Rýnt í CO2-spörunarfullyrðingar EFLU (Matsáætlun, 2022)

Í ljósi þess að íbúakosning Ölfuss um hvort leyfa skuli fyrirhugaðar framkvæmdir Heidelberg  Materials með ekki er nauðsynlegt að fara yfir öll gögn þeirra skipulagsmála fyrir almenning.

Þann 28. janúar 2022 lagði verkfræðistofan EFLA matsáætlun á efnistöku í Litla-Sandfelli fyrir Skipulagsstofnun. Snævarr Örn Georgsson skrifaði matsáætlunina. Í þessari grein og þeim næstu verður farið yfir helstu atriði hennar.

 

Skv. EFLU stendur til „að vinna allt af 15 milljón m3“ úr Litla-Sandfelli. Efnið á að nýta að hluta „í framkvæmdir á svæðinu, og að hluta sem íblöndunarefni í sement“. Bls. 7.

Tilgangur efnistökunnar er tvennur: (1) að nota meirihluta efnisins „sem staðgönguefni flugösku í sementsframleiðslu (2) og þar með lækka kolefnisspor „byggingariðnarins á Íslandi og í Norður-Evrópu“ (bls. 9).

Tilgangur og markmið efnistökunnar (liður 2.1)

Kolefnissporslækkunin á að felast í breytingum á steypugerð og þetta er útskýrt á eftirfarandi hátt. Nútímasteypa er búin til úr sementi, steinefni og vatni og einnig íblöndunarefni og íauka. Eitt helsta innihaldsefni sementsins sjálfs er svokallaður klinker (sementsgjall). Klinker er búinn til „með því að bræða saman kalkstein og leir“.

Framleiðsla á einu tonni af klinker losar 842 kg CO2 útí andrúmsloftið. Um er að ræða alvarlega mikið af kolefnislosun þar sem sementsframleiðsla veldur um 8% af losun CO2 útí loftið af mannavöldum á allri jörðinni. Allt í allt eru 4 billjón tonn af sementi framleidd árlega og þar af um 180 milljón tonn í Evrópu.

Til að minnka kolefnislosunina hafa steypuframleiðendur undanfarið reynt að breyta innihaldi sements með því að minnka magn klinkers og auka magn íauka eins og flugösku. Flugaska er aukaafurð sem verður til í kolaverum þegar kolum er brennt. Það er hinsvegar séð fyrir að minna verði til af flugösku í náinni framtíð. Þýsk stjórnvöld hafa t.d. ákveðið „að loka öllum kolaverum fyrir 2038“. Þetta merkir að sementsframleiðendur (a.m.k. þar í landi) munu neyðast til að nota meiri klinker nema þeir geti notað annan íauka í stað flugösku – eins og t.d. móberg.

Rök og heimildir

Matsáætlun EFLU er 24 bls og aðeins er stuðst við fimm heimildir. Þar af eru þrjár notaðar í lið 2.1 til að styðja eftirfarandi staðhæfingar: (1) magn CO2 sem losnar við framleiðslu á einu tonni af klinker, (2) hlutfall CO2-losnunar af mannavöldum vegna sementsframleiðslu og (3) magn ársframleiðslu af sementi á jörðinni og í Evrópu.

M.ö.o., heimildavinnan er harla bágborgin. Það er aðeins ein heimild í allri matsáætluninni fyrir því hversu mikið CO2 losnar við framleiðslu á klinker (og ég gat ekki fundið þessa heimild á netinu því EFLA hefur ekki einusinni fyrir því að skrifa vefslóðina). Það eru síðan engar heimildir fyrir því hversu mikið kolefni losnar við notkun íauka, hvort sem um er að ræða flugösku eða mulið móberg og engar heimildir fyrir því að notkun íauka minnki kolefnissporið.

Nú spyr lesandinn: en gefur það ekki augaleið að ef framleiðsla á klinker losar svo og svo mikið CO2, að ef maður býr til minna af honum (með því að drýgja hann með íauka) að þá er maður sjálfkrafa að losa minna CO2? Þetta er varla stærðfræði því vitaskuld þarf maður að taka með í reikninginn hvað framleiðsla á íaukaefnunum losar mikið CO2. Ég skal gefa dæmi: segjum sem svo að ég búi þar sem gas er notað til upphitunar. Ég hugsa: „framleiðsla á gasi losar svo og svo mikið CO2. Svo ef ég minnka gasnotkunina með því að nota eitthvað annað í staðinn fyrir gas þá losnar sjálfkrafa minna CO2. Ég ætla því að brenna kol tvo daga í viku til að minnka kolefnislosunina.“ Er þetta rökrétt stærðfræði? Auðvitað þarf ég að reikna hve mikil losun felst í kolaframleiðslunni ef vit á að vera í sparnaðarútreikningum mínum.

Til að geta reiknað CO2-dæmið almennilega þarf maður að spyrja sig: hvað felst mikil losun CO2 í því að nota móberg sem íauka í sementsgerð? Sá útreikningur þyrfti að fela í sér eftirfarandi:

  • gröfur þurfa að sækja móberg í námuna í Litla-Sandfelli

  • vörubílar munu keyra á nokkurra mínútna fresti frá námunni niðrí verksmiðju

  • það þarf að reisa og reka heila verksmiðju í Þorlákshöfn

  • það þarf að afferma bílana og flytja efnið frá þeim yfir í verksmiðjuna

  • þar þarf að vinna móbergið svo það verði nothæft í sementsframleiðslu

  • það þarf að flytja unna efnið úr verksmiðjunni yfir í skip

  • skipin þurfa að sigla til Þýskalands og þar þarf að afferma þau og flytja sementið til steypuframleiðanda

Allt þetta felst í þeirri ákvörðun að „spara“ kolefnislosun með því að nota íslenskt móberg sem íauka í stað þýskrar flugösku. Eden Mining og Heidelberg Materials geta haldið því fram að þessi leið leysi minna CO2 útí loftið. En þá þurfa fyrirtækin að sýna fram á það með meiri útreikningum en því einu að benda á hve mikið CO2 losnar útí loftið við að búa til klinker.

Previous
Previous

Matsáætlun EFLU (2022) og kolefnislosunarspörun

Next
Next

Greining á pistli stjórnenda í Kirkjufréttum þann 12. apríl 2024