Framvinda 41. aðalfundar: 5. Tillögurnar um að endurkjósa stjórnarnefnd eða láta hefja starf hennar að nýju

Um kjör og hlutverk stjórnarnefndar

Aðalfundir KSDA byrja vanalega á því að allsherjarnefnd er kosin. Söfnuðir kjósa fulltrúa í hana eða veita kjörnum fulltrúum sínum umboð til þess að kjósa hann (samþykktir KSDA, 9. gr., nr. 1). Allsherjarnefnd kýs síðan fulltrúa í stjórnarnefnd. 

Stjórnarnefnd fundar og leggur fram tillögur fyrir aðalfund um það hverjir sitja skuli í samtakastjórn á því kjörtímabili sem hefst eftir að aðalfundinum lýkur (samþykktir KSDA, 9. gr., nr. 2a). Allir fulltrúar greiða atkvæði um tillögur stjórnarnefndar. Ef ekki næst meirihluti fyrir tillögum stjórnarnefndar breytir hún listanum og leggur hann aftur fyrir fulltrúa til atkvæðagreiðslu.

 

Tvær tillögur gegn stjórnarnefnd – báðar felldar

Stjórnarnefnd starfaði samkvæmt venju á 41. aðalfundi í september 2022. Á meðan hún var enn að störfum bar gerði einn fulltrúi það að tillögu sinni að stjórnarnefnd yrði endurskipuð eða að hún yrði að hefja störf sín að nýju (man ekki nákvæmlega hvort) í ljósi þess hve spennuþrungið andrúmsloft aðalfundar var, að mati fulltrúans. Tillagan var felld.

Þó að tillagan væri felld gat stjórnarnefnd ekki lokið störfum sínum. Á sunnudeginum, síðasta fundardeginum, var tillaga samþykkt þess efnis að gert yrði hlé á dagskrá fundarins og óloknum dagskrárliðum frestað þar til  námuskýrsla lægi fyrir og fulltrúar kæmu aftur saman þann 11. desember 2022. Dagskrárliðirnir sem voru settir í bið voru námuskýrslan ókomna, jafnréttismál og skýrsla stjórnarnefndar og kjör nýrrar stjórnar.

Sunnudagurinn hélt síðan áfram og þegar komið var að kvöldi fóru sumir fulltrúar að tínast heim. Engin stór mál voru eftir og fólk á heima mislangt í burtu frá fundarstaðnum. Þá stóð formaður upp og bar aftur fram tillögu þess efnis að að stjórnarnefnd yrði endurskipuð eða að hún yrði að hefja störf sín að nýju (man ekki nákvæmlega hvort), aftur í ljósi þess að ástandið á aðalfundi væri svo tilfinningaþrungið. Annar fulltrúi tók þá til máls og gerði ávítun formanns að athugasemd sinni: það væri óviðeigandi að setja fram tillögu aftur eftir að hún hefði verið felld og aðalfundur hefði lýst yfir skoðun sinni á henni. Hví var, spurði fulltrúinn, formaður að setja tillöguna fram í annað skiptið? Var hann að reyna að vonast að það væri hægt að koma henni í gegn núna þegar fólk væri farið að halda heim og að atkvæðatölur gætu nú farið á annan veg? Þetta væri vanvirðing við yfirlýstan vilja aðalfundar. Formaður svaraði ekki. Tillagan var felld.

 

Greining

Kosning allsherjarnefndar og stjórnarnefndar fór venjulega og lýðræðislega fram. Stjórnarnefnd starfaði síðan samkvæmt dagskrá og á venjulegan hátt. Ef það átti að leysa upp núverandi stjórnarnefnd eða biðja hana um að hefja störf sín uppá nýtt hlýtur ástæðan fyrir slíkum hugmyndum að eiga sér rætur í einhverju öðru en áhyggjum um fundarsköp því kjör og störf nefndanna fóru fram eftir bókinni.

Hvað lá þá að baki því að gerð var tilraun til þess að kjósa nýja stjórnarnefnd eða láta hana hefja störf að nýju, og það ekki einusinni heldur í tvígang? Fulltrúarnir sem gerðu þetta að tillögu sinni sögðu að andrúmsloftið væri of tilfinningaþrungið og meintu með því að það væri ósanngjarnt gagnvart fráfarandi samtakastjórn að stjórnarkjör færu fram fyrr en neikvæða loftið hefði verið ræst út. Með þessu meintu þeir líklegast að fulltrúar almennt séð væru ekki í standi til að kjósa á sanngjarnan hátt fyrr en sannleikurinn í námumálinu lægi fyrir því þá fyrst gæti fólk myndað sér réttar skoðanir á fráfarandi samtakastjórn og gæti þá kosið nýja samtakastjórn á hlutlausari hátt. Það var sennilega einnig meiningin að það sama gilti um þá fulltrúa sem skipuðu stjórnarnefnd: þeir gætu ekki grundað góðar tillögur að nýjum samtakastjórnarmeðlimum fyrr en þeir væru einnig vel upplýstir og ekki undir þokuskýi óstaðfestra ásakana og sundurlyndis sem fulltrúum tillaganna tveggja fannst einkenna aðalfund.

