Framvinda 41. aðalfundar: 1. Fulltrúaval og fundarstjóratillaga

41. aðalfundur KSDA var haldinn 22.–25. september 2022 í Loftsalnum, Hafnarfirði. Eitt mikilvægasta mál fundarins var hið svokallaða „námumál“ – en hvernig fráfarandi samtakastjórn (2019–2024?) hefur staðið að námurekstri trúfélagsins hefur vaxið sem ágreiningsefni innan safnaðarins í langan tíma. Fundurinn reyndist mjög „pólitískur“ og aðallega vegna þessa máls. Þessi pólitík átti strax rætur sínar að rekja til vals á fulltrúum og fundarstjórum. Sumt af þessu var sennilega ekki meðvitað en hvernig að fulltrúa- og fundarstjóravali var staðið átti samt eftir að hafa mikil áhrif á fundinn.

Fulltrúaval

Það er hefðbundinn skilningur meðlima KSDA að safnaðarstjórnir (sem velja aðalfundarfulltrúa síns safnaðar) eigi ekki að beita pólitískum áhrifum við fulltrúavalið, t.d. með því að velja meðvitað fulltrúa hliðholla sér til að hafa áhrif á framvindu aðalfundar. Þess í stað á fulltrúavalið að sýna sem mesta breidd, þ.e. fulltrúar eiga að koma frá sem flestum fjölskyldum og aldurshópum, hafa mismunandi skoðanir og vera bæði karlar og konur, o.s.frv.

Það var hinsvegar margt í vali á fulltrúum fyrir 41. aðalfund sem átti eftir að hafa pólitísk áhrif á fundinn.

Í fyrsta lagi komu fjórir fulltrúar frá Stór-Evrópudeildinni og Aðalsamtökunum: Audrey Anderson fyrir hönd Aðalsamtakanna (áður svæðaritari Stór-Evrópudeildarinnar), Daniel Duda, formaður Deildarinnar; Nenad Jepuranovic, fjármálastjóri Deildarinnar; og Iaian Sweeney, svæðaritari Deildarinnar. Vanalega koma um 1-3 fulltrúar frá Deildinni svo það voru sérstaklega margir á 41. aðalfundi.

Í öðru lagi voru heiðursfulltrúar (eða fulltrúar í boði samtakastjórnar) nýttir. Þá var ekki að finna á fulltrúalistanum í fundargögnum fulltrúa heldur voru þeir tilkynntir í upphafi fundar. Þeir áttu að vera: Björgvin Snorrason, Brynjar Ólafsson, Helgi Jónsson, Jóhann Þorvaldsson og Jón Karlsson. Þetta er algjörlega löglegt en val samtakastjórnar á heiðursfulltrúum var athyglisvert því þeir voru flestir í þeirri fjölskyldu sem er tengd námurekstrinum og samtakastjórn. Það er auðveldast að átta sig á þessum tengslum með því að líta á þetta ættartré en þar er fjóra af fimm heiðursfulltrúunum að finna:

Samtakastjórn hefur í gegnum tíðinan vanalega valið heiðursfulltrúa fyrir það að vera t.d. prestar eða skólastjórar sem eru komnir á eftirlaun. Það var því ekki ljóst hvers vegna sumum þessara heiðursfulltrúa var boðið þar sem slíkt átti ekki við um þá.

Samtakastjórn misreiknaði sig hinsvegar: heiðursfulltrúar mega ekki vera fleiri en sem nemur 10% kjörinna fulltrúa (sbr. samþykktir KSDA, 6. gr. 2b). Kjörnir fulltrúar á aðalfundinum voru 46. Einn af þessum fimm varð því að víkja. Björgvin Snorrason bauðst til þess.

