Matsáætlun EFLU (2022) og kolefnislosunarspörun

Í ljósi þess að íbúakosning Ölfuss um hvort leyfa skuli fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg  Materials eða ekki er nauðsynlegt að fara yfir öll gögn þeirra skipulagsmála fyrir almenning.

Þann 28. janúar 2022 lagði verkfræðistofan EFLA matsáætlun á efnistöku í Litla-Sandfelli fyrir Skipulagsstofnun. Snævarr Örn Georgsson skrifaði matsáætlunina. Í þessari grein heldur greining hennar áfram.

 

Í síðustu grein var litið á tilgang efnistöku Eden Mining úr Litla-Sandfelli. Yfirlýst markmið er að búa til vistvænni steypu með því að mylja móberg í íaukaefni sem koma á í stað flugösku og minnka notkun á klinker sem er helsti CO2-losunarvaldurinn við sementsgerð. Ég benti á að CO2-losunin við framleiðslu mulins móbergs virðist ekki vera tekin með í reikninginn og því varla mikið að marka hann. Hér mun ég bæta við nokkrum öðrum athugasemdum.

Er sementsiðnaðurinn undir raunverulegri pressu til að minnka CO2-losun?

EFLA skrifar: „Sementsiðnaðurinn er undir mikilli pressu að minnka koldíoxíðlosun í sinni framleiðslu“. Það getur vel verið en fyrir þessu eru engar heimildir. Þó að mikið sé rætt um loftslagsbreytingar og aðgerðir opinberlega þá er það ekki það sama og þrýstingurinn sé raunverulegur og akút. Fyrir þessu þarf heimildir og greiningu. Er íslenski sementiðnaðurinn t.d. undir einhverri pressu og tímatakmörkunum hvað varðar starfsemi sína af hálfu íslenskra yfirvalda?

Móberg í stað klinkers eða í stað flugösku?

EFLA skrifar: „Efni eins og móberg og vikur munu leika lykilhlutverk í að ná því takmarki [sementsframleiðenda að minnka CO2-losun] með því að koma í stað hins óumhverfisvæna klinkers.“ Með því að koma hreinlega í staðinn fyrir þann? Er þetta ekki orðum aukið? Er móbergið ekki íauki sem er settur útí klinkerinn? Er planið hjá steypuframleiðsluþróuninni að hætta notkun klinkers með öllu og láta íauka koma í staðinn fyrir hann? Þetta er ekki nógu skýrt hjá EFLU, lesandi á erfitt með að vita hvað er verið að meina.

Hvað er vandamálið: klinker, flugaska – eða steypan sjálf?

Ef við ætlum í alvörunni að ræða loftslagsvána sem vandamál sem þarf að takast á við þurfum við sennilega að horfast í augu við gagntækar og róttækar breytingar. Að breyta einhverjum litlum hluta steypugerðar er sennilega ekki lausn eftir allt saman því steypuframleiðsla yfirhöfuð er ekki sjálfbær. Mannkynið fór aðeins að nota steypu í stórum stíl fyrir mjög stuttu síðan í sögunni og á undan því gat mannkynið lifað allsstaðar á jörðinni án þess að nota steypu. Á 21. öldinni hljómar það svakalega róttækt að reyna að nota önnur byggingarefni en steypu – hvernig ætti það að vera hægt á tækniöld? En ætti það ekki einmitt að vera hægt á tækniöld? Ef við myndum nota tækni okkar og vísindi til að finna vistvænni lausnir, er þá hægt að útiloka það fyrirfram að það verði ekki frekari stórar breytingar framundan? Heimurinn hefur gjörbreyst á undanförnum þremur öldum – hvers vegna ætti hann ekki að geta breyst ennþá meir og það inná vistvænar brautir sem engan dreymdi um áður fyrr? Ef við ætlum að tala um loftslagsvána sem rókttækt vandamál þá hljóta lausnirnar að þurfa að vera róttækar líka. Annars er ekki hægt að taka mark á vandamálinu ef lausnirnar mega bara vera plástrar á svöðusár.

