnarfundum yfir sumarið] var sú að hafa fund einungis til þess að svara spurningum myndi líklegast leiða til meiri frekar en minni sársauka innan Kirkjunnar og myndi samt skilja Kirkjuna eftir án þess að lausn væri fundin.[26] 

Skýrslan svarar engum spurningum safnaðarstjórna og -meðlima (fyrir utan það að samtakastjórn viðurkennir að lögfræðingur þeirra hafi staðfest að möguleiki sé á því að Eden hafi framselt samninginn frá 2009 en dómstólar yrðu að skera úr um það[27]). 

Þessi einkennilega niðurstaða samtakastjórnar að best væri að sópa málinu með öllu undir teppið er síðan útfærð í tillögu sem er meirihluti skýrslunnar. Tillagan var í kjarna sú að safnaðarmeðlimir myndu sætta sig við að fá ekki svör við spurningum sínum og að þeir myndu hætta að ræða námumálið með öllu:  

MÆLT MEÐ  

Í fyrsta lagi að reka þetta mál ekki frekar þar sem það er ekki í þágu Kirkjunnar. . . . Í öðru lagi að gripið verði til brýnna og sameinaðra aðgerða í þeim tilgangi að koma lækningu til þeirra fjölmörgu sem hafa orðið fyrir sárum í þessu ferli.[28] 

Á aðalfundi var hinsvegar lögð fram tillaga þess efnis að taka ekki námuskýrsluna fyrir heldur vísa námumálinu til rannsóknarnefndar. Fulltrúar Stór-Evrópudeildarinnar lögðu til hverjir myndu skipa nefndina. Nefndina áttu að skipa: Lowell Cooper varaformaður Aðalsamtakanna (formaður nefndarinnar), GC Office of General Council meðlimur, GCAS meðlimur, Iain Sweeney svæðaritari (Field Secretary) og Victor Pilmoor. Enn fremur var samþykkt að skýrsla nefndarinnar yrði lögð fyrir seinnihluta aðalfundar 11. desember 2022.[29] 24. nóvember 2022 tilkynnti Daniel Duda formaður Stór-Evrópudeildarinnar hinsvegar að fundinum hefði verið frestað.[30] Óvíst er hvenær hann verður haldinn. 

Í millitíðinni hefur þjóðfélagsumræða um Þorlákshafnarhlið námumálsins orðið mjög sýnileg: Fjölmargar greinar hafa birst í fjölmiðlum,[31] bæði greinar á vefsíðum fjölmiðla, fréttir í sjónvarpi og útvarpi, og a.m.k. einn þingmaður hefur bent á fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg Materials á alþingi.[32] Íbúafundur hefur verið haldinn um málið í Þorlákshöfn[33] og tveir undirskriftalistar hafa farið í gang gegn framkvæmdunum.[34]


[1] Samningana er að finna undir flipanum „Heimildir og skjöl“ á aðalborða þessarar vefsíðu.

[2] Þetta er tekið fram í inngangi samningsins frá 2009 í feitletraðri klausu.

[3] Sala jarðefnisins í steinullarframleiðslu í Noregi er ekki tekin fram í samningunum en var kynnt eftir dagskrá aðalfundar KSDA 2009. Að þessu eru aðalfundarfulltrúar vottar og hefur höfundur heyrt lýsingu margra á kynningunni. Ennfremur staðhæfði samtakastjórn að útflutningur hafi verið grunnhugmynd fyrirhugaðs námurekstrar Edens: ,Enn er engin sala hjá leigjendum malarnámu Kirkjunnar þar sem útflutningurinn var grunnur að áætlun þeirra. Vandamálið liggur í óhagstæðri kornastærð efnis í námunni til útflutnings og í flutningi efnis og geymslu við Þorlákshöfn.“ „Samþykktir og bókanir stjórnar“, Aðventfréttir, mars 2014, bls. 8. Þetta er einnig tekið fram í opnu bréfi Eiríks Ingvarssonar og Kristins Ólafssonar þar sem þeir rekja sögu gömlu samninganna (frá 2008 og 2009). „Gömlu samningarnir um Sandfell og Lambafell voru undirritaðir á árunum 2008 og 2009 og giltu til 2028 og 2034. Áætlanir gerðu ráð fyrir að um útflutning yrði að ræða á efni til steinullarframleiðslu.“ Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023, bls. 4.

