Framvinda 41. aðalfundar: 3. Grein Kristjáns Ara Sigurðssonar

Þann 22. september 2022 birti Samantektin grein eftir Kristján Ara Sigurðsson um námumálið og Kristján Ari sendi öllum aðalfundarfulltrúum ennfremur greinina í tölvupósti sama dag. Þessi greining, eða réttara sagt birting hennar, átti eftir að hafa áhrif á aðalfundinn. Hér verður því aðdraganda, efni og áhrifum greinarinnar gerð skil.

Kristján Ari Sigurðsson er safnaðarformaður Hafnarfjarðar og sat í þarsíðustu samtakastjórn (2016–2019). Sú samtakastjórn hafði beðið hann um að rannsaka námureksturinn í lok kjörtímabils síns en fráfarandi samtakastjórn (2019–?) leyfði honum ekki að ljúka rannsókninni. Engu að síður merkti þessi rannsókn, auk menntunar Kristjáns Ara (sem er löggiltur endurskoðandi) að hann þekkti og skildi námumálið vel. Hann hafði í langan tíma ætlað sér að skrifa um námumálið til að deila með meðlimum þeim upplýsingum sem hann hafði aflað sér um málið. Þetta veit ég því að þegar Kristján Ari skrifaði að lokum greinina birtist hún í Samantektinni, sjálfstæðu fréttabréfi fyrir aðventista sem ég ritstýri ásamt Elísu Elíasdóttur, eiginkonu hans.

Sumarið 2022 varð Kristján Ari sér út um lögfræðiálit á námumálinu frá Kristni Hallgrímssyni, lögfræðingi hjá ARTA sem var hluti af heimildum hans fyrir greinasmíðina. Sökum anna náði hann ekki að ljúka við greinina fyrr en degi fyrir eða sama dag og aðalfundur hófst.

Greinin skapaði visst mótvægi við námuskýrslu samtakastjórnar sem aðalfundarfulltrúum (þ.m.t. Kristjáni Ara) höfðu borist í fundargögnum. Kristján Ari sagði mér að honum þætti miður að samtakastjórn skyldi lýsa því yfir þar að hún myndi hvorki vilja halda upplýsingafund né ræða málið frekar og að hún gerði það að tillögu sinni að aðalfundur ákvæði að allri umræðu um málið yrði hætt, og það þó að fjöldi meðlima og safnaðarstjórna hefðu enn spurningar um málið. Hann sæi sig því tilneyddan til að deila með safnaðarmeðlimum því sem hann vissi um málið því þeir yrðu að vera upplýstir um allar hliðar málsins ef þeir ættu að ganga til atkvæðagreiðslu um það.

Svo vildi hinsvegar til að hluta af lögfræðiáliti Kristins var lekið til blaðamanns Vísis sem birti grein um námumálið um kl. 13:30 þann 22. september 2022. Þetta var gert án vitundar eða samþykkis Kristjáns Ara. Hann bað því ritstjóra Samantektarinnar um að birta greinina sína sem fyrst og var nýjasta tölublaðið sent út samdægurs rétt eftir kl. 15. Kristján Ari ákvað einnig að senda aðalfundarfulltrúum greinina sína með útskýringu á því að það hefði ekki verið hann sem hefði haft samband við Vísi. Hann sendi tölvupóstinn rétt eftir kl. 16, stuttu áður en dagskrá aðalfundar hófst. (Í dagskrá stendur að skráning hefjist kl. 16 og val í allsherjarnefnd kl. 16:30.)

 

Efni greinarinnar

Í greininni fjallar Kristján Ari um viðskipta- og fjármálalega þætti í námumálinu útfrá þekkingu sinni á því sviði sem löggiltur endurskoðandi. Kristján Ari hafði rannsakað námumálið sjálfur að beiðni fyrrverandi samtakastjórnar (sem sat 2016–2019). Þar sem hann var vel að sér í málinu og vissi að meðlimir almennt voru það ekki fannst honum það vera skylda sín að upplýsa fulltrúa um hið sanna um námureksturinn svo þeir tækju ekki bindandi ákvarðanir á aðalfundi útfrá einhliða skýrslu samtakastjórnar.  

