Framvinda 41. aðalfundar: 6. Námunefndin og frestun seinnihluta fundarins

24. nóvember: Ólögleg frestun aðalfundar tilkynnt

41. aðalfundur KSDA hófst 22.–25. september 2022. Á þeim fundi samþykktu fulltrúar að ljúka aðalfundi ekki fyrr en nefnd á vegum Stór-Evrópudeildarinnar hefði skrifað skýrslu um rekstur námanna. Fulltrúar myndu koma aftur saman þann 11. desember 2022 og ljúka dagskrá fundarins. Þegar fulltrúar spurðu hvort þetta væri raunsær tími til slíkra skýrsluskrifa fullyrti Daniel Duda formaður Deildarinnar í tvígang að þetta væri nægilegur tími. Því samþykktu fulltrúar tillögu þess efnis að ljúka 41. aðalfundi þann 11. desember 2022.

Í Kirkjufréttum 24. nóvember 2022 var hinsvegar birt tilkynning frá Daniel Duda þess efnis að þar sem skýrslan væri ekki tilbúin yrði aðalfundi frestað til snemma árs 2023. Þessi ákvörðun var tekin sameiginlega af samtakastjórn og Stór-Evrópudeildinni[1] án nokkurs samráðs við fulltrúa. En þar sem 41. aðalfundur var enn yfirstandandi fóru þeir enn með æðsta ákvörðunarvald KSDA (samþykktir KSDA, 11. gr.) en hvorki samtakastjórn (sem hlýtur umboð sitt frá aðalfundi og þarf að svara til aðalfundar) né Deildin, sem hefur einfaldlega ekkert umboð til að stýra reglulegum aðalfundi í lægri kirkjueiningum eða skipa fyrir um hvenær þeir skuli haldnir eða ekki haldnir.

14. mars 2023: Fyrsti undirskriftalisti fulltrúa

Mörgum aðalfundarfulltrúum fannst frestunin fara gegn samþykktum KSDA og eftir nokkurra mánaða bið fannst þeim frestunin komin langt fram úr hófi. Þann 14. mars 2023 sendu þeir undirritaða beiðni til Deildarinnar um að boða seinnihluta aðalfundar hið fyrsta burtséð frá stöðu skýrslunnar. Svar barst 28. mars frá Ian Sweeney, svæðisritara Deildarinnar: Deildin hafnaði beiðninni. Það sem meira er: Deildin tók formlega ákvörðun á stjórnarfundi í maí 2023 að aðalfundi KSDA yrði frestað þar til nefndin hefði lokið störfum.[2]

Sumar 2023: Dómsmál hefst

Ef aðalfundi hefði ekki verið skipt í tvo hluta og ef honum væri lokið sem vera bæri þá væri ný samtakastjórn búin að taka á námumálinu á einn eða annan hátt. En þar sem aðalfundi var haldið í ólöglegri frestunargíslingu sáu sumir meðlimir ekki aðra kosti í námumálinu en að taka eitthvað til síns ráðs sjálfir. Sumarið 2023 höfðaði 21 meðlimur mál gegn samtakastjórn KSDA.[3] Hjól dómskerfisins hreyfast eru tiltölulega þunglamaleg og því hefur málið tekið sinn tíma. Þann 6. nóvember 2023 var málið fyrst tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndu fóru fram á það að málinu yrði vísað frá sökum efnis og formgalla. Frávísunarkrafan var tekin fyrir þann 30. janúar 2024 og úrskurður kveðinn upp þann 20. febrúar 2024: Héraðsdómari vísaði málinu frá sökum formgalla. Stefnendur áfrýjuðu úrskurðinum til Landsréttar og bíða eftir úrskurði hans.

Hér er vert að taka fram að dómsmálið snýst eingöngu um eitt atriði: stefnendur meina að fráfarandi samtakastjórn hafi ekki haft leyfi til að skrifa undir nýjan samning við Eden Mining þann 18. janúar 2022, í ljósi 18. greinar samþykkta KSDA. Þeir fara fram á að dómstólar dæmi undirskriftina ólöglega.

