Námudeilan og fyrirgefning: prédikanir Gavins Anthonys formanns

Gavin Anthony prédikar í Aðventkirkjunni í Reykjavík þann 13. janúar 2024.

Það er sanngjarnt að búast við samræmi orða og gjörða kristinna leiðtoga. Þeir segjast vera erindrekar Guðs og segjast lifa eftir og kenna boðskap Guðs. Þetta merkir ekki að hægt sé að búast við því að þeir séu fullkomnir – þeir eru jú mannlegir – en opinber fræðsla þeirra ætti ekki að stangast mjög mikið á við líferni þeirra. Þetta segir a.m.k. Jesús sem býður fylgjendum sínum að leggja mat á trúarleiðtoga: „Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá“.

Gavin Anthony hefur nýlega prédikað ræðu um fyrirgefningu og sáttarferli í þremur söfnuðum KSDA: í Suðurhlíðarstofu, þann 13. janúar 2024 í Reykjavík, 4. febrúar í Loftsalnum og 10. febrúar í Keflavík. Hann hefur ekki (enn?) haldið þessa ræðu í Árnesi eða á Akureyri.

Í ræðu sinni í Reykjavík útskýrir Gavin að þegar einstaklingur A brýtur á einstaklingi B þá á einstaklingur B, sem varð fyrir brotinu, að taka fyrsta skrefið í fyrirgefningarferlinu. Gavin undirstrikar að sem kristnu fólki beri okkur að fyrirgefa jafnvel þeim sem hafa sært okkur svo mikið að við viljum ekki lengur sættast við viðkomandi. Og meira en það: fyrirgefningin sé til þess að lækna sambandið milli aðilanna svo þeir geti átt í samskiptum sem trúsystkini á ný. Við þetta er hægt að bæta að Jesús gengur svo langt að segja að við eigum að elska óvini okkar.

Nú er það ekki launungarmál að Gavin og aðrir samtakastjórnarmeðlimir telja að þeir safnaðarmeðlimir sem hafa gagnrýnt samtakastjórn í námumálinu hafi brotið gegn sér. Þetta hefur komið fram í pistlum stjórnar í Kirkjufréttum, í ræðum þeirra á GCAS-fundinum þann 24. maí 2022 og í öðrum skrifum samtakastjórnarinnar um námumálið. Það er einnig almennt vitað að ég er í hópi þessara gagnrýnu safnaðarmeðlima. Stjórnin hefur heldur ekki farið í grafgötur með yfirlýsingar sínar um að hún telji sættir í trúfélaginu vera mikilvægasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í dag og telur námugagnrýnina standa í vegi fyrir slíkum sættum.

Það hefur verið reynsla okkar sem höfum gagnrýnt samtakastjórnina að hún vill hvorki veita upplýsingar né ræða námumálin við okkur. Fyrir utan það að bjóða sumum okkar á fundi fyrrihluta árs 2022 sem voru boðaðir með varla neinum fyrirvara og stillt upp á undarlegan hátt eins um yfirheyrslu væri að ræða, þá hefur samtakastjórn hvorki svarað tölvupóstum né bréfum okkar og heldur ekki fyrirspurnum annarra um upplýsingar og svör í námumálinu, hvort sem þær beiðnir hafa komið frá meðlimum, safnaðarstjórnum eða aðalfundarfulltrúum.

Engu að síður ákvað ég, í ljósi þessarar ræðu Gavins, að taka hann á orðinu. Svo þann 9. febrúar 2024 sendi ég honum tölvupóst þar sem ég sagði að ef við tækjum prédikunina hans alvarlega þyrftum við að ræða saman þar sem við teldum báðir að hinn hefði brotið á sér. (Ég sendi tölvupóst í stað þess að hringja eða fara niður á skrifstofu af því að ég bý tímabundið í útlöndum.) Þegar Gavin hafði ekki svarað mér eftir tvær vikur minnti ég hann á tölvupóstinn þann 26. febrúar 2024 og bætti tveimur leiðtogum innan safnaðarins inn í tölvupóstaþráðinn til vitnis. Gavin hefur ekki heldur svarað þessum tölvupósti. Ég spurði þá þessa tvo safnaðarleiðtoga að því hvort þeir gætu ráðlagt mér hvernig ég ætti að leita sátta við Gavin þar sem hann svaraði ekki tölvupóstum frá mér. Þeir viðurkenndu báðir að þeir gætu ekki gefið mér nein ráð.

Nú segir einhver: Jón Hjörleifur meinar ekkert með þessum tölvupóstum og er bara að ónáða Gavin og reyna að ergja hann. Ég tel að þar sé hrapað að ályktunum því okkur ber ekki að dæma hjartalag fólks að ókönnuðu máli. En gefum okkur að þetta sé rétt: ég sé iðrunarlaus o.s.frv. Fellir það boðskap Gavins úr gildi? Finnst honum ekki að ég hafi brotið á sér? Hefði hann þá ekki sjálfur átt að boða mig á sinn fund samkvæmt eigin prédikun? Og þó ég reyndist erfiður í sáttarferlinu eða tæki það ekki nógu alvarlega o.s.frv., ætti prestur ekki að sýna villuráfandi sauði meðaumkun og gera allt sem í hans valdi stendur til að leiða slíka sál inn á réttar brautir? Eða er ég það hræðilegur að ég felli skipun Krists um fyrirgefningu og kærleika úr gildi fyrir Gavin?

Ég hef beðið í meir en fjórar vikur með þessa grein því ég vildi gefa Gavin sanngjarnan tíma til að svara mér. En svo virðist því miður að honum líki betur að prédika nauðsyn þess að fyrirgefa trúsystkinum sínum og óvinum en að fara eftir sínum eigin orðum í verki. Ég mun glaður, m.a.s. eftir birtingu þessarar bloggfærslu, funda með Gavin og leita sátta. En í millitíðinni tel ég það mikilvægt að benda safnaðarmeðlimum á ósamræmi orða og gjörða, sérstaklega þegar leiðtogi fer um kirkjunar undirstrikandi hvað hann leggur mikla áherslu á visst kenningaratriði. Því af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá og allir í söfnuðinum hafa rétt á því að vita hvort leiðtogar þeirra séu að reynast heilir í orði og verki eða ekki.

Gavin minntist fljótlega á það í ræðunni sinni í Reykjavík að þó hann hafi ætíð talið sig vera sáttfúsan mann fyndist honum að Guð væri að segja sér að hann þyrfti að læra meir um fyrirgefningu í orði og verki. Ég held að ég sé Guði sammála í þessu.

Gavin, það er leiðinlegt að þurfa að skrifa svona í bloggfærslu en á ég að þegja yfir því að þú vilt ekki sættast við mig? Hafðu samband og tölum saman. Þú verður ekki minni maður fyrir vikið, sama hvað þér finnst um mína persónu. Væri ekki betra ef samtakastjórn myndi ræða námumálin af hreinskilni, veita upplýsingar og fylgja samþykktum KSDA í verki? Þá væri hægt að leysa þetta námumál og líka eyða þessari færslu, já allri þessari vefsíðu.

Previous
Previous

Fíllinn og indíánarnir: um málfar og þýðingar í Kirkjufréttum

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 2. Námuskýrslan