KRISTNIR VIÐSKIPTAHÆTTIR

Dýrmætt ráð sem stjórn Kirkjunnar fékk frá Evrópudeildinni var áminningin um að Kirkjan er ekki fyrirtæki — svo við eigum ekki að haga okkur eins og slíkt.

       – Stjórnendur, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

 

Aðventkirkjan á heimsvísu rekur aðallega stofnanir og fyrirtæki sem beintengjast starfsemi hennar, s.s. menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og bókabúðir. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem koma upp þegar trúfélagið eignast eiginlega óvart auðlindir – eins og t.d. námurnar á jörðinni Breiðabólstað. 

Það er líklegt að Aðventkirkjan hafi mótað sér einhvers konar viðskiptastefnu í regluverki sínu. Á það má líka benda að í mörgum aðventistaháskólum er að finna viðskiptafræðideild. Þar hlýtur nemendum að vera kennt eitthvað um snertiflöt viðskipta og kristni. 

Í guðfræðiritum aðventista er einnig margt að finna um viðskipti. Hér er hægt að benda á Biblíuna sjálfa og einnig rit Ellenar G. White. Í ritum hennar er t.d. að finna viðvaranir við því að stofna til náinna viðskiptasambanda við utansafnaðaraðila. Ástæðurnar sem eru gefnar fyrir því eru nokkrar:

  • Þau gildi sem aðventistar vilja fara eftir í viðskiptum eru ólík þeim sem viðgangast oft í viðskiptaheiminum. Sem kristnir einstaklingar eiga aðventistar að sýna ítarlegustu ráðvendni og heiðarleika og sanngirni í öllum viðskiptum og forðast öll grá svæði eins og „siðlaust en löglegt“ o.s.frv. Það er erfitt að fylgja slíkum sjónarmiðum ef maður á saman fyrirtæki eða er í samningatengslum við þá sem líta hlutina öðrum augum[1]

  • Í þessu sambandi tekur White sérstaklega fram hvíldardagshelgihaldið[2]

  • Aðventkirkjan er trúfélag en ekki fyrirtæki. Viðskipti og fyrirtækjarekstur geta dreift athygli hennar frá hennar eigin starfsemi[3]

Í Safnaðarhandbók Aðventkirkjunnar er að finna lista yfir málefni sem þurfi að taka á komi þau upp innan trúfélagsins. Þar er m.a. minnst á „vísvitandi og síendurteknar blekkingar“ og „svik eða vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar í viðskiptum“.[4] Þarna kemur aftur fram áhersla aðventista á heiðarleg og kristileg viðskipti.

 

Umræða um viðskiptastefnu aðventista innan KSDA

Í ljósi þess að guðfræðirit aðventista leggja áherslu á heiðarleg og kristileg viðskipti væri viðeigandi að samtakastjórn, sem hefur staðið í síauknum viðskiptum og framkvæmdum undanfarna áratugi, hefði uppfrætt safnaðarmeðlimi um hver skoðun aðventista er á guðfræðilegri hlið viðskipta og hver stefna KSDA í þeim málum ætti að vera. Engin slík umræða hefur farið fram. Auk þess afsalaði aðalfundur 2012 sér réttinum á því að móta framtíðarsýn trúfélagsins með því að leggja niður tillögunefnd sína og fela samtakastjórn alfarið að móta framtíðarsýn og -stefnuna. Eru safnaðarmeðlimir sáttir við þetta?


[1] „Even in business relations we cannot, without involving principle, connect ourselves with those who are not loyal to God. What the one party feels that conscience forbids, the other allows. And this not merely in regard to religious matters, but in business transactions. The one acts from selfish motives, regardless of God’s law or the salvation of the soul; and if the other sincerely loves God and the truth, there must be either a sacrifice of principle or frequent and painful differences. It will require a continual struggle to resist the worldly influence and example of his ungodly associate.” Ellen G. White, „Notes of Travel“, í Historical Sketches of the Foreign Mission of the Seventh-day Adventists (Basel: Imprimerie Polyglotte, 1886), 215–16.

[2] Some church members „enter into partnership with men who have no respect for God’s holy day. A Sabbathkeeper cannot allow men in his employ, paid by his money, to work on the Sabbath. If, for the sake of gain, he allows the business in which he has an interest to be carried on on the Sabbath by his unbelieving partner, he is equally guilty with the unbeliever; and it is his duty to dissolve the relation, however much he may lose by so doing“. Ellen G. White, „A Sabbath Reform Needed“, Advent Review and Sabbath Herald, 18. mars 1884.

[3] God’s people „are not to engage in speculation, neither are they to enter into business enterprises with unbelievers; for this would hinder them in their God-given work“. Ellen G. White, Testimonies for the Church (Oakland, CA: Pacific Press, 1885–1909), 9:19. Samtakastjórn hefur vísað til svipaðrar ástæðu fyrir því að fella eigi niður umræðuna um námumálið. En notkun samtakastjórnar á þessari ástæðu er ekki sú að trúfélagið eigi ekki að vera í viðskiptum við utansafnaðaraðila – skv. samtakastjórn er þessi ástæða grunnur fyrir því að gagnrýna ekki viðskipti KSDA yfirhöfuð.

[4] Aðalsamtök sjöunda dags aðventista, Safnaðarhandbók Kirkju sjöunda dags aðventista (Reykjavík: Frækornið, 2014), bls. 50, 51.