MEINT FRAMSAL 2009 SAMNINGSINS

Námuréttindi þessi er eigi hægt að framselja.

       – Samningur KSDA við Eden, 2009, 8. grein.

 

Í opna bréfinu sem fimm safnaðarmeðlimir sendu samtakastjórn 5. des. 2021 kom fram að Eden gróf hvorki efnið úr námunni né seldi það.[1] Eden lét aðra aðila sjá um hvorttveggja. GT-verktakar grófu upp efnið og unnu og seldu það frá 2017 til fyrrihluta ársins 2021 og þá tók Lambafell ehf. við til ársloka 2021.[2] 

Þeir sem skrifuðu opna bréfið bentu á tvennt varðandi þetta fyrirkomulag að Eden væri að láta aðra taka efnið úr námunni og selja það. Í fyrsta lagi virtist þetta vera í trássi við samninginn frá 2009.[3]

  1. Í upphafi samnings stendur að hann sé „um einkarétt námuréttarhafa til nýtingar jarðefnanámu.“

  2. Nýtingin er útskýrð í 2. grein: Að nýta námuna er að taka jarðefni úr henni og selja á eigin reikning. Eden er námuréttarhafinn – þ.e. hefur námuréttindin – og þessi námuréttindi felast í því að fá að nýta jarðefnanámuna.

  3. Framsal þessara réttinda er síðan bannað í 8. grein: „Námuréttindi þessi eru bundin við núverandi eigendur námurétthafa og maka þeirra. Námuréttindi þessi er eigi hægt að framselja.“ (Skáletrun bætt við.) En ef námuréttindin fólust í nýtingu jarðefnanámunnar (í því að taka og selja efnið), var Eden ekki að framselja þessi námuréttindi með því að láta aðra bæði taka og selja efnið?

  4. Í 3. grein eru gjöld Eden til landeiganda útskýrð og fyrsta gjaldið er „10% af brúttóandvirði seldra jarðefna af svæðinu.“ Orðanna hljóðan er sú að samningurinn gengur út frá því að Eden selji jarðefnin af svæðinu – þ.e. selji þau einhverjum sem flytur þau burt af svæðinu. Með þessu virðist vera búist við því að Eden grafi upp efnið og vinni það (en að vinna efnið í mismunandi malartegundir eykur verðmæti þess) en ekki einhver annar. Eden seldi verktökum jarðefnið – og það voru verktakarnir sem tóku efnið og seldu öðrum það og fluttu það af svæðinu. Var Eden þá að selja efnið af svæðinu? 

Í öðru lagi rökstuddi opna bréfið þá skoðun að það hvernig Eden framkvæmdi samninginn skerti tekjur KSDA allverulega. Ef Eden hefði selt efnið sjálft til neytenda hefði Eden selt það á lokasöluverði, t.d. 700 eða 2000 krónur á rúmmetrann eftir malartegund. En í stað þess seldi Eden verktökunum rúmmetrann á 150–200 krónur og verktakarnir grófu rúmmetrann upp og seldu hann á lokasöluverði. KSDA var því að fá prósentu af margfalt lægri upphæð (af 150–200 krónum í staðinn fyrir af 700/2000 krónum t.d.) en ef fyrirtækið Eden hefði tekið og selt efnið sjálft. Þetta virtist stangast á við tilgang fyrirtækisins Edens og samningsins en í samningnum var þessi tilgangur feitletraður: að skapa KSDA stöðugar tekjur. Bréfhöfundar tóku fram að þetta tekjutap væri staðreynd jafnvel þó að fyrirkomulagið kynni ekki að teljast framsal. M.ö.o., þetta fyrirkomulag væri KSDA gríðarlega óhentugt jafnvel þó það kynni að vera leyfilegt samkvæmt samningnum.[4] 

Það er rétt að samtakastjórn KSDA er ekki fyrirtæki. Það hefði verið eðlilegt að veita þeim aðilum umboðslaun sem hefðu komið trúfélaginu í tengsl við væntanlega námuréttarhafa. Það hefði verið sanngjörn umbun en þar með hefði verki og aðkomu umboðsaðila einnig verið lokið og þeim ekki greitt meir.   

En svo lesandi geri sér grein fyrir tölunum eru þær þessar. Á tímabilinu 2017–2021 var hagnaður af Lambafellsnámunni eftirfarandi:[5]

  • KSDA fékk um 25 milljónir

  • Eden fékk um 180–190 milljónir

  • GT-verktakar og Lambafell ehf. fengu um 1000 milljónir (1 milljarð)

 

Verktaka?

Eigendur Eden fullyrtu í gegnum árin að þeir rækju námuna skv. samningi en réðu til sín verktaka.[6] En verktakan virðist í þessu tilviki hafa falið í sér að reka námuna frá A til Ö. Verktakarnir tóku efnið og seldu það. Eden hefur hvorki átt vinnuvélar né vörubíla né sérstaka afgreiðslu. Hvaða hlutverki gegndi fyrirtækið þá? Í hverju fólst rekstur þess á námunni? Það sem meira er, þegar Lambafell ehf. rak námuna og hafði vefsíðu um hana var fullyrt þar að ,,Steinsteypan rekur efnisvinnslu og sölu í Lambafelli við Þrengslaveg í gegnum dótturfélag sitt Lambafell ehf.“[7] 

Hvorki Eden né samtakastjórn hafa útskýrt hvernig þessi svokallaða verktaka braut ekki í bága við framsalsbannið og til hvers framsalsbannið var þá yfirhöfuð.

 

Heildsala?

