UMBOÐ OG STARFSHÆTTIR

Undanfarið ár hafa meðlimir komið á framfæri við stjórnina þó nokkrum áhyggjum [um námumálið] og við höfum unnið hörðum höndum að því að bregðast við þeim.        

       –  Samtakastjórn, opið bréf, 16. mars 2022, bls. 3.

 

Samtakastjórn er lýðræðislega kjörin af fulltrúum allra safnaða á aðalfundi á þriggja ára fresti og sér um stjórnsýslu trúfélagsins í umboði aðalfundar.[1] Aðventistar trúa því ekki að stjórnendur sínir, hvort sem þeir eru vígðir prestar eða ekki, séu á einhvern hátt æðri en leikmenn eða hafi einhvern guð-gefinn rétt til stöðu sinnar. Stjórnsýsla eða yfirvöld aðventista eru lýðræðislega kosin og fá vald sitt tímabundið frá fólkinu. Og þótt við biðjum Guð um að leiða trúfélagið okkar þýðir það enganveginn að allir sem séu í stjórnarstörfum séu best til þess fallnir eða valdir af Guði. Að halda slíku fram er einfaldlega ekki í samræmi við guðfræði aðventista eða túlkun þeirra á Biblíunni.  

Umboð samtakastjórnar merkir að hún er ábyrg gagnvart söfnuðinum því hún starfar í umboði hans, með hans leyfi, og fer með hagsmuni hans. Þessi ábyrgð merkir því að samtakastjórn þjónustar, upplýsir og samstarfar með söfnuðinum. Hún veitir söfnuðinum upplýsingar um hvað hún er að gera því hún starfar á hans vegum og í hans umboði. Hún þjónustar söfnuðinn því það er hann sem velur hana til stjórnar til að fara með hagsmuni sína. Og hún starfar með söfnuðinum en ekki í stað hans. Eins og guðfræðingar hafa kallað það, samtakastjórn ber að leiða með því að þjóna (servant leadership). 

Í námumálinu hefur komið í ljós að samtakastjórn lítur umboð sitt öðrum augum. Hún virðist telja:

  1. að hún þurfi ekki að vera í samráði við söfnuðinn í heild þegar það kemur að stórum hagsmunaákvörðunum,

  2. að henni beri ekki að upplýsa söfnuðinn mikið um starf sitt og

  3. hún virðist líta á fyrirspurnir og gagnrýni sem ókristilega og óásættanlega hegðun.  

Þetta viðhorf er skiljanlegt ef samtakastjórn telur sig vera á einhvern hátt æðri leikmönnum – en þetta viðhorf er hinsvegar ekki í samræmi við lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag og guðfræði aðventista. Hér verður litið á hvern þátt fyrir sig.

 

Hagsmunir

Þegar spurningar og athugasemdir vöknuðu vegna gömlu samninganna frá 2008 og 2009 og framkvæmd þeirra þá sýndi samtakastjórn það í verki að hún hafði einfaldlega ekki vilja til að útskýra málið fyrir safnaðarmeðlimum. Samtakastjórn lét safnaðarmeðlimi ekki vita af því að hún ætti í nýjum samingaviðræðum við Eden (snemma árs 2021 til janúar 2022) og gerði nýjan langtímasamning við fyrirtækið þrátt fyrir að hún vissi að það væri óánægja með Eden vegna óupplýstra spurninga um þáverandi samninga. Nýi samningurinn virðist vera í bága við 18. lagagrein samþykkta KSDA sem segir að samtakastjórn beri að leggja stórar fjárhagslegar ákvarðanir um hagsmuni KSDA fyrir (auka)aðalfund.[2] Með þessu sýndi samtakastjórn að hún taldi ekki nauðsynlegt að söfnuðurinn í heild tæki slíka ákvörðun. Hún taldi sig hafa umboð til þess að taka slíka ákvörðun sjálf þó lögin virðist segja að svo væri ekki. 

Á það má líka benda að samtakastjórn virðist ekki hafa gætt hagsmuna KSDA undir gömlu samningunum, m.a.s. þegar hún gat það. Samningnum frá 2009 var ekki rift þegar ekkert varð úr upprunalegu söluhugmyndinni (en 9. grein leyfði riftun í því tilfelli). Samtakastjórn lét KSDA borga umhverfismat þó samningurinn kvæði á um að Eden ætti að borga það.[3] Þegar Eden greiddi KSDA ekki á réttum tíma virðist samtakastjórn ekki hafa nýtt sér ákvæði í 7. grein en samkvæmt henni átti Eden að borga dráttarvexti og að fá skriflega viðvörun frá samtakastjórn – og ef henni var ekki sinnt hefði samtakastjórn getað rift samningnum. Alltaf þegar eitthvað kom upp þar sem Eden virðist hafa gert á hlut KSDA beitti samtakastjórn sér ekki til að rétta hlut trúfélagsins – heldur virðist hafa verið Edenmegin í öllum sínum aðgerðum. Hvers vegna?