[4] Sandra Mar Huldudóttir, „Skýrsla fjármálastjóra“, fundargögn fyrir aðalfund 2015, bls. 40.

[5] Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson virðast segja að málið hafi aðeins verið rannsakað eftir að Eden gerði samninga við KSDA: „Gömlu samningarnir um Sandfell og Lambafell voru undirritaðir á árunum 2008 og 2009 og giltu til 2028 og 2034. Áætlanir gerðu ráð fyrir að um útflutning yrði að ræða á efni til steinullarframleiðslu á vegum Rockwool As. í Danmörku. Send voru sýni af malarefni til þeirra til þess að kanna hvort þetta efni hentaði þeim til framleiðslu steinullar til húsaeinangrunar. Okkur bárust þau svör að efnið hentaði þeim og þeir vildu ganga til samninga. Samningar náðust við Rockwool í desember 2010 eins og til stóð.“ Farið er síðan yfir þessa sögu ítarlegar neðar á blaðsíðunni: „Eftir að við tókum við námunni [sem hlýtur að þýða: „eftir að við í Eden sömdum við KSDA“] hófst víðtæk leit að nýtingarmöguleikum námunnar til að afla kirkjunni tekna. Með aðstoð sendiráðs Danmerkur náðum við eyrum stjórnar stærsta steinullarframleiðanda í Evrópu, Rockwool International. Rockwool ákvað að skoða málið frekar. … Við gerðum langtíma rammasamning við Rockwool og hófum sendingar til verksmiðju þeirra í Moss í Noregi.“ Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023, bls. 4. Samtakastjórn fullyrti að útflutningurinn hefði verið grunnhugmynd fyrirhugaðs námurekstrar Edens: „,Enn er engin sala hjá leigjendum malarnámu Kirkjunnar þar sem útflutningurinn var grunnur að áætlun þeirra. Vandamálið liggur í óhagstæðri kornastærð efnis í námunni til útflutnings og í flutningi efnis og geymslu við Þorlákshöfn.“ „Samþykktir og bókanir stjórnar“, Aðventfréttir, mars 2014, bls. 8.

[6] Samningur KSDA við Eden um Lambafell, 2009, 8. gr.

[7] Opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021, 7, nmgr. 23.

[8] Samtakastjórn, samþykkt 53/2019, 9. apríl 2019. Samþykktin er varlega orðuð en þeir sem í henni sitja eru til vitnis um hver tilgangur samþykktarinnar var.

[9] Samtöl höfundar við Kristján Ara Sigurðsson.

[10] Sem dæmi um einstaklinga sem ræddu þessi mál við aðra safnaðarmeðlimi og stjórnendur má nefna Sigurgeir Bjarnason. Hann fór fyrst að tala um námumálið 2011. Sigurgeir Bjarnason, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 8. ágúst 2022. Hægt væri að nefna fjölda annarra safnaðarmeðlima í Selfosssöfnuði sem eru búsettir fyrir austan fjall.

[11] „Strax árið 2019 upplýsti ég stjórnendur um að greiðslur væru ekki að berast á réttum tíma og að vísbendingar væru til staðar um verulegar vanefndir vegna mögulegs framsals. Þessu erindi fylgdi ég eftir bréflega til samtakastjórnar og reyndi svo að fylgja málinu eftir allt þar til samtakastjórn afþakkaði mína frekari aðkomu í maí 2021. Það var gert á fundi samtakastjórnar sem mér var neitað um að koma á til að kynna niðurstöður mínar fyrir allri stjórninni með þeim rökstuðningi ,að það væri heppilegra að stjórn klári ákveðið ferli í sambandi við þetta mál‘. Þá var málinu vísað til GCAS.“ Kristján Ari Sigurðsson, „Hverjum ber að gæta hagsmuna Kirkju sjöunda dags aðventista?“, Samantektin, 22. september 2022. Sjá einnig samþykktir samtakastjórnar 2021/47 og 2021/48, 11. maí 2021. Í samþykkt 2021/48 er ranglega staðhæft að Kristján Ari og Judel Ditta hafi lokið rannsókninni.

