Síbreytilegar tölur efnistöku úr Litla-Sandfelli: Hverju ber að treysta?

Greinin var síðast uppfærð þann 22. maí 2024.

Árið 2008 og 2009 samdi Kirkja sjöunda dags aðventista við Eden Mining sem fékk námuréttindi að námum trúfélagsins í Lambafelli og Litla-Sandfelli. Landeigandinn setti námurekstraraðila engin takmörk fyrir því hversu mikið jarðefni hann gæti tekið úr námunni. (2. grein samnings.) Trúfélagið eftirlét því Eden Mining að finna útúr því í samræðum við sveitarfélagið Ölfus.

? á ári (ekki sagt) / 50 þúsund rúmmetrar í heildina á ? árum (2012)

Árið 2012 var aðalskipulag Ölfuss 2010-2022 samþykkt og er það að finna hér. Þar kemur fram að stærð efnistökusvæðisins í Litla-Sandfelli sé 5 hektarar og taka megi allt að 50 000 m3 og að efnistakan verði takmörkuð við suðvesturhlið fellsins:

Sveitarfélagið Ölfus: Aðalskipulag 2012-2020: Greinargerð, 13. mars 2012, bls. 47.

Þetta gefur til kynna að eftir upphaflegar viðræður sveitarfélagsins og Eden Mining voru allir sammála því að taka skyldi aðeins hluta fellsins og fylla uppí skarðið og láta það gott heita. Það var niðurstaða sveitarfélagsins þegar aðalskipulag var ákveðið fyrir næstu tíu árin.

500 þúsund rúmmetrar á ári / 15 milljón rúmmetrar í heildina á 30 árum (19. janúar 2022)

Þann 18. janúar 2022 skrifaði stjórn trúfélagss aðventista leynilega undir nýjan samning við Eden Mining sem felldi eldri samninga úr gildi. Þar stendur ekkert um hve mikið magn námurekstraraðili megi taka úr námunum.

Daginn eftir eða 19. janúar 2022 skilaði verkfræðistofan EFLA matsáætlun til Skipulagsstofnunar varðandi aukna efnistökuáætlun Eden Mining. Þar kemur fram að nýja hugmyndin sé að taka allt að 15 milljón rúmmetra úr Litla-Sandfelli á 30 árum. Ekki kemur fram hve mikið affallsefnið yrði, þ.e. hve margir rúmmetrar Litla-Sandfell er í heild sinni. En það kemur fram að Litla-Sandfell myndi hreinlega „hverfa“ með öllu. Rúmmál fellsins er því um 15 milljón rúmmetrar af nýtanlegu efni.

EFLA, Efnistaka úr Litla[-]Sandfelli: Matsáætlun, 19. janúar 2022, bls. 20.

625 þús. rúmmetrar á ári / 10 milljón rúmmetrar í heildina á 16 árum (23. mars 2022)

Samkvæmt tölvupósti bæjarstjóra Ölfuss til mín hófust viðræður Heidelberg Materials og sveitarfélagsins ekki fyrr en sumarið 2020. Þær viðræður hafa mögulega haft áhrif á stöðu Litla-Sandfells í næsta aðalskipulagi Ölfuss (fyrir árin 2020-2036) sem var samþykkt í mars 2022 og er að finna hér. Þar er efnistökusvæðið orðið margfalt stærra eða 24,5 hektarar og leyfileg efnistaka á tímabilinu tvöfölduð eða 10 milljón m3:

Aðalskipulag sveitarfélagsins Ölfuss 2020-2036: Greinargerð, mars 2022, bls. 72.

En 10 milljón rúmmetrar eru ekki 15 milljón rúmmetrar, svo sveitarfélagið virðist ekki hafa verið 100% inná hugmynd Eden Mining, enn sem komið var.

600 þúsund rúmmetrar á ári / 18 milljón rúmmetrar í heildina á 30 árum (11. ágúst 2022)

Í endanlegri umhverfismatsskýrslu verkfræðistofunnar EFLU fyrir hönd Eden Mining voru áætlanirnar hinsvegar aðeins búnar að aukast (sem valkostur A). Núna var ágert að taka 18 milljónir rúmmetra. Hvaðan þessar auka þrjár milljónir af rúmmetrum áttu að koma virðist ekki vera útskýrt í skýrslunni. Betri nýting á efninu og minna affall? Gígur sem fyllt yrði í?

