Seinnihluti 41. aðalfundar: 1. Heilagur Andi, lýðræði eða bara pólitík?
Á undanförnum árum hafa viðbrögð samtakastjórnar við námumálinu verið m.a. þau að gera sér tíðrætt um kærleika, frið og sátt í söfnuðinum og Heilagan Anda. Fréttapistlar hennar í Kirkjufréttum (vikulegu fréttablaði trúfélagsins) eru gegnumstráðir af biblíuversum um kristilegar dyggðir. Kristilegt framferði er samtakastjórn sérstaklega mikilvægt þegar það kemur að aðalfundi. Þar á leiðsögn Guðs að ríkja en ekki mannanna ráð og „kirkjupólitík“. Í pistli formanns sem var í gögnum fundarmanna sem þeir fengu fyrir aðalfundinn stendur að það sé nauðsynlegt að þeir beini sjónum sínum til Krists fyrir aðalfund og biðji um leiðsögn Guðs því að „aðeins Heilagur Andi getur gefið okkur andlega visku til að þekkja áætlanir til að koma okkur áfram og veita okkur yfirnáttúrulegan kraft til að framkvæma þessar áætlanir“. Og svo máttuga taldi formaður freistingu þess að grípa fram fyrir hendurnar á Guði með pólitík að hann varaði fulltrúa fyrirfram við að láta leiðast útí slíka freistni. Viðvörun hans lauk með tilvitnun í Safnaðarhandbókina þar sem stendur:
Ekki er fulltrúahópi neins safnaðar eða Samtaka heimilt að skipuleggja eða freista þess að stýra atkvæðum sínum sem hópur. Ekki hefur heldur fulltrúahópur frá stórum söfnuði eða Samtökum heimild til að krefjast yfrburðaaðstöðu með því að stjórna málum á aðalfundi Samtaka. Sérhver fulltrúi á að hlýða leiðsögn Heilags anda og greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Hver sá embættismaður Samtaka eða safnaðar sem freistar þess að stýra atkvæðum einhvers hóps fulltrúa er talinn óhæfur til að gegna embætti.
En eitthvað virðist hafa skort á bænatraustið hjá yfirvöldunum sjálfum. Stjórnin og Deildin hafa ítrekað séð sér ástæðu til að hjálpa Guði svo að stórfenglegar fyrirætlanir hans geti ræst. Það þarf að styðja aðeins við örkina þegar hún sígur í.
Fyrri greinar um framvindu 41. aðalfundar hafa lýst pólitískri atburðarás fyrrihluta fundarins og því hvorki tilefni né tími til þess að fara yfir hana á ný. En í ljósi þess að pólitík kirkjuyfirvaldanna hefur sótt í sig veðrið og það sérstaklega undanfarna daga fyrir seinnihluta aðalfundar sem verður haldinn á sunnudaginn þá reynist nauðsynlegt að fara yfir helstu pólitísku aðgerðir samtakanna og Deildarinnar í grófum dráttum.
Aðdragandi í stuttu máli
Safnaðarmeðlimir báðu ítrekað um upplýsingar í námumálinu árum saman en fengu ekki. Skýrsla þriðja aðila (frá GCAS, 2022) fór yfir mjög afmarkaðan þátt og byggði á svo takmörkuðum gögnum að hún svaraði fáum spurningum meðlima. Þeir báðu því um annan upplýsingafund. Samtakastjórn neitaði þeirri beiðni í skýrslu sem hún lagði fyrir aðalfund. Með þessu stöðuga framferði sýndi samtakastjórn að hún vildi ekki að safnaðarmeðlimir kæmust til botns í málinu. Fulltrúum þótti nóg um slík vinnubrögð og tóku skýrsluna af dagskrá og báðu Deildina um að fá þriðja aðila til að rannsaka málið almennilega og leggja fram skýrslu á seinnihluta aðalfundar sem haldinn yrði þrem mánuðum seinna eða 11. desember 2022.
Samtakastjórn gerði einnig tilraun á fyrrihluta aðalfundarins til að láta leysa stjórnarnefnd upp og láta velja aðra. (Sjá samþykkt nr. 22 í fundargerðardrögum fyrrihluta aðalfundar.) Þó að samtakastjórn segði að þetta væri nauðsynlegt „til þess að stuðla að lækningu/friði í kirkjunni“ þá er líklegri útskýring sú að samtakastjórn hafi óttast það að stjórnarnefnd kæmi með tillögur að nýrri stjórn sem þeim myndu ekki geðjast, sérstaklega ef að þau væru ekki á listanum. Hvert ætti t.d. formaður kominn á þennan aldur að leita innan aðventstjórnsýslunnar ef hann hrökklaðist úr starfi í annað skiptið frá sömu samtökum?
