Pistill formanns í Kirkjufréttum þann 14. mars 2024 og fundur stjórnar og Deildarstjórnenda þann 17. mars 2024

Í Kirkjufréttum þann 15. mars 2024 birtist pistill eftir formann KSDA.[1] Þar var tilkynnt að helgina 22.–23. mars myndi samtakastjórn hitta stjórnendur Stór-Evrópudeildarinnar (þ.m.t. Daniel Duda formann hennar) „til að skilja ástæðuna fyrir seinkun námunefndarinnar og finna bestu leiðina [framávið]“. 

Eins ótrúlega og það hljómar verður að skilja þessa tilkynningu sem svo að samtakastjórn viti ekki, eftir eitt og hálft ár og marga fundi með Deildarstjórnendum, hvers vegna námunefndin hefur ekki enn hafið störf. Hvernig getur mögulega staðið á því? Neitaði Deildin að tjá sig um það þar til nú? Hvers vegna? Og ef svo, hvers vegna er hún tilbúin að ræða það núna? Eða útskýrði Deildin töfina fyrir samtakastjórn en þarf að gera það aftur?

Eftir slíka yfirlýsingu hefði maður vænst þess að strax eftir helgina hefðu formaður skrifað annan pistil í Kirkjufréttum. En þær bárust aðeins á reglulega tímanum, föstudaginn þann. 22. mars, og án þess að minnast orði á fundinn. Svo nú er vika liðin frá fundinum og samtakastjórn hefur ekki séð sér ástæðu til að upplýsa safnaðarmeðlimi um niðurstöður hans. Þess er óskandi að þær berist sem fyrst. 

Í millitíðinni er þess virði að rýna aðeins betur í pistil formanns.

 

Óþarfi að fara eftir samþykktum ef það er óþægilegt, að mati formanns

Samkvæmt formanni stendur KSDA frammi fyrir þremur málum sem þarf að leysa: (1) ljúka yfirstandandi 41. aðalfundi, (2) námunefnd þarf að skrifa skýrslu og skila henni og (3) safnaðarmeðlimir þurfa að sættast. Formaður segir að það séu hinsvegar skiptar skoðanir á því í hvaða röð leysa eigi þessi mál og rekur það í smáatriðum. 

Nú er það hinsvegar þannig að KSDA hefur lög. Lögum ber að fylgja, burtséð frá því hver skoðun manns er. Tökum sem dæmi aðalfund. Er ósætti í söfnuðinum næg ástæða til að halda hann ekki eða skjóta honum á frest? Augljóslega ekki. Í lýðræðislegu samfélagi eru alltaf skiptar skoðanir og því ómögulegt að bíða eftir því að allir hafi sömu skoðun og séu á alla hluti sáttir til að geta haldið fundi og stjórnarkjör. 

Er dómsmálið næg ástæða til að skjóta aðalfundi á frest? Augljóslega ekki. Dómsmálið er á vegum 21 safnaðarmeðlims en ekki aðalfundar. 

Er starfsleysa námunefndar Deildarinnar næg ástæða til að fresta aðalfundi? Ekki heldur. Fulltrúar ákváðu að bíða eftir henni til 11. desember 2022. Þeir voru ekki einusinni spurðir hvernig þeir vildu bregðast við breyttum aðstæðum þegar í ljós kom að skýrslan yrði ekki tilbúin í tækatíð.

 

Meðlimum ber að varast það að telja sína skoðun rétta í bili – en skoðun formanns er rétt

Eftir að hafa rakið það hvað honum finnst erfitt að fara eftir samþykktum KSDA í ljósi þess að nefnd Deildarinnar hefur ekki hafið störf eftir eitt og hálft ár og í ljósi þess að dómsmál er í gangi og í ljósi þess að safnaðarmeðlimir séu ósáttir, þá brýnir formaður fyrir lesendum sínum að málin séu flókin: 

Þó að þú hafir þína eigin skoðun á þessum hlutum, þá er eitt sem við getum verið viss um: málin eru flókin og liggja mjög djúpt - og því miður eru þau að verða flóknari. ... Þegar við fetum okkur leiðina áfram þurfum við öll að varast að halda að okkar eigin skoðun sé eina rétta leiðin til að vita hvað er satt.  

Þetta virðist hinsvegar ekki eiga við um formanninn sjálfan. Í pistlinum skrifar hann að ásakanirnar sem eru í gangi séu stundum „algerlega ósannar“ og „mikið af röngum upplýsingum er enn í umferð sem sannleikur“. Þetta segir hann í sömu andrá og hann hvetur aðra til að leggja ekki mat á neitt fyrr en „hlutlaus aðili“ hefur lagt mat á málin. En er formaður ekki sjálfur að leggja mat á málin með skrifum sínum og því í raun að áætla að hans „eigin skoðun sé eina rétta leiðin“?

 

Niðurstaða

Formaður tilkynnir með sérstökum pistli að samtakastjórn og Deildin muni funda til að samtakastjórn fái skilið hvers vegna námunefnd hefur ekki hafið störf og hvers vegna aðalfundi hafi verið frestað. Hann sér hinsvegar enga ástæðu til að tilkynna meðlimum niðurstöður fundarins.

Formaður segir að það sé mjög „flókið“ að halda aðalfund samkvæmt samþykktum KSDA svo lengi sem það eru skiptar skoðanir í trúfélaginu (á honum og Eden Mining).

Formaður biður okkur um að véfengja okkar eigin skoðanir svo lengi sem dómstólar hafa ekki komist að niðurstöðu eða námunefndin, en fullyrðir sjálfur ýmislegt um hvað sé satt í málum með því að kalla ásakanir (meðlima sem eru gagnrýnir í hans garð og Eden Mining) rangar og einelti.

Þetta geta ekki talist góðir stjórnarhættir. Ég hvet (eins og ég gerði ásamt öðrum safnaðarmeðlimum í opnu bréfi til samtakastjórnar þann 5. desember 2021) því formann aftur til að segja af sér.


[1] Kirkjufréttir voru síðan sendar aftur út daginn eftir með nokkrum en þó ónægum málfarsleiðréttingum. Í þessari bloggfærslu er vitnað í síðari textann.

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 6. Námunefndin og frestun seinnihluta fundarins

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 5. Tillögurnar um að endurkjósa stjórnarnefnd eða láta hefja starf hennar að nýju