Til þess að þetta gengi eftir þyrfti að breyta aðalskipulagi Ölfuss 2020-2036 sem gerði aðeins ráð fyrir 10 milljón rúmmetra efnistöku. Sveitarstjórnin samþykkti slíka breytingu á aðalskipulagi sumarið 2023.

Hversu margir rúmmetrar á ári og í heildina? (2022-)

Heidelberg Materials (matsáætlun): ? af 1,5 milljón rúmmetrum á ári / ? rúmmetrar í heildina á ? árum

Í millitíðinni lagði Heidelberg Materials matsáætlun fyrir Skipulagsstofnun í nóvember 2022 varðandi fyrirhugaða mölunarverksmiðju fyrirtækisins og hægt er að lesa hana hér. Fram kemur í matsáætluninni að „hráefni í verksmiðjuna yrði fengið úr námavinnslu í Lambafelli og Litla-Sandfelli“ þó verið væri að kanna aðra mögulega efnisnotkun (úr sjó). Bls. 1.

Heidelberg minntist ekki á hversu marga rúmmetra þeir myndu flytja til verksmiðjunnar heldur tala aðeins um framleitt efni í tonnum. Til að setja magntölur Heidelbergs í samhengi við rúmmálstölur Eden Mining þurfum við því fara í smá útreikning. Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Eden Mining verður 20% affall af því efni sem er tekið úr Litla-Sandfelli. Það merkir að fyrir hvern rúmmetra sem er sóttur í námuna fer aðeins 80% hans í verksmiðjuna. Hver vörubíll flytur 15 rúmmetra eða 30 tonn. Hver rúmmetri af móbergi vegur því tvö tonn. (Sjá umhverfismatsskýrslu EFLU f.h. Eden Mining, bls. 27.)

Snúum okkur nú aftur að Heidelberg. Verksmiðjan myndi vinna allt að 3 milljónum tonna á ári:

Heideberg Materials, Mölunarverksmiðja í Þorlákshöfn: Mat á umhverfisáhrifum: Fyrirspurn um matsskyldu, nóvember 2022, bls. 3.

Þetta er einkar áhugavert. Þó að Heidelberg Materials hafi viðurkennt að þeir væru að kanna aðra möguleika þá stendur að hráefnið komi úr Lambafelli og Litla-Sandfelli. Engar magntölur eru settar fram svo ómögulegt er að vita hve mikið efni þeir ætluðu sér að taka úr hvoru fjallinu. Einnig segja þeir ekkert um hversu lengi áfangi 1 (1,5 milljón tonn af framleiddu efni á ári) myndi vara og hvenær áfangi 2 hæfist (3 milljónir tonn af framleiddu efni á ári).

Við vorum búin að reikna út að rúmmetrinn af móbergi væri tvö tonn að þyngd. Þetta merkir að 3 milljónir tonna eru 1,5 milljón m3 af efni sóttu í námurnar. Við vorum líka búin að reikna að aðeins 80% efnisins sem tekið yrði úr námunum færi í verksmiðjuna. Þetta merkir að sækja þyrfti 1 875 000 m3 í námurnar til að geta skilað þremur milljónum í verksmiðjuna.

Þessar magn- og rúmtölur segja okkur hinsvegar ekkert um hversu mikið efni í heildina (ekki aðeins á ársgrundvelli) Heidelberg ætlar sér úr Litla-Sandfelli og Lambafelli. Það stendur nefnilega ekkert í matsáætlun um það hve lengi verksmiðjan muni starfa - enda er það öllum augljóst að ef Heidelberg fær að reisa verksmiðjuna munu þeir reka hana, námu eftir námu, svo lengi sem þeir geta, þó þeir segi ekkert um það í augnablikinu.

Annað mjög mikilvægt atriði í þessu samhengi: þegar fjölmiðlaumræðan um að láta heilt fjall hverfa varð mjög neikvæð þá fór Heidelberg að fjarlægja sig frá þeim plönum með því að fullyrða að þeir myndu sækja efni í aðra staði. En Eden Mining bakkaði ekkert með þessa fullyrðingu. Þó að Heidelberg myndi aðeins nota brotabrot af efni úr Litla-Sandfelli er ekkert því til fyrirstöðu að Eden Mining selji fjallið eins og það leggi sig til annarra aðila - eða þá til Heidelberg á aðeins lengri tíma en áætlað var í fyrstu.

