MEINT BROT 18. GREINAR SAMÞYKKTA KSDA

Ákvörðun um kaup eða sölu á eignum Kirkjunnar sem ekki getur talist hluti af eðlilegri starfsemi hennar skal taka á reglulegum aðalfundi Kirkjunnar eða auka aðalfundi, að höfðu samráði við Deildina.

       – Samþykktir KSDA, 18. grein. 

Er samningur KSDA við Eden frá 2022 í samræmi við samþykktir og lög trúfélagsins okkar? Í þeim er að finna tvær greinar sem fjalla um fjárhagslegar skuldbindingar og ákvarðanir.[1]  

15. greinin snýst um daglegan/venjulegan rekstur og skuldbindingar. Samtakastjórn starfar í umboði safnaðanna og sér því um daglegan og venjulegan rekstur og skuldbindingar trúfélagsins. 15. greinin setur því slíkar skuldbindingar í verkahring samtakastjórnar. Hún er ábyrg fyrir þeim og tekur ákvarðanir um þær en umboðið hafa stjórnendurnir. Greinin hljóðar svona: 

Samþykki stjórnarinnar þarf til að skuldbinda Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi og fara formaður og fjármálastjóri sameiginlega með umboð stjórnarinnar í slíkum tilvikum. 

En svo eru til aðrar fjárhagslegar ákvarðanir og skuldbindingar sem ekki falla undir daglegan og venjulegan rekstur KSDA. Þá er ekki verið að tala um sölu eða kaup á kirkjubyggingum. Sala eða kaup kirkjubyggingar fellur undir venjulegan rekstur og starfsemi KSDA og það eru söfnuðirnir sjálfir sem taka slíkar ákvarðanir í samráði við samtakastjórn. 

Það eru hinsvegar til ákvarðanir og skuldbindingar sem eru stærri en kirkjubyggingar, ákvarðanir um eignir samtakanna sem eru svo stórar eða dýrmætar að þær varða öll samtökin („konferensinn“) en ekki einn tiltekinn söfnuð. Samkvæmt 18. grein eru slíkar ákvarðanir það stórar að ekki er hægt að velta slíkri ábyrgð á þá fáu einstaklinga sem sitja í samtakastjórn hverju sinni og ætla þeim að taka þetta stórar ákvarðanir fyrir hönd allra safnaðanna. 18. greinin kveður á um að þegar það kemur að svona ákvörðunum beri samtakastjórn að leggja þær fyrir aðalfund eða aukaaðalfund svo fulltrúar allra safnaðanna taki þátt í ákvörðuninni. Greinin hljóðar svo: 

Ákvörðun um kaup eða sölu á eignum Kirkjunnar sem ekki getur talist hluti af eðlilegri starfsemi hennar skal taka á reglulegum aðalfundi Kirkjunnar eða auka aðalfundi, að höfðu samráði við Deildina.

Ástæðan fyrir 18. greininni er augljós: Það felst mikil ábyrgð í óvanalega stórum ákvörðunum og þess vegna betra að fleiri aðilar taki þær í sameiningu. Af þessum ástæðum eiga þessar ákvarðanir að vera bornar fyrir fulltrúa á aðalfundi í stað þess að samtakastjórn taki þær ein. 

Hér er vert að geta þess að 18. greinin er tiltölulega ný. Laganefnd lagði hana fyrir aðalfund 2012[2] – en það getur varla talist tilviljun að það var einmitt næsti aðalfundur eftir að samningurinn 2009 var gerður við Eden. Það má leiða líkur að því að laganefnd hafi viljað fyrirbyggja að samtakastjórn gæti tekið fleiri ákvarðanir af slíkri stærðargráðu sjálf.  

Þegar litið er til baka í sögunni sést að stórar fjárhagslegar ákvarðanir sem fólu ekki í sér daglegan eða venjulegan rekstur hafa verið í tímans rás vanalega lagðar fyrir aðalfund:

  • Að mynda nýja stofnun: Þegar það vantaði skóla fyrir aðventistaunglinga var ákvörðun um að byggja og stofna unglingaskóla tekin á ársfundi 1947[3] (sú hugmynd varð að Hlíðardalsskóla)

  • Að mynda nýja stofnun: Þegar það vantaði barnaskóla fyrir aðventista var ákvörðun um að byggja og stofna hann tekin á aðalfundi 1985[4] (sá skóli varð að Suðurhlíðarskóla)

  • Að reka/loka stofnun: Á níunda áratugnum stóð Hlíðardalsskóli höllum fæti. Ákvörðun um hvort reka skyldi hann áfram eður ei var tekin á aðalfundi 1988: Rekstri yrði haldið áfram en skólinn varð að vera sjálfbær[5]

  • Að reka/loka stofnun: Eftir nokkur betri ár neyddist starfsfólk til að loka Hlíðardalsskóla haustið 1995. En endanleg ákvörðun um örlög skólans var tekin á aukaaðalfundi í desember 1995. Þar var ákveðið að loka skólanum[6]

  • Að selja eign: Á aukaaðalfundi í desember 1996 ákvað aukaaðalfundur að veita samtakastjórn umboð til að selja Hlíðardalsskóla í samráði við Stór-Evrópudeildina og í samræmi við lög Aðventkirkjunnar[7]

