TÍMALÍNA

Kaflinn „Saga námumálsins“ rakti sögu „námumálsins“ í grófum dráttum. Þar sem allir næstu kaflar munu vísa til atburðarásarinnar á einn eða annan hátt er gagnlegt fyrir lesandann að hafa skýra tímalínu sér til glöggvunar og tilvísunar.

23. apríl 2008 | Samningur um Litla-Sandfell
Samtakastjórn og Eden skrifa undir samning um námuvinnslu í Litla-Sandfelli[1]

20. maí 2009 | Samningur um Lambafell
Samtakastjórn og Eden skrifa undir samning um námuvinnslu í Lambafelli[2]

24. maí 2009 | Samningar kynntir á aðalfundi
Eftir dagskrá aðalfundar kynnir Eden fyrirhugaða námuvinnslu fyrir fulltrúum og ítrekar hve hagstæð samningakjörin eru fyrir KSDA[3]

maí 2012 | Ný lagagrein samþykkt (í dag nr. 18)
Fulltrúar á aðalfundi samþykkja skýrslu laganefndar og þar með nýja lagagrein sem meinar samtakastjórn að kaupa eða selja eignir trúfélagsins sem heyra ekki undir daglegan rekstur nema í samráði við aðalfund[4]

22. apríl 2015 | Fyrsta formlega gagnrýnin á starfsháttum Edens innan KSDA
Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla skilar skýrslu á aðalfundi. Skýrslan gagnrýnir starfshætti Edens[5]

2017 | Námuvinnsla
Námuvinnsla hefst loksins fyrir alvöru.[6] GT-verktakar sjá um jarðefnatöku og -sölu

2019 | Samtakastjórn hefur rannsókn á Eden
Samtakastjórn (2016–2019) biður Kristján Ara Sigurðsson um að rannsaka Eden í samvinnu við Judel Ditta fjármálastjóra[7]

sumar 2020 | Viðræður við Ölfus
Fyrirtækin Hornsteinn[8] og Heidelberg Materials hefja viðræður við sveitarfélagið Ölfus um mögulegar framkvæmdir í Þorlákshöfn sem tengjast mögulegri efnisvinnslu í Litla-Sandfelli.[9] Safnaðarmeðlimir vita ekkert um þessar viðræður fyrr en verkefnið er kynnt fyrir þeim 1. febrúar 2022.[10]

11. maí 2021 | Samtakastjórn biður GCAS um rannsókn
Samtakastjórn (2019–2023) ákveður að aflýsa rannsókninni sem fyrri samtakastjórn hóf en var aldrei kláruð. Í stað þeirrar rannsóknar ákveður samtakastjórn að biðja GCAS um rannsókn.[11] Beiðnum Kristjáns Ara um að kynna niðurstöður sínar fyrir samtakastjórn er synjað[12]

vor 2021 | Samningaviðræður
Samtakastjórn og Eden hefja leynilegar viðræður um endurnýjun samninga

sumar 2021 | Námuvinnsla
Lambafell ehf. tekur við jarðefnatökunni og -sölunni af GT-verktökum[13]

5. okt. 2021 | Samtakastjórn biður GCAS um rannsókn
Samtakastjórn hafði hætt við GCAS-rannsóknina en ákveður á ný að biðja um rannsókn en nú í mun takmarkaðri mæli. (Sjá samþykkt 92/2021, 5. október 2021)

5. des. 2021 | Opið bréf til samtakastjórnar
Fimm safnaðarmeðlimir senda samtakastjórn opið bréf.[14] Það er einnig sent til allra safnaðarstjórna. Bréfið gagnrýnir samtakastjórn fyrir það hvernig hún hefur haldið utan um námureksturinn og hvetur hana til að rifta samningum við Eden og segja af sér. Bréfið var lesið yfir af lögfræðingi

janúar 2022 | Námuvinnsla
Lambafell ehf. hættir jarðefnatökunni og -sölunni.[15] Námuvinnsla liggur niðri í a.m.k. hálft ár eftir það[16]

18. jan. 2022 | Samningur um Litla-Sandfell og Lambafell
Samtakastjórn og Eden skrifa undir nýjan samning um námuvinnslu í fellunum tveimur.[17] Samningurinn er að hluta til leynilegur ólíkt fyrri samningum

1. febrúar 2022 | Samningur kynntur
Samtakastjórn tilkynnir nýja samninginn í Kirkjufréttum[18]

10. febrúar 2022 | Samtakastjórn ákveður að skrifa bréf
Samtakastjórn ákveður að bregðast við gagnrýni á námureksturinn, m.a. með því að skrifa bréf til Jóns Hjörleifs Stefánssonar og safnaðarstjórna.[19] Jóni Hjörleifi er ekki skrifað, sennilega vegna þess að í staðinn eru allir sem undirrituðu opna bréfið (og fleiri til) boðaðir á fund, einn í einu (ekki saman sem hópur)

25. febrúar 2022 | Greinar í Samantektinni
Samantektin birtir tvær greinar um námumálið. Önnur er eftir Jón Hjörleif Stefánsson og hin eftir Guðna Kristjánsson[20]

2. mars 2022 | Samtakastjórn boðar gagnrýnendur til funda
Stjórnendur senda tíu af þeim sem hafa gagnrýnt námureksturinn fundarboð í tölvupósti.[21] Vegna lítils fyrirvara, orðalags boðsins, afboðun sumra og skipulagsleysis af hálfu samtakastjórnar verður varla af neinum fundum

14. mars 2022 | Opið bréf Edens
Eden sendir út yfirlýsingu sem viðbrögð við opna bréfinu og annarri gagnrýni. Yfirlýsingin hunsar gagnrýni opna bréfsins og hótar gagnrýnendum óbeint lögsókn[22]

