Greining á pistli stjórnenda í Kirkjufréttum þann 12. apríl 2024

Þann 12. apríl 2024 birtist pistill eftir stjórnendur í Kirkjufréttum, vikulegu fréttabréfi aðventista á Íslandi. Þar tilkynna stjórnendur safnaðarmeðlimum það að Landsréttur hafi staðfest frávísun Héraðsdóms (en 21 meðlimur stefndu samtakastjórn fyrir hönd KSDA fyrir að hafa skrifað undir nýjan námusamning við Eden Mining í trássi við 18. grein samþykkta trúfélagsins).

Í pistli sínum fara stjórnendur yfir kostnaðinn eða réttara sagt fimm afleiðingar sem þeir telja að málshöfðunin hafi haft í för með sér. Áður en farið verður yfir þessar fimm afleiðingar er nauðsynlegt að koma með nokkrar athugasemdir við pistilinn í heild sinni.

Frávísun dómsmálsins

Stefnunni var vísað frá sem þýðir að dómstólar höfnuðu því að taka málið fyrir. Þetta gera dómarar þegar þeir meta mál svo að það eigi ekki erindi til dómstóla eða það sé ekki hægt að taka það réttilega fyrir sökum form- eða framsetningargalla. Þetta merkir ekki endilega að stefna í sjálfu sér geti ekki átt erindi til dómstóla – aðeins að hún eigi ekki erindi þangað í sinni núverandi mynd.

M.ö.o., dómstólar dæmdu ekki í málinu sjálfu.

Stjórnendur stilla hinsvegar frávísun stefnunnar fram sem staðfestingu dómstóla á sakleysi samtakastjórnar. Þann 14. mars 2024 skrifaði formaður KSDA í pistli sínum í Kirkjufréttum að „sannleiksgildi þessara ásakana“ verði að vera metnar „af hlutlausum aðila, annað hvort af / eða bæði af dómstólum og námunefnd“. Hann hnykkti á þessum punkti: „Aftur, hvernig getum við náð sáttum þegar sannleikurinn hefur ekki verið staðfestur, af námunefndinni og dómstólum?“

Þetta var mjög sérkennileg staðhæfing í ljósi þess að lögfræðingar samtakastjórnar fóru fram á að málinu yrði vísað frá og það var gert. Eina leiðin til að láta dómstóla meta „sannleiksgildi þessara ásakana“ hefði verið sú að leyfa dómstólum að dæma í málinu. En það vildi samtakastjórn ekki. Það er allt í lagi að hún hafi ekki viljað það – en þá getur hún ekki á sama tíma með réttu sagt að hún hafi viljað að dæmt hafi verið í málinu.

Á það ber að benda að formaður fór um það sterkum orðum að safnaðarmeðlimir ættu ekki að mynda sér skoðun í námumálinu þar sem „svo mikið af röngum upplýsingum“ væru „enn í umferð sem sannleikur“. „Þó að þú hafir þína eigin skoðun á þessum hlutum, þá er eitt sem við getum verið viss um: málin eru flókin og liggja mjög djúpt.“ Formaður sagði svo söguna af blindu mönnunum og fílnum til að undirstrika það að safnaðarmeðlimir hefðu ekki heildarmyndina af námumálinu og því bæri þeim að bíða eftir niðurstöðu dómstóla og námunefndar.

Í nýjasta pistli sínum liggja stjórnendur hinsvegar ekki á skoðun sinni hvað varðar stefnuna. Þetta er aðeins hægt að skilja sem svo að þeir telji frávísun hennar vera staðfestingu dómstóla á því að ástæður stefnunnar hafi verið rangar. Þetta er vísvitandi og alvarleg rangtúlkun á því hvað frávísun merkir.

Orð Páls um málaferli trúsystkina

Eftir að hafa gert grein fyrir frávísuninni segja stjórnendur að með henni hafi stefnendur valið „að ganga beint gegn ráðleggingum Guðs“ sem er að finna í 1. Korintubréfi 6.1–7. Samtakastjórn hefur vitnað í þennan texta mörgum sinnum og hefur kosið að hunsa allt sem ég hef skrifað um þennan texta. Nú vill svo til að ég er guðfræðingur og get sagt að almennt séð er biblíutúlkun samtakastjórnar mjög einhliða, rifin úr samhengi og á skjön við guðfræði aðventista.