Á GCAS-fundinum 24. maí 2022 settu Eden-eigendur fram aðra útskýringu á rekstrarfyrirkomulaginu. Þar sagði annar eigandi Edens að fyrirkomulagið hefði ekki verið framsal heldur heildsala. Eden hefði verið heildsali og GT-verktakar og Lambafell ehf. hefðu verið smásalar. Michael Merrifield GCAS-fulltrúi hafði í frammi sömu skoðun. 

Heildsala og smásala eru hluti af dreifibrautinni í viðskiptum. Það er oft erfitt að sjá um stóran hluta viðskiptaferilsins: t.d. að flytja vöru inn, dreifa henni og selja hana á mörgum stöðum. Það verður því oft til verkaskipting: Aðili A hefur tengsl erlendis og kaupir vöru og flytur hana inn. Aðili A er heildsali. Aðilar B kaupa síðan vöruna af heildsalanum og selja hana í búðunum sínum. Aðilar B eru verslanir eða smásalar.  

En slíka verkaskiptingu þarf ekki þegar það kemur að nýtingu lítillar námu á Íslandi. Enda þekkist ekki heildsala og smásala í íslenskum námurekstri. Slíkt fyrirkomulag er ekki notað því hvaða tilgangi myndi heildsalinn gegna? Eins og komið hefur fram í þessari skýrslu myndi hann einungis þjóna því hlutverki að skerða tekjur KSDA því hann er óþarfur milliliður

Heildsali kaupir vöruna af birgi og selur vöruna með álagningu sem nemur vanalega um 10-20% ef varan fer beint til smásalans eða 30-40% ef heildsalinn þarf að geyma vöruna á lager. En á árunum 2017–2021 seldi Eden jarðefni til „smásala“ á um 180–190 milljónir króna en „birgirinn“ (KSDA) fékk um 25 milljónir króna. Það merkir að álagning Eden var miklu hærri en þekkist í heildsölu/smásölu-ferlinu svo hún getur ekki flokkast sem slík. Að segja að Eden hafi tekið 160 milljónir í „heildsöluálagningu“ fyrir þær 25 milljónir sem KSDA fékk er einfaldlega staðleysa.[8] Í rauninni er þessi upphæð umboðslaun – og það mjög há.

 

Niðurstaða

Hvort sem rekstrar- og sölufyrirkomulag Eden er kallað verktaka eða heildsala þá hefur hvorki samtakastjórn né Eden útskýrt hvers vegna það var nauðsynlegt eða gagnlegt fyrir KSDA að hafa Eden sem millilið milli sín og þeirra sem tóku og seldu efnið, hvers vegna slíkt fyrirkomulag var ekki brot gegn framsalsbanninu og ef það braut ekki gegn því, hvað framsalsbannið var í raun að banna. 

Það er líka rétt að skerpa á því hve gríðarlegt meint tekjutap hefur verið fyrir trúfélagið. Eden seldi þriðja aðila mölina fyrir 180–190 milljónir sem seldi hana síðan til lokakaupanda fyrir margfalt hærri upphæð. Af hagnaði sínum greiddi Eden KSDA 25 milljónir. En ef Eden hefði rekið námuna sjálft og selt mölina til lokakaupanda (en ekki þriðja aðila) þá hefði hlutur Edens verið margfalt hærri (sú upphæð sem þriðji aðilinn fékk) og KSDA hefði getað fengið þessar 180–190 milljónir (sú upphæð sem Eden fékk). 

Ef Eden hefði rekið námuna sjálft á þennan hátt en greitt KSDA helmingi minna en 180–190 milljónir – „bara“ 90 milljónir – þá hefði sú upphæð samt verið margfalt hærri en sú sem trúfélagið fékk frá Eden (en sú upphæð var 25 milljónir). 

Í einu orði: KSDA virðist hafa orðið af gífurlega miklum hluta mögulegs hagnaðar af námunum sínum vegna milliliðastöðu Edens ehf. sem virðist hafa verið skýrt brot á framsalsbanni samningsins frá 2009. En þetta er ekki það eina sem mögulega minnkaði tekjur KSDA af námurekstri Edens. Um það verður fjallað í næsta kafla.


[1] Opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021, bls. 10.

[2] Eden hefur aldrei neitað aðkomu þessara fyrirtækja. Höfundur hefur talað við eigendur beggja fyrirtækja þessu til staðfestinga og fyrir þessu liggja ótvíræð skjöl til staðfestingar þessu tímabili, s.s. sölusamningur Eden við GT-verktaka og ársreikningur Lambafells ehf. fyrir 2021. Sölusamningurinn er í heimildarskrá þessarar vefsíðu. Ársreikningurinn er aðgengilegur undir kt. 4312181510, Skatturinn.is, Fyrirtækjaskrá, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/4312181510.

[3] Opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021, bls. 10.

[4] Opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021, bls. 10–11.

[5] Sjá Kristján Ari Sigursson, „Hverjum ber að gæta hagsmuna Kirkju sjöunda dags aðventista?“, Samantektin, 22. september 2022, viðauki 1, bls. 1. Kristján Ari sótti tölurnar og vann þær upp úr formlegum og birtum gögnum.

[6] Hér má nefna eitt skjalfest dæmi: Þegar banaslys varð í Lambafellsnámunni skrifaði Eiríkur Ingvarsson um „starfsmann verktaka“. Eiríkur Ingvarsson, „Vinnuslys í Lambafelli“, Kirkjufréttir, 30. október 2020.

[7] Sjá „Vefsíða Lambafells ehf. (2021)“ í heimildaskrá þessarar skýrslu.

[8] Kristján Ari hefur hrakið þessa heildsölu/smásölu-túlkun Edens á námurekstri þeirra. Sjá Kristján Ari Sigurðsson, „Hverjum ber að gæta hagsmuni Kirkju sjöunda dags aðventista?“, bls. [1–2].