Í grein sinni tekur Kristján Ari marga þætti málsins fyrir en hér verður aðeins minnst á helstu atriðin. Kristján Ari útskýrir fyrst að Eden Mining hafi gerst sekt um framsal (bls. 1–2, viðaukar 1–2), hafi tekið efni úr Litla-Sandfelli án þess að borga KSDA krónu fyrir (bls. 2) og að eigendurnir hafi blandað öðrum kostnaði óviðkomandi námurekstrinum saman við hann í ársreikningum og þar með lækkað greiðslur fyrirtækisins til KSDA (bls. 2). Kristján Ari útskýrir síðan aðkomu sína að námumálinu og þarnæst GCAS-rannsóknina og vankanta hennar (bls. 2–3): núverandi samtakastjórn vildi ekki leyfa honum að klára rannsóknina hans og því ráðfærði hann sig við lögfræðing og fékk hjá honum álit þar sem hann staðhæfir að um framsal hafi verið að ræða (bls. 3, viðauki 3). Að lokum reyfar Kristján Ari nokkra guðfræðilega þætti málsins (bls. 3–5): hann hafi reynt að verja hagsmuni KSDA í málinu en það sé ábyrgð sem samtakastjórn hafi hinsvegar vikið sér undan, glapin af veraldlegum gróða. Það sé ábyrgð allra safnaðarmeðlima að verja hagsmuni trúfélagsins. Það verði gert, ekki í nafni rangnefnds kærleika sem sópar óleystum málum undir teppið, heldur með því að takast í alvörunni á við vandamálið og leysa það bæði af ábyrgð og fyrirgefningarhug og réttlæti og aðeins þannig komist á sátt á ný.

 

Viðbrögð aðalfundar við greininni

Á aðalfundi milli funda var fulltrúum Stór-Evrópudeildarinnar og Aðalsamtakanna gert vart við tölvupóst Kristjáns Ara til fulltrúa og um hvað hann var (þar sem enginn þeirra kann íslensku). Þegar dagskrá hófst að nýju eftir töluverða töf á föstudegi steig Audrey Anderson, fulltrúi Aðalsamtakanna, í pontu og útskýrði fyrir fulltrúum að hún og aðrir hefðu fengið að vita að einn fulltrúa hefði sent tölvupóst sem þyrfti að skoða hvort myndi teljast tilraun til þess að hafa áhrif á fulltrúa. Nú væri hinsvegar sólin að hníga að föstudagskvöldi og hvíldardagur að hefjast og því ráðlegði hún fundinum að taka málið fyrir eftir hvíldardag.

Þegar fundarhöld hófust að nýju lagði Steinunn Theodórsdóttir, sjálfkjörinn fulltrúi, fram tillögu m.a. þess efnis að Kristjáni Ara yrði vísað af fundi. Hún benti á klausuna í ávarpi Gavins Anthonys til fulltrúa (tilvitnun í Safnaðarhandbókina, bls. 106) í fundargögnunum en í þeirri klausu stendur að þeir embættismenn sem reyni að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu aðalfundarfulltrúa séu óhæfir til embættis. Tillagan var felld.

Þetta var mögulega í fyrsta skipti á aðalfundi KSDA að tillaga var lögð fram þess efnis að vísa fulltrúa af fundi. Slík tillaga hefði átt að vekja umræður um ýmis lagaleg atriði en engin slík umræða fór fram.[1]

Í umræðunni um hvort vísa skyldi Kristjáni Ara af aðalfundi var tölvupósturinn sem hann sendi ennfremur ekki settur í samhengi. Samtakastjórn hafði lagt fram fordæmalausa tillögu í skýrslu og hafði því sjálf reynt að hafa bein áhrif á skoðanir fulltrúa á vissum dagskrárlið og á atkvæðagreiðslu þeirra í málinu. Kristján Ari segir í greininni sinni og tölvupósti að hann hafi talið það skyldu sína að veita meðlimum þær upplýsingar sem hann hafði um málið. Ef það ber að skilja tölvupóst Kristjáns Ara sem tilraun til áhrifa á atkvæðagreiðslu, ber ekki að skilja námuskýrsluna í sama ljósi?

Sumir fulltrúar ásökuðu Kristján Ara um að hafa skipulagt að greinin sín og greinin í Vísi myndu birtast á sama tíma.[2] Kristján Ari birti vissulega sína grein en hann hafði ekkert með Vísis-greinina að gera og sendi einmitt fulltrúum sína grein með útskýringu þess efnis að fjölmiðlaumfjöllunin væri ekki á hans vegum.