Hvað sem skiptum skoðunum fulltrúa líður varð það ofan á að stjórnarkjöri yrði vissulega frestað þar til námuskýrsla lægi fyrir en að ekki yrði hreyft við stjórnarnefnd og að hún myndi leggja fram tillögur sínar á seinnihluta aðalfundar þann 11. desember 2022. 

Burtséð frá því verður það að teljast óviðeigandi að formaður setji fram tillögu sem hefur verið þegar felld og sem varðar kosningar um hans eigin stöðu.  

Ennfremur glittir í að kjör nýrrar stjórnar hafi verið hitamál á aðalfundinum. Vísis-greinin sem birtist á fyrsta fundardegi talaði um mögulega „hallarbyltingu“ – að nýtt fólk kæmist í samtakastjórn. Ef blaðagreinin hefur þetta eftir safnaðarmeðlimi eða safnaðarmeðlimum (sem er líklegt) þá ríkir slík eftirvænting augljóslega hjá sumum safnaðarmeðlimum. Eigendur Eden Mining hafa einnig útlistað á nokkrum blaðsíðum í opnu bréfi þá fullvissu sína að sumir gagnrýnir meðlimir ætli sér að „komast til valda“ í KSDA. Slíkar yfirlýsingar styðja þann möguleika að Eden Mining telji hagsmunum sínum best borgið hjá fráfarandi samtakastjórn en ekki nýrri samtakastjórn ef hún væri gagnrýnin í þeirra garð. Sambandið og samstarfið milli fráfarandi samtakastjórnar og Eden Mining hefur verið mjög trygglynt og sterkt sem bendir til þess að fráfarandi samtakastjórn sjái akk sinn í því að samstarfið haldi áfram og að ný samtakastjórn myndi mögulega ógna þeirri blessun sem þau telja samstarfið vera fyrir kirkjuna. Þessi möguleiki er ekki úr lausu lofti gripinn því í opinberum skrifum sínum hefur fráfarandi samtakastjórn farið lofsyrðum um Eden Mining og ekki gagnrýnt þá á nokkurn hátt. Fráfarandi samtakastjórn hefur afturámóti farið óvægnum orðum um þá safnaðarmeðlimi sem hafa gagnrýnt stjórn eða Eden Mining og lýst yfir þeirri skoðun sinni að slíkir meðlimir og skoðanir þeirra geti skaðað hagsmuni kirkjunnar. Þannig virðist liggja fyrir að sumir fulltrúar vilji sterklega nýja stjórn en aðrir fulltrúar vilji ekki nýja stjórn sem myndi breyta samstarfi KSDA og Eden Mining. Í ljósi atkvæðagreiðslna á aðalfundinum virðast báðir hópar vera nokkuð stórir – og bæði fráfarandi samtakastjórn og eigendur Eden eru augljóslega í öðrum hópnum.  

Í þessu ljósi er ekki seilst um langt að geta sér þess til að tillaga formanns hafi mögulega tengst framtíðaróskum annars hópsins.

Slíkt er ekki hægt að sanna en atburðarrásin eftir september 2022 virðist styðja slíka túlkun. Því þegar kom að því að halda seinnihluta aðalfundar neitaði samtakastjórn að halda hann. Og í slíkri neitun felst auðvitað sú afleiðing að fráfarandi samtakastjórn leyfir sjálfri sér að halda áfram, stjórnendur þiggja enn laun, stjórnarnefnd getur ekki lokið störfum sínum og aðalfundur getur ekki kosið nýja stjórn, og áætlanir Heidelberg Materials og Eden Mining halda áfram að þróast í átt til fullrar framkvæmdar. En um atburðarrás eftir september verður fjallað í næstu grein þessarar greinaraðar.

Previous
Previous

Pistill formanns í Kirkjufréttum þann 14. mars 2024 og fundur stjórnar og Deildarstjórnenda þann 17. mars 2024

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 4. Tillagan um námunefnd og frestun aðalfundar