Með samþykktri beiðni um óháða nefnd var málið komið í hendurnar á Deildinni. Hér hafði hún kjörið tækifæri til þess að koma námumálinu í farsælan farveg með því að leysa hlutverk sitt vel og ákveðið af hendi. En á þeim þremur mánuðum sem óháður aðili átti að skrifa skýrsluna skipaði Deildarformaður enga nefnd. Þess í stað frestaði hann aðalfundi ólöglega í rétt tæp tvö ár sökum „óviðráðanlegra aðstæðna“ eins og hann orðaði það. Formaðurinn heima fyrir tilkynnti í Kirkjufréttum þann 15. mars 2024 að Deildarformaður kæmi í sérstaka heimsókn til að útskýra töfina fyrir samtakastjórn. En útskýringin barst aldrei til safnaðarmeðlima. Þó að Deildarformaður hafi beðist afsökunar á töfinni í opnu bréfi sínu til fulltrúa (dagsettu þann 16. ágúst 2024) datt honum ekki í hug að það væri eðlilegt að útskýra af hverju töfin átti sér stað. Þetta dregur heilindi Deildarinnar í sama bréfi þar sem talað er um nauðsyn sáttar og friðar sterklega í efa. Segir það sig ekki sjálft að þegar einhver gerir á hlut manns að þá vill maður ekki aðeins afsökunarbeiðni heldur útskýringu á því hvers vegna viðkomandi særði mann, þó að útskýringin réttlæti aldrei verknaðinn? Er það ekki augljóst mál að þetta er eitthvað sem Deildarmenn vita líka?
Staðreyndin er nefnilega sú að ástæða þess að Deildarformaður dirfðist ekki að fresta aðalfundi lengur var einfaldlega sú að íslensk yfirvöld voru komin inn í myndina, en hluti samskipta Sýslumanns við samtakastjórn hefur verið birtur í Kirkjufréttum. Þessi samskipti hófust samkvæmt birtum bréfum í mars 2024. Að lokum setti Sýslumaður stjórninni stólinn fyrir dyrnar með því að heimta að aðalfundi yrði lokið fyrir 9. ágúst, annars yrði trúfélagið tekið af skrá. Stjórnin kríaði út aðeins lengri frest - til 10. september nk. - en viðurlögin vofa enn yfir trúfélaginu. Deildin neyddist til að ræsa námunefndina og hinar óviðráðanlegu frestunarástæður gufuðu upp fyrir rísandi sól Sýslumanns. Nefndin tók til starfa um miðjan maí (Kirkjufréttir, 17. maí 2024) og af fullri alvöru fyrst seint í júní þegar hún kom til landsins að afla sér upplýsinga um málið. Enda kvartar námunefndin stöðugt undan tímahraki í skýrslunni sinni.
Vegna íslenskra yfirvalda neyddust Deildin og samtakastjórn til að halda loksins seinnihluta aðalfundar. En í staðinn fyrir að vera spennt yfir þessum andlegu tímamótum þegar Heilögum Anda gæti verið úthellt yfir alla samkvæmt heitum bænum formanns og fulltrúa, þá sátu þessi yfirvöld ekki spennandi greipar í bæn. Þau vildu ekki sitja slíkum auðum höndum og ákváðu að taka málin í sínar hendur.
Hvað er í húfi hjá samningsaðilum?
