KÆRLEIKUR OG GAGNRÝNI
Ástin hefur hýrar brár
en hendur sundurleitar:
Ein er mjúk en önnur sár
en þó báðar heitar.– Steingrímur Thorsteinsson.
Það er oft sagt að meginkjarni kristindómsins sé kærleikur – og þetta er sagt með réttu. Um þetta eru margir skýrir ritningarstaðir: Guð er kærleikur (1Jóh 4.18), boðorð hans eru kærleikur (Mrk 12.28–31; Róm 13.9–10), frelsun hans er kærleikur (Jóh 3.16) og að vera kristinn er að vera kærleiksríkur (Jóh 13.35).
Tvær hliðar kærleikans
Þar sem kristni snýst um kærleika er grundvallaratriði að hafa sem bestan skilning á því hvað kærleikur felur í sér. Umræðan um kærleikann í sögu kristninnar hefur bent á að þó að kærleikurinn sé alltaf sá sami þá birtist hann á tvo mismunandi aðalvegu vegna þess að við mannfólkið erum svo breytileg. Þessa klassísku guðfræðilegu skoðun krystallar ljóðskáldið vel í vísunni fyrir ofan. Steingrímur segir að ástin sé alltaf falleg (hafi „hýrar brár“ eða blíðan svip) en hvernig hún hagi sér sé margbreytilegt (hún hefur „sundurleitar“ eða ólíkar hendur): Önnur höndin er mjúk en hin er hörð („sár“, þ.e. hún særir mann). En báðar hendurnar tilheyra samt sama kærleikanum (eru „báðar heitar“ eða hlýjar af kærleika) þó önnur virðist ekki vera það.
Þegar maður flettir Biblíunni í gegn er óumflýjanlegt að sjá hörðu hlið kærleikans samofna hinni mjúku í gegnum alla bókina. Það er líka hægt að sjá af hverju þessi hlið er jafnnauðsynleg hinni mjúku. Mannfólkið er syndugt og þar sem Guð vill hjálpa því þarf hann að leiðrétta það, gagnrýna það, vara það við, ávíta það og jafnvel hirta það.
Nú gæti einhver sagt: „Þau sem tóku að sér slíka alvarlega ábyrgð voru helgir menn og konur, ættfeður, spámenn, konungar og postular og Sonur Guðs. Þetta er ekki okkar hlutverk í dag gagnvart öðru fólki.“ En ef enginn þessara er fyrirmynd okkar þá er lítið eftir af fyrirmyndum í Biblíunni handa okkur venjulega fólkinu því Biblían er um þessar sögupersónur. Biblían segir að þær séu okkur til fyrirmyndar í öllu því góða sem þær gerðu og víti til varnaðar í öllu því slæma sem þær gerðu (Heb 12; 1Kor 10; 1Pt 2.9). Það er síðan tekið fram beint að kristileg breytni felur líka í sér hörðu hlið kærleikans (3Mós 19.17; Okv 27.6; Mt 18.15–17; Lúk 17.3; 2Þess 2.15; 1Tím 5.10; 2Tím 4.2; Opb 3.19).
Þegar við aðventistar kennum kirkjusögu segjum við að fólk hafi líka þurft að beita hörðu hlið kærleikans. Siðbótarmennirnir og -konurnar sem vildu stuðla að framförum þurftu oft að gagnrýna kirkjuna á sínum tíma. Við aðventistar teljum okkur vera í sömu stöðu – til að kenna sumt sem við vitum (t.d. hvað fjórða boðorðið felur í sér) þurfum við líka að benda á það sem miður er (beint og óbeint).
Sem aðventistar kennum við að kirkjan okkar sé ekki hafin yfir þetta mynstur sögunnar, þ.e. þörfina fyrir gagnrýni. Við kennum bókstaflega að kirkjan okkar sé breysk, að Laódíkeubréfið (Opb 3) sé skrifað til okkar – og sérstaklega til prestanna (bréfið er stílað á „engil“ safnaðarins í Laódíkeu, þ.e. á prestana).
Umræða samtakastjórnar um kærleika í tengslum við námumálið
Kristilegur kærleikur hefur mjúka hlið en líka harða hlið. Svo réttmæt og nauðsynleg gagnrýni er hluti af kristilegum kærleika. Þetta er gegnumgangandi þema í Biblíunni og í kirkjusögunni og það fram á okkar dag.
Það er því ekki í sjálfu sér rangt eða ókristilegt að gagnrýna Aðventkirkjuna eða stjórnendur hennar. Spurningin er einfaldlega hvort viðkomandi gagnrýni sé réttmæt eða ekki.
Eins og kom fram í inngangi þessarar skýrslu varð námumálið til því samtakastjórn hefur ekki upplýst safnaðarmeðlimi fyllilega um málavöxtu. Safnaðarmeðlimir hafa spurt spurninga – en ekki fengið skýr svör. Eftir því sem þeir kynntu sér málið sjálfir urðu spurningarnar áleitnar og jafnvel að gagnrýnispunktum. Ástæðan fyrir þessum spurningum og punktum er ekki sú að þessir safnaðarmeðlimir séu andvígir samtakastjórn eða vilji ekki frið í söfnuðinum. Þeir hafa aðeins viljað málefnaleg svör og úrlausnir.
Þau hefur samtakastjórn ekki viljað veita: Eins og kemur fram í þessari skýrslu hafnaði samtakastjórn rannsókn Kristjáns Ara Sigurðssonar vorið 2021 á þeim forsendum að hún myndi biðja GCAS þess í stað um rannsókn, bað síðan GCAS ekki um rannsókn fyrr en í október 2021 og dró flestar rannsóknarspurningar sínar til baka. Þegar í ljós kom að GCAS-rannsóknin var takmörkuð sagðist samtakastjórn vera tilbúin í að halda upplýsingafund en ákvað síðan að halda hann ekki þar sem samtakastjórn taldi umræðu vera sársaukafulla og skaðlega fyrir KSDA. Hún lagði síðan fram tillögu þess efnis fyrir aðalfund í september 2022 að fulltrúar samþykktu að hætta allri umræðu um námumálið.
Samtakastjórn hefur því ýtt því á undan sér allt kjörtímabilið sitt að svara spurningum og afsakað þessa hegðun með því að útmála fyrirspyrjendur og gagnrýnisraddir sem ókristilegt og ókærleiksríkt atferli. Hverjar svo sem forsendur slíkrar guðfræði eru er hún röng eins og þessi grein hefur bent á. Samtakastjórn starfar í umboði safnaðarmeðlima og það er réttur þeirra að vita hvað hún gerir. Upplýsingakrafa safnaðarmeðlima er ekki gegn eðli kærleikans heldur samkvæmt því.