16. mars 2022 | Opið bréf samtakastjórnar til safnaðarstjórna
Samtakastjórn sendir út opið bréf til safnaðarstjórna sem viðbrögð við opna bréfinu og ótiltekinni gagnrýni. Yfirlýsingin svarar ekki gagnrýni opna bréfsins efnislega[23]

23. mars 2022 | Undirskriftalisti
Samtakastjórninni berst undirskriftalisti (61 nafn) með beiðni um að halda opinn upplýsingafund um námureksturinn.[24] Í stað þess að verða beint við beiðninni ákveður samtakastjórn að funda með safnaðarstjórnum

1. apríl 2022 | Aðalfundi seinkað vegna námumálsins
Samtakastjórn minnist á GCAS-rannsóknina í Kirkjufréttum í fyrsta skipti, um hálfu ári eftir að hún hófst. Aðalfundi er frestað frá vori til september eða október til að hægt sé að ljúka rannsókninni fyrst[25]

24. maí 2022 | Fundur um GCAS-skýrsluna
Samtakastjórn heldur fund um námumálið með safnaðarstjórnum í Suðurhlíðarstofu. Fulltrúi GCAS-teymis les GCAS-skýrsluna og svarar spurningum varðandi hana. Innsendar spurningar sem samtakastjórn hafði beðið safnaðarstjórnir um að senda sér eru ekki teknar fyrir. Það er greitt atkvæði um hvort safnaðarstjórnir vilji að samtakastjórn haldi annan og opnari fund um námumálið og meirihluti atkvæða er því fylgjandi. Atkvæðagreiðslan er ráðgefandi og samtakastjórn hefur ekki haldið fundinn[26]

7. júní 2022 | Grein í Samantektinni
Samantektin birtir grein um GCAS-fundinn eftir ritstjóra[27]

ágúst 2022 | Fjölmiðlaumræða
Umræða um fyrirhugaðar framkvæmdir í Þorlákshöfn verður sýnilegri í fjölmiðlum og heldur áfram næstu mánuði[28]

ágúst 2022 | Landvernd
Landvernd hefur undirskriftasöfnun á vefsíðu sinni gegn námuvinnslunni og hvetur sveitastjórnir til að hafna námuvinnslu[29]

6. sept. 2022 | Grein í Samantektinni
Samantektin birtir aðra grein um 18. grein samþykkta KSDA eftir Guðna Kristjánsson[30]

7. sept. 2022 | Lögfræðiálit
Samtakastjórn dreifir skýrslu sinni um námumálið í fundargögnum til fulltrúa á aðalfund samtakanna sem haldinn verður 22.–25. september. Í skýrslunni er viðurkennt að lögfræðingur KSDA staðfesti að mögulega hafi Eden framselt eldri samning. Skýrslunni lýkur með tillögu fyrir aðalfund um að hætt verði að ræða námumálið[31]

22. sept. 2022 | Greinar í Samantektinni
Samantektin birtir tvær greinar eftir Jón Hjörleif Stefánsson og eina grein eftir Kristján Ara Sigurðsson um námumálið.[32] Stuttu fyrir birtingu greinar Kristjáns Ara birtist lögfræðiálitstilvitnun hans í Vísi án samráðs við hann.[33] Kristján áréttir þetta í tölvupósti til fulltrúa aðalfundar samdægurs

22.–25. sept. 2022 | Aðalfundur (fyrrihluti)
Námuskýrslu samtakastjórnar er vísað frá og námumálið sett í hendur rannsóknarnefndar á vegum Stór-Evrópudeildarinnar. Skýrslu stjórnarnefndar er frestað til 11. desember en þá verður skýrsla rannsóknarnefndar um námumálið lögð fram fyrir aðalfund og ný samtakastjórn kosin[34]

15. okt. 2022 | Hvíldardagssamvera í Suðurhlíð
Hópur meðlima, aðallega úr Hafnarfjarðar- en einnig úr Reykjavíkursöfnuði fer að hittast í Suðurhlíð á hvíldardögum. Markmiðið er að styrkja skólastarfið en hópurinn er þó ekki auglýstur með þeim hætti í Kirkjufréttum.[35] Margir starfsmenn KSDA sækja samverurnar

15. nóv. 2022 | Fyrsti íbúafundur Heidelberg Materials
Heidelberg Materials heldur kynningarfund um fyrirhugaða verksmiðju fyrir Þorlákshafnaríbúa.[36] Athugasemdir gesta eru að mestu neikvæðar. Ása Berglind Hjálmarsdóttir, bæjarfulltrúi Þorlákshafnar, hefur undirskriftarlista gegn fyrirhuguðum framkvæmdum Heidelbergs á fundinum[37]

24. nóv. 2022 | Seinnihluta aðalfundar seinkað
Daniel Duda formaður Stór-Evrópudeildarinnar tilkynnir í Kirkjufréttum að seinnihluta aðalfundar sem átti að halda 11. des. hafi verið frestað því „vegna óviðráðanlegra aðstæðna“[38] sé rannsóknarskýrslan sem átti að leggja fyrir aðalfund ekki tilbúin

2. janúar 2023 | Stutt yfirlit yfir námumálið
Jón Hjörleifur Stefánsson sendir safnaðarmeðlimum opið bréf, „Stutt yfirlit yfir námumálið“.[39] Hann sendir einnig stjórnendum Stór-Evrópudeildarinnar skjalið. Skjalið var lesið yfir af lögfræðingi