Er kolaska í raun og veru að hverfa?

Matsáætlun EFLU gengur útfrá því – enn og aftur með næstum núll heimildavinnu – að steypuframleiðendur muni ekki hafa aðgang að flugösku eftir bara nokkur ár. Það er tekið fram að Þýskaland stefni að því að loka öllum kolaverum fyrir 2038. Opinber stefna og endanlegur raunveruleiki, áætlanir og endanlegar framkvæmdir, eru hinsvegar ekki endilega það sama. Hverjar eru heimildir EFLU fyrir því að þessi þýsku plön séu að ganga eftir?

Og 2038 er eftir 14 ár. Hvers vegna leyfum við Íslendingar ekki Þjóðverjum að nota upp alla þessa flugösku (ef þeir í raun og veru munu loka öllum kolaverum fyrir 2038) áður en við förum að selja þeim fjöllin okkar? Væri ekki sniðugara að nota flugöskuna (sem er enganveginn alslæm, hún er jú notuð til að minnka klinkernotkunina sem er verri, og um að gera að nota aukaafurðir eins og kolaösku sem er til hvortsem er) á meðan hún er til? Og selja svo Þjóðverjum fjöllin okkar eftir fimmtán ár þegar þeir hafa enga ösku lengur? Verður móbergið ekki dýrmætara þá þegar þörfin eftir íauka er orðin brýnni? Bara útfrá bisnissjónarmiði einusaman, væri ekki skynsamara að doka við og selja á hærra verði í framtíðinni? Það er ekki eins og fjöllin séu að fara neitt.

En m.a.s. ef öllum þýskum kolaverum verður lokað fyrir 2038, á það sama við um alla Evrópu? Er ekki bara frekar líklegt að aðrar evrópskar þjóðir muni halda áfram að brenna kolum og að steypuframleiðendur muni bara nýta sér flugöskuna þeirra? EFLA minnist ekki orði á þessa möguleika. Og m.a.s. ef þýskir steypuframleiðendur lenda í vandamálum af því þeir geta ekki sótt öskuna til nágrannalanda – er það ekki bara þeirra vandamál? Af hverju er innanhússvandamál Þjóðverja – sem er ekki einusinni orðið vandamál, heldur verður það bara mögulega í framtíðinni – vandamál Íslendinga? Nú segir einhver: við erum öll í þessu saman hvað varðar mengun. Mikið rétt, en það þýðir ekki að hvert einasta land sé með lausnir á öllum vandamálum allra hinna landanna. Geta Íslendingar ekki bara valið sér hvaða vandamál þeir vilja hjálpa til við að leysa og hvernig þeir vilja gera það? Síðan hvenær eiga þýskir steypuframleiðendur að ákveða fyrir Íslendinga hvað þeir þurfa að gera eða þurfa ekki að gera?

Aðrar „lausnir“ þegar á borðinu hjá Heidelberg Materials

Í fyrra samdi Heidelberg Materials við kanadísku ríkisstjórnina því umsvif fyrirtækisins í því landi eru mikil. Markmiðið er að „núlla út“ kolefnislosun með öllu. Með íslensku móbergi? Nei. Með því að dæla CO2 oní jörðina (svokölluð carbon capture tækni).[1] Þetta er Heidelberg einnig að gera víst í Noregi.[2] Það geislar af spenningi í kringum Heidelberg Materials þegar þetta ber á góma fréttamanns: þessi tækni á að núlla út kolefnislosun steypuframleiðslu:

„It is a century-old company that's paving the way for concrete decarbonisation – recently launching the world’s first carbon captured net-zero cement.

Enter Heidelberg Materials (formerly Heidelberg Cement) – the world’s first heavy building materials industry that has grown over 150 years into one of the world’s largest manufacturers of building materials with revenues of €21.1 billion. …

Solving the climate challenge has been the company’s focus for many years – and with the roll-out of its new and global corporate brand over the last few years, Heidelberg Materials is taking a pioneering role in the reduction of CO2 emissions.

