Seinnihluti 41. aðalfundar: 3. Stutt greining á umfjöllun námunefndarinnar
1. Inngangur
Burtséð frá vinnubrögðum og aðferðarfræði skýrslunnar er einnig nauðsynlegt að greina hvernig hún fjallar um efnið. Hvað segir nefndin um námumálið? Er hún sammála gagnrýnum safnaðarmeðlimum eða er hún sammála afstöðu samningsaðila (samtakastjórnar og Eden Mining)? Í stuttu máli er nefndin sammála gagnrýninni í sumum atriðum og samningsaðilum í sumum atriðum. Hún staðfestir margt sem gagnrýnendur hafa haldið fram og samningsaðilar hafa svarið af sér. En hún er einnig sammála samningsaðilum í sumu. Það er því hvorki hægt að túlka skýrsluna sem svo að hún einfaldlega sanni málstað annars hópsins og afsanni hinn.
Það sem safnaðarmeðlimir þurfa að gera er að lesa skýrsluna vel og athuga hvernig tekið er á málinu: hvað tekur nefndin fyrir og hvernig. Tilgangur þessarar greinar er einmitt sá að hjálpa þeim að greina málsmeðhöndlun nefndarinnar og átta sig á inntaki skýrslunnar. Farið verður yfir allar átta niðurstöður skýrslunnar og greint hvað námunefndin segir með og á móti og á hvaða rökum það er reist.
2. Átta málsþættir skýrslunnar
2.1 GCAS-skýrslan
Ástæður og efni rannsóknarinnar:[1] sammála gagnrýnendum. Nefndin segir að rannsóknin hafi átt sér stað vegna gagnrýni og spurninga safnaðarmeðlima varðandi gömlu samningana og framkvæmd þeirra og að GCAS hafi átt að skoða þessa þætti.[2] Eden Mining hefur hinsvegar staðhæft að um „venjulega endurskoðun“ hafi verið að ræða.[3]
Eden borgaði samkvæmt gömlu samningunum: engin niðurstaða. Nefndin segir að GCAS hafi ekki fundið neinar vísbendingar um að „tekjur samkvæmt ákvæðum samningsins hafi ekki verið greiddar“.[4] En nefndin viðurkennir hinsvegar: „Nefndin hefur einfaldlega hvorki haft nægilegan tíma né aðgengi að upplýsingum til að sannreyna, að frátaldri skýrslu GCAS, hvort allir greiðsluskilmálar samningsins frá 2009 hafi verið uppfylltir“.[5]
Umfang GCAS-rannsóknarinnar útilokaði svör við mörgum spurningum safnaðarmeðlima og það er margt athugunarvert við framkvæmd gamla samningsins frá 2009: sammála gagnrýnendum. Námunefndin segir að þrátt fyrir niðurstöður GCAS séu „önnur atriði samningsins, sem ekki voru rædd í skýrslunni þess eðlis að þau verðskulda nánari skoðun“.[6] Námunefndin firrir sig hinsvegar allri ábyrgð á því að rannsaka þessi atriði og ber fyrir sig tímaskort og takmarkað aðgengi að nauðsynlegum heimildum og upplýsingum.[7]
2.2 Annmarkar samningsins frá 2009
Það voru þónokkrir annmarkar á gömlu samningunum. Þegar það kemur að gömlu samningunum hefur ágreiningur gagnrýnenda og samningsaðila snúist um framkvæmd samninganna frekar en ákvæði þeirra og kjör. (Samningsaðilar hafa viðurkennt að trúfélagið fékk ekki nægilegar tekjur þegar gömlu samningarnir voru í gildi en vilja meina að það hafi verið vegna kjara samninganna en ekki vegna framkvæmdarinnar.) Í ljósi þessa verða þeir annmarkar sem námunefndin fann ekki taldir upp.
2.3 Ferlið sem leiddi til undirritunar samningsins frá 2022
Verkferli samtakastjórnar var allt rétt og eftir bókinni: sammála samningsaðilum. Námunefndin skautar framhjá öllum aðalpunktkum gagnrýnenda: að samningur var undirritaður í trássi við 18. grein, að samningur var undirritaður þó að GCAS-rannsóknin væri enn í gangi, að samningur var undirritaður við nýjan lögaðila, að kjör nýja samningsins eru ekki betri en kjör gömlu samninganna, og að allir stjórnarmeðlimir fengu ekki að sjá samninginn í heild sinni, o.s.frv. Er þetta lýsing á eðlilegu og faglegu verkferli? Í þessum hluta skýrslunnar gefur nefndin upp kjör nýja samningsins (150 kr á rúmmetrann miðað við lágmarksgreiðsluna sem samsvarar 100 000 m3). Einnig er tekið fram að enduskoða má verðið eftir heil fimmtán ár! Eru það fagleg vinnubrögð að semja af sér á þennan hátt, langt fyrir neðan eðlilegt markaðsverð?
