Er námuskýrslunefndin hlutlaus?

Á fyrrihluta 41. aðalfundar KSDA samþykktu fulltrúar að taka námuskýrslu samtakastjórnar ekki fyrir. Þess í stað ákváðu þeir að biðja Stór-Evrópudeildina um að skipa nefnd sem myndi rannsaka námumálin.

Auðvitað hefði verið skynsamari ákvörðun að kjósa nýja samtakastjórn sem væri skipuð fólki sem tryði meira á gagnsæi og myndi veita meðlimum svör við spurningum þeirra um námumálið, í stað þess að leyfa þeirri samtakastjórn að sitja áfram sem stóð að námumálunum til að byrja með. Þessi skammsýni aðalfundarfulltrúa hefur nú komið þeim í koll því Deildin hefur neitað að senda fulltrúa sinn á seinnihluta aðalfundar og samtakastjórn hefur hætt að birta fundargerðir sínar svo við meðlimir vitum ekki lengur hvað hún hefst að, fyrir utan þær hreytur sem hún er tilbúin að deila í Kirkjufréttum.

En aftur að nefndinni. Fyrir utan það að hún hefur ekki tekið starfa eftir rúmt ár, sem vekur ekki beinlínis mikið traust á hæfni hennar, er hún líkleg til að geta gætt hutleysis í rannsókn sinni? Það er því miður harla ólíklegt ef litið er á hver skipaði nefndina og hverjir sitja í henni.

Deildin, aðili námumálsins, skipaði nefndina

Stór-Evrópudeildin kom að samningaviðræðum fráfarandi samtakastjórnar við Eden Mining og gaf grænt ljós á undirritun nýja samningsins. Þessi sama Deild skipar nefndina - sem á m.a. að rannsaka aðkomu Deildarinnar og framferði samtakastjórnar. Hvernig getur slík nefnd verið hlutlaus?

Flestir sem sitja í nefndinni starfa fyrir Aðalsamtökin og Deildina

Þegar litið er á hverjir skipa nefndina er erfitt að sjá hvernig hún eigi að sýna hlutleysi. Nefndina eiga að skipa: Lowell Cooper varaformaður Aðalsamtakanna (formaður nefndarinnar), GC Office of General Council meðlimur, GCAS meðlimur, Iain Sweeney svæðaritari (field secretary) og Victor Pilmoor.

Eins og minnst var á er Deildin hluti af deilumálinu - en samt situr einn fulltrúi hennar í nefndinni, Ian Sweeney svæðaritari.

Deildin er ekki sérstjórnsýslusvið heldur er hún svæðisskrifstofa Aðalsamtakanna. Stjórnsýslusvið Aðalsamtakanna hefur því verið aðili að deilunni frá því að nýi samningurinn var undirritaður þar sem Deildin er Aðalsamtökin. Og því miður er það oftast þannig að kerfið ver sína - þessir menn starfa saman og þekkjast og eiga sömu vini - hvort er þeim hættulegra að fara á móti meðlimum KSDA eða gegn sínum eigin kollegum og vinum? Það sitja tveir í nefndinni beint frá Aðalsamtökunum: Lowel Cooper varaformaður Aðalsamtakanna og svo ónefndur GC Office of General Council meðlimur.

Einn nefndarmaður mun vera frá GCAS - en GCAS hefur þegar skrifað skýrslu um málið þar sem fram kemur listi yfir atriði sem þóttu ,athyglisverð - GCAS veigraði sér við að nota orðið samningabrot í skýrslunni, en fulltrúi GCAS viðurkenndi þó á GCAS-fundinum að í sumu hefði ekki verið farið eftir samningunum en sagði að það skipti GCAS ekki máli því þeir væru ekki lögfræðingar og þar sem samtakastjórn hefði ekki sett út á þessi óuppfylltu atriði. GCAS er hluti af Aðalsamtökunum. Þeir sjá reglulega um endurskoðun KSDA. Og það væri þeim ekki í hag ef það kæmi í ljós að KSDA hefði orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi í skiptum sínum við Eden Mining fyrr og nú - því hvað segði það um þeirra endurskoðun ef þeim hefði yfirsést eitthvað af slíkri stærðargráðu?

Að lokum á Victor Pilmoor að vera í nefndinni. Hann starfaði sem kennari og sem fjármálastjóri Breska sambandsins í þrjú tímabil og er kominn á eftirlaun.

Niðurstaða

Þetta er ekki sagt efri stjórnsýslusviðum til minnkunar. En hvort sem okkur líkar betur eða verr eru efri stjórnsýslusviðin viðriðin námumálið og geta illa verið hlutlaus í deilunni. Að aðili skoði sína eigin aðkomu að málinu (t.d. Deildin og GCAS) er í eðli sínu hlutdræg rannsókn. Það væri því langskynsamlegast að KSDA sýndi þann dug að takast á við eigin vandamál og leysa þau. Það verða ekki allir sammála um lausn mála en það er því miður bara deilunnar eðli. Sama hvernig fer, hvort sem rétt verður gert eða rangt, munu einhverjir sitja eftir með sárt ennið.

Það er líklegt að aðalfundarfulltrúar hafi ákveðið að senda málið í nefnd út af mismunandi ástæðum: (1) fylgismenn samtakastjórnar og Eden Mining vildu koma málinu úr höndum aðalfundar því þar hefði málið mögulega fengið aðra meðferð en þau æsktu, auk þess sem þetta myndi tefja aðalfund - þó þau hafi sennilega ekki dreymt um að það yrði svona lengi; (2) aðrir fulltrúar trúðu í græskuleysi að það væri gott að láta óháða fagaðila rannsaka málið og (3) vildu sennilega ekki þurfa að setja sig inn í málið, hvað þá að þurfa að glíma við það sjálfir.

Það verður mjög athyglisvert að sjá hver gæði skýrslunnar verða, ef hún yfirhöfuð berst. En flestum safnaðarmeðlimum til angurs mun hún sennilega lítið leysa. Námumálið er íslenskt deilumál og verður sennilega ekki leyst nema af heimamönnum sjálfum. Þetta munu aðalfundarfulltrúar sennilega flestir sjá þegar skýrslan berst og þeir þurfa að lesa hana, ræða hana og greiða um hana atkvæði.

Previous
Previous

Framvinda 41. aðalfundar: 1. Fulltrúaval og fundarstjóratillaga

Next
Next

Heidelberg ætlar sér að hefja framkvæmdir í sumar