Nöfn fyrirtækjanna Heidelberg Materials og Eden Mining: greining

Opinber framsetning skiptir máli og virkar, hvort sem um markaðssetningu, auglýsingar, eða áróður er að ræða. Í því ljósi er athyglisvert að spyrja sig: hvernig vilja fyrirtækin tvö (sem koma að fyrirhuguðu mölunarverksmiðjunni við Þorlákshöfn) koma almenningi fyrir sjónir?

Ef maður hefur ekkert að fela, er þá ekki eðlilegt að maður markaðssetji starfsemi fyrirtækisins réttilega og skýrlega? Nú viðurkenna allir að námurekstur og steinsteypuframleiðsla eru nauðsynlegar iðngreinar í nútímasamfélagi. Auðvitað valda þær mengun og það væri kærkomið ef hægt væri að breyta því, en eins og er þá munum við halda áfram að sækja efni í námur og reisa byggingar úr steypu.

En þessi tvö fyrirtæki eiga, virðist vera, afskaplega erfitt með að koma almenningi hreint og beint fyrir sjónir.

Heidelberg Materials

Byrjum á Heidelberg Materials, fyrirtækinu sem vill reisa grjótmulningsverksmiðju í túnfæti Þorlákshafnar. Samkvæmt Wikipediu er fyrirtækið stærsti íauka-framleiðandi heimsins og næststærsti sement-framleiðandi heimsins. Enda hét fyrirtækið lengst til Heidelberg Cement og ekkert út á það að setja.

En núna þegar almenningur er að vakna upp við þann vonda draum að taka þurfi til í mengunar- og umhverfismálum þá vilja fyrirtæki hafa ,,græna“ ímynd þó að þau séu ekki þannig á litinn í framan. Svo árið 2022 breytti Heidelberg Cement nafninu sínu í Heidelberg Materials. Orðið ,,materials“ er auðvitað almennt og óljóst og er þetta gert viljandi, því orðið er ekki eins ,,gildishlaðið“ og skýrt og orðið sement. Ég spyr: fór Heidelberg Materials alltíeinu að búa til einhver önnur og almennari efni en sement? Auðvitað ekki.

Þetta var hinsvegar ekki nóg. Fyrirtækið breytti einnig lógóinu sínu svo nú er lógóið ekki aðeins grænt á litinn (sem það hafði verið í langan tíma og er alltílagi) heldur er það líka með laufblaði. Bíddu, er þetta fyrirtæki ekki sementsframleiðandi? Ef ég ætti að giska á hvaða tegund af plöntu þetta er myndi ég segja að þetta sé fíkjublað.

Eden Mining

Hitt fyrirtækið er Eden Mining, sem er með námuréttindin til að reka námur aðventista í Litla-Sandfelli og Lambafelli. Nú skipta malarnámur miklu námi fyrir hverskonar byggingarframkvæmdir eins og vegagerð, húsagrunna, steinsteypuframleiðslu og -notkun, o.s.frv. Er þá ekki málið bara að koma hreint og beint fram sem námurekstraraðili? Það gerir t.d. Steypustöðin e.hf. og ekkert útá þá nafngift að setja. En eitthvað vefst þetta fyrir fyrirtækinu sem rekur þessar tveir námur. Þeir ákváðu því að kalla sig eftir Paradís - hinni fullkomnu ímynd ósnortinnar náttúru. En hvernig tengist aldingarðurinn Eden malarvinnslu? Það veit ég ekki. Tengist það trúnni ef til vill, því nú eru báðir eigendurnir meðlimir í trúfélagi aðventista sem á námurnar og samdi við þá? Það er möguleiki, en útskýrir ekki röksemdirnar í nafngiftinni.

Öllu má nafn gefa segir máltækið og annað segir að orð séu til alls fyrst. Ef fyrirtæki geta, einhverra hluta vegna, ekki einusinni kallað starfsemi sína réttum nöfnum þá hlýtur almenningur að mega velta þessu fyrir sér: ef fyrirtæki getur ekki einusinni verið sannsögult í nafngiftum sínum, hvað þá með allar lengri grænar fullyrðingar og yfirlýsingar? Eru þær þá af sama sementsgráa meiði sprottnar, settar fram í þeim tilgangi að villa um fyrir almenningi varðandi það sem er raunverulega í gangi? Er ,,efnið“ (materials) og paradísin (Eden), þegar öllu er á botninn hvolft, ekki náttúra framtíðarinnar, heldur peningarnir sem á að græða?

Previous
Previous

Síbreytilegar tölur efnistöku úr Litla-Sandfelli: Hverju ber að treysta?

Next
Next

Matsáætlun EFLU (2022) og kolefnislosunarspörun