Ein helsta ástæða þess að Páll segir safnaðarmeðlimum að fara ekki í málaferli hverjir gegn öðrum er sú að þeir eiga að leysa úr sínum málum sjálfir. Á sama tíma hefur samtakastjórn barist af öllu afli gegn því að námumálið verði leyst:

  • Samtakastjórn hefur aldrei svarað fyrirspurnum og gagnrýnispunktum safnaðarmeðlima og safnaðarstjórna í námumálinu

  • Samtakastjórn gekk svo langt að leggja fram tillögu þess efnis fyrir fulltrúa aðalfundar að samþykkt yrði að námumálið yrði látið falla niður með öllu án upplýsingargjafar af hálfu stjórnarinnar því „að svara spurningum myndi líklega leiða til meiri frekar en minni sársauka“ og þjónaði því engum tilgangi. Á aðalfundi 2022 sagði annar eigandi Eden Mining að beiðni um upplýsingar í málinu væri „upplýsingafrekja“. Samtakastjórn lítur fyrirspurnir sennilega sömu augum

  • Samtakastjórn hefur úthrópað alla gagnrýni sem ókristilega og jafnvel djöfullega. Með því tók hún frá upphafi sterka afstöðu í málinu án þess að það hafi verið rannsakað. Þetta ber að undirstrika. Samtakastjórn hefur dregið taum Eden Mining í gegnum allt ferlið og ekki gagnrýnt fyrirtækið í einu einasta atriði

  • Samtakastjórn bað GCAS um rannsókn en dró næstum allar rannsóknarspurningar sínar til baka svo rannsóknin var fyrirfram dauðadæmd til að varpa nærri engu ljósi á málið – fulltrúi GCAS sem kynnti skýrsluna viðurkenndi að þeir hefðu engin skjöl fengið frá Eden Mining

Þegar Páll skrifaði Korintumönnum gekk hann útfrá þeirri forsendu að kirkjan væri í stakk búin til að leysa deilumál safnaðarmeðlima. Að túlka orð hans á þann hátt að stjórn kirkju megi gera það sem henni sýnist og safnaðarmeðlimir verði að lifa við það án þess að deilan sé leyst sýnir litla löngun til að skilja það sem Páll er að tala um.

Ég hef einnig bent á það áður að í Safnaðarhandbókinni stendur að í vissum tilvikum sé í lagi að safnaðnarmeðlimir fari í mál hver við annan og m.a.s. gegn stjórn trúfélagsins. En það er þægilegra fyrir samtakastjórn að leiða það hjá sér með öllu því það gerir málið svarthvítara – stjórnin er góð og þeir sem dirfast að leita til veraldlegra dómstóla eru hvorki meira né minna en að fara gegn orði Guðs sjálfs.

Á það ber síðan að minna að eigendur Eden Mining hótuðu ekki aðeins mér og Kristjáni Ara Sigurðssyni (safnaðarformanni Hafnarfjarðarsafnaðar) lögsókn fyrir meint meiðyrði heldur kirkjunni sjálfri í opnu bréfi sínu þann 17. febrúar 2023 (bls. 9, 11, 12) ef hún dirfðist að hrófla við nýja samningnum. Þessar lögsóknarhótanir virðast ekki trufla nýjatestamentisskilning samtakastjórnar en hún hefur, eins og áður var sagt, hvorki fundið að Eden Mining í stóru né smáu. Þó er lögsóknarhótun Eden Mining allsvakaleg á hendur kirkjunni:

„Þessum samningi verður ekki rift, en ef það yrði reynt án þess að um samningsbrot væri að ræða, gæti það haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir kirkjuna í formi skaðabótakröfu sem myndi að öllum líkindum kosta kirkjuna allt sem hún á og meira til.“

Hver myndi krefjast skaðabóta ef KSDA myndi rifta samningi sínum við Eden Mining? Væntanlega Eden Mining.

Lítum nú á þann fimmfalda kostnað sem stjórnendur segja að hlotist hafi af stefnunni sem vísað var frá.

1. Fjárhagslegur kostnaður

KSDA hefur þurft að greiða lögfræðingum fyrir vörn sína í málinu, þó að stefnendum hafi verið gert að greiða mikinn hluta málskostnaðar. Þetta er rétt en það hverjum þetta er að kenna fer auðvitað eftir því hvort samtakastjórn hafi mátt skrifa undir nýja samninginn eða ekki. Samningurinn felur í sér langtímaráðstöfun á einni dýrmætustu eign trúfélagsins á forsendum sem mörgum safnaðarmeðlimum finnst vera skaðlegar fyrir kirkjuna. Ef samtakastjórn skrifar leynilega og ólöglega undir samning þar sem svona mikið er í húfi er varla hægt að sakast við þá sem vilja leiðrétta þessa hluti með stefnu.

