Framvinda 41. aðalfundar: 2. Námuskýrslan

Í fundargögnum fulltrúa fyrir 41. aðalfund KSDA var að finna skýrslu samtakastjórnar um námurekstur trúfélagsins. Þessi skýrsla er merkileg fyrir margar sakir og við skulum byrja á því að setja hana í víðara samhengi.

Aðdragandi skýrslunnar

Árin fyrir aðalfund höfðu vaknað margar spurningar varðandi námureksturinn. Krafan um frekari upplýsingar hafði orðið svo sterk að samtakastjórn sá sig tilneydda til að láta rannsaka málið. Samtakastjórn bað GCAS um að rannsaka málið og bað safnaðarstjórnir (í tvígang) að senda sér spurningar um námumálið sem þær vildu fá svör við. Þegar GCAS-fundurinn var haldinn þann 24. maí 2022 fengu safnaðarstjórnir ekki svör við innsendum spurningum heldur aðeins upplýsingar um þann takmarkaða þátt námumálsins sem samtakastjórn hafði beðið GCAS um að rannsaka. Meirihluti safnaðarstjórna bað því samtakastjórn um að halda annan upplýsingafund um námumálið. Eins og kemur fram í fundargerðum samtakastjórnar velti hún þessu fyrir sér allt sumarið 2022 en ákvað svo að halda engan fund.

Þess í stað ákvað samtakastjórn að leggja skýrslu um námumálið fyrir aðalfund. En í stað þess að veita loksins meðlimum upplýsingar um námumálið hljómaði skýrslan á annan veg. (Hana er að finna á bls. 81–84 í fundargögnunum og einnig er hægt að lesa hana hér.)

Efni skýrslunnar

Samtakastjórn viðurkennir að skýrslan muni „einfalda“ námumálið með því að taka aðeins fyrir „lykilatriði“. Þannig muni skýrslan fjalla „um það sem er kjarni málsins“ svo að fulltrúar geti síðan kosið hvað gera skuli í málinu – því „ætlun þessarar skýrslu“ sé „að reyna að loka þessu máli“ (bls. 81).

Samtakastjórn tekur fyrir þrjá gagnrýnispunkta sem hún telur þ.a.l. vera „lykilatriði“ til að skilja málið. Þessir punktar eru:

  1. Meðlimir telja að Eden hafi vísvitandi svikið KSDA undir gömlu samningunum með því að komast hjá því að borga það sem þeim bar („Ásakanir“, „Aðgerðir“ og „Umgjör um skýrslu GCAS“ á bls. 82)

  2. Meðlimir telja að þetta hafi Eden einkum gert með því að framselja námusamninga sína til þriðja aðila („Eitt atriði: Framsal“ og „Lögfræðiálit um framsal“ á bls. 82–83)

  3. Meðlimir hafa sett út á ,leynilega‘ undirritun nýja samningsins og sagt að þessi samningur sýni að samtakastjórn sé spillt („Nýr samningur undirritaður“, bls. 82)

Þetta er að mörgu leyti ágætis samantekt á lykilatriðum hjá samtakastjórn því þau fela í sér að bæði gömlu samningarnir og sái nýi hafa verið gagnrýndir og hver helsta gagnrýnin á framkvæmd gömlu samninganna var (framsal). Það vantar hinsvegar lykilatriði gagnrýni á nýja samninginn en það er ekki leynd undirritunar heldur umboðsleysi samtakastjórnar til að skrifa undir hann (brot á 18. grein samþykkta KSDA).

Efnismeðferð þessara punkta er með öllu ónæg og ólýsandi:

  1. Samtakastjórn segir að GCAS hafi staðfest að Eden Mining hafi ekki gerst sekt um svik (tillaga, nr. 1–5). En GCAS staðfesti ekkert slíkt[1]

  2. Samtakastjórn viðurkennir að hægt væri að færa rök fyrir því að framsal hafi átt sér stað og viðurkennir bókstaflega óvart að það hafi gerst[2]

  3. Samtakastjórn segir leynilega undirritun nýs samnings ekki leynilega heldur eðlilegan viðskiptatrúnað og fullyrðir hvað samningurinn er góður fyrir trúfélagið (tillaga, nr. 6). Á íslensku eru orðin leynd og trúnaður hinsvegar að miklu leyti samheiti með mismunandi blæ svo að skipta einu orði út fyrir annað útskýrir lítið. Stjórnin skautar ennfremur framhjá því hvers vegna leynilegur hluti samnings, leynilegar samningaviðræður og leynileg undirritun hafa aldrei áður viðgengist hjá KSDA og hafi aðeins verið nauðsyn núna – auk þess að safnaðarmeðlimir geta ekki sannreynt hversu góður samningur er sem þeir mega ekki lesa til fulls

Samtakastjórn lýkur síðan skýrslunni með tillögu sem lögð er fyrir aðalfund (bls. 83–84) þess efnis að fulltrúar kjósi að „reka þetta mál ekki frekar þar sem það er ekki í þágu Kirkjunnar“ því umræðan skaði bæði samfélag, starfsemi og boðun KSDA (tillaga, nr. 7)

Greining á skýrslunni

Í þessari grein verður efni skýrslunnar ekki gerð full skil. En rétt er að minnast á nokkur mikilvæga þætti hvað skýrsluna varðar.

