SAMNINGURINN 2022

Veraldar dæmin varast skalt,
voga þú ekki að gera það allt
sem höfðingjarnir hafast að
þó heimurinn kalli loflegt það.

       – Hallgrímur Pétursson, Passíusálmarnir 22.8.

 

18. janúar 2022 skrifuðu samtakastjórn og Eden undir nýjan samning um námuvinnslu í Lambafelli og Litla-Sandfelli.[1] Það virðist ýmislegt athugavert við þennan samning. 

Í fyrsta lagi voru samningaviðræðurnar með öllu leynilegar.  

Í samningaviðræðum felst oft einhver leynd. Þó það sé vitað um samningaviðræður tveggja aðila þýðir það ekki að viðræðurnar fari fram úti á torgi þar sem almenningur getur heyrt þær í heild sinni í smáatriðum. 

En samtakastjórn leyndi ekki aðeins vissum atriðum í samningaviðræðum sínum við Eden 2021–2022. Hún leyndi samningaviðræðunum í heild sinni frá safnaðarmeðlimum sem vissu ekkert um þær. Samtakastjórn hefur aldrei samið við neitt annað fyrirtæki á þennan hátt. Hvers vegna þessi mikla leynd? Hver óskaði eftir henni? Hagsmuna hvers var gætt? Þó að svo geti verið að sumir viðskiptalegir samningar milli annarra aðila séu gerðir í fullkominni leynd merkir það ekki að það sé eitthvað sem KSDA – sem er trúfélag en ekki fyrirtæki – eigi að gera. Ef mögulegur samningsaðili heimtar slíka leynd er skynsamlegast fyrir KSDA að snúa sér að öðrum mögulegum samningsaðila. Í stefnureglum Stór-Evrópudeildarinnar er gagnsæis í fjármálaákvörðunum stjórnenda krafist: 

S 04 Financial Operations and Environment

S 04 05 Role of Leadership in Financial Matters—It is the responsibility of organisational leadership to manage financial matters with integrity. Every leader must model behaviour that is guided by a commitment to ethics, transparency, and accountability. This behaviour is critical for building confidence in the overall Church organisation. To sustain this confidence, open communication must take place among the employees of the organisation, between management and the controlling board or executive committee, between the organisation and its constituents and other stakeholders, and between the organisation and higher organisations. Beyond modelling behaviour, it is imperative for leaders to promote and design the most appropriate systems that will safeguard the resources which are used to support the mission of the Church.[2] 

Það er ómögulegt að fara eftir þessari stefnu ef safnaðarmeðlimir vita ekki einusinni hvað fjármálaákvarðanir stjórnenda fela í sér.   

Í öðru lagi hefur samningnum, ólíkt fyrri samningum KSDA, ekki verið þinglýst[3] þrátt fyrir að samningurinn gefi til kynna svo skuli gera.[4]  

Í þriðja lagi er hluti hans leynilegur – þeir safnaðarmeðlimir sem báðu um eintak af honum komust að því í samskiptum sínum við samtakastjórn og fengu aðeins hluta samningsins.[5] Enginn safnaðarmeðlimur (fyrir utan samtakastjórnarmeðlimi) getur séð samninginn í heild sinni.  

Í opna bréfi sínu 16. mars 2022 lýsti samtakastjórn því yfir að hér væri bara um venjulega viðskiptalega leynd að ræða.[6] Þetta var ítrekað í yfirlýsingu samtakastjórnar í Hafnarfréttum 27. janúar 2023.[7] Það er erfitt að sjá hvernig þetta er rétt. KSDA hefur gert marga aðra samninga og þeir voru ekki leynilegir. Hvers vegna er hluti samningsins leynilegur? Hver bað um það? 

Samtakastjórn hefur lýst samningnum sem sérstakri Guðs blessun[8] og bæði samtakastjórn og Eden hafa talað um hann sem fjárhagslegan grundvöll KSDA.[9] Þar sem sá hluti samningsins sem ræðir um kjör hans er leynilegur geta safnaðarmeðlimir engan veginn staðfest eða vitað hvort kjör samningsins séu góð – hvað þá hvort þau séu einhver sérstök „blessun“. Og það að tala um samninginn sem fjárhagslegan grundvöll KSDA gengur þvert á guðfræði aðventista. Aðventkirkjan á heimsvísu er rekin með tíund og gjöfum. Hún þarf ekki á námurekstri að halda til að standa. Að halda slíku fram gerir ekki aðeins lítið úr starfsfyrirkomulagi aðventista (tíund og gjöfum) heldur gerir of mikið úr þessum nýja samningi og námurekstri yfirhöfuð. 

