SAMNINGARNIR 2008 OG 2009

Með samningi þessum veitir eigandi námuréttarhafa einkarétt til þess að nýta jarðefni. … Eigandi heimilar námuréttarhafa að taka jarðefni úr jarðefnanámusinni í Lambafelli … og nýta til sölu fyrir eigin reikning.

       – Samningur KSDA við Eden, 2009, 1. og 2. grein.

Árið 2008 stofnuðu Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, meðlimir í KSDA, fyrirtækið Eden Consulting ehf. á kennitölunni 6703081970. (Fyrirtækið breytti nafninu yfir í Eden Mining ehf. stuttu síðar[1] og í Eden ehf. um árið 2016.[2] Í þessari skýrslu er fyrirtækið kallað Eden.) 

Samtakastjórn gerði samninga við Eden um námuvinnslu í Litla-Sandfelli árið 2008 og í Lambafelli árið 2009. KSDA á þessi fell því þau eru á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu trúfélagsins. (KSDA keypti jörðina um miðja 20. öld til að reisa Hlíðardalsskóla.) Þessir samningar féllu úr gildi þegar samtakastjórn skrifaði undir nýjan samning við Eden 18. janúar 2022.[3] Þó gömlu samningarnir séu fallnir úr gildi fór fram mikil námuvinnsla frá 2017 til 2021 og námumálið snýst því bæði um gömlu samningana og þann nýja. 

Til að skilja námumálið er nauðsynlegt að skilja hver var tilgangur gömlu samninganna. Til þess að komast að því þarf að skoða samningana sjálfa. Samningunum var þinglýst sem þýðir að þeir eru aðgengilegir almenningi hjá Sýslumanni. (Þá er einnig að finna í heimildaskrá þessarar vefsíðu.) Þar sem mesta námuvinnslan hefur farið fram í Lambafelli verður vitnað í eldri samninginn um Lambafell (frá 2009) í þessari skýrslu. 

Í samningnum um Lambafell virðist það skýrt að tilgangur samningsins hafi verið tvíþættur: (1) Eden fékk að reka námuna (2) til þess að skapa KSDA stöðugar tekjur. Lítum í samninginn.

Eden átti að reka námuna (sjá um jarðefnatöku og -sölu)

Í upphafi samnings stendur að KSDA og Eden (sem er „námuréttarhafi“) gerðu með sér samning „um einkarétt námuréttarhafa til nýtingar jarðefnanámu“ í Lambafelli. Samningurinn snerist því um það að Eden mátti nýta námuna og hafði til þess einkarétt. En hvað er að nýta námu? 

2. grein hefur titilinn „Taka og nýting jarðefna“ og útskýrir nýtinguna. Þar stendur: „Eigandi heimilar námuréttarhafa að taka jarðefni úr jarðefnanámu sinni“ og „ekki eru sett takmörk á það magn efna sem námuréttarhafa er heimilt að taka og nýta til sölu fyrir eigin reikning.“ Eden mátti sem sagt taka efni úr námunni og selja það „fyrir eiginn reikning.“ Að selja eitthvað „fyrir eiginn reikning“ þýðir að maður selji sjálfur. 

Orðalag 3. greinar bendir aftur til þess að Eden sjálft myndi selja efnið. Í þriðju efnisgrein er búist við „kaupanda“ sem myndi kaupa jarðefnin af Eden. Í einni af síðustu efnisgreinunum stendur að landeigandi hafi rétt á því að tilnefna „tilsjónarmann til að fylgjast með sölu jarðefna. Getur sá óskað eftir því að endurskoðandi námuréttarhafa staðfesti sölutölur vegna einstakra farma.“ Þetta orðalag hljómar eins og búist hafi verið við því að Eden seldi efnið og að endurskoðandi þeirra hefði sölutölur yfir alla „farma“ (þ.e. fulla vörubíla sem keyra af námusvæðinu). Eden gæti aðeins hafa haft slíkar sölutölur ef Eden hefði sjálft tekið efnið og selt það þeim sem komu og keyptu það og óku með það burt. (Sölutölur yfir farma voru hluti af bókhaldi sölu- og flutningsfyrirtækisins – og ef Eden seldi hvorki né flutti efnið hefðu þeir ekki haft slíkan aðgang að bókhaldi annars fyrirtækis.)

Tilgangur Edens er að skapa KSDA tekjur

Í upphafi samningsins er að finna efnisgrein sem er feitletruð til að áhersluauka. Þar kemur fram að tilgangur samningsins og markmið Eden sem fyrirtækis sé einn og sami hluturinn: „Tilgangur samningsins er að skapa eiganda stöðugar tekjur til framtíðar . . . Markmið félagsins er að skapa stöðugar tekjur fyrir eigendur námanna.“

Af orðalagi samningsins virðist því vera hægt að áætla að tilgangur hans hafi verið sá að Eden fengi að reka námuna í Lambafelli á eigin vegum til að skapa KSDA stöðugar tekjur. Það virðist ekki vera hægt að sjá að Eden hafi farið eftir anda og bókstaf samnings með því að láta annan aðila sjá um reksturinn en um það verður rætt í næsta kafla.


[1] Elsti ársreikningur fyrirtækisins, frá árinu 2009, er á nafninu Eden Mining. Sjá kt. 6703081970, Fyrirtækjaskrá, Skatturinn.is, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/6703081970.

[2] Stofngögn fyrirtækisins eru dagsett 26. mars 2008. Sjá kt. 6703081970, Fyrirtækjaskrá, Skatturinn.is, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/6703081970.

[3] „Fyrri samningar falla úr gildi við undirritun þessa samnings.“ Samningur KSDA og Eden, 2022, 2. efnisgrein, bls. 1.