Í þriðja lagi var samfélag dreifðra á Akureyri (sem er sýnilegasti kjarni dreifðra, með kirkju og safnaðarstarf) ósátt við fulltrúaval samtakastjórnar fyrir hönd dreifðra. Dreifðir hafa rétt á fimm fulltrúum. Það er vani fyrir því að þrír fulltrúa komi frá Akureyri og að þeim sé skipt milli fjölskyldnanna sem þar búa. Í þetta skiptið þótti samfélagi dreifðra á Akureyri að samtakastjórn væri að ganga framhjá vissum fulltrúum og það sérstaklega í ljósi þess að hún kaus að nýta sér ekki fulltrúatöluna til fulls - samtakastjórn sendi aðeins þrjá í stað fimm fulltrúa. Samtakastjórn svaraði ekki fyrirspurnum samfélags dreifðra á Akureyri hvers vegna þessu væri svona farið. Hvaða söfnuður sem er hefur rétt á því að nýta sér ekki fulltrúatölu sína en það er engu að síður sérstakt að nýta ekki töluna þegar það er hægt.

Þessi þrjú atriði ýttu undir pólitík fundarins: það voru sérstaklega margir Deildarfulltrúar, fáir fulltrúar dreifðra og nokkrir heiðursfulltrúar úr fjölskyldunni sem er tengd bæði stjórninni og Eden Mining og tveir þeirra sáu um fundarstjórnun.

Fundarstjóratillaga

Fyrsta mál aðalfundar er að velja fundarstjóra úr hópi mættra fulltrúa (sjá samþykktir KSDA, 7. gr.). Það er talað um fundarstjóra í eintölu í lögum trúfélagsins. Gavin Anthony setti fundinn og mælti með því að tveir af heiðursfulltrúum, Brynjar Ólafsson og Helgi Jónsson, yrðu gerðir að fundarstjórum. Þetta bendir til þess að samtakastjórn hafi mögulega boðið öðrum hvorum þeirra eða báðum til þess að geta stungið upp á öðrum hvorum þeirra sem fundarstjóra.

Þó fundarstjóri eigi að vera hlutlaus hefur hann það þó í hendi sinni að hafa viss áhrif á fundinn. Þetta sást á fundarstjórnun Brynjars og Helga eins og tvö dæmi sýna. Þetta er hægt að segja um hvaða fundarstjórnun sem er en á fundi þar sem stórt pólitískt mál var til umræðu var það sennilega óskynsamlegt af samtakastjórn að stinga upp á mönnum sem voru fjölskyldutengdir málinu.

Í eitt skipti kom einn fulltrúi, Indro Candi, með athugasemdir, en þær voru ekki í formi tillögu. Þetta gerist oft, að fulltrúar annaðhvort vilja bara setja fram athugasemd (sem má gera) eða vilja setja fram tillögu en kunna ekki fundarsköp nægilega vel svo þeir setja fram athugasemd í stað tillögu. Fulltrúi kvað svo ekki vera. Helgi fundarstjóri ítrekaði spurningu sína, hvort hann væri ekki í raun að setja fram tillögu og lagði síðan til að tekið væri matarhlé og málið klárað eftir matinn. Þá kom fulltrúinn með breytingartillögu. Þetta skipti miklu máli fyrir fundinn því þetta var þriðja (og þarmeð síðasta leyfilega) breytingartillaga á tillögu sem leiddi til þess að móta allan fundinn.

Á fundinum var lögð fram tillaga um að vísa fulltrúa af fundi. Það er ekkert í lögum sem leyfir aðalfundi að vísa fulltrúa, kosnum af söfnuði sínum, af fundi. Fundarstjórar settu ekkert út á þessa tillögu.

Komið verður að báðum þessum atriðum síðar í þessari greinaröð. Auk þeirra má nefna að fundarstjórar hafa greiðari aðgang að Deildarfulltrúum en fulltrúar almennt sem eykur enn meir áhrif þeirra á framvindu fundar.

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 2. Námuskýrslan

Next
Next

Er námuskýrslunefndin hlutlaus?