Dómsmálið er því ekki lausn á námumálinu. Námumálið felur í sér námureksturinn á tímum gömlu samninganna (frá 2008 og 2009) og það hvað gert verður við nýja samninginn. Að fresta aðalfundi þartil dómsmálinu lýkur þjónar aðeins hagsmunum samtakastjórnar – sem fær að sitja lengur – og Eden Mining – en því lengur sem ekkert er gert í samningamálum við þá, þeim mun ólíklegra er að eitthvað verði á endanum gert.

 

Október 2023: Meirihluti safnaðarstjórna fer fram á að seinnihluti aðalfundar verði haldinn

Haustið 2023 var þolinmæði flestra safnaðarstjórna einnig þrotin. Safnaðarstjórnir Árness og Hafnarfjarðar sendu samtakastjórn formlega beiðni um að samtakastjórn boðaði til seinnihluta aðalfundar hið fyrsta. Safnaðarstjórn Reykjavíkur hafði sent bréf sama efnis þegar um vorið. 

Í samþykktum KSDA stendur að meirihluti safnaðarstjórna geti farið fram á það við samtakastjórn að hún boði til aukaaðalfundar og slíkri beiðni ber samtakastjórn að hlýða (5. gr. 2c). Í KSDA eru fimm reglulegir söfnuðir. Söfnuður dreifðra er séreðlis því hann hefur enga safnaðarstjórn en samtakastjórn sinnir því hlutverki fyrir dreifða. Þar sem það er þegar í samþykktum að samtakastjórn getur boðað til aðalfundar er augljóst að það er ekki verið að telja upp vald samtakastjórnar aftur í þessu samhengi í þessari lagaklausu heldur er verið að telja upp aðra aðila sem geta farið fram á aukaaðalfund. Þrjár safnaðarstjórnir af fimm eru meirihluti.  

Samtakastjórn virti þessar beiðnir ekki viðlits og svaraði ekki safnaðarstjórnum. Hún hefur sagt að þetta geti hún gert þar sem beiðni Reykjavíkursafnaðar var ekki nægilega skýr. Beiðni meirihluta safnaðarstjórna er þ.a.l. synjað sökum „formgalla“ – en hvort slíkur formgalli er til staðar eða til yfirhöfuð er ekki hægt að fullyrða um þar sem Reykjavíkursafnaðarstjórn hefur ekki birt beiðnina opinberlega. 

Ennfremur virðast hvorki safnaðarstjórnir Árness né Hafnarfjarðar hafa tilkynnt meðlimum sínum formlega eða opinberlega um sendingu slíkrar beiðni né svörin við henni. Það hlýtur að teljast óheppilegt þar sem alvarleika beiðninnar samkvæmt myndi maður ætla að þetta væri mál sem safnaðarmeðlimir ættu að vera upplýstir um af eigin safnaðarstjórn. Því miður ríkir svo mikil þögn og upplýsingaskortur innan KSDA að það er varla við þessar safnaðarstjórnir að sakast: að halda uppi reglulegu upplýsingaflæði er stöðugt talið einhvernveginn ókristilegt og „rangt“ ef í því felast upplýsingar sem eru einhverjum óþægilegar (og það sérstaklega ef viðkomandi er í stjórnunarstöðu, eins og t.d. samtakastjórnin).

 

13. nóvember 2023: Lagaleg greining á frestun aðalfundar

Ég skrifaði langa greinargerð á því hvort frestun aðalfundar eftir 11. desember 2022 sé lögleg eða ekki. Ég sendi safnaðarmeðlimum hana sem opið bréf. Í henni útskýri ég að það er ekkert í samþykktum KSDA, Stefnureglum Stór-Evrópudeildarinnar (TED WP) eða Safnaðarhandbókinni sem leyfir frestunina eftir 11. desember 2022.