Í fjórða lagi áttu samningaviðræðurnar sér stað á sama tíma og samtakastjórn var að láta rannsaka starfshætti Edens. Samkvæmt samtakastjórn og formanni hófust samningaviðræður samtakastjórnar við Eden ári fyrir seinnihluta maí 2022 – eða um vorið 2021.[10] Það sem er stórundarlegt við tímasetninguna er að vorið 2021 ákvað samtakastjórn einnig að biðja GCAS um að skoða hvort Eden hefði haldið samningana sem þá voru í gildi. Hvers konar siðferði felst í því að láta rannsaka hvort fyrirtæki hafi haldið samning við mann og fara á sama tíma – á meðan rannsóknin er yfirstandandi – í viðræður við sama fyrirtæki um nýjan samning? Hefði ekki verið eðlilegt að bíða eftir því að GCAS-rannsókn lyki til að hægt væri að meta hvort Eden hefði með sanni farið eftir gömlu samningunum og væri þess virði að semja við aftur? 

KSDA er trúfélag sem leggur áherslu á gagnsæi í verkreglum sínum. Kristur kenndi opinberlega og bauð fylgjendum sínum að vera ljós heimsins – myndlíkingin felur í sér bæði gagnsæi og heiðarleika. Það var samtakastjórn í sjálfsvald selt hvort hún vildi hafa samninginn leynilegan eða ekki. Hún hefði getað gert gagnsæi að skilyrði í samningaviðræðum sínum við Eden – ef hún hefði endilega viljað semja á ný við það fyrirtæki. Með því hefði samtakastjórn sýnt safnaðarmeðlimum virðingu – en hún starfar í umboði þeirra og þeir eiga því rétt á því að vita hvað hún er að gera. Eða vildi samtakastjórn ekki að safnaðarmeðlimir vissu hvað hún væri að gera þegar hún samdi við Eden á ný? 

Í fimmta lagi er nýi samningurinn ekki við sama fyrirtæki og gömlu samningarnir – þótt það heiti sama nafni og sömu tveir menn eigi það. Nýi samningurinn frá 2022 er við fyrirtæki með aðra kennitölu en samningarnir frá 2008 og 2009. Rétt eins og einstaklingar hafa hver sína kennitölu, þannig hafa fyrirtæki hvert og eitt sína eigin kennitölu. Lesandanum til glöggvunar er þetta sett upp í töflu:[11]

Þetta merkir að KSDA gerði samning við eitt fyrirtæki, á kennitölunni 670308-1970, árin 2008 og 2009, en samning við annað fyrirtæki, á kennitölunni 541008-1600, árið 2022. Þessi skipti eru tekin fram í nýja samningnum.[12] Ástæða Eiríks Ingvarssonar og Kristins Ólafssonar, sem eru eigendur beggja fyrirtækja, og samtakastjórnar er ókunn.  

En ein afleiðing þessa virðist skýr: Ef KSDA ákveður að sækja Eden (kt. 670308-1970) vegna brota á samningunum 2008 og 2009, þá kemur það mál Eden (kt. 541008-1600) sennilega ekki við. Og sé Eden sem gerði eldri samningana kennitalan tóm í dag þá færi það fyrirtæki beint í þrot ef því yrði dæmt að borga háar skaðabætur – og KSDA yrði því af þeim.

[1] Samtakastjórn, samþykkt 9/2022, 18. janúar 2022.

[2] Trans-European Division of Seventh-day Adventists, Working Policy of the Trans-European Division of Seventh-day Adventists: 2021–2022 Edition (2022), bls. 437.

[3] Valgerður Anna Guðmundsdóttir, þjónustuver, Sýslumaðurinn á Suðurlandi, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 21. nóvember 2022; Rakel Ýr Jónsdóttir, þjónustuver, Sýslumaðurinn á Suðurlandi, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 17. apríl 2023.

[4] „Samningur þessi er gerður í þremur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili sínu, auk eins eintaks til þinglýsingar“. Samningur KSDA við Eden, 2022, 5 gr., 2. málsgrein, bls. 2.

[5] Í nýja samningnum er minnst á viðaukasamning og fylgiskjal nr. 1. Samningur KSDA við Eden, 2022, 3.–5. gr., bls. 1–2. Þessi gögn hafa safnaðarmeðlimir ekki fengið að sjá.