  • Að bregðast við fjárhagslegri stöðu samtakanna með endurnýjaðri stefnu og verkefnum: Deildarfulltrúi tjáði fulltrúum á aðalfundi 2015 að fjárhagsleg staða samtakanna væri bág. Það eina í stöðunni væri að samtökunum yrði breytt í trúboðsakur (stjórnsýslusvið sem er lægra en samtök) eða þá að vörn yrði snúið í sókn með því að semja gagngera boðunaráætlun. Samtakastjórn fékk eitt ár til að semja hana og lagði hana síðan fyrir fulltrúa á seinnihluta aðalfundar árið eftir (2016)[8]

Það er satt að sumar stórar fjárhagslegar ákvarðanir hefur samtakastjórn tekið upp á sitt einsdæmi. Hér er einkum hægt að nefna námusamningana árin 2008, 2009 og 2022 og leigu Raufarhólshellis árið 2016. Ákvarðanirnar 2008 og 2009 voru lagalega leyfilegar því 18. grein var ekki til. En þær voru í bága við sögulega starfshætti trúfélagsins. Og eftir að 18. grein var bætt við var samtakastjórn óleyfilegt að taka fleiri slíkar ákvarðanir.

Sumir hafa sagt að 18. grein eigi ekki við um námusamninginn 2022 því hann varðar leigu en ekki sölu. Þetta er útúrsnúningur. 18. grein bannar samtakastjórn að taka stórar ákvarðanir varðandi kaup og sölu. Námureksturinn er ekki aðeins leiga á auðlind. Ef maður leigir hús eða bíl eða jafnvel kartöflugarð fær maður húsið, bílinn og garðinn til baka. En svo er ekki með námu. Þegar hún er leigð út selur leigjandi innvolsið úr námunni – og eigandinn fær hana til baka tómari eða jafnvel altóma eftir því hve mikið er selt. Þó að náman sé leigð er hún leigð með því samþykki að úr henni sé selt – námuleiga felur því í sér sölu á eignum KSDA

Samningurinn við Eden sem var undirritaður 18. janúar 2022 leyfir Eden að vinna svo mikið efni úr námunum að Litla-Sandfell mun hverfa með öllu. Námuleigan felur því bókstaflega í sér sölu á heilu felli. Og heilt fell af möl er verðmætari en allar aðrar eignir samtakanna samanlagt. Ef samtakastjórn fór hvorki út í það að stofna nýjan skóla eða loka skóla án samþykkis fulltrúa á aðalfundi/aukaaðalfundi vegna þess að slíkar ákvarðanir voru taldar of stórar fyrir samtakastjórn (og það áður en 18. grein var einu sinni til) – hversu miklu meira erindi átti þá ekki leigan á námunum inn á aukaaðalfund? 

Að reka námu er þar að auki ekki hluti af venjulegri starfsemi KSDA. 

Það virðist því líklegt að 18. grein samþykkta og laga KSDA hafi verið brotin með samningnum við Eden. Það er því stórt spursmál hvort samningurinn sé yfirhöfuð löglegur. Og hvers vegna leyfði samtakastjórn ekki KSDA fremur en Eden að njóta vafans?


[1] Samþykktir KSDA eru aðgengilegar á heimasíðu trúfélagsins, www.adventistar.is, á borðanum neðst hægramegin. Sjá https://drive.google.com/file/d/1aAT5JAS_EUz-VaAYV-sc6QKhKMjSdSkE/view?usp=sharing.

[2] Laganefnd, „Skýrsla laganefndar“, fundargögn fyrir aðalfund 2012, bls. 66. Þegar lagagreinin var samþykkt á aðalfundinum 2012 varð hún að lagagrein nr. 17 en varð síðarmeir og er enn lagagrein nr. 18.

[3] Magnús Helgason, „Skýrsla hins tíunda ársfundar hins íslenska konferens S. D. Aðventista, sem haldinn var í kirkju konferensins í Reykjavík, dagana 21. til 26. maí 1947“, Bræðrabandið, nr. 4 (1947), 2–18.

[4] „29. aðalfundur sjöunda dags aðventista á Íslandi í Aðventkirkjunni Reykjavík 18.–21. apríl 1985“, Bræðrabandið, maí/júní 1985, 2–25.

[5]30. aðalfundur sjöunda dags aðventista á Íslandi í safnaðarheimili aðventista Reykjavík 14.–17. apríl 1988“, Aðventfréttir, 5. tbl. 1988, 32–33, https://timarit.is/page/5830278.

[6] Eric Guðmundsson, „Málefni Hlíðardalsskóla í Ölfusi“, Aðventfréttir, 5. tbl. 1995, 16–18, https://timarit.is/page/5830922.

[7] Eric Guðmundsson, „Aukaaðalfundur Samtakanna 1. desember 1996“, Aðventfréttir, 4. tbl. 1996, 3, https://timarit.is/page/5830988.

[8] Bókun 17, fundargerð aðalfundar KSDA 2015, í fundargögnum aðalfundar KSDA 2019, bls. 76.