Fíllinn og indíánarnir: um málfar og þýðingar í Kirkjufréttum

Í pistli formanns KSDA í Kirkjufréttum þann 14. mars 2024 er að finna sögnina þekktu af nokkrum blindum mönnum sem reyna að lýsa fíl eftir að hafa farið um hann höndum. Söguna er hægt að rekja til Indlands til forna en þar í landi eru fílar. Það var því nýstárlegt að lesa um fílinn og indíána í pistli formanns þar sem sagan er vitaskuld um Indverja.

Þessi þýðingarvilla á Indians er fyndin en skemmir ekki kennslugildi sögunnar og gerir hana jafnvel skemmtilegri. En það sama er ekki hægt að segja um aðrar þýðingarvillur í pistlinum. Fjórði maðurinn heldur um eyra fílsins og segir að fíllinn sé „eins og vifta“. Maðurinn á sennilega við að eyrað líkist einhverri gerð af stórum blævæng (fan). Fimmti maðurinn „heldur á tönninni“ í stað þess að halda um hana (holds the tusk), því ekki reif hann skögultönnina úr fílnum. Hann líkir fílnum við „hörð spjót“. Er ein tönn eins og mörg spjót? Og eru ekki öll spjót hörð? Varla eru sum lin? (Hvað varðar styrkleika spjótanna er þó við frumtextann að sakast en þar stendur: a hard spear.) Sjötti „maðurinn heldur um snákinn og segir að fíllinn sé eins og snákur.“ Þessi maður snertir ekki fílinn yfirhöfuð heldur er að handfjatla snák sem hann réttilega ályktar að sé „eins og snákur“. Þetta er frekar ruglingslegt. Ráfaði maðurinn í blindu sinni burt frá fílnum og greip um snák skríðandi þarna rétthjá á jörðinni? Svo er ekki. Á frummálinu stendur að sjötti maðurinn taki á rana fílsins (The final man holds the trunk and says the elephant is like a snake).

Svona stöðugar villur og ambögur, þó þær skemmti stöku sinnum, rugla líka, tefja, eða gera lesandanum erfiðar fyrir að fóta sig í gegnum textann. Textinn verður fen í stað þess að vera þægileg og greiðfær leið.

Villurnar byrja strax í upphafi pistilsins en þar segir formaður að það séu „þrjú mikilvæg mál sem standa frammi fyrir okkur sem ráðstefnu í augnablikinu“. Hvaða ráðstefnu er hann að tala um? Enga. Hann er að tala um okkur sem samtök (Conference).

Þetta eru ekki einsdæmi heldur væri hægt að nefna fjölda dæma úr hverju tölublaði Kirkjufrétta undanfarin ár. Síðustu jól var safnaðarmeðlimum t.d. boðið á „backing vocals“ en það var þýðingin á aftansöng.[1]

Mikilvægi góðs málfars og þýðingar

Það er satt að fólk er misgóðir pennar og hefur mismikinn áhuga á því að fást við ritstörf. En nú er það nú einusinni þannig að ritstörf – með allri þeirri nákvæmni og smáatriðum sem þar heyra til – eru mikilvægur þáttur þess að vera aðalritari og ritari yfirhöfuð. Aðalritari þarf t.d. að sjá um að skrifa (og þýða) fundargerðir samtakastjórnar og að gefa út Kirkjufréttir. Það hljóta því að vera lágmarkskröfur að slíkir textar séu birtir án þess að vera morandi í málfræði- og stafsetningarvillum.

Það er líka satt að fólk hefur mismikinn áhuga á tungumáli. Engu að síður skiptir málfar og þýðing máli. Illa skrifaðir textar og ónákvæmar þýðingar og túlkanir valda misskilningi. Skýrt dæmi um það er t.d. þegar aðalritari túlkaði á fyrrihluta 41. aðalfundar fyrir enskumælandi fulltrúa. Fyrir utan það að hún hætti oft að túlka svo að fundarstjórar eða fólk út í sal varð að benda henni á að halda áfram þá túlkaði hún oft rangt og svo varð að leiðrétta villurnar og ég veit ekki hvort það náðist alltaf. Þetta er ekki lítilvægt. Á aðalfundi skiptir miklu máli að skilja nákvæmlega hvað sagt er, hvort sem um er að ræða athugasemdir, tillögur, eða ummæli fundarstjóra og annarra.

Það sama er hægt að segja um alla birta texta. Í námuskýrslu samtakastjórnar fyrir fyrrihluta 41. aðalfundar var t.d. orðið ,framsal‘ ekki þýtt í ensku útgáfu skýrslunnar. Hvernig áttu enskumælandi lesendur að skilja hvað átt var við í t.d. eftirfarandi kafla þeirrar skýrslu (ímyndið ykkur að framsal sé orð á máli sem þið skiljið ekki):

One issue: framsal

As a consequence, some members have felt that the terms of the GCAS investigation were too narrow and still did not address their concerns which related to the legal terms of the contract. One of the issues was the interpretation of the meaning of framsal.

Eden Mining and their lawyer have always believed that framsal has not taken place because they never transferred the rights to mine to another party. (It should be noted that this lawyer was the lawyer who regularly worked for the Church and who wrote the original contract in 2009 on behalf of the Church). However, some members of our Church believe that framsal did take place.

In the contract, Eden Mining receives 90% of the gravel price and the church 10%. If framsal did take place, this means that the church received 10% of the price that Eden received rather than 10% of the final sales price that was charged by the company who physically extracted the gravel.

Svo virðist vera að aðalritari þýði ekki sjálf heldur notist við þýðingarvél eins og Google Translate, bæði til að þýða ensku yfir á íslensku og öfugt, og lesi textann síðan lítið sem ekkert yfir. Það er í lagi að nota þýðingarvélar en maður verður þá að fara yfir textann eftir á því þær eru svo ófullkomnar, sérstaklega þegar það kemur að þýðingu úr lítttöluðum málum eins og íslensku.

Það væri kærkomið að sjá betra málfar og nákvæmari þýðingar í Kirkjufréttum svo upplýsingarnar sem þar er komið á framfæri reynist jafnréttar á bæði íslensku og ensku. Fagleg vinnubrögð í þessum efnum eru ekki aðeins sanngirni gagnvart öllum málhópum safnaðarmeðlima heldur nauðsynleg og það sérstaklega þegar um er að ræða upplýsingar í erfiðum deilum eins og námumálinu. Auk þess sem léleg vinnubrögð eru kirkjunni aldrei til sóma.

Uppfærsla 15. mars 2024: Kirkjufréttir voru sendar út aftur í dag með afsökunarbeiðni á málvillum. Hroðvirknin og hálfkæringurinn er enn til staðar, sem má sjá strax í afsökunarbeiðninni: beðist er velvirðingar á villum í Kikrjufréttum. Auk þess eru aðeins sumar villur lagaðar (dæmi: eyra fílsins er enn eins og vifta og enn er talað um indíána), auk þess sem aðeins sumar þeirra villna eru lagaðar sem ég benti á í þessum pósti - það var fjöldinn af öðrum villum sem ég minntist ekki á. Svo enn og aftur er augljóst að enginn almennilegur yfirlestur á sér stað.


[1]     „Jóladagskrá í Reykjavík, Árnesi og Hafnarfirði“, Kirkjufréttir, 15. desember 2024. Þessi villa var þó sem betur fer leiðrétt samdægurs. „Aftansöngur / Christmas Service“, Kirkjufréttir, 15. desember 2024.

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 3. Grein Kristjáns Ara Sigurðssonar

Next
Next

Námudeilan og fyrirgefning: prédikanir Gavins Anthonys formanns