Skortur á gagnsæi: Í fyrsta lagi viðurkennir samtakastjórn að hún vilji ekki veita frekari upplýsingar í námumálinu og þess vegna hafi hún kosið að halda ekki upplýsingafund að beiðni meirihluta safnaðarstjórna:

Að hafa fund einungis til þess að svara spurningum myndi líklegast leiða til meiri frekar en minni sársauka innan Kirkjunnar og myndi samt skilja Kirkjuna eftir án þess að lausn væri fundin (bls. 81)

Pólitík: Í öðru lagi er skýrslan á gráu svæði hvað varðar leyfilega pólitík. Fyrir aðalfund og á meðan honum stendur er fulltrúum auðvitað frjálst að tala saman eins og fullorðnu fólki. Og á aðalfundi getur hvaða fulltrúi sem er gert hvaða skoðun sína sem er að tillögu sinni. Safnaðarhandbókin mælir bannar hinsvegar gegn því að fulltrúar myndi ,atkvæðablokkir‘ eða reyni að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu annarra fulltrúa (bls. 105). Þessi klausa var samtakastjórn svo mikilvæg fyrir 41. aðalfund að Gavin Anthony formaður lauk ávarpi sínu til fulltrúa í aðalfundargögnum með því að vitna í hana alla (aðalfundargögn 41. aðalfundar, bls. 3). Hér er hún:

Skyldur fulltrúa—Fulltrúi á aðalfund Samtaka safnaða er ekki aðeins kjörinn til þess að vera fulltrúi einstaks safnaðar eða Samtaka. Þegar hann hefur tekið sér sæti ber honum að líta á verkið í heild sinni og að minnast þess að hann er ábyrgur fyrir velgengni starfsins um allan heim. Ekki er fulltrúahópi neins safnaðar eða Samtaka heimilt að skipuleggja eða freista þess að stýra atkvæðum sínum sem hópur. Ekki hefur heldur fulltrúahópur frá stórum söfnuði eða Samtökum heimild til að krefjast yfirburðaaðstöðu með því að stjórna málum á aðalfundi Samtaka. Sérhver fulltrúi á að hlýða leiðsögn Heilags anda og greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni. Hver sá embættismaður Samtaka eða safnaðar sem freistar þess að stýra atkvæðum einhvers hóps fulltrúa er talinn óhæfur til að gegna embætti.

En skýtur ekki einhverju skökku hér við? Hvers vegna má samtakastjórn gera það að tillögu sinni til aðalfundarfulltrúa að þeir taki eitthvað mál fyrir og að þeir tileinki sér skoðun samtakastjórnar á málinu? Og hvernig er þetta ásættanlegt í ljósi þess að samtakastjórn fullyrðir fyrirfram að það að upplýsa meðlimi um öll atriði málsins leiði aðeins til sársauka af því aðrar skoðanir séu rangar og ókristilegar? Er slík skýrsla og tillaga ekki einmitt til þess gerð til þess að hafa bein áhrif á skoðanir fulltrúa og atkvæðagreiðslu þeirra?

Manipúlerandi guðfræði: Skýrsla samtakastjórnar gefur sterkt til kynna að lýðræðisleg, upplýst umræða um námumálið sé á einhvern hátt ókristileg. Hér verða aðeins talin upp nokkur dæmi: Í fyrsta lagi: Þegar fólk greinir alvarlega á, er ekki hægt að gefa sér að það særi báða deiluaðila? Hvers vegna minnist samtakastjórn aðeins á sársauka þeirra sem fylgja henni að máli? Eru meðlimir með aðrar skoðanir á einhvern hátt hafnir yfir sársauka, þegar þeim finnst óréttlæti eiga sér stað, upplýsingaleysi og valdmisbeiting og þegar þeir verða fyrir illu umtali útaf skoðunum sínum á málinu?

Í öðru lagi má nefna það að samtakastjórn „skýtur fyrir sig boðunarskildinum“ – gagnrýni á samtakastjórn er einhvernveginn samnefnari fyrir það að stofna boðunarstarfi trúfélagsins í hættu. En væri ekki allteins hægt að stilla málinu þannig upp að upplýsingaskortur samtakastjórnar og tregða hennar til að taka á málinu hafi tafið safnaðarmeðlimi frá því að verja tíma sínum í annað en að þrábiðja hana um upplýsingar og svör? Og er ekki við því að búast að það verði alltaf skiptar skoðanir og einhverjar deilur í KSDA eins og öðrum mennskum hópum? Er ómögulegt að ganga útfrá því að hægt sé bæði að sinna boðunarstarfi og takast á við vandamál á sama tíma án þess að annað geri útaf við hitt?

