Framvinda 41. aðalfundar: 4. Tillagan um námunefnd og frestun aðalfundar

Áður en dagskrá aðalfundar lauk samþykktu fulltrúar, eftir umræðu og breytingar, tillögu þess efnis að fresta því sem eftir var af dagskrá aðalfundar til 11. desember 2022.

Í þessari grein verður þessari tillögu gerð skil eins og kostur er á því hún hafði gagnger áhrif á fundinn. 

Í KSDA viðgengst að fundargerðir eru oftast ekki samþykktar í lok fundar heldur á næsta sambærilega fundi. Þetta er mögulega viðunandi í starfi samtakastjórnar og safnaðarstjórna þar sem fundir eru nokkuð tíðir. Slík vinnubrögð eru hinsvegar einkar ófagleg þegar það kemur að aðalfundi. Á milli þeirra eru nokkur ár og á hverjum fundi eru nýir fulltrúar (nema um tveggjahluta aðalfund sé að ræða). Það merkir að þeir fulltrúar sem tóku þátt á aðalfundi fá ekki að sjá fundargerðina fyrr en mörgum árum seinna og þá er hún samþykkt, ekki af þeim, heldur öðrum fulltrúum sem voru mögulega ekki einusinni á síðasta fundi og geta því ekki staðfest að fundargerðin sé rétt.  

Þetta merkir að fundargerð verður ekki birt fyrr en seinnihluti aðalfundar verður haldinn. Við skrif mín um aðalfund verð ég því að styðjast við mín eigin dagbókarskrif og minni mitt og annarra fundargesta. Ég mun því afmarka greinina við stóru drættina sem ég veit að ég man réttilega en læt smáatriðin bíða þar til fundargerðin verður að lokum birt.

 

Tilurð tillögunnar

Tillagan var sett fram sunnudaginn 25. september 2022. Hún var samþykkt eftir breytingartillögur og allverulegar efnisbreytingar. 

Það var augljóst af umræðu og tillögubreytingum að tillagan var umdeild og að fulltrúa greindi á um hvernig tækla skyldi þau mál sem hún fjallaði um. Endanlegur texti tillögunnar var um frestun aðalfundar þar til nefnd, skipuð af Stór-Evrópudeildinni, hefði lokið við að skrifa skýrslu um námumálið. Þessi skýrsla yrði lögð fyrir fulltrúa á seinnihluta aðalfundar þann 11. desember 2022.  

Deiluefnið að baki tillögunni var námumálið. Það var greinilegt að fulltrúar vildu taka það mál fyrir en voru ósáttir um hvernig skyldi gera það. Í fundargögnum fulltrúa var t.d. skýrsla um námumálið frá samtakastjórn – þessari skýrslu höfnuðu fulltrúar og ákváðu að fara aðra leið. Stór-Evrópudeildin skyldi skipa nefnd sem rannsaka skyldi námumálið. Daniel Duda, formaður Deildarinnar, kynnti hverjir myndu sitja í nefndinni[1] með glæru og staðhæfði að nefndin gæti skilað af sér skýrslu þann 11. desember 2022 eða eftir rétt rúma tvo mánuði. Þegar fulltrúar spurðu hvort þetta væri raunsær tími fyrir skýrsluskrif fullvissaði hann þá ítrekað um að svo væri.

 

Fundarstjórnun og tillagan

Fundarstjórar virðast hafa brotið fundarsköp tvisvar á meðan þessi tillaga var sett fram, rædd og samþykkt. 

Í fyrsta lagi setti Steinunn Theodórsdóttir upphaflega fram eina tillögu. Hún fjallaði um margt og fundarstjórar ákváðu að greidd yrðu atkvæði um þrjá liði hennar hvern fyrir sig. Með því gerðu þeir tillögu Steinunnar að þremur tillögum. Þetta höfðu þeir ekki leyfi til að gera. Nú segir einhver: en er þetta ekki þægilegra fyrir fulltrúa að greiða atkvæði um hvern þátt tillögu fyrir sig? Jú, það getur verið alveg rétt. En þá er við tillöguna að sakast. Tillaga á að vera þess eðlis að auðvelt sé að afgreiða hana sem slíka, sem eina tillögu. Ef hvaða fulltrúi sem er getur sett fram marga eða ótakmarkaða liði í tillögu sinni sem greidd eru atkvæði um hvern fyrir sig þá getur einn fulltrúi hreinlega stýrt aðalfundi með viðamikilli tillögu og hjálp fundarstjóra:

  • Umræðan um tillöguna verður miklu lengri því hver liður er ræddur fyrir sig

  • Breytingartillögur geta orðið margfalt fleiri

 

Þetta er augljóslega ólýðræðislegt og á sér heldur ekki stoð í samþykktum KSDA eða í fundarsköpum. 

Í öðru lagi voru störf fundarstjóra varðandi eina athugasemd við þriðja lið tillögu Steinunnar (sem að endingu varð að frestunartillögunni) athugaverð. Indro Candi tók til máls og kom með athugasemd og tók það m.a.s. fram að um athugasemd væri að ræða. Það var hinsvegar augljóst af orðanna hljóðan og inntaki að Indro var í raun með efni í breytingartillögu. Slíkt gerist oft á fundum: einhver þekkir fundarsköp ekki nógu vel og setur fram athugasemd í stað þess sem hann eða hún raunverulega vill gera, sem er að setja fram tillögu. Í slíkum tilvikum er það ekki í verkahring fundarstjóra að uppfræða fulltrúa um fundarsköp og hjálpa þeim að orða tillögu – það verður að vera ákvörðun fulltrúans sjálfs hvort hann eða hún er að koma með athugasemd eða setja fram tillögu. Það er á ábyrgð fulltrúa að skilja og nýta sér fundarsköp og fundarstjóra að gæta þess að farið sé eftir fundarsköpum, ekki að koma með ráðleggingar sem hafa áhrif á fundinn. 