6. janúar 2023 | Kirkjufréttir
Stjórnendur KSDA líkja gagnrýnum safnaðarmeðlimum í námumálinu (og opnum bréfum þeirra) við óvini Gyðinga og opin bréf þeirra á dögum Nehemía og segja gagnrýni þeirra „stefnu Satans“ og ósvaraverðan rógburð[40]

13. janúar 2023 | Námumálið
Jón Hjörleifur Stefánsson gefur út Námumálið, skýrslu um námumálið. Hún var lesin yfir af lögfræðingi áður en henni var dreift. Jón Hjörleifur dreifði henni ásamt endurbættri og leiðréttri útgáfu af skjalinu „Stutt yfirlit yfir námumálið“[41]

síð-janúar 2023 | Skoðanakönnun í Ölfusi
Hringt er í íbúa í Ölfusi og ‏þeir spurðir hvað þeim finnst um fyrirhugaða verksmiðju í Þorlákshöfn. Rætt er um þetta í Facebook-hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn og Ölfusi“. Bæjarstjóri Þorlákshafnar og starfsmaður Hornsteins lýsa því yfir í hópnum að hún sé ekki á vegum sveitastjórnarinnar eða Hornsteins. Nokkrum dögum síðar kemur í ljós að hún var á vegum Heimildarinnar[42]

24. janúar 2023 | Námuskjölin tvö
Jón Hjörleifur Stefánsson skrifar færslu í lokaða Facebook-hópnum „Íbúar í Þorlákshöfn og Ölfusi“ þar sem hann tilkynnir að hann hafi skrifað tvö skjöl um námumálið og býður hverjum sem er í hópnum að fá eintak

27. janúar 2023 | Yfirlýsing samtakastjórnar
Hafnarfréttir birta yfirlýsingu samtakastjórnar varðandi dreifingu Jóns Hjörleifs á námuskjölunum í FB-hóp Ölfuss[43]

30. janúar 2023 | Svarbréf Jóns Hjörleifs Stefánssonar
Hafnarfréttir birta svarbréf Jóns Hjörleifs við yfirlýsingu samtakastjórnar[44]

3. febrúar 2023 | Opið bréf samtakastjórnar til safnaðarleiðtoga og safnaðarmeðlima
Samtakastjórn birtir opið bréf í Kirkjufréttum[45] þar sem hún reyfar málið. Hún tilkynnir m.a. safnaðarmeðlimum að ónafngreindir meðlimir hafi dreift „lygum og villandi upplýsingum“ í fjölmiðla innan lands og utan og hvetur meðlimi til að biðja fyrir einingu. Ekki er útskýrt í hverju lygarnar og villandi upplýsingarnar felast

17. febrúar 2023 | Opið bréf Edens til safnaðarmeðlima
Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson senda safnaðarmeðlimum opið bréf ásamt greinargerð Gísla Guðna Halls lögfræðings þeirra um framsal frá 2022.[46] Gísli kemst að þeirri niðurstöðu að framsal hafi ekki átt sér stað. Eiríkur og Kristinn leitast við að svara ýmsum gagnrýnispunktum safnaðarmeðlima en sjaldan vitnað í heimildir. Eiríkur og Kristinn fjalla sérstaklega um aðkomu Jóns Hjörleifs Stefánssonar og Kristjáns Ara Sigurðssonar og hóta þeim mögulegri lögsókn en minnast einnig á aðra gagnrýna safnaðarmeðlimi. Þeir banna bréfviðtakendum að deila bréfinu til fólks utan safnaðarins

17. febrúar 2023 | Opið bréf Ómars Torfasonar til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima
Ómar Torfason aðalfundarfulltrúi sendir samtakastjórn, safnaðarstjórnum, fulltrúum og safnaðarmeðlimum opið bréf þar sem hann bregst við opnu bréfi Eiríks og Kristins[47]

22. febrúar 2023 | Opið bréf Ómars Torfasonar til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima
Ómar Torfason aðalfundarfulltrúi sendir samtakastjórn, safnaðarstjórnum, fulltrúum og safnaðarmeðlimum opið bréf þar sem hann bregst við opnu bréfi Eiríks og Kristins.[48] Steinunn Theodórsdóttir og Ólafur Kristinsson, sem eru einnig aðalfundarfulltrúar, bregðast bæði við bréfinu 1. mars 2023[49]

23. febrúar 2023 | Opið bréf Jóns Hjörleifs Stefánssonar til Eiríks Ingvarssonar og Kristins Ólafssonar
Jón Hjörleifur Stefánsson sendir Eiríki og Kristni opið svarbréf og sendir einnig mörgum safnaðarmeðlimum það[50]

byrjun mars 2023 | Tveir stjórnendur fundar með Deildarstjórnendum varðandi aðalfund
Tveir stjórnendur KSDA funda með stjórnendum Stór-Evrópudeildarinnar og biðja um að fá upplýsingar um hvenær námuskýrsla verði tilbúin og hvenær aðalfundur verði haldinn. Deildarstjórnendur svara því til að aðalfundur verði „örugglega“ haldinn fyrir lok maí.[50a] Deildin staðfestir sennilega ekki þessa dagsetningu og það er sennilega ástæðan fyrir því að safnaðarmeðlimum er aldrei tilkynnt þessi mögulegi fundartími

2. mars 2023 | Opið bréf Ómars Torfasonar til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima
Ómar Torfason sendir opið bréf á n‎ý til að svara Ólafi Kristinssyni[51]

14. mars 2023 | Undirskriftalisti fulltrúa
25 fulltrúar og 22 aðrir safnaðarmeðlimir senda Stór-Evrópudeildinni mótmæli gegn ólöglegri frestun aðalfundar og beiðni um að Deildin boði seinnihluta aðalfundar hið fyrsta