Á aðalfundi eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi. Annað hvort breytist Eiríkur Ingvarsson úr milljónamæringi yfir í milljarðamæring með því að ekki sé hróflað við núverandi ástandi - eða þá að hann missir gullgæsina sem Aðventkirkjan hefur reynst honum úr fanginu. Og hver vill hætta við að verða milljarðamæringur? Hver myndi ekki leggja á sig þónokkurt erfiði til að tryggja að ekkert og nákvæmlega ekkert kæmi í veg fyrir það? Svo mjög er Eiríkur viss um eigið mikilvægi í sögu aðventista að hann hefur sett það niðrá blað sjálfur að ef andstæðingar hans ná yfirhöndinni í söfnuðinum þá „hverfur Kirkjan“ og „hinn Illi [hefur] sigrað“. (Eiríkur Ingvarsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 14. mars 2022, bls. [2].) Enda hefur Eiríkur hótað því að hann muni reyna að uppfylla þennan spádóm sjálfur: ef KSDA reynir að rifta nýja samningnum við Eden Mining (fyrirtækið hans) „gæti það haft í för með sér gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir kirkjuna í formi skaðabótakröfu sem myndi að öllum líkindum kosta kirkjuna allt sem hún á og meira til“. (Eiríkur Ingvarsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023, bls. 11.) Þessi skaðabótakrafa kæmi ekki frá Heidelberg því KSDA á ekki í neinum samningum við það fyrirtæki. Þessi skaðabótakrafa kæmi vitaskuld frá Eden Mining, þ.e. frá Eiríki sjálfum. Maðurinn sem skrifaði undir samning sem hafði þann tilgang að „skapa stöðugar tekjur“ fyrir KSDA þykir svo vænt um trúfélagið að hann er tilbúinn í að sjá til þess að það verði gjaldþrota fái hann ekki að vera bjargvættur þess. (Þessi hótun er reyndar gelt án glefs því Eiríkur myndi trauðla fara í þetta mál og hann ynni það þvísíður - því hver er málsstaður hans? Að hann hafi skrifað undir samning gegn lögum trúfélags vitandi vits og þegar meirihlutinn áttaði sig á því þá var ákveðið að fara eftir lögum sem hann hlaut sem félagsmaður að vita frá upphafi hver voru?)
Það er einnig mikið í húfi fyrir samtakastjórn og Deildina. Stjórnin óttast tíðar lögsóknarhótanir Eiríks og er frá sér numin af fyrirheitum hans um þær fjárhagslegu blessanir sem hann vill færa trúfélaginu. Þau hafa skrifað undir trúnaðarsamninga og sennilega fleiri en þann sem varðar nýja samninginn. Þau vita að hann veit meira um viðskipti en þau og reiða sig á hann - og hafa ekki viðstöðumátt til þess að losa sig frá honum. Og hví skyldu þau gera það? Stjórnendur eiga það á hættu að missa þægilega og velborgaða innivinnu ef þeir verða ekki kosnir aftur - og ef maður er sannfærður um að Guð sé með manni í liði, þá helgar tilgangurinn oft meðalið. Deildin man sennilega - ef stofnanaminni hennar er yfirhöfuð til - að fyrr á þessari öld hótaði hún KSDA undir rós að snúa fjárhagslegri slæmri stöðu í sókn með því að búa til sterka boðunaráætlun. Þrátt fyrir aðalfund í tveimur hlutum árin 2015-2016 kom ekkert plan útúr honum og því varð Deildin sennilega dauðfegin þegar peningar fóru að koma inn úr námunum því þá þurfti Deildin ekki að hlaupa undir bagga hjá Íslandi. Hvað með það þó að peningarnir væru eitthvað minni en þeir ættu að vera samkvæmt áhyggjuröddum safnaðarmeðlima? Væri það ekki smásálarskapur og tímasóun að fara eftir réttlæti og kirkjulögum í öllum smáatriðum? Hver skeytir slíku þegar stærri ógnir steðja að eins og síðustu tímar? Og ef það kæmist upp að Deildin hefði hlaupið á sig með því að taka þátt í ólöglegum samningaviðræður gæti það sett sett stein í starfsframagötu allra sem fyndust sekir um þátttöku í slíku klúðri. Audrey Anderson er þegar komin til Aðalsamtakanna og henni fyrir bestu að svona mál verði leyst sem fyrst og henni og Deildinni til sem mestrar sæmdar. Og hvað er auðveldari leið til að leysa mál en að keyra það í gegn með valdi og breiða síðan blessun sína yfir málsmeðferðina með biblíutilvitnunum og bænahaldi?