 

17. mars 2024: Annar undirskriftalisti fulltrúa

Þann 17. mars 2024 afhenti Eric Guðmundsson stjórnendum Stór-Evrópudeildarinnar undirskriftalista 101 safnaðarmeðlims. Beiðni undirskriftalistans var einfaldlega sú að samtakastjórn og Deildin haldi seinnihluta 41. aðalfundar snemma í apríl. Beiðni hans hefur ekki verið svarað (enn).

Þess má geta að þennan dag funduðu samtakastjórn og stjórnendur Stór-Evrópudeildarinnar. Efni fundarins var hvers vegna námunefndin hefði ekki hafið störf í eitt og hálft ár en ef trúa má tilkynningu formanns KSDA um þennan fund þá vissi samtakastjórn ekki allan þann tíma hvers vegna námunefndin starfaði ekki. Safnaðarmeðlimum hefur ekki verið tjáð um niðurstöðu þessa fundar.

 

Niðurstaða

Það er augljóst hverjum sem vill sjá að kerfið í Aðventkirkjunni er í lamasessi og að kerfið ver sig sjálft gegn allri gagnrýni. Deildin ver samtakastjórn og báðir þessir aðilar hafa seilst umfram það umboð valds sem þeir með réttu hafa. Það er ennfremur ljóst að sama og allir fulltrúar og meðlimir, fyrir utan nánustu vini og fjölskyldu samtakastjórnarmeðlima og eigenda Eden Mining, sjá að það er hin mesta óhæfa að aðalfundi sé haldið í ólöglegri gíslingu í eitt og hálft ár án nokkurra útskýringa. 

Þegar útskýringar fást ekki neyðist maður fyrr eða síðar til að álykta hvað standi í eyðunum. Nú er það komið fram í fundargerðum Ölfuss að íbúakosning um mölunarverksmiðju Heidelberg Materials verður haldinn þann 1. júní 2024. Getur verið að Deildin og samtakastjórn – sem komu að samningi KSDA við Eden Mining (en samningurinn minnist á væntanlegt samstarf þeirra við Heidelberg Materials) – ætli sér að bíða með aðalfund eins lengi og mögulegt er til að tryggja að framkvæmdir fari af stað og ekki verði hægt að hrófla við þeim? Þetta virðist ekki langsótt í ljósi þess að það er erfitt að trúa því að námunefnd hafi ekki starfað í eitt og hálft ár „af því bara“.


[1] „Í desember síðastliðnum, vegna þess að sérstök nefnd deildarinnar hafði ekki lokið störfum í tæka tíð, samþykkti stjórn Kirkjunnar, í samráði við Trans-Evrópudeildina [Stór-Evrópudeildina], að fresta dagsetningum þar til nefndin hefði lokið skýrslu sinni.“ Gavin Anthony, pistill, Kirkjufréttir, 3. júní 2023. Tímasetningin vekur spurningar. Samþykkti samtakastjórnin frestun aðalfundar í „desember“ 2022 – eftir að Daniel Duda hafði tilkynnt frestunina í Kirkjufréttum 24. nóvember 2022? Ef til vill er þetta bara villa.

[2] „Til að bregðast við beiðnum meðlima á Íslandi greiddi stjórn deildarinnar (TED) atkvæði í maí um að halda ferlinu áfram eins og það var byrjað. Þetta þýðir að sérstaka nefndin mun ljúka störfum áður en aðalfundur verður sett aftur.“ Samtakastjórn, uppfærð skýrsla stjórnar, Kirkjufréttir, 20. október 2023.

[3] Formsatriða vegna er KSDA einnig stefnt en af efni stefnu er það augljóst að við fráfarandi samtakastjórnarmeðlimi er að sakast en ekki KSDA sem trúfélag.

Previous
Previous

Greining á pistli stjórnenda í Kirkjufréttum þann 12. apríl 2024

Next
Next

Pistill formanns í Kirkjufréttum þann 14. mars 2024 og fundur stjórnar og Deildarstjórnenda þann 17. mars 2024