28. mars 2023 | Svar Deildarinnar við undirskriftalistanum
Ian Sweeney, svæðisritari Deildarinnar, tjáir Guðrúnu Ólafsdóttur fulltrúa að Deildin hafni þessari beiðni[52]

16. maí 2023 | Nýir kaflar í Námumálinu
Jón Hjörleifur Stefánsson sendir safnaðarmeðlimum þrjá nýja kafla í Námumálinu[53]

Síðla maí 2023 | Stór-Evrópudeildin staðfestir áframhaldandi frestun aðalfundar
Á vorfundi Stór-Evrópudeildarinnar eru málefni KSDA á dagskrá. Það er ákveðið að halda áfram settri stefnu, að fresta aðalfundi þar til skýrslan verður tilbúin[53a]

26., 30. maí 2023 | Beiðni um þátttöku í stefnu gegn samtakastjórn
Guðrún Ólafsdóttir og síðan Sólveig Hjördís Jónsdóttir senda mörgum safnaðarmeðlimum beiðni um að taka þátt í því að stefna samtakastjórn fyrir það að hafa brotið 18. grein með undirritun nýja samningsins við Eden[54]

3. júní 2023 | Gavin Anthony formaður biðst afsökunar á því að Deildin hafi seinkað aðalfundi
Gavin Anthony formaður biðst afsökunar í pistli sínum í Kirkjufréttum á því að aðalfundi hafi verið seinkað. Hann segir það ábyrgð Deildarinnar[55]

29. júní 2023 | Þingfesting stefnu
Stefnan er þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur

14. júlí 2023 | Safnaðarmeðlimum er tilkynnt um fyrri stefnuna
Gavin Anthony formaður tilkynnir safnaðarmeðlimum í pistli sínum í Kirkjufréttum að „21 manna hópur“ hafi stefnt „Kirkjunni“[56]

29. ágúst 2023 | Annar íbúafundur Heidelberg Materials
Heidelberg Materials heldur annan íbúafund í Versölum, Þorlákshöfn.[56a]

29. ágúst 2023 | Bréf Erics Guðmundssonar til stefnenda
Eric Guðmundsson, prestur Árnesssafnaðar, sendir stefnendum bréf þar sem hann biður þá um að láta stefnuna niður falla svo sátt náist í KSDA[57]

6. september 2023 | Fyrirtaka dómsmáls
Dómsmál stefnenda gegn samtakastjórnarmeðlimum (E-4060/2023) er tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Báðir málsaðilar leggja fram dómsskjöl. Stefndu leggja fram frávísunarkröfu

28. september 2023 | Ábyrgðarbréf stefnenda til Gavin Anthony
ARTA sendir Gavin Anthony ábyrgðarbréf fyrir hönd stefnenda þar sem fullyrt er að samtakastjórn sé umboðslaus eftir 11. desember 2022 og farið er fram á að hún haldi seinnihluta aðalfundar hið fyrsta. Bréfið berst nokkrum dögum síðar[58]

29. september 2023 | Áfangaskýrsla samtakastjórnar
Samtakastjórn birtir áfangaskýrslu sína í Kirkjufréttum. Þar er tekið fram að Stór-Evrópudeildin hafi greitt atkvæði um það á stjórnarfundi að halda áfram að fresta aðalfundi og að samtakastjórn geti ekkert gert í því. Þar er einnig tekið fram að samtakastjórn fari með fullt framkvæmdarvald eftir fyrrihluta aðalfundar í september 2022. Engin lagarök eða gögn þessu til staðfestingar eru birt[59]

2. október 2023 | Ábyrgðarbréf stefnenda til bæjarstjórnar Ölfuss
ARTA sendir bæjarstjórn Ölfuss ábyrgðar- og trúnaðarbréf fyrir hönd stefnenda þar sem athygli er vakin á því að samtakastjórn sé umboðslaus og hafi því ekki rétt á samningaviðræðum

október 2023 | Beiðni meirihluta safnaðarstjórna um að aðalfundur sé haldinn
Safnaðarstjórnir Árnessafnaðar (6. október), Hafnarfjarðarsafnaðar (24. október) og Reykjavíkursafnaðar (24. apríl) biðja samtakastjórn formlega um að halda seinnihluta 41. aðalfundar sem fyrst. Skv. samþykktum KSDA ber að halda aðalfund ef meirihluti safnaðarstjórna biður um hann.[60] Samtakastjórn svarar ekki beiðnunum

20. október 2023 | Uppfærð áfangaskýrsla samtakastjórnar
Samtakastjórn birtir uppfærða áfangaskýrslu í Kirkjufréttum. Aðeins einni klausu er bætt við sem heitir „Vald stjórnar Kirkjunnar“, þar sem áréttað er að samtakastjórn fari með fullt (og rétt vald) fram að seinnihluta aðalfundar.[61] Með þessu er samtakastjórn sennilega að bregðast við ábyrgðarbréfum stefnenda

27. október 2023 | Samtakastjórn segir upp leigusamningi Hlíðardalssetursins
Samtakastjórn sendir stjórnarmönnum Hlíðardalssetursins ábyrgðarbréf þar sem leigusamningi Setursins er sagt upp með árs fyrirvara. Samtakastjórn tekur fram að ónafngreindur aðili sé tilbúinn að taka Breiðabólstað á leigu og það geti skapað miklar tekjur fyrir KSDA

6. nóvember 2023 | Fyrirtaka dómsmáls
Skipaður dómari frestar málinu til 30. janúar 2024 sökum anna

