TENGSL OG HAGSMUNIR

Í litlu samfélagi eins og KSDA er óþægilegt en nauðsynlegt að ræða fjölskyldutengsl. Það er í fyrsta lagi heiðarlegt að allir safnaðarmeðlimir geri sér grein fyrir þeim tengslum sem oft hafa áhrif á ákvarðanir og framkvæmdir innan trúfélagsins. Það er sérstaklega nauðsynlegt þegar slík tengsl hafa verið þáttur í umdeildum málum eins og námumálinu. Það eru nokkrar stórar fjölskyldur í Aðventkirkjunni og þó margir átti sig á fjölskyldutengslum gera það ekki allir. Hér verður því gert skil hvaða fjölskyldutengsl hafa verið til staðar þegar samtakastjórn gerði námusamningana við Eden 2008 og 2009 og svo 2022 og þegar hún reyndi að stýra umræðu um námumálið á aðalfundinum 2022. Hér gefur að líta skema yfir tengslin í upphafi greinar:

Það er athyglisvert að það er í raun að mestu einn fjölskylduvefur sem berst fyrir hagsmunum Edens og völdum núverandi samtakastjórnar á meðan restin af trúfélaginu – sem er annaðhvort ósammála námuvinnslunni og vinnuaðferðum samtakastjórnarinnar eða er með spurningar – eru að mestu óskyldar fjölskyldur og einstaklingar.

 

Gömlu samningarnir (2008 og 2009)

Það virðist vera óskráð regla hjá samtakastjórn að ef stjórnarmeðlimur er fjölskyldutengdur máli sem er á dagskrá stjórnarinnar að hann víki af fundi þegar umræða fer fram um málið. Hvort óskráða reglan um að víkja af fundi sökum fjölskyldutengsla nái aðeins til umræðu eða einnig til atkvæðagreiðslunnar sjálfrar veit höfundur ekki.

Þegar gömlu samningarnir voru undirritaðir 2008 og 2009 sátu eftirfarandi í samtakastjórn: Eric Guðmundsson formaður, Sanda Mar Huldudóttir fjármálastjóri/ritari, Björgvin Snorrason, Elías Theodórsson, Björgvin Ibsen, Monette Indahl og Sólveig Hjördís Jónsdóttir. 

Björgvin Snorrason er tengdafaðir Kristins Ólafssonar meðeiganda Edens: Kristinn er kvæntur Cecilie B. Björgvinsdóttur. Björgvin greiddi atkvæði þegar tekin var ákvörðun hvort gera skyldi samningana eða ekki.

 

Aðrir samningar/tilboð

Raufarhólshellir

Samtakastjórn 2016–2019 bárust tilboð frá portúgölskum fjárfesti (sem er aðventisti) um nýtingu Raufarhólshellis og svo síðar um nýtingu Breiðabólstaðar.[1] Viðbrögð Edens og skyldmenna eigenda fyrirtækisins við þessum tilboðum voru ólík þeim sem þessir einstaklingar sýndu þegar það kom að samningum við Edenseigendur sjálfa.

 

Sumarið 2016 var samtakastjórn í samningaviðræðum við Kynnisferðir ehf. (sem Eiríkur hafði haft samband við fyrir hönd KSDA) sem vildu taka Raufarhólshelli á leigu. Eiríkur Ingvarsson var samningafulltrúi KSDA. Viðræður við Kynnisferðir ehf. gengu ekki eftir og þá hófust viðræður í staðinn við Raufarhól ehf. Áður en þeim viðræðum lauk barst KSDA annað tilboð í hellinn frá portúgalska aðventistanum og fjárfestinum Ruben Dias.[2] 

Vert er að bera saman viðskiptatækifærin tvö sem lágu á borði samtakastjórnar.[3] Þau voru að mörgu leyti ólík og því miður hefur ekki verið skrifað almennilega um þessi mál enn. En hægt er að minnast á að Raufarhóll ehf. vildi fá hellinn leigðan til 16 ára (2016–2032) með rétt á framlengingu samnings til 2047; og hægt er að nefna að Ruben vildi t.d. borga tíund á Íslandi, loka hellinum á hvíldardögum og tengja hellisreksturinn við trúboð.[4]  