[6] „Vegna viðskiptaviðkvæmni þessa samnings sem felur í sér margra milljóna evra fjárfestingu alþjóðlegs fyrirtækis er það stöðluð málsmeðferð að samið var um þetta samkvæmt þagnarskyldusamningi til að halda skilmála trúnaðar. Trúnaðarsamningar eru sérstaklega mikilvægir á markaði þar sem aðrir keppinautar eru í viðskiptalegum tilgangi, eins og var í þessu tilviki.“ Opið bréf samtakastjórnar, bls. 2.

[7] „Einstök samningsatriði eru trúnaðarmál samningsaðila líkt og almennt á við um slíka samninga.“ Samtakastjórn KSDA, „Yfirlýsing frá Kirkju Sjöunda dags aðventista vegna umræðna á íbúasíðu Ölfuss“, Hafnarfrettir.is, 27. janúar 2023, https://hafnarfrettir.is/2023/01/27/yfirlysing-fra-kirkju-sjounda-dags-adventista-vegna-umraedna-a-ibuasidu-olfuss/.

[8] Öðruvísi er vart hægt að skilja fréttatilkynninguna sem kynnti nýja samninginn fyrir safnaðarmeðlimum: „Mögulega veitir þessi samningur ekki aðeins fjárhagslegt öryggi fyrir kirkjuna til lengri tíma litið. Hann opnar líka möguleika fyrir Kirkjuna okkar að geta fjármagnað boðunarstarf. Dýrmætt ráð sem stjórn Kirkjunnar fékk frá Evrópudeildinni var áminningin um að Kirkjan er ekki fyrirtæki — svo við eigum ekki að haga okkur eins og slíkt. Frekar erum við ráðsmenn auðlinda Guðs sem eigum að vera trú í að beita Biblíulegum meginreglum og trú við að sýna eðli Guðs í því hvernig Kirkjan stundar viðskipti. Þegar Kirkjan kemur fram á þennan hátt, til dæmis með því að stuðla að verkefnum sem eru vistvæn og gagnleg fyrir umhverfið, erum við minnt á að Guð hefur allt sem við þurfum. Þess vegna þurfum við aldrei að hafa áhyggjur af framtíðinni. Við getum alltaf verið í friði, því Guð mun alltaf útvega allt sem Kirkja hans þarfnast til að stækka ríki Hans og sýna heiður Hans opinberlega.“ Samtakastjórn, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

„There was a specific time-limited window of opportunity to expand the contract in order to establish the long-term financial stability of the Church.“ Gavin Anthony formaður, inngangsræða, GCAS-fundurinn, 24. maí 2022, vélritun höfundur. Formaður ræddi um nýja samninginn með þessum orðum.

[9] „Framtíðar hagsmunir hennar [KSDA] um stöðuga innkomu um langa framtíð er tryggð“ (með samningnum við Eden 2022). Opið bréf Edens, bls. [2]. „Gangi þetta eftir munu árlegar lágmarkstekjur Kirkjunnar verða hærri en sem nemur núverandi heildartíundartekjur okkar. Þetta er spennandi verkefni sem mun gefa Kirkjunni okkar góðan fjárhagslegan grundvöll.“ Opið bréf samtakastjórnar, bls. 1.

[10] „Undanfarið ár hefur stjórn Kirkjunnar gaumgæfilega unnið að því að því að hámarka nýtingu á eignum kirkjunnar“ og þetta fólst m.a. í því að „að bæta núverandi námusamninga sem upphaflega voru gerðir 2008 og 2009.“ Opið bréf samtakastjórnar, bls. 1. „It was well over a year ago that church members began to claim that Eden Mining was defrauding the Church . . . Although the Executive Committee did not believe that fraud was taking place, we decided to work with Eden Mining to revise the contract and to pay for an independent review by GCAS.“ Gavin Anthony formaður, inngangsræða, GCAS-fundurinn 24. maí 2022, vélritun höfundar. Samtakastjórn ákvað fyrst að leita til GCAS vorið 2021, og með þessu tímasetur formaður að einhverju leyti upphaf samningaviðræðna við Eden.

[11] Kt. 6703081970, Fyrirtækjaskrá, Skatturinn.is, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/6703081970; kt. 5410081600, Fyrirtækjaskrá, Skatturinn.is, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/5410081600.

[12] „Kirkja sjöunda dags aðventista … og Eden Mining ehf., kt. 541008-1600 … gera með sér eftirfarandi samning. … Samningur þessi byggist á fyrri samningum milli eiganda og Eden Consulting ehf., kt. 670308-1970 … Þessir fyrri samningar falla úr gildi við undirritun þessa samnings“. Samningur KSDA við Eden, 2022, bls. 1. Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson undirrita samninginn „f.h. Eden Mining ehf. og Eden Consulting ehf.“ Samningur KSDA við Eden, 2022, bls. 3.