2. Tilfinningalegur kostnaður

Samtakastjórn segir að stefnan hafi valdið samtakastjórn, eigendum Eden Mining og vinum þeirra og vandamönnum tilfinningalegum kostnaði. Þetta er áreiðanlega rétt. En hvað með stefnendur og aðra safnaðarmeðlimi? Þeir líta mjög margir svo á að samtakastjórn og Eden Mining séu í órétti og hefur liðið illa út af framferði þessara tveggja aðila. Það líður sennilega öllum illa í deilumáli, en það eitt og sér segir ekkert hver ber ábyrgð á tilfinningakostnaðinum, það fer t.d. eftir því hver er gerandi og hver er þolandi.

3. Rofin sambönd milli safnaðarmeðlima

Samtakastjórn segir að með málaferlunum hafi stefnendur og stuðningsfólk þeirra valdið því að sambönd þeirra við stefndu og stuðningsmenn þeirra hafi rofnað. Enn og aftur: hver ber ábyrgð á slíkum kostnaði fer eftir því hvar sannleikurinn liggur í námumálinu. Og ef grennslast er betur fyrir þá hættu samtakastjórnarmeðlimir og stuðningsmenn þeirra að mæta í kirkju og hófu sínar eigin sér-samkomur í Suðurhlíðarskóla strax eftir aðalfund 2022 – tæpu ári áður en dómsmál yfirhöfuð hófst. Á þeim tímapunkti var Hafnarfjarðarsöfnuði kennt um (sbr. t.d. ummæli Steinunnar Theodórsdóttur á safnaðarfundi þess safnaðar) um það að hafa valdið sambandsrofunum. Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna að gjáin sem hefur skapast í trúfélaginu var orðin til og fór breikkandi löngu áður en að kom til stefnu.

Ég vil ekki gera lítið úr vanlíðan annarra, hver svo sem ástæða upplifunar þeirra er. En mér finnst það undarlegt að stjórn trúfélags telji að deilumál séu það einföld að allt sé einum aðila að kenna og ekkert hinum.

4. „Orðstír Guðs“ hefur beðið hnekki

Samtakastjórn vitnar í ritskýringu Ellenar White á sjötta kafla 1. Korintubréfs en þar segir White að þegar safnaðarmeðlimir fara með deilumál sín fyrir veraldlega dómstóla, oft „þótt engin raunveruleg ástæða sé fyrir“ neikvæðum tilfinningum í garð hver annars, láti það trúfélagið líta illa út í samfélaginu og varpi skugga á hugmyndir fólks um Guð.

Í tilvitnunni segir White ennfremur að í stað þess að lenda í málaferlum beri að leysa ágreining innanhúss: „Slík[an] ágreining ætti að leysa sín á milli, eða af Kirkjunni, í samræmi við leiðbeiningar Krists.“ En hvernig er hægt að leysa vandamálið innan trúfélagsins ef samtakastjórn hefur gengið svo langt að segja frá upphafi að gagnrýni í sinn garð sé ókristileg, upplýsingar til safnaðarmeðlima til einskis, og undirstrikar í sífellu að fólkinu í kirkjunni beri að líða ranglæti frekar en að leita til dómstóla? Þetta er mjög einhliða og yfirborðskennd greining á því sem White er að segja.

Samtakastjórn segir ennfremur að „fólk utan kirkjunnar hefur hlegið að þessari málssókn“. Ég væri mjög forvitinn að fá að vita hverjir þetta eru og hversu margir. Ég get nefnilega sagt frá því að námurekstrarfyrirtæki á Íslandi – fyrir utan Eden Mining – eru steinhissa yfir því að kirkjan hafi sætt sig við rekstrarfyrirkomulagið sem Eden Mining kom á. Ég hef talað við eigendur námurekstrarfyrirtækja sem hafa sagt mér að Eden Mining sé óþarfa milliliður og að kirkjan hefði átt að semja beint við raunverulegan rekstraraðila námunnar því þá hefði hún fengið margfalt hærri upphæðir en hún hefur fengið frá Eden Mining. Eigandi eins slíks fyrirtækis sagði að ef möguleikinn væri fyrir hendi myndi hann semja við trúfélagið á morgun fyrir margfalt betri kjör en Eden Mining hefur boðið kirkjunni.