Mörgum í samtakastjórn leist betur á það tilboð. Þegar sumir í samtakastjórn vildu skoða þetta tilboð frekar þrýstu Eiríkur og tengdafaðir hans Ólafur Kristinsson (sem sat í samtakastjórn) á samtakastjórn að hætta ekki við samningaviðræðurnar við Raufarhól ehf. Eiríkur sagði að KSDA myndi eiga á hættu að vera lögsótt[5] og Ólafur sagði að það væri siðlaust að ljúka ekki samningaviðræðunum.[6] Anna Margrét Þorbjarnardóttir, samtakastjórnarmeðlimur, hafði sjálf samband við lögfræðing sem tjáði henni að ekki væri hægt að lögsækja KSDA fyrir samning sem trúfélagið hefði ekki gert.[7] Samtakastjórn ákvað að semja við Raufarhól ehf. Anna Margrét og Sólveig Hjördís Jónsdóttir samtakastjórnarmeðlimir létu bóka mótmæli sín gegn þeirri ákvörðun stjórnar að taka sér ekki tíma í að skoða bæði tilboðin í ró áður en ákvörðun væri tekin og að þessi samningur skyldi ekki hafa verið betur kynntur fyrir safnaðarmeðlimum almennt áður en ákvörðun var tekin.[8] 

Núverandi leigufyrirkomulagi verður hinsvegar ekki breytt í bráð því 30. ágúst 2022 samþykkti samtakastjórn að framlengja samninginn við Raufarhól ehf. til ársins 2047.[9] Einhverra hluta vegna tók Judel Ditta fjármálastjóri þetta ekki fram í skýrslu sinni fyrir aðalfund 2022.

 

Heilsumiðstöðin sem ekki varð

Í desember 2016 hafði Ruben Dias samband við samtakastjórn með aðra viðskiptahugmynd. Hann sá fyrir sér að reisa heilsumiðstöð með manngerðu lóni og hóteli á heiðinni á Breiðabólstað. Starfsemin myndi hafa ruðningsáhrif í starfsemi KSDA: Starfsfólk væri aðventistar frá öðrum löndum sem með komu sinni myndu efla starfið hérlendis og starfsemi miðstöðvarinnar félli beint að markmiði og starfsemi Aðventkirkjunnar (en heilbrigðismál eru hluti af starfi Aðventkirkjunnar á heimsvísu). 

Á öndverðu ári 2018 voru haldnir tveir aukaaaðalfundir þar sem samtakastjórn kynnti samningaviðræður sínar við Dias og fyrirhugaðar framkvæmdir. Ólafur Kristinsson (sem þá var búinn að segja sig úr samtakastjórn) og Eiríkur Ingvarsson mótmæltu fyrirhuguðum framkvæmdum harðlega og sögðu að samtakastjórn væri ekki fær um að taka slíkar ákvarðanir sjálf. Tillaga um að skipa samningaviðræðunefnd var samþykkt að vissu leyti en samtakastjórn hélt áfram samningaviðræðunum sjálf.[10] Þær runnu hinsvegar út í sandinn. Að sögn Rubens Dias – sem skrifaði samtakastjórn bréf um málið – var það m.a. vegna þess að fáeinir safnaðarmeðlimir töluðu gegn verkefninu við sveitastjórn Ölfuss og töfðu allt ferlið þar til fjárfestarnir töldu að þessi mótspyrna væri ógn við verkefnið og sáu sig tilneydda til að hætta við.[11] 

Með þessu virðast eigendur Edens hafa barist gegn samningum sem samtakastjórn vildi gera sem voru ekki við þá sjálfa eða í gegnum þeirra tengslanet.

 

Nýi samningurinn (2022)

Þegar nýi samningurinn við Eden var undirritaður í janúar 2022 voru fjölskyldutengsl meðlima samtakastjórnar (2019–2023) við eigendur Edens enn sterkari en þegar gömlu samningarnir voru undirritaðir. Í þeirri samtakastjórn sátu: Gavin Anthony formaður, Þóra Sigríður Jónsdóttir aðalritari, Judel Ditta fjármálastjóri, Njörður Ólason, Sandra Mar Huldudóttir, Signý Harpa Hjartardóttir og Örn Jónsson.  

  • Gavin Anthony er kvæntur Þorbjörgu frænku Cecilie, eiginkonu Kristins sem á Eden. Mæður Þorbjargar og Cecilie eru systurnar Anna Jóna og Ásta

  • Örn og Cecilie eru systkinabörn. Móðir Arnar (Anna) og faðir Cecilie (Björgvin) eru systkini

  • Gavin og Örn, þeir stjórnarmenn sem eru tengdir Kristni eiganda Edens fjölskylduböndum, eru einnig tengdir innbyrðis. Helga, systir Þorbjargar eiginkonu Gavins, er gift Helga, bróður Arnar

  • Njörður vinnur fyrir Björgun sem er dótturfélag Hornsteins. Samningur KSDA við Eden byggir á samstarfi Edens við Hornstein/Heidelberg Materials 

Núverandi samtakastjórnarmeðlimir eru sjö. Þar af eru tveir tengdir eigendum Edens fjölskylduböndum (Gavin og Örn) og þriðji (Njörður) vinnur fyrir fyrirtæki sem tengist Eden viðskiptalega óbeint. Hvernig getur þetta talist réttmætt að svona lítill hópur, sem er tengdur Eden að miklu leyti, ákveði einhliða að veita Eden aðgang að dýrmætustu auðlind trúfélagsins?