[12] „Fyrir tæpu ári síðan hófust viðræður milli Kirkjunnar á Íslandi og Eden Mining um möguleika á nýju verkefni varðandi námur okkar. Á þessum tíma hafa Kirkjan og Evrópudeildin (TED) unnið að málinu samkvæmt þagnarskyldu vegna viðkvæmra viðskipthagsmuna, en nú getur Kirkjan deilt nokkrum fréttum.“ Stjórnendur KSDA, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022. Sjá Viðauka.

[13] Samþykktin um GCAS-rannsóknina er ekki hægt að finna í birtum fundargerðum; hún er sennilega ein af „trúnaðarmálunum“ sem eru merkt sem slík í fundargerðunum. Það er líklegt að samþykktin sé 2021/47, samþykktin áður en rannsókn Kristjáns Ara var hafnað (samþykkt 2021/48).

[14] Nánar er rætt um GCAS-rannsóknina í kaflanum „GCAS-rannsóknin“.

[15] Jón Hjörleifur Stefánsson, Ólöf Haraldsdóttir, Ómar Torfason, Sigurgeir Bjarnason og Sólveig Hjördís Jónsdóttir, opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021.

[16] Stjórnendur, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022. Samningurinn gildir til 2037 og að vissum skilyrðum uppfylltum til 2051. Samningur KSDA við Eden 2021, 3. gr.

[17] „Okkur hefur verið bent á að það sé nauðsynlegt að hafa þessa skýrslu áður [en aðalfundur hefst]— þannig að þegar við höldum [á fund] munum við hafa allar þær upplýsingar sem þarf. Þar af leiðandi, í samráði við TED, samþykkti stjórn Kirkjunnar í þessari viku að fresta aðalfundinum þar til í haust, einhvern tíma á tímabilinu frá miðjum september til nóvember á þessu ári, með stefnuna þó frekar á september.“ Gavin Anthony formaður, Kirkjufréttir, 1. apríl 2022, feitletrun formanns.

[18] Elísa Elíasdóttir senti samtakastjórn undirskriftalistann 23. mars 2022. Elísa Elíasdóttir, tölvupóstur til samtakastjórnar, 23. mars 2022. Það voru margir sem stóðu að því að safna undirskriftunum og hún var ekki í forsvari fyrir hópnum.

[19] Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til safnaðarleiðtoga, 30. mars 2022.

[20] „If your board has specific questions, we would like ask your board send us your questions ahead of time so we can prepare as best we can.“ Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til safnaðarleiðtoga, 30. mars 2022.

[21] „We [samtakastjórn] have literally received pages and pages and pages of questions from people.“ Gavin Anthony formaður, inngangserindi, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundar.

[22] „I am not an attorney, I’m not trying to interpret the contract . . . There are findings associated with [our analysis] and I am not going to call them non-compliances, I am not an attorney, I am not pretending to be one, but our findings indicated that there were some issues with the application of the terms of the articles of the contract. But the key finding with that is the fact right here [GCAS-skýrslan, bls. 5] that neither party ‘exercised their rights to rescission’ and [did not consider] any of these findings that we had identified as major defaults in the contract. So both parties [Eden og samtakastjórn] continued. So it doesn’t really matter to us [GCAS og Kristján Ari viðmælandi hans] as non-principals to this contract whether we think they’re [Eden] in violation of the contract or not. The fact is that they [Eden og samtakastjórn] continued with prevailing terms of the contract.” Michael Merrifield, fulltrúi GCAS-rannsóknarnefndarinnar, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, áhersla hans. Sjá einnig GCAS-skýrslu, apríl 2022, bls. 3.

[23] Að safnaðarstjórn Reykjavíkursafnaðar einni undanskilinni. Eiríkur Ingvarsson, meðeigandi Edens, er meðlimur í þeim söfnuði.