2.4 Betrumbætur samningsins frá 2022 á annmörkum samningsins frá 2009
Samningsferlið var faglegra en samningsferli eldri samninga: nefndin skautar framhjá bitbeini samningsaðila og gagnrýnenda hvað þetta varðar því deilan hefur snúist um hvort það hafi verið eðlilegt verkferli að halda samningaviðræðunum leyndum með öllu, skrifa undir í trássi við 18. grein, o.s.frv. Nefndin þegir þunnu hljóði um þessi mál og segir eingöngu „að verkferlar, eftirlit og áreiðanleikakannanir sem teknar voru upp og notaðar við samningsins frá 2022 hafi verið veruleg framför frá því sem var í samningnum frá 2009“. Nefndin viðurkennir hinsvegar að hún byggi þetta mat „á þeim takmarkaða aðgangi sem hún hafði að þeim upplýsingum sem hún hafði aðstöðu til að fara yfir“.[8] Það er auðvitað lítið gagn í greiningu á gögnum þegar öll gögn hafa ekki verið lesin til fulls. Nefndin fékk t.d. ekki að lesa nýja samninginn í heild sinni og hafði hvorki tíma né gögn til að skilja framkvæmd gömlu samninganna. Hún viðurkennir því sjálf að hún getur ekki lagt mat á hvort annmarkar eldri samninga hafi verið færðir til hins betra í nýja samningnum.
2.5 18. grein samþykkta KSDA
Var 18. grein samþykkta KSDA brotin með undirritun nýja samningsins frá 2022? Nefndin tekur ekki skýra afstöðu en ýjar a.m.k. sumpartinn að því að greinin hafi verið brotin. Nefndin fjallar um greinina til þess að útskýra „hver ætluð túlkun greinarinnar var“ en gerir það síðan ekki. Nefndin vitnar í Starfsstefnu (Working Policy) Aðalsamtakanna en útskýrir ekki berum orðum hvernig beri að skilja 18. grein í ljósi þessara tilvitnana og það er því miður hægt að gera á ýmsa vegu. Nefndin segir að samtakastjórn hafi leitað til lögfræðinga og Deildarinnar hvað þetta mál varðar en segir ekki hver svörin og lagarökin voru, þó að nefndin fullyrði að samtakastjórn hafi starfað „í samræmi við það álit sem veitt var“. Nefndin segir að samtakastjórn hafi ekki viljandi farið gegn samþykktum en gefur engin rök fyrir því. Nefndin segir síðan að samtakastjórn hafi álitið sig vera að lagfæra samning en ekki að gera nýjan samning sem slíkan. Námunefndin fer hljóðlaust framhjá því að nýi samningurinn er við annan lögaðila (nýja kennitölu) þó að eigendurnir séu hinir sömu og því sé enganveginn um lagfæringu á gömlum samningi að ræða. Nefndin segir síðan að „aðalfundurinn mun þurfa að taka ákvörðun um hvort alvarlega hafi verið farið gegn samþykktum“. Þetta er hægt að skilja sem svo að farið hafi verið gegn samþykktum en aðalfundur þurfi að ákveða hvort það hafi verið nógu „alvarlega“ til að nauðsyn sé að staðfesta ógildi nýja samningsins. Því miður virðist nefndin hvorki hafa þorað að segja „18. grein var ekki brotin“ eða „18. grein var brotin“ og veltir ábyrgðinni yfir á aðalfund, þó að aðalfundur hafi beðið um nefnd sem færi yfir „staðreyndir og málsatvik námurekstrarins“ sem felur augljóslega í sér greiningu á gagnrýni safnaðarmeðlima, m.a staðhæfingu þeirra þess efnis að 18. grein hafi verið brotin. Ennfremur tekur nefndin sérstaklega fram að með töku og sölu jarðefnanna rýrni verðmæti jarðarinnar og kemst þarmeð nærri því að viðurkenna að um sölu á eign sé að ræða.