Heidelberg Materials (umhverfismatsskýrsla): ? rúmmetrar af 250 þúsund rúmmetrum á ári / ? rúmmetrar í heildina á ? árum

Í nýjustu umhverfismatsskýrslu sinni (sem má lesa hér) er ennþá óljóst hjá Heidelberg Materials hversu mikið efni þeir vilja taka úr Litla-Sandfelli ef verksmiðjan verður samþykkt. Það stendur aðeins að ætlunin sé að taka 500 þúsund tonn á ári úr Litla-Sandfelli og Lambafelli. En í hve langan tíma? Það kemur ekki fram svo þessar tölur segja lesandanum lítið.

Heidelberg Materials, Mölunarverksmiðja við Þorlákshöfn: Umhverfismatsskýrsla, desember 2023, bls. 21.

Við getum þó sett þessar tölur í samhengi við það leyfi sem Eden Mining hefur fengið fyrir efnistöku en það er uppá 18 milljónir rúmmetra úr Litla-Sandfelli (eða 36 milljónir tonna): ef Heidelberg Materials og Eden Mining í sameiningu nýta sér alla þá heimild mun Litla-Sandfell hverfa á 72 árum.

Þorsteinn Víglundsson í Hafnarfréttum: allt að 250 þúsund rúmmetrum á ári / ? rúmmetrar í heildina á ? árum

Eitthvað virðast samt þessar tölur vera götóttar enn. Í grein í Hafnarfréttum sem birtist þann 7. maí 2024 fjallar Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Hornsteins ehf., um „staðreyndir“ mála Heidelbergs og segir að ætlunin sé að taka 1,5 milljón tonna á ári og þar af aðeins allt að þriðjungi (eða allt að 500 þúsund tonn) úr Litla-Sandfelli:

Þorsteinn Víglundsson, „Staðreyndir um uppbyggingu Heidelberg í Þorlákshöfn“, Hafnarfrettir.is, 7. maí 2024.

(500 þúsund tonn af móbergi eru 250 þúsund rúmmetrar ef marka má matsáætlun Eden Mining.)

Það er frekar mikill munur á því að segja að þriðjungur (500 þúsund tonn) verði tekin úr Lambafelli og Litla-Sandfelli (skv. Heidelberg) eða að allt að þriðjungi (frá óþekktri lægri tölu upp að 500 þúsund tonnum) verði tekið úr Litla-Sandfellinu einu (skv. Þorsteini).

Elliði Vignisson í Vísi: 600 þúsund rúmmetrar á ári / ? rúmmetrar í heildina á ? árum

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Þorlákshafnar, er síðan með þriðju hugmyndina. Í frétt sem birtist í Vísi þann 23. aprí 2024 ætlar Heidelberg að nota 600 þúsund rúmmetra úr Litla-Sandfelli á ári:

Niðurstaða

Niðurstaðan virðist vera sú að margar mismunandi og hreyfanlegar tölur séu í umræðunni hjá hinum ýmsu aðilum. Hvers vegna skyldi það vera? Getur það verið vegna þess að almenningi líkaði illa sú tilhugsun að heilt fjall yrði látið hverfa og því sé verið viljandi að tala óbeint og óljóst um hversu mikið magn verður tekið úr Litla-Sandfelli og á hversu löngum tíma? Varla eru svona mikilvægar áætlanir hjá svona stóru fyrirtæki þetta óljósar? Vita þeir hreinlega ekki hvað þeir ætla sér í smáatriðum?

Og hversu lengi mun verksmiðjan starfa? Varla mun Heidelberg Materials reisa risaverksmiðju með setlónum og sílóum og skemmum og bílastæðum og nýrri höfn og öllu tilheyrandi, aðeins til þess að breyta öllum mannvirkjunum í draugahverfi eftir nokkra áratugi? Hvers vegna kemur það ekki fram í „staðreyndum“ talsmanns Hornsteins hversu lengi verksmiðjan mun starfa? Ætli það sé ekki sennilega bara vegna þess að fyrirtækið vill fá leyfi fyrir einu fjalli og einni verksmiðju á meðan á móti blæs. Þegar slík leyfi hafa fengist er ekkert mál að rýmka plön og fá ný leyfi og háma í sig annað fjall eða námu númer tvö, og jafnvel reisa einhver síló og byggingar í viðbót. Því ef tölurnar eru hreinlega á síbreytanlegu reiki núna, hvernig eiga þá kjósendur að vita hvað þeir eru nákvæmlega að kjósa um og hvaða fullvissu hafa þeir fyrir því að tölurnar haldi ekki áfram að breytast?

Previous
Previous

Yfirlit yfir öll skjöl Skipulagsstofnunar um Heidelberg-framkvæmdirnar

Next
Next

Nöfn fyrirtækjanna Heidelberg Materials og Eden Mining: greining