 

Aðalfundur 2022

Í fundargögnum aðalfundar 2022 var það nýnæmi að þar er að finna sérstaka skýrslu um námureksturinn. Þar lagði samtakastjórn fram þá tillögu fyrir fulltrúa aðalfundar að umræðu um námureksturinn yrði hætt. Það er því einkar athyglisvert að líta á hverjir eru fulltrúar aðalfundar 2022 og hversu margir þeirra tengjast samtakastjórnarmeðlimum og eigendum Edens.[12] 

Hver fulltrúi er fulltrúi um tíu safnaðarmeðlima síns safnaðar. Fulltrúar eiga því að vera aðeins um 10% heildarfjölda safnaðarmeðlima samtakanna. Fulltrúum hvers safnaðar ætti því að vera skipt milli hinna ýmsu hópa í þeim söfnuði: bæði konur og karlar, ungir og gamlir, íhaldssamir og frjálslyndir, og úr mismunandi fjölskyldum. Slíka dreifingu er að sjá hjá Hafnarfirði, Árnesi, Keflavík og Vestmannaeyjum. Fæstir fulltrúar eru skyldir innbyrðis í þessum söfnuðum og koma flestir frá mismunandi fjölskyldum. 

Dreifðir eiga rétt á fimm fulltrúum en fengu hinsvegar aðeins þrjá á aðalfundinn 2022. Af þessum þremur eru tveir hjón. Dreifðir báðu um breiðari dreifingu fulltrúa og að fá fimm fulltrúa í stað þriggja en þessu synjaði samtakastjórn og neitaði að gefa upp ástæðuna.[13] Á það má benda að dreifðir báðu t.d. um að Sólveig Hjördís yrði fulltrúi – en hún var meðal þeirra sem skrifuðu undir opna bréfið 5. des. 2021. 

Þegar það kemur að Reykjavíkursöfnuði er hinsvegar myndin og dreifing fulltrúa allt önnur. Eiríkur og eiginkona hans eru fulltrúar. Og af 15 fulltrúum eru sex úr sömu fjölskyldunni sem tengist Þóru aðalritara (Freyja Rut, Harald, Heba, Indro, Leó Blær, Marina). Hér gefur að líta tengslin:

Þessir sex fulltrúar eru fulltrúar 60 manns. Hvers vegna eru fulltrúar 60 manns valdir allir úr sömu fjölskyldunni? Var ekki hægt að velja neinn annan úr hinum 54 sem voru ekki í fjölskyldunni? Annaðhvort er hér um mikla mismunun að ræða þar sem ein fjölskylda fær svona marga fulltrúa. Eða hér er um að ræða þá staðreynd að hinir 54 eru bara „nöfn á bókunum“ – en ef um slíkt er að ræða væri auðvitað heiðarlegt að endurskoða safnaðarskrána svo hún endurspegli raunverulega þátttöku í safnaðarstarfinu og gefi þannig söfnuðinum ekki óeðlilega mikið fulltrúavald. 

Það er einnig hægt að benda á tengingar fundarstjóranna tveggja við námumálið en þeir voru Helgi Jónsson og Brynjar Ólafsson. 

Helgi Jónsson og eiginkona Kristins Ólafssonar meðeiganda Edens eru frændsystkini. Helgi var kosinn annar fundarstjóra aðalfundar 2022 þar sem námumálið var í brennidepli. 

Brynjar Ólafsson er bróðir Kristins Ólafssonar meðeigenda Edens og mágur Eiríks Ingvarssonar, meðeiganda Edens. Brynjar er formaður nefndar um nýtingu Breiðabólsstaðar (2021–?) sem nýtti sér mikið af hugmyndum Eiríks Ingvarssonar meðeiganda Edens.[14] Brynjar kynnti skýrslu nefndarinnar fyrir aðalfundarfulltrúum í september 2022 og þrýsti á að það yrði að koma sumu í gegn svo hratt og mögulegt væri, það lægi svo mikið á að grípa viss viðskiptatækifæri. Brynjar var einnig kosinn annar fundarstjóra aðalfundar 2022 þar sem námumálið var í brennidepli.

 

Niðurstaða

Svo virðist vera sem fulltrúakjör hafi verið óvanalegt árið 2022:

  1. Dreifðir fengu aðeins 3 fulltrúa í stað 5 (þeir sem hefðu getað komið sem fulltrúar eru þekktir fyrir gagnrýni sína í námumálinu)

  2. Reykjavíkursöfnuður gerði bæði Eirík og konu hans að fulltrúum ásamt sex öðrum safnaðarmeðlimum sem tengjast fjölskylduböndum innbyrðis og við Þóru aðalritara og hafa því þrengri dreifingu meðal fulltrúa sinna en hefði getað orðið


[1] Fyrir þessari atburðarrás um þessi tvö viðskiptatækifæri eru meðlimir samtakastjórnar 2016–2019 vitni, sem og allir sem sóttu aukaaðalfundinn 2018 og óbirtar fundargerðir frá þessum árum staðfesta hana einnig.