Hér ber að undirstrika eftirfarandi ummæli nefndarinnar um þetta atriði: „Aðalfundurinn og/eða stjórnin verður að fara fram með gát og íhuga vel möguleika í stöðunni og hugsanlegar afleiðingar þeirra“. Með þessu viðurkennir nefndin að það sé möguleiki á því að 18. grein hafi verið brotin – á meðan samningsaðilar hafa harðneitað því og sagt að það sé borðliggjandi að farið hafi verið eftir lögum. Nefndin segir að fara þurfi að öllu með gát. Þetta er sem sagt háalvarlegt mál sem verður ekki „skverað af“ með einni tillögu á aðalfundi. Hér þarf aðkomu lögfræðinga og fagmanna til að kryfja málið til mergjar ef fara á fram með gát.
2.6 Framsal á nýja samningnum
Það er ekki hægt að framselja nýja samninginn: sammála samningsaðilum. Gagnrýnendur hafa ekki talað mikið um mögulegt framsal í tengslum við nýja samninginn enda lítið hægt að ræða slíka möguleika þegar ekki er hægt að sjá samninginn í heild sinni. Námunefndin segir að samningsaðilar fullyrði að nýi samningurinn hafi ákvæði gegn framsali en hefur ekki séð þessi ákvæði sjálf.[9]
Aðalþrætuepli samningsaðila og gagnrýnenda þegar kemur að framsali er spurningin hvort framsal á gömlu samningunum hafi átt sér stað í praxis. Annaðhvort áttaði nefndin sig ekki á um hvað deilumálið snerist eða hún skautar framhjá því.
2.7 Seta stjórnar og starfsfólks í embætti framyfir kjörtímabil
Seta stjórnar og starfsfólks framyfir 11. desember er lögmæt: sammála samningsaðilum. Nefndin bendir á að það þurfi alltaf að vera einhver stjórn og þar sem að ný stjórn var ekki kosin á fyrrihluta aðalfundar sé eðlilegt að núverandi stjórn sitji enn. Ennfremur sé þetta staðfest af lögfræðingi KSDA. Fyrri rök námunefndar eru augljóslega útúrsnúningur. Gagnrýnendur hafa ekki haldið því fram að það ætti ekki að vera nein stjórn. Þeir hafa haldið því fram að frestun aðalfundar framyfir 11. desember hafi verið ólögleg og hafa útskýrt lagarök sín. Nefndin vitnar aðeins í lögfræðing KSDA sem er augljóslega ekki óháður aðili.
2.8 Tillögur að sáttum og hvernig halda skal áfram
Sáttartillögur námunefndar eru nýjar og hafa þ.a.l. hvorki verið ræddar af samningsaðilum né gagnrýnendum á opinberum vettvangi. Sáttartillögurnar verða því aðeins greindar hér hvað varðar áhrif þeirra á aðalfund
2.8.1 Hrós
Námunefndin vill hrósa KSDA „fyrir að hafa hug á því að að nýta eignir sínar til að ná hámarksábata í því skyni að efla kjarnastarfsemi sína ... Ekki ætti að hverfa frá því að kanna ný verkefni“. Hvort samtök aðventista á Íslandi eiga hrós skilið eða er eftirlátið lesendum.
2.8.2 Stöðvun málaferla
Námunefndin er viss um að áhrif málaferla séu aðeins „eyðileggjandi“ og að Safnaðarhandbókin sé ótvírætt á móti þeim. Það er auðvitað einungis stefnenda að ákveða hvort þessi tillaga námunefndarinnar sé sannfærandi – aðalfundur getur ekki stöðvað málaferlin. En hinir stefndu hafa ávallt haft þann möguleika að stöðva málaferlin og þetta minnist nefndin ekki á: ef samtakastjórn viðurkennir að undirritun nýja samningsins var ólögleg og dæmir samninginn ógildan þá auðvitað þarf engin málaferli því um þetta atriði snýst nýja stefnan. Hvað varðar Safnaðarhandbókina þá þegir námunefndin þunnu hljóði um þá staðreynd að Safnaðarhandbókin mælir ekki 100% gegn málaferlum. Gagnrýnendur hafa t.d. bent á eftirfarandi orð Safnaðarhandbókarinnar:
Safnaðarsystkini eiga ekki að fara í mál við neina félagsheild innan safnaðarins nema þegar söfnuðurinn hefur ekki séð fyrir leið til að útkljá ágreining sem kann að rísa innan hans eða þar sem eðli málsins er slíkt að það er greinilega ekki á valdssviði safnaðarins að útkljá slíka deilu.[10]
Samtakastjórn og Deildin hafa sýnt sig algjörlega vanhæf til að leysa deiluna innan KSDA og því fóru stefnendur útí málaferli þar sem þeir misstu trú á að það væri yfirhöfuð lausnarvilji til staðar hjá yfirvöldum trúfélagsins.