10. nóv. 2023 | Formaður tilkynnir fyrirhugaðar dagsetningar heimsóknar námunefndar og seinnihluta aðalfundar og staðfestir að fyrri stefna sé gegn KSDA
Gavin Anthony formaður tilkynnir safnaðarmeðlimum að Stór-Evrópudeildin hafi tjáð samtakastjórn að „þeir hyggist hafa fund námunefndarinnar á Íslandi í nóvember með áframhaldandi aðalfundi í janúar 2024“. Á þessum tímapunkti hefur námunefndin ekki verið skipuð og ekki hafið störf[61a]

13. nóvember 2023 | Opið bréf Jóns Hjörleifs Stefánssonar til safnaðarmeðlima
Jón Hjörleifur sendir safnaðarmeðlimum opið bréf. Það er greinaröð um 41. aðalfund KSDA[62]

18. nóvember 2023 | Safnaðarbréf fjögurra einstaklinga flutt ólöglega
Reykjavíkursöfnuður les inn nöfn Steinunnar Theodórsdóttur, Arnar Jónssonar, Helga Jónssonar og Helgu Þorbjarnardóttur. Seinni lestur fer fram 25. nóvember. Þau eru meðlimir í Hafnarfjarðarsöfnuði og hafa farið á samkomur í Suðurhlíðarskóla eftir fyrrihluta aðalfundar. Ekki var rætt við ritara Hafnarfjarðarsafnaðar og því er flutningurinn ólöglegur. Örn er í samtakastjórn og Helgi er annar fundarstjóra 41. aðalfundar. Nokkru seinna eru nöfnin lesin frá Hafnarfirði, þótt í öfugri röð sé

16. janúar 2024 | Stjórnendur KSDA kærðir til Ríkislögreglustjóra fyrir meint auðgunarbrot
ARTA lögmenn, fyrir hönd Ómars Torfasonar, senda Ríkislögreglustjóra kæru á hendur stjórnarmeðlimum fyrir meint auðgunarbrot þar sem þau taka sér laun án þess að hafa umboð til starfa

23. janúar 2024 | Þriðji íbúafundur Heidelberg Materials
Heidelberg Materials heldur þriðja íbúafund kl. 20 í Þorlákshöfn[62a]

29. janúar 2024 | Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vísar kæru frá
Ríkislögreglustjóri sendir kæruna til Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins sem vísar kærunni frá þann 29. janúar 2024

30. janúar 2024 | Fyrirtaka frávísunarkröfu í dómsmálinu
Frávísunarkrafa stefndu er tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jón Hjörleifur Stefánsson og Sólveig Hjördís Jónsdóttir eru gestir í salnum

2. febrúar 2024 | Fréttapistill samtakastjórnar um námumálið og aðalfund
Samtakastjórn birtir fréttapistil um stöðu námumálsins og aðalfundar í Kirkjufréttum.[63] Samtakastjórn segist m.a. vera fús til að svara spurningum um námumálið eftir bestu getu

15. febrúar 2024 | Frávísun kæru til lögreglu áfrýjað til Ríkissaksóknara
Ómar Torfason áfrýjar ákvörðun Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins til Ríkissaksóknara

20. febrúar 2024 | Frávísun dómsmáls og áfrýjun til Landsréttar
Héraðsdómari vísar málinu frá. Stefnendur áfrýja þeim úrskurði til Landsréttar

17. mars 2024 | Fundur samtakastjórnar og Deildarstjórnenda
Samtakastjórn fundar með Deildarstjórnendum til að fá útskýringu á því hvers vegna námunefndin hafi ekki hafið störf og hvað gera skuli í aðalfundarmálum[64]

17. mars 2024 | Undirskriftalisti fulltrúa og annarra meðlima til Deildarinnar
Eric Guðmundsson, ábyrgðarmaður undirskriftalistans, færir Deildarstjórnendum undirskriftalista með 101 undirskrift þar sem Deildin er beðin um að halda seinnihluta aðalfundar snemma í apríl 2024. Deildin svarar ekki

9. apríl 2024 | Staðfesting Landsréttar á frávísun Héraðsdóms
Landsréttur fellst á frávísun Héraðsdóms á málinu

11. apríl 2024 | Fjórði íbúafundur Heidelberg Materials
Fjórði íbúafundur Heidelberg Materials er haldinn kl. 20 í Versölum, Þorlákshöfn[65]

26. apríl 2024 | Pistill samtakastjórnar um námumálið
Samtakastjórn birtir pistil um stöðu námumálsins. Þar kemur fram að Stór-Evrópudeildin telur að hægt verði að halda seinnihluta aðalfundar þann 8. september næstkomandi en að fundurinn verði boðaður þegar nær dregur.[65a] Pistillinn er svo fullur af rangfærslur að ekki er hægt að gera honum skil hér í stuttu máli

10. maí 2024 | Ríkissaksóknari skipar lögreglu að rannsaka skv. kæru
Ríkissaksóknari úrskurðar að lögreglunni beri að rannsaka kæru Ómars Torfasonar um meint auðgunarbrot stjórnenda KSDA

17. maí 2024 | Frestun íbúakosninga Ölfuss
Bæjarstjórn frestar íbúakosningum Ölfuss um mölunarverksmiðju Heidelberg Materials.

