Samtakastjórn staðhæfir ranglega að seinnihluti 41. aðalfundar hafi verið boðaður þann 8. sept. 2024
Samskipti samtakastjórnar og Sýslumanns rötuðu í fjölmiðla í þessari viku. Ég mun ekki taka þau samskipti fyrir sem slík að sinni (enda birti samtakastjórn aðeins hluta samskipta sinna við embættið í Kirkjufréttum). En mig langar að benda á að svo virðist sem samtakastjórn fari með rangt mál í samskiptum sínum við Sýslumann. Í bréfi samtakastjórnar til Sýslumanns (dags. þann 8. júlí sl.) er þrisvar sinnum minnst á að seinnihluti 41. aðalfundar verði haldinn þann 8. september nk. Í síðasta skiptið (lokaorðum bréfsins) er fundurinn sagður „boðaður“.
Ég hef talað við nokkra aðalfundarfulltrúa og enginn þeirra hefur fengið tilkynningu um að seinnihluti aðalfundar hafi verið boðaður.
Þegar flett er í gegnum Kirkjufréttir er aðeins þrisvar minnst á dagsetninguna 8. september 2024. Fyrsta skiptið er í pistli samtakastjórnar þann 26. apríl 2024:
Það er mjög bagalegt að sú nefnd [námunefndin] hefur ekki enn afgreitt málið, en við höfum hins vegar fengið skilaboð um að nú styttist í að svo verði. Deildin hefur sagt okkur að hægt verði að halda framhaldsaðalfund þann 8. september næstkomandi. Hann verður formlega boðaður þegar nær dregur þeirri tímasetningu.
Hér segir samtakastjórn fullum fetum að seinnihluti aðalfundar hafi ekki verið boðaður. Þó að hún minnist á mögulega dagsetningu er það ekki það sama og að boða fund. Sérstaklega í ljósi þess að undanfarin tvö ár hefur samtakastjórn oftar en einusinni viðrað mögulegar og væntanlegar tímasetningar seinnihluta aðalfundar sem hafa síðan ekki gengið eftir.
Annað skiptið er í fréttatilkynningu aðalritara þann 20. júní 2024 þar sem hún tilkynnir að samtakastjórn hafi verið stefnt í annað skipti:
Stjórnin ákvað að senda út auka-Kirkjufréttir til að láta ykkur vita af því að því miður hefur Kirkjunni verið stefnt aftur. Lögfræðingur Kirkjunnar hefur nú þegar gert þær ráðstafanir sem þarf og mun aðstoða okkur við að skrifa greinargerð sem þarf að skila inn 19. september. Óvíst er ennþá hvaða áhrif þetta mun hafa á fyrirhugaðan (síðari hluta) aðalfundar Kirkjunnar 8. september.
Hér er seinnihluti aðalfundar þann 8. september nk. sagður „fyrirhugaður“ en í sömu andrá er tekið fram að „óvíst“ sé hvaða áhrif ný stefna hafi á hann. Það er augljóst að hér er ekki verið að boða til seinnihluta aðalfundar. Hér er einungis verið að tilkynna að samtakastjórn hafi borist önnur stefna og að samtakastjórn telji óljóst hvaða áhrif hún muni hafa á aðalfund (og ekki er tilgreint frekar hvað átt er við með þeirri athugasemd).
Þriðja skiptið er í tilkynningu samtakastjórnar um samskipti sín við Sýslumann þann 12. júlí 2024:
Í ljósi þessa er sá möguleiki fyrir hendi að aðalfund þurfi að halda 4. ágúst.
Í samræmi við rök lögfræðings Kirkjunnar erum við enn að vona að aðalfundur geti farið fram 8. september.
Hér ítrekar samtakastjórn eins og áður að stefnan hafi verið og sé að halda seinnihluta aðalfundar þann 8. september nk. En þetta er heldur ekki það sama og að boða aðalfund.
Það virðist því skýrt að samtakastjórn hafi ekki farið með rétt mál þegar hún talaði um seinnihluta aðalfundar sem nú þegar boðaðan í samskiptum sínum við Sýslumannsembættið. Og það hlýtur að teljast mjög alvarlegt að stjórn kristinnar kirkju fari með rangt mál í samskiptum sínum við hið opinbera.