2.8.3 Meðvitaður og stöðugur stuðningur við sáttarmeðferð
Það hljóta allir að vera sammála þessu ráði. En hafa ber í huga að það er ekki hægt að ná sáttum ef vandamálið sem skapar ósættirnar er ekki leyst fyrst. Allt annað kallast að sópa vandamálinu undir teppið og kemur í veg fyrir raunverulega sátt.
2.8.4 Ný eining sem hefði umsjón með viðskiptatækifærum
Viðskiptasamningar samtakastjórnar hafa verið mikið gagnrýndir. Það er mögulegt úrræði að skapa eignarhaldsfélag utanum viðskipti samtakastjórnar eða eftirlitsnefnd. En slíkar lausnir þarf að ræða og grunda vel áður en farið er af stað og því er eðlilegast að næsta samtakastjórn taki þetta til skoðunar. Samtakastjórn gæti síðan kynnt mögulegt úrræði í þessa átt á til þess skipuðum aukaaðalfundi í náinni framtíð
2.8.5 Endurskoðun orðalags 18. greinar samþykkta Kirkjunnar
Það er mögulegt að hægt sé að skýra orðalag 18. greinar frekar. Lagabreytingar eru samþykktar eftir að laganefnd hefur lagst yfir mögulegar breytingar, komið tillögunum á framfæri við samtakastjórn og lagt þær fyrir aðalfund í skýrslu. Þetta er því eitthvað sem næsta laganefnd getur skoðað. Lagabreytingarstarfshluta núverandi laganefndar er lokið því hún hefur þegar lagt fram skýrslu sína. Þó að henni dytti í hug að leggja fram aðra skýrslu gefst ekki tími þann 8. september til að ræða mikilvægar lagabreytingar þar sem seinnihlutur aðalfundar er aðeins sex klukkutímar á einum degi og á þeim tíma þarf að kjósa nýja stjórn og fara yfir námuskýrsluna (þ.m.t. ráðleggingar hennar sem hafa ekki verið ræddar eða samþykktar enn sem komið er). Ráðlegging námunefndar þess efnis að seinnihluti aðalfundar taki slíka lagabreytingu til skoðunar er því út í hött.
2.8.6 Frestun frekari viðskipta við Eden Mining og/eða fyrirsvarsmenn þess
Í þessu er námunefndin sammála gagnrýnendum. Það að námunefndin telji að slík frestun sé nauðsynleg til að „endurvekja gagnsæi og ábyrgð“ talar sínu máli.
2.8.7 Framfylgd samningsskilmála
Það að nefndin sjái sér ástæðu til þess að ráðleggja samtakastjórn að hún „fylgist náið með og framfylgi skilmálum allra samninga“ talar einnig sínu máli því það gefur í skyn að samtakastjórn hafi ekki fylgst (nægilega) náið með framkvæmd samninga.
2.8.8 Endurskoðuð samsetning stjórnar (upp í 11 stjórnarmeðlimi)
Námunefndin viðurkennir að KSDA sé fámenn en segir að engu að síður sé „ástæða til að fara yfir samsetningu og fyrirsvar innan stjórnarinnar“. Nefndin tiltekur ekki hver þessi ástæða er. Það er heilbrigð skynsemi að (1) fjöldi stjórnenda sé í samræmi við fjölda félagsmanna og að (2) þeim mun stærri sem stjórn verður, þeim mun erfiðara verður henni um vik að kalla saman fundi og starfa. Í ljósi þess að það eru aðeins um 80–150 virkir meðlimir í KSDA er algjört óráð að hafa um 10% þeirra í stjórn. Hafnarfjarðarstjórn stækkaði á þessu tímabili og það auðveldaði enganveginn starf stjórnarinnar. Enda segir heilbrigð skynsemi okkur líka að (3) stjórnir eru stundum stækkaðar aðeins í pólitískum tilgangi til að tryggja að einhver flokkur eða hópur „komi sínum að“. Námunefnd viðurkennir að það sé lítið traust á yfirvöldum innan KSDA og það að agítera fyrir stækkun stjórnar án þess að færa fyrir því útskýringar og rök mun aðeins vekja grunsemdir safnaðarmeðlima um raunverulegan tilgang slíkrar breytingar.