17. maí 2024 | Námunefnd hefur störf
Gavin Anthony formaður tilkynnir að viðræður samtakastjórnar séu hafnar við formann námunefndarinnar og að dagsetningar námunefndarfunda og netföng námunefndarmeðlima verði tilkynntar innan skamms[65b]

21. maí 2024 | Fimmti íbúafundur Heidelberg Materials
Fimmti íbúafundur Heidelberg Materials er haldinn kl. 20 í Versölum, Þorlákshöfn[66]

31. maí 2024 | Upplýsingar um námunefnd og störf henna birtar
Námunefndin birtir pistil með yfirliti yfir rannsóknarsvið sitt og aðferðarfræði, nefndarmeðlimi, og að þau bjóði safnaðarmeðlimum að að bóka fundi hjá sér dagana 25.–27. júní næstkomandi.[67]. Upplýsingarnar eru birtar aftur þann 7., 13. og 20. júní 2024.[68]

20. júní 2024 | Önnur stefna tilkynnt fyrir safnaðarmeðlimum
Þóra Sigríður Jónsdóttir aðalritari tilkynnir að KSDA hafi verið stefnt aftur og birtir seinni stefnuna. Hún segir enn óvíst hvaða áhrif stefnan muni hafa á fyrirhugaðan seinnihluta aðalfundar 8. september næstkomandi.[68a]

25.–27. júní 2024 | Námunefndin
Námunefndin fundar á Íslandi

12. júlí 2024 | Sýslumannsmál tilkynnt
Samtakastjórn tilkynnir Sýslumannsmálið fyrir safnaðarmeðlimum en birtir þó aðeins tvö síðustu bréfin frá samskiptum sínum við embættið. Stjórnin segir að þetta gæti mögulega valdið því að seinnihluti aðalfundar verði haldinn þann 4. ágúst næstkomandi en að hún voni þó enn að hann verði haldinn þann 8. september næstkomandi[69]



[1] Samninginn er að finna undir „Heimildir & skjöl“ á þessari vefsíðu.

[2] Samninginn er að finna undir „Heimildir & skjöl“ á þessari vefsíðu.

[3] Að þessu eru fulltrúar á aðalfundi og aðrir fundargestir vitni.

[4] Laganefnd, „Skýrsla laganefndar“, fundargögn fyrir aðalfund 2012, bls. 66. Þegar lagagreinin var samþykkt á aðalfundinum 2012 varð hún að lagagrein nr. 17 en varð síðarmeir og er enn lagagrein nr. 18.

[5] Nefnd um nýtingu og framtíðarsýn Breiðabólstaðar og Hlíðardalsskóla, „Tillaga að framtíðarsýn Kirkjunnar varðandi Hlíðardalsskólaeignina“, 2015, bls. 3, 4–5.

[6] Kippurinn sem hófst þá sést í breyttum greiðslum til KSDA. Sjá opið bréf til samtakastjórnar, bls. 6.

[7] Samtakastjórn, samþykkt 53/2019, 9. apríl 2019.

[8] Hornsteinn er að hluta til í eigu Heidelberg Materials. „Stjórn og eigendur“, Hornsteinn.is, https://hornsteinn.is/stjorn-eigendur/. Á vefsíðunni stendur HeidelbergCement. En þetta er annað nafn á sama fyrirtæki: Þegar höfundur fór inn á vefsíðuna http://www.heidelbergcement.com/ í nóvember 2022 leiddi sú slóð hann yfir á vefsíðuna https://www.heidelbergmaterials.com/en.

[9] Höfundur bað Elliða Vignisson, bæjarstjóra Þorlákshafnar um tímalínu Heidelbergs-verkefnisins og hana veitti hann góðfúslega í tölvupósti. Þar kemur fram að viðræður hófust sumarið 2020. Elliði Vignisson bæjarstjóri Þorlákshafnar, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 2. september 2022.

[10] Samtakastjórn, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[11] Samtakastjórn, samþykktir 47/2021 og 48/2021, 11. maí 2021.

[12] Kristján Ari Sigurðsson, „Hverjum ber að gæta hagsmuna Kirkju sjöunda dags aðventista?“, bls. [1–2].

[13] Sjá ársreikning Lambafells ehf. fyrir árið 2021, aðgengilegur undir kt. 4312181510, Skatturinn.is, Fyrirtækjaskrá, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/4312181510.

[14] Jón Hjörleifur Stefánsson, Ólöf Haraldsdóttir, Ómar Torfason, Sigurgeir Bjarnason og Sólveig Hjördís Jónsdóttir, opið bréf til samtakastjórnar, 5. desember 2021.

[15] Sjá ársreikning Lambafells ehf. fyrir árið 2021, aðgengilegur undir kt. 4312181510, Skatturinn.is, Fyrirtækjaskrá, https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/4312181510.

[16] Náman er við þjóðveginn svo að þessu eru ótal sjónarvottar.

[17] Samtakastjórn, samþykkt 9/2022, 18. janúar 2022.

[18] Samtakastjórn, Námufréttir – Mining news, 1. febrúar 2022.

[19] Samtakastjórn, samþykkt 17/2022, 10. febrúar 2022.

[20] Jón Hjörleifur Stefánsson og Elísa Elíasdóttir, „Nýr samningur Kirkju SDA við Eden Mining um námurnar í Litla-Sandfelli og Lambafelli“, Samantektin, 25. febrúar 2022; Guðni Kristjánsson, „Lambafell, kirkjustjórnin, safnaðarmeðlimir“, Samantektin, 25. febrúar 2022.

[20a] Gavin Anthony, fréttaliður nr. 1, Kirkjufréttir, 1. apríl 2022.

[21] Þeir sem voru boðaðir voru Elías Theodórsson, Elísa Elíasdóttir, Eric Guðmundsson, Guðni Kristjánsson, Jón Hjörleifur Stefánsson, Kristján Ari Sigurðsson, Ólöf Haraldsdóttir, Ómar Torfason, Sigurgeir Bjarnason og Sólveig Hjördís Jónsdóttir.