[2] Ruben Dias er varaformaður samskipta (Vice President for Communication) hjá aðventistaleikmannasamtökunum Adventist Laymen’s Services and Industries (ASI). „ASI Officers“, ASIMinistries.org, https://asiministries.org/about-asi/officers-board/.

[3] Það gefst ekki tími og tækifæri hér til að gera þessu eins góð skil og þarf og vonandi verður bráðum skrifað um þetta málefni svo það sé útskýrt í heild sinni fyrir safnaðarmeðlimum.

[4] Ruben Dias, tölvupóstar til samtakastjórnar, 30. maí og 23. júní 2016. Samtakastjórnarmeðlimir (2016–2019) eru þessu einnig til vitnis, sem og Ruben Dias sjálfur.

[5] Samtakastjórn, bókun 2016/160, 29. júní 2016.

[6] Þessu til vitnis eru samtakastjórnarmeðlimir (2016–2019).

[7] „Fram kom hjá Önnu Margréti Þorbjarnardóttur að hún hafi haft samband við lögmann um það hvort Kirkjan geti fengið á sig lögsókn af sömu ástæðum. Svar hennar lögmanns var afdráttarlaust, að ekki væri hægt að lögsækja einhvern fyrir það að undirrita ekki samning.“ Samtakastjórn, bókun 2016/160, 29. júní 2016.

[8] Samtakastjórn, samþykkt 2016/165, 30. júní 2016.

[9] Samtakastjórn, samþykkt 2022/86, 30. ágúst 2022.

[10] Fyrir atburðarás aukaaðalfundanna tveggja, sjá fundargerðir þeirra.

[11] „Það voru nokkrar ástæður og á vissan hátt margslungin mál sem leiddu til þessar erfiðu ákvörðunar. Helsta atriðið er að við komumst að þeirri niðurstöðu að íslensk menning og viðskiptaumhverfi er um margt einstök og frábrugðin því sem fjárfestahópurinn treystir sér til að eiga við. Það hvernig viðskipti eru almennt framkvæmd á Íslandi, félagslegar væntingar, og hinir einstöku og flóknu samskiptahættir innan kirkjunnar hér voru úrslitaatriði sem vógu þungt í ákvörðun okkar.

Það voru nokkrir þættir og atvik sem gerðu fjárfestahópnum mjög erfitt að halda einbeitingu og tiltrú á getu sína til framkvæmda í slíku viðskiptaumhverfi. Á þessum 2 árum fundum við að það var ávallt til staðar andstöðu-vígi meðlima innan kirkjunnar, þótt þeir væru reyndar fáir, sem vildu til hins ýtrasta sjá verkefnið misfarast. Þetta varð jafnvel enn ljósara meðan á áreiðanleikakönnun stóð.

Í samtölum okkar við viðkomandi sveitarstjórn var okkur tjáð að ákveðnir kirkjumeðlimir stunduðu það að hunsa framtak okkar og stefna því í hættu með því að reyna að hafa neikvæð áhrif á sveitarstjórnina gagnvart fyrirætlunum okkar. Þessi stöðuga ógn vó þungt í áhættumatinu.“ Ruben Dias, bréf til samtakastjórnar, 30. júní 2019, í fundargögnum aðalfundar 2019, bls. 69–70.

[12] Fulltrúaskrá er að finna í fundargögnum fyrir aðalfund 2022, bls. 16.

[13] Sjá samskipti dreifðra við stjórnendur og samtakastjórn, t.d. Jón Hjörleifur Stefánsson, tölvupóstur til samtakastjórnar, 2. september 2022; dreifðir á Akureyri, tölvupóstur til samtakastjórnar, 4. september 2022.

[14] Skýrsla nefndar um nýtingu Breiðabólsstaðar, nóvember 2021, bls. 5–6. Aðrir nefndarmenn voru: Judel Ditta fjármálastjóri, Indro Candi, Sandra Mar Huldudóttir, Steinþór Jónsson og Audrey Anderson fulltrúi Stór-Evrópudeildarinnar. Fyrir utan starfsmenn og fyrrum starfsmenn voru því tveir af þremur leikmönnunum úr fjölskyldublokkunum tveimur sem hafa verið svo framarlega í námumálinu.

Ólíkt öllum öðrum nefndarskýrslum hefur núverandi samtakastjórn séð sér ástæðu til að hafa beinan link inn á skýrsluna í hinum vikulegu Kirkjufréttum frá því að skýrslu var skilað til 30. september 2022.