 

Upplýsingagjöf

Þrátt fyrir að einstaka meðlimir hefðu farið að spyrja um námumálið fyrir nokkrum árum og þrátt fyrir að beiðnin um upplýsingar hafi orðið síháværari hefur samtakastjórn enn sem komið er ekki svarað neinni stórri spurningu efnislega og upplýsingaferlið hefur verið seinlegt og ruglingslegt. Hér gefst aðeins svigrúm til að ræða hvern þessara þátta í stuttu máli.

 

Svör samtakastjórnar

Samtakastjórn barst opið bréf 5. des. 2021. Hún svaraði ekki bréfhöfundum. Þess í stað senti hún safnaðarstjórnum opið bréf 16. mars 2022 – þrem mánuðum seinna – en í því benti hún aðeins á nokkra þætti opna bréfsins og svaraði þeim ekki efnislega. Þegar samtakastjórn barst beiðni um að halda opinn upplýsingafund um námumálið með 61 undirskrift ákvað hún að halda upplýsingafund með safnaðarstjórnum. Þessi fundur var haldinn 24. maí 2022 þegar GCAS-skýrslan var kynnt. Safnaðarstjórnir voru beðnar um að senda spurningar sínar um námumálið til samtakastjórnar fyrir fundinn. Þó voru þessar spurningar ekki teknar fyrir á fundinum. Og GCAS-skýrslan, sem samtakastjórn hafði talað um sem endanlegan úrskurð og útskýringu í námumálinu, tók ekki einu sinni fyrir lögfræðilegu hlið málsins. Í námuskýrslu sinni sem var lögð fyrir aðalfundarfulltrúa í fundargögnum þeirra voru þeir beðnir um að samþykkja tillögu þess efnis að spurningum yrði ekki svarað og málið ekki lengur rætt. Safnaðarmeðlimir hafa því ekki fengið efnisleg svör frá samtakastjórn um námumálið.

 

Seinlegt ferli

Samtakastjórn gerði Kristjáni Ara Sigurðssyni örðugt um að halda áfram rannsókn sinni þrátt fyrir að hann reyndi að halda henni áfram í mörg ár með því að biðja um tilheyrandi upplýsingar o.s.frv. Safnaðarmeðlimir höfðu talað við stjórnendur og samtakastjórn í mörg ár en því var ekki sinnt. Það var ekki fyrr en um vorið 2021 að samtakastjórn ákvað að biðja GCAS um rannsókn – en hrinti beiðninni ekki endanlega í verk fyrr en í október, hálfu ári seinna. Samtakastjórn barst opið bréf 5. des 2021. Í janúar 2022 fundaði safnaðarstjórn Hafnarfjarðar og Gavin Anthony formaður sat fundinn. Safnaðarstjórnin spurði hann útí námumálið en formaður sagðist ekki geta talað um málið fyrr en GCAS lyki rannsókn sinni. GCAS-skýrslan var síðan kynnt fjórum mánuðum seinna – og þá kom í ljós að hún svaraði spurningum safnaðarmeðlima enganveginn, tók ekki einusinni málið í heild sinni fyrir. Á GCAS-fundinum studdi meirihluti safnaðarstjórna þann möguleika að samtakastjórn héldi annan upplýsingafund um málið. Samtakastjórn kaus að halda engan slíkan fund og lagði fram tillögu fyrir aðalfund 2022 að safnaðarmeðlimir hættu að ræða námumálið með öllu.

 

Misvísandi yfirlýsingar og aðgerðir

Tregða samtakastjórnar á að veita upplýsingar hefur líka komið fram í ósamræmi hennar eigin aðgerða, eins og hvaðeina sé notað til að afsaka það að veita ekki upplýsingar og draga hlutina á langinn. Hér má t.d. benda á það að aðalfundi var frestað vegna þess að samtakastjórn taldi það ómögulegt að halda hann áður en námumálið yrði til lykta leitt. Samtakastjórn hélt síðan einn fund með safnaðarstjórnum um málið. Safnaðarstjórnum fannst hann ónægur þar sem spurningar safnaðarstjórna voru ekki teknar fyrir á þeim fundi. Meirihluti þeirra bað um annan fund – en hann hefur ekki verið haldinn. Námuskýrsla samtakastjórnar sem var í fundargögnum fulltrúa fyrir aðalfund 2022 sýndi að samtakastjórn taldi vel mögulegt að halda aðalfund án þess að gera upp námumálið.