Atburðarrásin undanfarnar viknur
Þann 13. ágúst 2024 fengu fulltrúar námuskýrsluna senda í tölvupósti. Þeir ráku margir hverjir upp stór augu við lesturinn: þó að námunefndin væri stundum sammála samningsaðilum (og þá á grunni staðhæfinga samningsaðila án eðlilegs aðgengis að heimildum og upplýsingum) þá staðfesti námunefndin oftar en ekki alla megingagnrýnispunkta safnaðarmeðlima. Nefndin ítrekar að margt þurfi að rannsaka betur og leggur til að frekari viðskipti við Eirík Ingvarsson verði sett á salt. En það furðulegasta þó var að þrátt fyrir takmarkað aðgengi að upplýsingum, tímahrak og ófullgerða rannsókn sá nefndin sér ástæðu til að koma með romsu af tillögum um hvernig leysa skyldi mál sem hún sjálf hafði ekki brotið til mergjar.
Þessi skýrsla var sennilega ekki það sem Deildin hafði búist við. Skýrslan tók undir of mikið af gagnrýni safnaðarmeðlima og ekki myndi það hjálpa til að leysa málin auðveldlega. Deildin sá sér þann leik auðveldastan á borði að túlka skýrsluna sem helst á einn veg. Til að tryggja að þessi einföldun á skýrslunni yrði líka að skoðun fulltrúa skrifaði Deildarformaður þeim opið og leiðandi bréf. Þannig fengu allir fulltrúar að heyra skoðun Deildarinnar á skýrslunni áður en námunefndin hafði haft tækifæri til þess að kynna skýrsluna formlega á aðalfundi og áður en fulltrúa höfðu tækifæri til að spyrja námunefndina útí skýrsluna og ákveða hvað gera skyldi við skýrsluna yfirhöfuð. Í bréfi sínu fer Deildarformaður ekki í grafgötur með það að hann ætli sér að hafa áhrif á skoðanir (og mögulega atkvæði) fulltrúa. Það gerir hann með því að taka fram að Deildin sé þegar búin að samþykkja niðurstöður nefndarinnar og sé búin að skuldbinda sig til að tryggja það að farið verði eftir ráðleggingum hennar. Til hvers að bíða eftir því að fulltrúar ákveði hvað þeim finnst og hvað þeir vilji gera?
Deildin - og samtakastjórn - ákváðu að sitja ekki við orðin tóm. Ein af ráðleggingum námunefndarinnar var að stækka samtakastjórn frá 7 manns upp í 11. Hvernig slík aukning er raunsæ eða gagnlegt fyrir lítið trúfélag (11 manns væru um 10% virkra safnaðarmeðlima) var ekki útskýrt í skýrslunni. En það segir sig sjálft að því stærri sem samtakastjórn, þeim mun auðveldar er sennilega að koma sínum að. Samtakastjórn reyndi örugglega það sem hún gat til að sannfæra Deildina um að þetta væri ekki aðeins stórkostlegt ráð, heldur brýnt að koma þessu á um leið. Svo fimmtudaginn þann 5. september 2024 hélt laganefndin fund á Íslandi aðallega til þess að samþykkja þessa breytingu sem fyrst. Sæti fyrrverandi aðalritara í nefndinni var autt og það skapaði smá vandamál því laganefnd er kosin á aðalfundi. En formaður ákvað að fylla það sæti sjálfur. Lagabreytingin var því samþykkt í hvelli og þarsem laganefnd þarf að leggja tillögur sínar fyrir samtakastjórn var haldinn stjórnarfundur samdægurs og lagabreytingartillagan samþykkt þar. Formaður sendi síðan út nýja fundarskrá þar sem lagabreytingartillagan er hvorki meira né minna en fyrst á dagskrá. Þannig var ráðlegging sem fulltrúar höfðu ekki beðið um, sem kom úr skýrslu sem fulltrúar eru enn ekki búnir að ræða formlega, orðin að lagabreytingartillögu á nýrri fundarskrá sem enginn hafði beðið um.
Nýja fundarskráin var send út föstudaginn þann 6. september 2024. Búið var að samþykkja fundarskrá 41. aðalfundar í upphafi fundarins (september 2022) og búið var að loka á frekari tillögur þannig að fulltrúar geta ekki samþykkt nýja fundarskrá. En hvaða máli skiptir lýðræði þegar kærleikurinn er hafður í öndvegi?
Nýja fundarskráin er mjög merkileg á allan máta og sýnir hvernig samtakastjórnin telur best að ná sáttum í söfnuðinum. Til hvers að bíða eftir því að fólk láti Heilagan Anda leiða sig þegar maður getur leitt fólkið sjálfur til Guðs, þangað sem það á hvort sem er að fara?