Á sama hátt stillir samtakastjórn úrlausn vandamála upp sem andstæðu annarra góðra þátta eins og kristilegs samfélags. En er þetta sanngjarnt? Er það ekki einmitt heilbrigður þáttur samfélags að takast á við deilur og leysa þær? Og verður það ekki helst gert með því að veita fólki upplýsingar og svör svo það geti tekið upplýstar ákvarðanir í sáttarferli sínu?

Í fjórða lagi segir samtakastjórn að umræða um deilumálið á opinberum vettvangi vanvirði Guð og valdi trúfélaginu álitshnekki. Það er ágætt viðmið að „viðra ekki óhreina þvottinn“ við hvert snarasta tækifæri, því það kemur oft í veg fyrir sættir, flækir mál að óþörfu og blandar almenningi oft inn í mál sem hann hefur ekki forsendur til að skilja og sem koma honum ekki við. En á þetta alltaf við? Ef meðlimir fá ekki vettvang til að tjá sig um námumálið innan sinna raða og er meinað að taka lýðræðislegan þátt í því að móta málinu farveg – er það ekki skylda þeirra að láta aðra vita um gang mála sem munu mögulega verða fyrir afleiðingunum? Biblían segir okkur að elska náungann eins og okkur sjálf – og Ölfusingar eru gamlir grannar okkar aðventista, sem og Íslendingar allir. Námureksturinn mun hafa áhrif á Þorlákshöfn, vera mjög mikilvægt skref í þeirri vegferð hvert Íslendingar feta sig í umhverfisverndar- og þungaiðnaðarmálum og fyrirhugaðar framkvæmdir munu líka vera óbein yfirlýsing á því hvar aðventistar standa í viðskiptum, umhverfismálum o.s.frv. Þó Biblían útmáli slúður, rógburð og dómhörku sem ókristilega hegðun þá undirstrikar Biblían – sem og kirkjusagan – engu að síður heilagt mikilvægi þeirrar skyldu að hugsa sjálfstætt, að fylgja Guði frekar en trúarleiðtogum og að mótmæla yfirvöldum þegar þau hafa á röngu að standa. Trúarleiðtogar í Gamla og Nýja testamentinu og í gegnum kirkjusöguna hafa ekki verið hafnir yfir gagnrýni og það sama á við um leiðtoga Aðventkirkjunnar. Hversu mjög sem samtakastjórn vill telja meðlimum sínum trú um að mótmæli og gagnrýni séu í eðli sínu óréttlát og ókristileg, þá er ástæða fyrir því af hverju meiður þeirrar kristni sem aðventistar aðhyllast dregur nafn sitt af mótmælum.

Niðurlag

Það að samtakastjórn lagði skýrslu um námureksturinn fyrir fulltrúa með það að markmiði að svara sama og engu á sama tíma og hún hvatti meðlimi til að hætta umræðu málsins með öllu – það var óumflýjanlegt að einhverjir meðlimir myndu bregðast við slíkum vinnubrögðum. Það gerði t.d. Kristján Ari með grein sem hann skrifaði fyrir meðlimi og fulltrúa sérstaklega, en viðbrögð við námuskýrslunni eru efni næstu greinar í þessari seríu.


[1] Fulltrúi GCAS tók ítrekað fram að GCAS hefði ekki verið beðið um að rannsaka lögfræðilegu hlið námumálsins – og þar sem svik felst í samningabrotum (sem krefjast lögfræðilegrar túlkunar) lokaði GCAS á þann möguleika að geta greint svik. GCAS bað Eden heldur ekki um nein gögn – og hefði það ekki þurft til að leita af sér þann möguleika að Eden væri að gera rétt eða rangt? Og þrátt fyrir þetta tvennt benti GCAS engu að síður á mörg atriði í framkvæmd Eden á samningunum gömlu sem GCAS þótti athugunarverð. Á mæltu máli kallast slík atriði samningabrot.

[2] „Samkvæmt [eldri] samningnum fær Eden Mining 90% af malarverðinu og Kirkjan 10%. Ef framsal átti sér stað þýðir það að Kirkjan fékk 10% af því verði sem Eden fékk frekar en 10% af endanlegu söluverði sem var rukkað af fyrirtækinu sem mokaði og fjarlægði mölina“ (bls. 83). Þessi staðhæfing samtakastjórnar er hreint út sagt ótrúleg. Hér virðist samtakastjórn viðurkenna að samkvæmt samningi hefði KSDA átt að fá prósentu af endanlegu söluverði malarinnar en ekki prósentu af því sem Eden fékk. En fyrir því liggja einmitt bókstaflegar sannanir að KSDA fékk ekki prósentu af endanlegu söluverði því það var ekki Eden sem seldi mölina á markað. Þess í stað seldi Eden þriðja aðila mölina sem seldi hana síðan fyrir margfalt hærra verð á markað. KSDA fékk því prósentu af því sem Eden fékk en ekki af endanlegu söluverði – samtakastjórn viðurkennir hér sjálf að samkvæmt hennar eigin skilgreiningu hafi framsal átt sér stað.

Previous
Previous

Námudeilan og fyrirgefning: prédikanir Gavins Anthonys formanns

Next
Next

Framvinda 41. aðalfundar: 1. Fulltrúaval og fundarstjóratillaga