 

Álit samtakastjórnar á fyrirspurnum og ábendingum

Skoðun samtakastjórnar á stöðu sinni hefur líka komið fram í því hvaða augum hún hefur litið gagnrýnina og fyrirspurnir. 

Samtakastjórn hefur talað um fyrirspurnir og athugasemdir eins og slíkt sé bókstaflega ókristilegt og eigi engan rétt á sér. Í opna bréfinu sínu 16. mars 2022 segir samtakastjórn að fyrirspyrjendur námumálsins hafi valdið „miklum persónulegum sársauka“ innan safnaðarins, valdið „vanvirðingu fyrir Guð og kirkju hans“ og séu að berjast við aðra safnaðarmeðlimi.[4] Samtakastjórn tók þessa skoðun einnig sterklega fram í námuskýrslunni sinni fyrir aðalfund 2022. Þar er sagt að umræðan um námumálið leiði af sér „skaða fyrir kirkjufjölskylduna okkar“ og „opinbera vanvirðingu við Guð“ og feli í sér „alvarlegar ásakanir“ sem hafi sært marga safnaðarmeðlimi.[5] Í Kirkjufréttum 6. janúar 2023 líktu stjórnendur KSDA gagnrýnum safnaðarmeðlimum við óvini Gyðinga á dögum Nehemía og sögðu opin bréf þeirra vera „stefnu Satans“ og ósvaraverðan rógburð.[6] 

Í öðru lagi hefur samtakastjórn gert lítið úr röddum fyrirspyrjenda og reynt að láta líta út eins og um sé að ræða aðeins nokkrar leiðindaraddir sem tali um málið en meirihlutinn sé sáttur við námumálið og allt sé í góðu lagi. Með því hefur samtakastjórn hreinlega reynt að gaslýsa safnaðarmeðlimi. Hér verður aðeins bent á nokkur dæmi:

  • Málið í heild: Á GCAS-fundinum 24. maí 2022 fullyrti formaður að fyrirspurnir hefðu hafist fyrir einu ári og gerði þannig ekkert úr spurningum og athugasemdum allra sem hafa talað um málið núna í mörg ár. Í viðtali við Vísi sagði Gavin Anthony formaður að gagnrýnin innan safnaðarins væri einungis „efasemdaraddir nokkurra safnaðarmeðlima“[7] – þrátt fyrir að 61 manns hefðu skrifað undir undirskriftalista þar sem samtakastjórn var beðinn um að halda upplýsingafund um námumálið og að fjórar af fimm safnaðarstjórnum hafi beðið um samskonar fund eftir GCAS-fundinn. Staðhæfing formanns var endurtekin í yfirlýsingu samtakastjórnar í Hafnarfréttum 27. janúar 2023[8]

  • Opna bréfið: Í bréfi til Jóns Hjörleifs Stefánssonar 1. ágúst skrifar aðalritari að Jón Hjörleifur hafi verið höfuðpaurinn á bak við opna bréfið og gerir þannig lítið úr hinum undirskriftunum og segir enn fremur að hinir séu aðeins „örfáir safnaðarmeðlimir“[9]

  • Undirskriftalistinn: Stjórnendur hafa sagt í persónulegum samtölum að ekkert hafi verið að marka undirskriftalistann og fullyrtu að fólk hafi verið blekkt til að skrifa undir hann. Þannig gerðu þeir lítið úr því að 61 manns – sem er há tala í samfélagi þar sem liðlega 100 manns eru virkir og reglulegir kirkjugestir – hafi skrifað undir

  • Beiðni safnaðarstjórna um annan fund: Á GCAS-fundinum lýsti aðalritari undrun sinni á því að meirihluti safnaðarstjórna skyldi hafa kosið með því að halda annan fund. Hún hafði talið að GCAS-skýrslan myndi nægja til að ljúka málinu. Þetta var sagt þrátt fyrir að innsendum spurningum safnaðarstjórna hafi ekki verið svarað á fundinum

  • Nýi samningurinn: Í yfirlýsingu sinni í Hafnarfréttum 27. janúar 2023 staðhæfði samtakastjórn að „einstök samningsatriði“ væru „trúnaðarmál“.[10] Staðreyndin er hinsvegar sú að allar fjárhagslegar upplýsingar samningsins eru leynilegar fyrir utan 15 milljóna króna árlega lágmarksborgunin sem Eden þarf að greiða burtséð frá magni efnistöku[11] 

Það væri þess virði að ræða hvað felst í umboði samtakastjórnar á opinberum vettvangi innan KSDA svo gengið sé úr skugga um að þar séu allir á sama máli.



