BOÐUNARSTEFNA OG FRAMTÍÐARSÝN

Í námumálinu krystallast átök innan KSDA sem snúast um stærri málefni eins og t.d. boðunarstefnu og framtíðarsýn trúfélagsins.

Tilgangur Aðventkirkjunnar á heimsvísu og allra hluta hennar – eins og KSDA – er að boða fagnaðarerindið til alls mannkynsins eins og það birtist í boðskap englanna þriggja í Opinberunarbókinni 14. kafla. Þetta kemur fram í lögum Aðalsamtakanna og samþykktum KSDA.[1] 

Útfærsla Aðventkirkjunnar á boðun sinni hefur verið á ólíkan hátt en felur vanalega í sér mörg svið eins og menntun, heilbrigðismál, guðfræði og opinbera kynningu á boðskap trúfélagsins. Aðventkirkjan hefur mótað stjórnsýslu sína, komið á laggir stofnunum sínum til að gera slíka fjölþætta boðun sem skilvirkasta.  

Hér á landi keypti KSDA einmitt Breiðabólstað (námurnar tvær eru á landareigninni) til að geta rekið menntastofnun og mögulega heilsustofnun. Eftir að skólahald þar lagðist af ákvað KSDA engu að síður að halda í byggingarnar og jörðina og hefur notað þær mikið síðan. Flestir eru hinsvegar sammála um að hægt væri að nýta eignina enn frekar – en hvernig það ætti að gera, á því eru skiptar skoðanir.

 

Umræða innan KSDA

Á aðalfundi 2012 ákváðu fulltrúar aðalfundar að fella niður tillögunefnd[2] og láta samtakastjórn sjá um að móta framtíðarsýn og boðunarstefnu trúfélagsins. Burtséð frá því hversu vel eða illa samtakastjórn hefur tekist til í þeim starfa var þessi ákvörðun geigvænleg í lýðræðislegu trúfélagi. Það hefur haft í för með sér að upplýst og fræðileg umræða og símenntun safnaðarmeðlima hefur snarminnkað: Þegar samtakastjórn getur tekið allar helstu ákvarðanirnar upp á eigin spýtur þá hefur hún litla ástæðu til þess að leita til safnaðarmeðlima. En ef aðalfundur tekur framtíðarákvarðanir trúfélagsins sameiginlega þá verður það um leið nauðsynlegt að fulltrúar aðalfundar séu upplýstir og vel að sér í málefnum KSDA – og þá hefur samtakastjórn ástæðu til þess að skipuleggja slíka fræðslu stöðuglega. 

Án þess að leggja of þungt lóð á vogarskálarnar í umræðunni vill höfundur – sem er menntaður í sögu og guðfræði Aðventkirkjunnar – benda á tvennt. Í fyrsta lagi virðast allar stofnanir Aðventkirkjunnar eiga sér takmarkað nýtingarskeið. Þetta merkir að stundum þarf að leggja niður stofnanir, selja eignir og breyta til og byrja eitthvað nýtt. Í öðru lagi hefur hinsvegar boðunarstarfsemi Aðventkirkjunnar alltaf farið í sér rekstur stofnana á landareignum trúfélagsins. Það merkir að þó að eignir séu seldar þarf að vera vitað hvað sé gert í staðinn – og hvort verið sé að skipta út landi fyrir nýju landi að ástæðulausu eða jafnvel missa land án þess að fá annað í staðinn. 

Nýting á eignum KSDA er stór ákvörðun og tengist m.a. framtíðarsýn og boðunarstefnu KSDA. Nýting á námum KSDA ætti því ekki að vera ákvörðun sem samtakastjórn tekur upp á sitt einsdæmi. Allir safnaðarmeðlimir ættu að taka þátt í slíkri umræðu og ákvarðanatöku sem ætti að vera bæði mikil og greinargóð. Eftir slíka umræðu er hægt að taka ákvarðanir á aðalfundum og aukaaðalfundum.


[1] „The purpose of the General Conference is to teach all nations the everlasting gospel of our Lord and Savior Jesus Christ and the commandments of God.“ „The Mission of the Seventh-day Adventist Church is to make disciples of all people, communicating the everlasting gospel in the context of the three angels’ message of Revelation 14:6–12, leading them to accept Jesus as personal Savior and unite with His remnant Church, discipling them to serve Him as Lord, and preparing them for His soon return.“ Aðalsamtök sjöunda dags aðventista, General Conference Working Policy 2010–2011, bls. 1, 29. Þetta markmið er tekið fram í upphafi samþykkta KSDA en þar stendur í 2. grein: „Markmið Kirkjunnar er að boða Jesú Krist sem persónulegan frelsara og hið eilífa fagnaðarerindi.“ Samþykktir KSDA, 2019, 2. gr. Sjá einnig greinaröð höfundar um tilgang Aðventkirkjunnar sem birtist í Samantektinni, 2020–2022 og er í heimildaskránni.

[2] Laganefnd, „Skýrsla laganefndar“, fundargögn fyrir aðalfund 2012, bls. 62.