[22] Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 14. mars 2022. Bréfið er að finna í heimildaskrá þessarar vefsíðu.

[23] Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarstjórna, 16. mars 2022. Bréfið er að finna í heimildarskrá þessarar vefsíðu.

[24] Elísa Elíasdóttir senti samtakastjórn undirskriftalistann 23. mars 2022. Það voru margir sem stóðu að því að safna undirskriftunum og hún var ekki í forsvari fyrir hópnum.

[25] Gavin Anthony formaður, Kirkjufréttir, 1. apríl 2022.

[26] Höfundur var vitni að fundinum í gegnum Zoom-streymi sem var aðgengilegt öllum safnaðarmeðlimum.

[27] Jón Hjörleifur Stefánsson ritstjóri, „GCAS-fundurinn 24. maí sl.“, Samantektin, 7. júní 2022.

[28] Sjá yfirlit yfir greinar í heimildaskrá þessarar vefsíðu.

[29] Landvernd, „Áskorun: Höfnum námuvinnslu á Mýrdalssandi og í Þrengslunum“, Landvernd.is, https://landvernd.is/askorun-namuvinnsla-i-myrdal-og-threngslum/; Jakob Bjarnar, „Landvernd skorar á sveitastjórnir að hafna námuvinnslu“, Visir.is, 6. september 2022, https://www.visir.is/g/20222307740d/land-vernd-skorar-a-sveitar-stjornir-ad-hafna-namu-vinnslu.

[30] Guðni Kristjánsson, „18. grein samþykkta Kirkju SDA á Íslandi“, Samantektin, 6. september 2022.

[31] Samtakastjórn, „Skýrsla um námuna“, fundargögn fyrir aðalfund 2022, bls. 81–84.

[32] Jón Hjörleifur Stefánsson, „Kærleikur og gagnrýni“ og „Andlegt líf og fjármál“, Samantektin, 22. september 2022; Kristján Ari Sigurðsson, „Hverjum ber að gæta hagsmuna Kirkju sjöunda dags aðventista?“, Samantektin, 22. september 2022.

[33] Jakob Bjarnar, „Ólga meðal aðventista vegna sölu á heilu fjalli.“ Visir.is, 3. september 2022, https://www.visir.is/g/20222306014d/olga-medal-adventista-vegna-solu-a-heilu-fjalli.

[34] Fundargerð þessa fyrrihluta aðalfundar 2022 verður lögð fyrir fulltrúa á seinnihluta aðalfundar sem óvíst er hvenær verður haldinn en átti að halda 11. desember 2022. Höfundur var ekki fulltrúi en sótti aðalfundinn í september 2022 og er því vitni að atburðarrásinni.

[35] Auglýsingin birtist fyrst 21. október 2022 og hljóðaði þá á þá þessa leið: „Hvíldardagssamvera verður í Suðurhlíðarskóla frá kl. 11:00 og fram eftir degi.  „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11:28-30) Markmið okkar er að veita öruggt umhverfi þar sem friður, kærleiki og góðvild eru ríkjandi. Þeir sem geta eru hvattir til að koma með einhvern mat svo við getum deilt hádegisverði.“ Kirkjufréttir, 21. október 2022, feitletrun í auglýsingu.

[36] Heidelberg Materials dreifði bæklingi í hús sem bauð íbúum á fundinn.

[37] Sunna Ósk Logadóttir, „Litla þorpið sem á að bjarga þýska risanum“, Kjarninn.is, 19. nóvember 2022, https://kjarninn.is/skyring/litla-thorpid-sem-a-ad-bjarga-thyska-risanum/.

[38] Daniel Duda formaður Stór-Evrópudeildarinnar, „Varðandi framhald á aðalfundi Kirkjunnar“, Kirkjufréttir, 24. nóvember 2022.

[39] Jón Hjörleifur Stefánsson, „Stutt yfirlit yfir námumálið“, opið bréf til safnaðarmeðlima, 2. janúar 2023.

[40] Gavin Anthony, Þóra Sigríður Jónsdóttir og Judel Ditta, Kirkjufréttir, 6. janúar 2023.

[41] Jón Hjörleifur Stefánsson, „Stutt yfirlit yfir námumálið“, opið bréf til safnaðarmeðlima, 2. útgáfa, 13. janúar 2023.

[42] Ingi Freyr Vilhjálmsson, „Könnunin olli titringi í Ölfusi: Ríflega tvöfalt fleiri íbúar á móti verksmiðjunni“, Hafnarfrettir.is, 27. janúar 2023, https://heimildin.is/grein/16590/riflega-tvofalt-fleiri-ibuar-i-olfusi-a-moti-molunarverksmidjunni/.

[43] Samtakastjórn KSDA, „Yfirlýsing frá Kirkju Sjöunda dags aðventista vegna umræðna á íbúasíðu Ölfuss“, Hafnarfrettir.is, 27. janúar 2023, https://hafnarfrettir.is/2023/01/27/yfirlysing-fra-kirkju-sjounda-dags-adventista-vegna-umraedna-a-ibuasidu-olfuss/.

[44] Jón Hjörleifur Stefánsson, „Varðandi yfirlýsingu stjórnar Kirkju sjöunda dags aðventista í Hafnarfréttum“, Hafnarfrettir.is, 30. janúar 2023, https://hafnarfrettir.is/2023/01/30/vardandi-yfirlysingu-stjornar-kirkju-sjounda-dags-adventista-i-hafnarfrettum/.

[45] Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarleiðtoga og safnaðarmeðlima, Kirkjufréttir, 3. febrúar 2023.

[46] Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023; Gísli Guðni Hall, lögfræðiálit um framsal, 28. maí 2022.