[1] „[Samtaka]stjórnin fer með málefni Kirkjunnar milli aðalfunda í samræmi við samþykktir hennar og ákvarðanir aðalfundar og fer með umboð aðalfundarins milli aðalfunda.“ Samþykktir KSDA, 14. gr. 2.

[2] Sjá kaflann „Meint brot 18. greinar“.

[3] Upphæðin var 6 648 066 kr. á þeim tíma og samsvarar um 10 milljónum í dag. Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla, „Tillaga að framtíðarsýn Kirkjunnar varðandi Hlíðardalsskólaeignina“, bls. 3. KSDA borgaði Eden sennilega tiltölulega stuttu eftir að samningurinn við Eden var gerður 2009.

[4] Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022, bls. 4.

[5] Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, bls. 84.

[6] „Þegar við byrjum þetta nýja ár saman er hér spurning til að spyrja okkur: hver er fyrsta skylda okkar sem Guð hefur lagt fyrir okkur á Íslandi árið 2023? …

Þegar Sanballat og bandamenn hans komust að því að Nehemía hafði lokið við að endurreisa múra Jerúsalem, beindu þeir athygli sinni að því að eyðileggja verk þeirra [gyðinga] sem eftir voru. Fyrst reyndu þeir að lokka Nehemía burt frá starfi sínu til að hitta þá á Ono-sléttunni þar sem þeir ætluðu að meiða hann (Nehemía 6.1-2). Þegar það virkaði ekki skrifuðu þeir opið bréf sem innihélt alvarlegar rangar ásakanir á hendur Nehemía persónulega sem ætlaðar voru til að leka til allra gyðinga og letja þá (Nehemía 6.5-9). …

Óvinur fólks Guðs reyndi að nota ótta og kjarkleysi til að spilla verki Guðs. …

Svo þegar við göngum inn í 2023, þá er ábyrgð okkar að halda þessum fókus og láta ekki trufla okkur af stefnu Satans. Ellen White tjáir sig um árásirnar á Nehemía: ,Ítrekaðar beiðnir [beiðnir] munu koma inn til að kalla okkur frá skyldu; en eins og Nehemía ættum við að svara staðfastlega: „Ég er að vinna mikið verk, svo að ég kemst ekki niður. Við höfum engan tíma til að leita á náðir heimsins, eða jafnvel til að verjast rangfærslum þeirra og rógburði. Við höfum engan tíma að missa í sjálfsuppgjöri. Við ættum að halda stöðugt áfram í starfi okkar og láta það hrekja lygarnar sem illgirni kann að valda okkur til skaða. Rógorð mun margfaldast ef við stoppum til að svara þeim.‘“ Gavin Anthony formaður, Þóra Sigríður Jónsdóttir aðalritari og Judel Ditta fjármálastjóri, Kirkjufréttir, 6. janúar 2023. Vanalega er aðeins nafn formanns undir hugvekjupistli fréttabréfsins en óvant þeirri venju skrifuðu allir þrír stjórnendur undir í þetta skiptið.

[7] Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista“.

[8] „Innan safnaðarins hafa heyrst efasemdaraddir nokkurra safnaðarmeðlima vegna samningsins.“ Samtakastjórn, „Yfirlýsing frá Kirkju sjöunda dags aðventista“.

[9] „Það segir líka talsvert mikla sögu að þið fenguð einungis örfáa safnaðarmeðlimi til að skrifa undir með ykkur þrátt fyrir að hafa haft samband við marga.“ Þetta er staðleysa því við undirrituð opna bréfsins höfðum ekki samband við aðra til að skrifa undir bréfið. „Þó svo fjórir leikmenn hafi með þér skrifað undir þá virðist bréfið vera eignað þér í allri umræðu.“ Þóra Sigríður Jónsdóttir aðalritari, „Atferli hefur afleiðingar“, þriggja blaðsíðna tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 1. ágúst 2022.

[10] Samtakastjórn, „Yfirlýsing frá Kirkju sjöunda dags aðventista“.

[11] „Kirkjan mun fá að lágmarki kr. 15.000.000 á ári þó engin möl sé tekin úr námunum.“ Stjórnendur, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.