Það gerist reglulega á aðalfundum KSDA að fulltrúar koma með athugasemdir í stað tillaga án nokkurs inngrips frá fundarstjóra. En í þetta eina skipti ákvað fundarstjóri að grípa inn í. Helgi Jónsson spurði Indro hvort hann væri ekki í raun að setja fram tillögu og eftir stutt orðaskipti ákvað Indro, að frumkvæði fundarstjóra, að setja fram breytingartillögu í stað athugasemdar. Þarna hafði Helgi afgerandi áhrif á framvindu aðalfundar því eftir þessa breytingartillögu lauk umræðunni um tillöguna og gengið var til atkvæða.

 

Efni tillögunnar

Efni endanlegu tillögunnar er hægt að setja fram á eftirfarandi hátt:

  1. Deildin á að skipa nefnd sem rannsakar námumálið og skrifar um það skýrslu fyrir 11. desember 2022

  2. Í ljósi þess skulu fulltrúar ljúka allri dagskrá aðalfundar fyrir utan (1) það að kjósa nýja samtakastjórn og (2) námumálið (þar sem beðið er eftir skýrslu um það)

  3. Eftir það er fundi lokið í bili og fráfarandi samtakastjórn situr áfram til seinnihluta aðalfundar 11. desember 2022

  4. Þann 11. desember 2022 koma fulltrúar saman aftur og ljúka dagskrá aðalfundar með því að (1) hlýða á námuskýrsluna og greiða um hana atkvæði og (2) kjósa nýja samtakastjórn 

  5. Tillagan er úthugsuð og skýr fyrir utan nokkur mikilvæg atriði. 

Í fyrsta lagi hefði verið hægt að kveða fastar að því hverjir skuli sitja í nefndinni. Til hvers varpaði Daniel Duda upp glæru með lista væntanlegra nefndarmanna ef það var ekki sett inn í tillöguna sjálfa? Tillögur eru bindandi, glærur eru það ekki. Það er rétt að ekki var kannski hægt að tiltaka nefndarmenn í tillögunni – þar sem þeir voru mögulega ekki á lausu fyrir verkefnið – en það hefði verið hægt að tiltaka nákvæmar hvaða aðilar skyldu sitja í nefndinni. 

Í öðru lagi var ekki tiltekið mjög nákvæmlega hvað nefndin á að rannsaka. Þessi punktur er mikilvægur. Rannsóknarsvið GCAS var svo almennt orðað að margir safnaðarmeðlimir og meirihluti safnaðarstjórna var óánægður með skýrsluna að því leyti að farið var fram á annan upplýsingafund sem hefði verið óþarfi að biðja um hefði GCAS gert málinu greinargóð skil. Í ljósi óánægju með þessa fyrri skýrslu hefðu fulltrúar átt að vanda sig sérstaklega til að tryggja gæði skýrslunnar sem þeir voru að biðja um. Þess má þó geta að tillagan batnaði til muna frá fyrstu útgáfu hvað þetta varðar. 

Í þriðja lagi er ekki útskýrt í tillögunni hvers vegna fresta þurfi kjöri nýrrar samtakastjórnar þar til eftir námuskýrsluna. Það var mögulega óþarfi að taka ástæðuna fram. Hægt er að geta sér þess til að það hafi verið vegna þeirra skoðana sem sumir fulltrúar lýstu yfir á fundi: það væri ósanngjarnt að kjósa nýja samtakastjórn á meðan sú fráfarandi lægi undir ósönnuðum ásökunum. Fyrst þyrfti að upplýsa fulltrúa um hvort þær ásakanir væru sannar eða ekki og aðeins þá væri hægt að kjósa nýja samtakastjórn. Þessu voru hinsvegar ekki allir fulltrúar sammála. 

Á það verður síðan að minnast að fráfarandi samtakastjórn var því sjálf ósammála að það þyrfti að leiða námumál til lykta áður en ný stjórn yrði kosin: í námuskýrslu sinni staðhæfði hún að frekari upplýsingagjöf myndi aðeins leiða til sársauka og gerði það að tillögu sinni að námumálið yrði látið niður falla. M.ö.o., það felst í þessari tillögu samtakastjórnar að hún var algjörlega sátt við það að ný stjórn yrði kosin án þess að námumálið yrði rætt frekar.

Kjör nýrrar samtakastjórnar voru engu að síður annað deilumál sem kraumaði upp á yfirborðið á öðrum tímum aðalfundarins. Um það verður rætt í næstu grein þessarar greinaraðar.


[1]      Nöfnin voru: Lowel Cooper, sem væri nefndarformaður; Ian Sweeney, svæðisritari Stór-Evrópudeildarinnar; Victor Pilomoor; embættismaður framkvæmdastjórnar Aðalsamtakanna („GC Office of General Council“; átti eftir að velja hvern) og fulltrúi GCAS (átti eftir að velja hvern).

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 5. Tillögurnar um að endurkjósa stjórnarnefnd eða láta hefja starf hennar að nýju

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 3. Grein Kristjáns Ara Sigurðssonar