Eftir að fyrsti hluti tillögu Steinunnar var felld áttu fulltrúar samt eftir að taka fyrir námuskýrsluna sem var á dagskrá. Fulltrúar höfðu skiptar skoðanir á því hvernig tækla skyldi námumálið og sést það best á því að tillöguhlutanum sem settur var fram um námumálið var breytt þrisvar sinnum. Hann var að endingu þess efnis að (1) námuskýrslan yrði tekin af dagskrá, (2) hennar í stað skyldi Stór-Evrópudeildin skipa nefnd sem myndi rannsaka námumálið og skrifa um það skýrslu, (3) nefndin hefði til 11. desember 2022 til að skrifa skýrsluna en þá kæmi aðalfundur saman aftur til að lesa skýrsluna og ljúka dagskrá fundarins. Þar með var nýr kafli hafinn í námumálinu. Um hann verður skrifað í næsta þætti þessarar greinaraðar.

 


[1] Í fyrsta lagi stendur ekkert í klausunni í Safnaðarhandbókinni um hver viðurlögin séu við því að embættismaður reyni að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu fulltrúa. Þar sem klausan orðar þetta svo að slíkur embættismaður sé „óhæfur til að gegna embætti“ ætti að ávíta hann fyrir embættisglöp eða svipta hann embætti af þeim aðila sem rétt hefur til þess. Það er t.d. safnaðarstjórnar að svipta safnaðarformann embætti, ekki aðalfundarfulltrúa.

Í öðru lagi er hinsvegar mögulega nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvernig og hvort ætti að vísa fulltrúa af fundi ef nauðsyn krefði. Það er hægt a.m.k. að velta því fyrir sér sem fræðilegum möguleika með öfgafullu dæmi, t.d. ef einhver myndi mæta dauðadrukkinn á aðalfund og vildi greiða atkvæði, eða ef einhver hefði verið staðinn að opinberum glæp fyrr um daginn og þyrfti að mæta fyrir rétt en mætti samt á aðalfund og vildi taka þátt, o.s.frv. Um þetta stendur hinsvegar ekkert í samþykktum KSDA eða í Safnaðarhandbókinni.

[2] Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, eigendur Eden Mining, héldu einnig fram þessari ásökun snemma árs 2023: „Tímasetning bréfsins vekur einnig athygli. Bréfið er sent eftir að aðalfundur hefst og hvorki við né sitjandi stjórn gátum á nokkurn hátt brugðist við efni þess á fundartíma. Bréfið er greinilega tímasett ásamt grein í Vísi, sem Jón Hjörleifur stóð að, í þeim tilgangi að hafa áhrif á fulltrúa aðalfundarins.  ... Bréfið var sent í þeim tilgangi að styðja við áður boðaða hallarbyltingu sem Jón Hjörleifur talaði um í fjölmiðlum.“  Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, 17. febrúar 2023, bls. 7–8. Þess má síðan geta að nafnið mitt kemur hvergi fram í blaðagreininni og því óljóst af hverju ég, en ekki blaðamaður, „standi að“ greininni, auk þess sem ég hef útskýrt í svarbréfi mínu til Eden Mining að ég boðaði enga hallarbyltingu. Sjá Jón Hjörleifur Stefánsson, opið bréf til Eiríks Ingvarssonar og Kristins Ólafssonar, 23. febrúar 2023, bls. 1–3.

Eigendur Eden Mining seilast svo langt að fullyrða að Kristjáni Ara hefði átt að vera vísað af fundi tillögu- og umræðulaust og að um þetta atriði sé Safnaðarhandbókin skýr: „Hefði aðalfundur átt að vísa Kristjáni Ara af fundi eins og tillaga þess efnis sem borin var upp, fól í sér. Það hefði aldrei átt að greiða atkvæði um þá atillögu og alls ekki með hann í salnum. Safnaðarhandbókin er skýr hvað þetta varðar.“ Eiríkur Ingvarsson og Kristinn Ólafsson, opið bréf til safnaðarmeðlima, bls. 7. Eins og þessi grein hefur sýnt fram á er þessi fullyrðing röng. Safnaðarhandbókin útskýrir ekki hver viðurlög eigi að vera ef fulltrúi reynir að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu annarra og samþykktir KSDA segja ekkert um það mál eða brottvísan fulltrúa yfirhöfuð.

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 4. Tillagan um námunefnd og frestun aðalfundar

Next
Next

Fíllinn og indíánarnir: um málfar og þýðingar í Kirkjufréttum