[47] Ómar Torfason, opið bréf til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023.

[48] Ómar Torfason, opið bréf til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima, 22. febrúar 2023.

[49] Steinunn Theodórsdóttir, tölvupóstur til fulltrúa, 1. mars 2023; Ólafur Kristinsson, tölvupóstur til Ómars Torfasonar, einnig sendur fulltrúum, 1. mars 2023.

[50] Jón Hjörleifur Stefánsson, opið bréf til Eiríks Ingvarssonar og Kristins Ólafssonar, 23. febrúar 2023.

[50a] Samtakastjórn, pistill (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 2. júní 2023.

[51] Ómar Torfason, opið bréf til samtakastjórnar, safnaðarstjórna, fulltrúa og safnaðarmeðlima, 2. mars 2023.

[52] Ian Sweeney, tölvupóstur til Guðrúnar Ólafsdóttur, 28. mars 2023.

[53] Jón Hjörleifur Stefánsson, tölvupóstur til safnaðarmeðlima, 16. maí 2023.

[53a] Samtakastjórn, pistill (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 2. júní 2023.

[54] Guðrún Ólafsdóttir, tölvupóstur til margra safnaðarmeðlima, 26. maí 2023; Sólveig Hjördís Jónsdóttir, tölvupóstur til margra safnaðarmeðlima, 30. maí 2023.

[55] Gavin Anthony, pistill, Kirkjufréttir, 3. júní 2023.

[56] „Við þurfum líka því miður að láta þig vita að 21 manna hópur hefur höfðað mál gegn Kirkjunni okkar - sérstaklega gegn hverjum meðlimi stjórnar Kirkjunnar. Þetta tengist námusamningnum Kirkjunnar. Málið verður tekið fyrir 7. [s]eptember. Við viljum því biðja þig um að hylja kirkjuna okkar í bæn, að vilji Guðs verði gerður og að Guð verði heiðraður í öllu sem á sér stað.“ Gavin Anthony, pistill, Kirkjufréttir, 14. júlí 2023.

[56a] Heidelberg, „Takk fyrir fundinn“, 20. september 2023, Heidelberg.is, https://heidelberg.is/takk-fyrir-fundinn-2/.

[57] Eric Guðmundsson, bréf til stefnenda (sent í tölvupósti), 29. ágúst 2023. Eric er staddur í Svíþjóð á prestaráðstefnu Stór-Evrópudeildarinnar þegar hann sendir bréfið en skrifar heimaheimilisfang sitt efst í bréfinu sem er villandi því vanalega skrifar maður heimilisfang og dagsetningu miðað við hvar og hvenær maður er staddur þegar maður hefur lokið við að skrifa bréf.

[58] ARTA fyrir hönd stefnenda, bréf til Gavin Anthony, 28. september 2023.

[59] Samtakastjórn, áfangaskýrsla, 25. september 2023, birt í Kirkjufréttum 29. september 2023.

[60] Grein 5.2.c. Þó að samtakastjórn gegni hlutverki safnaðarstjórnar fyrir söfnuð dreifðra hafa dreifðir ekki eiginlega safnaðarstjórn. Og þar sem liðir greinar 5.2.b–d fjalla um hvaða aðilar aðrir en samtakastjórn geta farið fram á aðalfund ber ekki að telja samtakastjórn með í þeim liðum. Af sex söfnuðum KSDA hafa fimm söfnuðir sína eigin stjórn. Þrjár safnaðarstjórnir eru því meirihluti safnaðarstjórna KSDA.

[61] Samtakastjórn, uppfærð áfangaskýrsla, send í tölvupósti, 20. október 2023.

[61a] Gavin Anthony, „Fréttir frá formanni Kirkjunnar, Gavin Anthony“ (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 11. nóvember 2023.

[62] Jón Hjörleifur Stefánsson, „Um 41. aðalfund KSDA“, opið bréf til safnaðarmeðlima, 13. nóvember 2023.

[62a] Heidelberg, „Íbúafundur þriðjudaginn 23. janúar kl. 20“, Heidelberg.is, 9. janúar 2024, https://heidelberg.is/ibuafundur-thridjudaginn-23-januar-kl-20/.

[63] Samtakastjórn, „Nokkur orð frá stjórn Kirkjunnar“ (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 2. febrúar 2024.

[64] Gavin Anthony, pistill, Kirkjufréttir, 15. mars 2024.

[65] Heidelberg, „Íbúafundur fimmtudaginn 11. apríl kl. 20“, Heidelberg.is, 5. apríl 2024, https://heidelberg.is/ibuafundur-fimmtudaginn-11-april-kl-20/.

[65a] Samtakastjórn, pistill (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 26. apríl 2024.

[65b] Gavin Anthony, frétt nr. 1, Kirkjufréttir, 17. maí 2024.

[66] Heidelberg, „Íbúafundur 21. maí kl. 20“, Heidelberg.is, 8. maí 2024, https://heidelberg.is/ibuafundur-21-mai-kl-20-2/.

[67] Námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“, Kirkjufréttir, 31. maí 2024.

[68] Námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“ (frétt nr. 7), Kirkjufréttir, 7. júní 2024; námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“ (frétt nr. 9), Kirkjufréttir, 13. júní 2024; námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“ (frétt nr. 9), Kirkjufréttir, 20. júní 2024.

[68a] Þóra Sigríður Jónsdóttir, „Frá Þóru Siggu“ (frétt nr. 2), Kirkjufréttir, 20. júní 2024.

[69] Samtakastjórn, frétt nr. 2, Kirkjufréttir, 12. júlí 2024.