INNGANGUR

 

Þessi sk‎ýrsla er rökstudd skoðun höfundar og túlkun hans á þeim gögnum sem hann hefur viðað að sér. Þetta þýðir ekki höfundur telji að skýrslan sé fullkomin. Það er nær ómögulegt að setja fram skoðun sem er með öllu villulaus. Ennfremur hefur höfundur ekki haft aðgang að öllum þeim skjölum sem þarf til að skrifa enn rækilegri greinargerð þessa máls. (Samtakastjórn hefur ekki svarað fyrirspurnum og því eru mörg skjöl í hennar fórum sem hefðu gert þessa skýrslu betri og réttari.) Höfundur telur engu að síður að meginatriði í máli sínu séu rétt og muni standast athugun og birtingu frekari gagna.

Ef lesandi finnur staðreyndavillur eða ranga túlkun í skýrslunni hvetur höfundur viðkomandi til að senda sér ábendingar sem hann mun þiggja með þökkum. Sé tilefni til mun höfundur leiðrétta skýrsluna samkvæmt þeim og gefa út uppfærða útgáfu.

 

Mikilvægi námumálsins

Fyrirhugaðar framkvæmdir fyrirtækjanna Heidelberg Materials og Eden Mining (héðan í frá Eden) í Þorlákshöfn og Þrengslunum hafa verið í fjölmiðlaumræðu landsins í nokkurn tíma. Framkvæmdirnar byggjast á samningi Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi (KSDA) við Eden varðandi námuvinnslu í Lambafelli og Litla-Sandfelli. Um er að ræða verkefni af þeirri stærðargráðu að það mun gjörbreyta ekki aðeins heilum bæ heldur í raun ásýnd og stefnu heils sveitarfélags. Um er að ræða verkefni þar sem fjármunirnir skipta milljörðum íslenskra króna. Þetta er þekktari hlið námumálsins, sú sem snýr að Ölfusi og Heidelberg Materials.

Hin hliðin – sem er aðalumfjöllunarefni þessarar skýrslu – er sú sem snýr að landeiganda námanna, Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi (KSDA). Framkvæmdirnar eru stærsta viðskiptaverkefni sem KSDA á hlut að frá upphafi starfs þeirra hér á landi. Undanfarin ár hefur þetta „námumál“ orðið að umdeildasta máli trúfélagsins í marga áratugi. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi þessa námumáls hefur samtakastjórn neitað að svara fyrirspurnum og gagnrýni safnaðarmeðlima í ýtrustu lög í mörg ár. Einhver svör hafa borist en þau hafa verið veitt treglega og seint og eru hvorki málefnaleg né skýr. Málið er því stórfurðulegt og einstakt í sögu trúfélagsins og enn á eftir að útskýra starfshætti samtakastjórnar (stjórn trúfélagsins) sem undirritaði nýja samninginn við Eden 2022 og hefur reynt að stöðva rannsókn á gömlu samningunum við Eden frá árunum 2008 og 2009.

 

Tilgangur þessarar skýrslu

Eftir því sem fleiri safnaðarmeðlimir fóru að skoða námumálið undanfarin ár náðu þeir að afla sér einhverra upplýsinga sjálfir. Þó þessar upplýsingar væru ekki tæmandi og svöruðu ekki öllum spurningum er það skoðun höfundar að sterk rök liggi fyrir því að núverandi samtakastjórn hefur brotið lög KSDA, leyft Eden að komast upp með að brjóta gegn gömlu samningunum (þegar þeir voru í gildi) og sýnt óásættanlega starfshætti með því að semja á ný við Eden og halda þeim samningi að hluta til leynilegum gagnvart safnaðarmeðlimum. Þessi skoðun er ekki úr tómu lofti gripin. Hún byggir m.a. á opinberri skýrslu fagaðila (GCAS-skýrslan) og minnisblöðum íslenskra lögfræðinga.

Málið er óuppgert svo lengi sem samtakastjórn meinar safnaðarmeðlimum um upplýsingar um málið og svo lengi sem safnaðarmeðlimir hafa ekki tekið upplýsta ákvörðun sem heild um hvað þeir vilji gera.

En hvernig á hinn almenni safnaðarmeðlimur að kynna sér málið og skilja það? Til þess að gera námumálið sem einfaldast og aðgengilegast ákvað ég að taka saman þær upplýsingar sem ég hef náð að afla mér um námumálið. Hér eru þær settar fram á sem auðskiljanlegastan hátt. Þetta var hægt að gera því mikið af upplýsingum og skjölum sem tengjast málinu liggja fyrir og það er einnig orðið skýrt hverjir helstu punktarnir eru sem samtakastjórn á eftir að svara – og hver helstu meintu brotin eru í málinu.

Það er von mín að þessi skýrsla hjálpi lesandanum að skilja betur um hvað námumálið snýst svo að við sem trúfélag getum leyst málið á sem farsælastan hátt og það sem fyrst.