Þess má líka geta að þegar Aðventkirkjunni hefur brugðið fyrir í fjölmiðlum í tengslum við námumálið hafa margir hætt hana fyrir það að hún skuli vera að færa fjöll fyrir peninga en ekki fyrir trú.

Það var einmitt til að stöðva þessa opinberu smán trúfélagsins sem stefnendur stefndu samtakastjórn fyrir hönd KSDA. Stefnendur litu svo á mál að tímabundinn „skandall“ í fjölmiðlum væri minna vandamál fyrir kirkjuna en rekstrarfyrirkomulag Eden Mining, þátttaka aðventista í stóriðnvæðingu íslenskrar náttúru og algjört hvarf Litla-Sandfells í boði trúfélags sem segist leggja áherslu á Guð sem skapara og mannkynið sem umsjónarmenn náttúrunnar.

5. Stefnan hefur skaðað trúboð kirkjunnar

Þessi punktur fer eftir því hvernig trúboð er skilgreint og við hvern er átt.

Það getur verið að samtakastjórn meini að hefði henni ekki verið stefnt hefði hún getað beitt sér meira fyrir trúboði. Það er rétt að samtakastjórn hefði haft meiri tíma til annarra verka hefði stefnan ekki átt sér stað. En hverjum er það kenna að stefnan átti sér stað? Þetta er aftur spurning um það.

Auk þess sem ég veit ekki hvaða boðun samtakastjórn hefði beitt sér fyrir hefði hún haft meiri tíma. Samtakastjórn ein og sér beitir sér ekki fyrir boðun. Samtakastjórn er kosin til að leiða boðun safnaðanna. Ber því ekki að meta þennan punkt í ljósi þess hvernig samtakastjórn hefur komið að boðun safnaðanna? Hún hefur fjársvelt boðunarstarfsemi Hafnarfjarðarsafnaðar og ekki stutt söfnuð dreifðra á Akureyri í ýmislegu starfi hans. Samtakastjórn hefur ekkert gert til þess að koma í veg fyrir það að Vestmannaeyjasöfnuður lognist út af og meðlimir samtakastjórnar eru hættir að sjást í Árnessöfnuði með öllu. Samtakastjórn hefur beitt sér fyrir því að selja Reykjavíkurkirkju þrátt fyrir góða og staðbundna starfsemi þess söfnuðar svo ekki virðist samtakastjórn annt um starfsemina þar. Keflavíkursöfnuður hefur verið með öflugt ADRA-starf undanfarin ár til að hjálpa flóttamönnum – en slíkt er ekki trúboð heldur hjálparstarf. Þetta er ekki túlkun mín heldur opinber yfirlýsing ADRA á eigin starfsemi.

Lítum síðan á hóp stefnenda. Þar er að finna fólk sem hefur staðið í boðunar- og kirkjustarfi alla sína starfstíð og margir eru enn að. Aðkoma þeirra að stefnunni þurrkaði hvorki upp boðunaráhuga þeirra né -starfsemi.

Niðurstaða

Samtakastjórn hefur ekki sýnt vilja til að leysa námuþrætu trúfélagsins. Hún hlýtur því að vera ábyrg að miklu leyti fyrir þeirri stöðu sem aðventistar eru komnir í. Stjórninni ber að leiða og hún hefur leitt á þann hátt að trúfélagið er klofið í tvær fylkingar. Mál hefðu að öllum líkindum ekki farið á þennan veg hefði samtakastjórn einfaldlega sýnt gagnsæi, heiðarleika og skilning í málinu frá upphafi með því að svara fyrirspurnum og takast á við gagnrýni. Hún kaus hinsvegar að svara hvorki fyrirspurnum né gagnrýni, nema með vandlætingu og biblíutilvitnunum og taldi sig einnig hafa rétt til þess að fara gegn lögum trúfélagsins með því að túlka þau á mjög ósannfærandi hátt. Í stað þess að horfast í augu við ábyrgð sína í málinu kjósa stjórnendur síðan að hella vandlætingu sinni yfir stefnendur í löngum pistli.

Stjórnendur ljúka síðan pistli sínum á svo ótrúlegan hátt að það verður að bíða næstu greinar að gera því skil.

Previous
Previous

Rýnt í CO2-spörunarfullyrðingar EFLU (Matsáætlun, 2022)

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 6. Námunefndin og frestun seinnihluta fundarins