Driving the circular economy in the construction industry, the company’s goal is to secure 50% of its revenue with sustainable products by 2030.“[3]

Er komin reynsla á þessa tækni og virkar hún í raun og veru? Það veit ég ekki. En það er augljóst að samkvæmt Heidelberg Materials sjálfum er hægt að leysa CO2-losunarvandann án íslensks móbergs. Ef svo er, hvers vegna geta Þjóðverjar ekki reist svona carbon capture ver? Hvers vegna þurfa þeir á íslensku móbergi að halda þrátt fyrir þessa stórkostlegu áætlun fyrirtækisins í Kanada? Er ekki möguleiki á því að steypufyrirtæki vilji einfaldlega búa til sem mesta steypu á sem flestum stöðum eftir sem flestum mögulegum leiðum, burtséð frá því hvort það er endilega gott fyrir Ísland eða loft jarðar eða ekki?

 

Jevonsþversögnin

Í matsáætlun EFLU stendur að markmiðið sé ekki að auka steypuframleiðslu:

„Mulda móbergið er ekki ætlað sem viðbót á sementsmarkaðinn eða til þess að auka heildarframleiðslu, heldur kemur það í stað efna sem notuð eru við framleiðslu á sementi í óumhverfisvænna framleiðsluferli.“ Bls. 9. Sjá einnig bls. 13.

Hvaða heimildir eða rök hefur EFLA fyrir því að mulið móberg muni ekki einmitt einfaldlega auka steypuframleiðslu? Svarið er: EFLA hefur engin rök eða heimildir fyrir því. Staðreyndin er nefnilega því miður sú að þegar hlutir eru auðveldari, aðgengilegri, eða ódýrari, þá eykst eftirspurn í stað þess að minnka. Þegar tímasparandi tækni hefur rutt sér braut hefur hún aldrei minnkað vinnuálag – fólk hefur bara notað tímann sem var „sparaður“ til að gera eitthvað annað. Þó það þurfi ekki að handþvo þvott á Íslandi útaf þvottavélum o.s.frv. þá urðu einfaldlega til önnur heimilisstörf í staðinn sem þarf að sinna. Þó að bílar séu til sparar það ekki tíma því fólk hefur nóg annað að gera þó það þurfi ekki að labba eða ríða hesti á vinnustað. Um þetta er til þversögn sem heitir „þversögn Jevons“:

„In economics, the Jevons paradox ... occurs when technological progress increases the efficiency with which a resource is used (reducing the amount necessary for any one use), but the falling cost of use induces increases in demand enough that resource use is increased, rather than reduced.“[4]

Þessi þversögn er gjörsamlega hunsuð af EFLU þó hún segi sennilega til um hvernig mál muni í raun og veru þróast ef af „grænni steypuframleiðslu“ Heidelberg verður með íslensku móbergi: steypuframleiðsla mun sennilega aukast í stað þess að minnka.


[1] Cision, „Government of Canada signs partnership with Heidelberg Materials to decarbonize the cement and concrete industry“, NewsWire.ca, 5. apríl 2023, https://www.newswire.ca/news-releases/government-of-canada-signs-partnership-with-heidelberg-materials-to-decarbonize-the-cement-and-concrete-industry-871054485.html.

[2] World Cement, Oliver Kleinschmidt, „Heidelberg Materials has launched the worlds first net-zero cement”,  WorldCement.com, 29. nóvember 2023, https://www.worldcement.com/product-news/29112023/heidelberg-materials-has-launched-the-worlds-first-net-zero-cement/.

[3] Sustainability Magazine, Kate Birch, „Heidelberg Materials Behind World’s First Net-Zero Concrete“, SustainabilityMag.com, 16. febrúar 2024, https://sustainabilitymag.com/net-zero/heidelberg-materials-behind-worlds-first-net-zero-concrete.

[4] „Jevons Paradox“, Wikipedia.com, https://en.wikipedia.org/wiki/Jevons_paradox.

Previous
Previous

Nöfn fyrirtækjanna Heidelberg Materials og Eden Mining: greining

Next
Next

Rýnt í CO2-spörunarfullyrðingar EFLU (Matsáætlun, 2022)