Til að breyta fjölda stjórnarmeðlima þyrfti að breyta samþykktum KSDA (sjá 14. gr. nr. 1) og það er of seint að gera það á þessu kjörtímabili. Ef það ætti að breyta fjöldanum er það málefni sem næsta laganefnd þyrfti að taka fyrir.
2.8.9 Stjórnsýsluþjálfun fyrir embættismenn og stjórnarfólk
Það hljóta allir að vera sammála þessari ráðleggingu. En framkvæmd hennar veltur alfarið á því hvort fráfarandi samtakastjórn hverju sinni vilji funda með nýrri stjórn og veita henni ráðleggingar og varðveita stofnunarminnið o.s.frv. Slík stjórnsýsluþjálfun myndi því alfarið byggja á velvilja fráfarandi stjórnar eða aðkomu annarra reyndra fyrri starfsmanna. Þetta er því ráðlegging sem næsta samtakastjórn þarf að taka til skoðunar þar sem hún ein þyrfti að stíga fyrsta skrefið til þess að slík þjálfun myndi eiga sér stað.
3. Niðurstöður
Námunefndin er ýmist sammála samningsaðilum eða gagnrýnendum. Á það er hinsvegar nauðsynlegt að benda að í þeim atriðum sem hún er sammála samningsaðilum styðst hún ekki við sjálfstæða heimildaöflun og rannsókn og rök heldur aðallega við staðhæfingar samningsaðilanna sjálfra og lögfræðinga þeirra. Í þeim tilvikum sem nefndin hefur haft tíma og heimildir til að skoða atriði sjálf hefur hún verið sammála gagnrýnendum.
Þá er nauðsynlegt að taka það fram að námunefndarmeðlimir tóku það fram sérstaklega og það oftar en einusinni við fleiri en einn viðmælenda sinn að nefndin væri hrædd við starfið sitt: hún óttaðist að ef hún væri of sammála t.d. gagnrýnendum gætu stefnendur nýtt sér það í málsókn sinni. Hún óttaðist líka að Eden Mining myndi lögsækja trúfélagið. Þetta getur verið önnur meginástæða þess að nefndin virðist oft forðast það að komast að niðurstöðu. En þrátt fyrir að hugleysið hafi hamlað nefndinni að nokkru leyti staðfestir hún nægilega marga punkta gagnrýnenda og undirstrikar nægilega nauðsyn áframhaldandi rannsókna á málinu til að fulltrúar geti lesið skriftina á veggnum: það þarf að stöðva Eden Mining og fráfarandi samtakastjórn frá því að reyna að þröngva afdrifaríkum ákvörðunum í gegn á seinnihluta aðalfundar og gæta þess að málinu verði áfram haldið í eðlilegum og rólegum farveg sem útkljáir málin á faglegan og yfirvegaðan hátt til fulls, í stað þess að sópa málinu óleystu undir teppi fyrirgefningarinnar eða valdbeitingarinnar. Slíkt atferli myndi sýna að fólk vill fá sínu fram – m.ö.o. einfaldlega ráða – en ekki sættast, sama hversu mörg biblíuvers, bænir og tár það notar við sópunina.
[1] „Umfang aðkomu GCAS var samningur um framkvæmd ákveðinnar þjónustu en ekki fjármálaendurskoðun“. Námunefnd, skýrsla, bls. 4.
[2] „Spurningar og efasemdir sumra safnaðarmeðlima varðandi samninginn frá 2009 urðu til þess að Stjórnin fór fram á það við Endurskoðunarþjónustu Aðalsamtakanna (GCAS) á vormánuðum 2021 að hún myndi skoða samninginn frá 2009 og frammistöðu aðila“. Námunefnd, skýrsla, bls. 1. Tímasetningin er röng hjá nefndinni: samtakastjórn dró beiðni sína til baka og endurtók hana ekki fyrr en í október 2022.
[3] Eigendur Eden skrifuðu um GCAS-skýrsluna: „hér er um venjulega endurskoðun að ræða“. Eden Mining, opið bréf til safnaðarmeðlima, 14. mars 2022, bls. [1].
[4] Námunefnd, skýrsla, bls. 4.
[5] Námunefndin, skýrsla, bls. 5.
[6] Námunefndin, skýrsla, bls. 4.
[7] Námunefndin, skýrsla, bls. 4.
[8] Námunefndin, skýrsla, bls. 6–7.
[9] Námunefndin, skýrsla, bls. 8.
[10] Safnaðarhandbókin, bls. 49.