[24] 30. maí ákvað samtakastjórn að halda upplýsingafund 23. júní og ákvað dagskrána. Einnig var ákveðið að „birta allar spurningar / bréf sem okkur hafa borist ásamt skriflegum svörum fyrir fundinn.“ Samtakastjórn, samþykkt 2022/56, 30. maí 2022. Þessi fundur var aldrei auglýstur. Á næsta stjórnarfundi, 21. júní, tveim dögum fyrir fyrirhugaðan upplýsingafund, ákvað samtakastjórn að skoða fundarmöguleikann nánar þar sem hún beið „eftir lagalegri útskýringu varðandi námumálið“ frá lögfræðingi sínum. Samtakastjórn, samþykkt 2022/57, 21. júní 2022. Á næsta stjórnarfundi, 4. júlí, ræddi samtakastjórn „hvernig sé best að halda áfram með ástandið sem hefur skapast í kring um rekstur námunnar“ en tók enga ákvörðun. Samtakastjórn, bókun 2022/58, 4. júlí 2022. Ekki var rætt frekar um námumálið á næstu stjórnarfundum (nema trúnaðarmál 2022/66, 4. ágúst 2022 hafi verið um námumálið). En það er augljóst að samtakastjórn ákvað að halda ekki fundinn: Samtakastjórn skrifaði skýrslu um námumálið þar sem kemur fram að hún hætti við að halda upplýsingafundinn. Sjá megintexta áfram.

[25] Samtakastjórn, „Skýrsla varðandi námuna“, fundargögn fyrir aðalfund 2022, bls. 81–84.

[26] Samtakastjórn, „Skýrsla varðandi námuna“, bls. 81.

[27] „Eftir að hafa fengið skýrsluna frá GCAS og komist að því að íslenskir lögfræðingar hefðu ekki komið við sögu og eftir að það hafa borist kvartanir frá meðlimum um að umgjörð GCAS skýrslunnar væri of þröng, óskaði stjórn Kirkjunnar eftir lögfræðiáliti um orðið framsal. Eftir mikla umhugsun lögfræðinga okkar í sumar, í lok ágúst, komust lögfræðingar okkar að þeirri niðurstöðu að hægt væri að færa rök fyrir því að framsal hefði átt sér stað. Þeir tóku hins vegar fram að þar sem það væru á því mismunandi álit þá þyrfti að leysa úr því með því að fara með málið fyrir dómstóla.“ Samtakastjórn, „Skýrsla varðandi námuna“, bls. 83.

[28] Samtakastjórn, „Skýrsla varðandi námuna“, bls. 83, 84.

[29] Fundargerð fyrrihluta aðalfundar 2022 (sem verður væntanlega birt í fundargögnum seinnihluta aðalfundarins þegar hann verður endanlega haldinn). Höfundur er vitni að aðalfundinum þar sem hann var meðal fundargesta.

[30] Daniel Duda formaður Stór-Evrópudeildarinnar, „Varðandi framhald á aðalfundi Kirkjunnar“, Kirkjufréttir, 24. nóvember 2022.

[31] Sjá yfirlit yfir birtar greinar undir „Fjölmiðlaumfjöllun“ undir flipanum „5 Heimildir og skjöl“ á aðalstiku þessar vefsíðu.

[32] Andrés Ingi Jónsson, FB-reikningurinn „Andrés Ingi á Þingi“, FB-færsla, 18. nóvember 2022, https://fb.watch/gWas2WGIGT/.

[33] Sunna Ósk Logadóttir, „Litla þorpið sem á að bjarga þýska risanum“, Kjarninn.is, 19. nóvember 2022, https://kjarninn.is/skyring/litla-thorpid-sem-a-ad-bjarga-thyska-risanum/.

[34] Landvernd, „Áskorun: Höfnum námuvinnslu á Mýrdalssandi og í Þrengslunum“, Landvernd.is, https://landvernd.is/askorun-namuvinnsla-i-myrdal-og-threngslum/; Jakob Bjarnar, „Landvernd skorar á sveitastjórnir að hafna námuvinnslu“, Visir.is, 6. september 2022, https://www.visir.is/g/20222307740d/land-vernd-skorar-a-sveitar-stjornir-ad-hafna-namu-vinnslu; Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, „Enga jarðefnaverksmiðju í Þorlákshöfn“, https://is.petitions.net/enga_jarefnaverksmiu_i_orlakshofn; Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Hrafnhildur Lilja Harðardóttir, „Áskorun að loknum íbúafundi Heidelberg Material“, Visir.is, 16. nóvember 2022, https://www.visir.is/g/20222339723d/askorun-ad-loknum-ibuafundi-heidelberg-material.