Í fyrsta lagi telur samtakastjórn nauðsynlegt að stækkun stjórnar verði samþykkt. Að ræða skýrsluna (sem er hvaðan þessi breytingartillaga er fengin) fyrst er algjör óþarfi. Það þarf heldur ekki að velta því fyrir sér of mikið að búið er að loka á frekari tillögur, að laganefnd þarf að láta lagabreytingatillögur fylgja boðun aðalfundar samkvæmt samþykktum KSDA - allt slíkt er kærleikslaus útúrsnúningur sem kemur í veg fyrir þessa lífsnauðsynlegu breytingu sem þarf að koma á sem fyrst.
Í öðru lagi verður að takmarka störf stjórnarnefndar fyrst ekki tókst (á fyrrihluta aðalfundar) að leysa hana upp. Vaninn er sá að stjórnarnefnd mæti á fundinn hvenær sem er þegar hún er tilbúin og stöðvi önnur fundarstörf á meðan. Þetta er gert til að spara tíma, hraða stjórnarkjörum sem annars drægust enn meir á langinn, og til að geta komið þeim fulltrúum sem eru í stjórnarnefnd sem fyrst inná aðalfund svo þeir geti tekið þátt í annarri umræðu og atkvæðagreiðslu. Útskýring á þessari takmörkun sem er vitaskuld óleyfileg er ekki gefin. En þetta skiptir auðvitað ekki máli. Það skiptir heldur ekki máli að námumálið er eldfimt og getur hleypt fundinum í bál og brand og tekið allt of langan tíma, sérstaklega þegar litið er til þess að aðalfundur er aðeins sex klukkutímar (10-16) og að hótun Sýslumanns vofir yfir.
Í þriðja lagi verður að auka fjölda fulltrúa sem er þvert á öll lög, til að tryggja meirihluta góða liðsins. Þetta er skiljanleg aðgerð, því ef Deildin hefur ekki heila sjö fulltrúa, hvernig á að vera hægt að halda þennan fund? Í síðasta skipti var Deildin og Aðalsamtökin aðeins með fjóra fulltrúa og þegar einhver sagði að það væri óvenjulega mikill fjöldi var það afsakað sem tilviljun. Kannski er það bara tilviljun að þeir vilja auka enn meir við sig og verða sjö.
Í fjórða lagi verður regluvörður sem fulltrúar báðu ekki um og geta ekki samþykkt þar sem búið er að loka á fleiri tillögur. En ef fulltrúar ætla í þrjósku sinni að halda sig við samþykktir KSDA og fundarsköp sín eru góð ráð dýr og því best að skálda það til að útlensk lög sem enginn hefur séð gildi líka á fundinum og ennþá betra er ef enginn hefur aðgang að þeim nema regluvörðurinn. Ef þeim verður dreift verður það auðvitað á ensku því til hvers að virða móðurmál innfæddra sem fundurinn fer framá? Slíkt færi gegn breskri siðvenju.
Allt í allt verður maður að viðurkenna að framferði Deildarinnar og samtakastjórnar er ekkert annað en holdgerving kærleikans og lýðræðis og allra kristilegra dyggða. Auðvitað í formi bullandi pólitíkur sem er keyrð áfram af valdbeitingu, lagamistúlkun, einhliða umræðu, söguhreinsun, undanbrögðum og forræðishyggju. En er það ekki einmitt lýðræði að ráða yfir lýðnum? Stundum þarf að beita vendinum á barnið með stilltri röddu en sterkri hendi ef það hlustar ekki á yfirboðara sína. Þeir vilja því vel og hýðingin er því fyrir bestu þótt það skilji það ekki í þrjósku sinni og ókristilegri gagnrýni. Það sem allir virðast vona er að sunnudagurinn endi með umbeðinni úthellingu Heilags Anda í því formi að sáttir náist: stjórnarnefnd verður brotin á bak aftur með einum eða öðrum hætti, ólýðræðislegar gagnrýnisraddir verða þaggaðar, réttir leiðtogar verða valdir og þær blessanir sem Eiríkur er fá að rigna yfir lýð Drottins með því að nýta hvern fermetra af fasteign til að græða peninga. Eða eins og stendur í Lúkasarguðspjalli 6.24: „Sælir eru hinir ríku, því að þeir munu blessa aðra“.