Mun námunefndin svara spurningum safnaðarmeðlima?
Í ljósi þess að líklegt er að námunefnd skili af sér skýrslu fyrir seinnihluta 41. aðalfundar sem haldinn verður í ágúst eða september er vert að minnast á til hvers nefndin var sett á laggirnar og hvað henni ber að skoða.
Fyrirspurnir og gagnrýnispunktar safnaðarmeðlima
Fyrirspurnir og gagnrýni safnaðarmeðlima varðandi námureksturinn hófust nokkrum árum eftir að námusamningarnir höfðu verið gerðir við Eden Mining árin 2008 og 2009. Þessar fyrirspurnir og gagnrýnispunktar komu fram í einkasamræðum en einnig í tölvupóstum sem og í skýrslu árið 2015 og í opnu bréfi þann 5. desember 2021. Svo við tökum síðastnefnda liðinn sem dæmi koma m.a. eftirfarandi áhyggjuefni fram þar:
Hvers vegna er unnið í námunum á hvíldardögum?
Hvers vegna rekur Eden Mining ekki námurnar heldur virðist hafa framselt námureksturinn í hendur þriðja aðila?
Hvers vegna er rekstrarkostnaður Eden Mining svona hár þegar fyrirtækið sér hvorki um námuvinnsluna né efnissöluna?
Hvers vegna greiddi samtakastjórn Eden Mining fyrir umhverfismatskostnað þrátt fyrir að fyrirtækinu bæri að bera þann kostnað?
Hvers vegna var samningi ekki rift eftir að forsendur hans voru brostnar?
GCAS-rannsóknarspurningarnar
Árið 2021 var gagnrýni safnaðarmeðlima varðandi námureksturinn orðinn nægilegur til þess að samtakastjórn bæði GCAS, eftirskoðunarþjónustu Aðalsamtakanna, um að rannsaka námureksturinn.[1] Upphaflegu rannsóknarspurningarnar fimm sem samtakastjórn sendi GCAS voru þessar:
1. Hafa tekjur frá Eden verið í samræmi við samninginn?
2. Ef ekki, hvað ætti að vera gert varðandi þær tekjur sem virðast vanta?
3. Eru núverandi skilmálar í samningnum ásættanlegir og geta þeir talist góð ráðsmennska fyrir kirkjuna?
4. Ef ekki, hvaða ráðleggingar væru gerðar varðandi breytingar á samningnum?
5. Eru haldbær rök fyrir því að endurskrifa/rifta samningnum við Eden?[2]
Hér sést hvað samtakastjórn taldi þarft að láta rannsaka. (Hún dró hinsvegar spurningar 3–5 til baka.)
Spurningar safnaðarstjórnanna
Auk þessa bað samtakastjórn safnaðarstjórnir í tvígang að senda sér spurningar um námumálið sem hún myndi síðan svara á opnum fundi. Þegar það kom að fundi snerist hann hinsvegar eingöngu um GCAS-rannsóknina. Skýrslan svaraði ekki einu sinni því grundvallaratriði hvort farið hefði verið eftir samningum eður ei: GCAS-fulltrúi tók fram að lögfræðilegum spurningum hefði ekki verið svarað í skýrslunni. GCAS-fulltrúi vildi ekki einusinni staðfesta hversu miklar tekjur Eden Mining hefði haft af námunum. Ennfremur fullyrti GCAS-fulltrúi að það væri eðlilegt að jarðefnasala færi fram í heildsölu/smásölu-ferli og birti með því grunnvanþekkingu sína á íslenskum aðstæðum – en slíkt ferli þekkist einfaldlega ekki í íslenskum námurekstri. Efnislega skilaði skýrslan því litlu.
Skýrslan svaraði heldur ekki spurningum safnaðarstjórnanna. Nú hef ég undir höndum sumar spurningarnar sem safnaðarstjórninar sendu. Ég hef dregið þær saman hér í grófa efnisflokka og skipað þeim í stafrófsröð. Spurningarnar eru svo margar að lesandi getur „skrunað niður yfir“ þær til að lesa greinina áfram:
Eldri samningar KSDA við Eden Mining (2008 og 2009)
Stjórnendur Kirkjunnar halda því fram að Eden Mining ehf hafi ekki brotið fyrri samning. Safnaðarmeðlimir hafa hins vegar bent á fjölmörg atriði í samningnum sem var ekki staðið við. T.d. að Eden Mining greiddi ekki á réttum tíma, greiddu ekki réttar upphæðir, voru að selja möl undir markaðsvirði, stunduðu framsal og seldu möl á svæðinu en ekki af svæðinu. Hvaða atriði í fyrri samning finnst samtakastjórn Eden hafa staðið við?
Upphafleg spurning mín var hvort forsendur hins upphaflega Lambafellssamnings sem þinglýstur var í upphafi júlímánaðar 2009 væru óbreyttar þótt Noregsverkefnið hafi fallið niður, en hlutur kirkjunnar var þá ákveðinn lágur vegna fyrirsjáanlegs kostnaðar við að koma þessu átaks- og tímamótaverkefni í gegn. Hvers vegna hefur mér aldrei svarað beint hvað þetta varðar?
Hefur Eden Mining gert upp að fullu skuld sína við kirkjuna?
Í hverju fólst rekstrarkostnaður Eden Mining samkvæmt samningnum frá 2009?
Hvernig þjónaði það hagsmunum kirkju SDA á Íslandi að hafa Eden Mining sem millilið milli kirkjunnar og þeirra sem seldu jarðefnið af svæðinu? Það virðist vera að milliliðahlutverk Eden Mining hafi valdið kirkjunni fjárhagslegu tapi, hvaða rök notar samtakastjórn til að réttlæta það að EM sé milliliður?
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá kirkjunni og sem fram kemur í opna bréfinu, þá er hlutur kirkjunnar tilgreindur kr. 14,- pr. rúmmetra. Er þessi útreikningur réttur?
Hefur fjármálastjórn kirkjunnar/yfirstjórn kannað hvað tilgreindir eigendur/býli að vestasta hluta Lambafellsnámunnar hafa fengið/fá í sinn hlut pr. rúmmetra?
GCAS-rannsóknin
Samkvæmt samþykkt stjórnar var ákveðið að senda fimm spurningar til GCAS. Hvers vegna dróguð þið til baka síðustu þrjár spurningarnar? Spurningarnar fimm sem þið samþykktuð að senda GCAS voru: (1) Hafa tekjur frá Eden verið í samræmi við samninginn?, (2) Ef ekki, hvað ætti að vera gert varðandi þær tekjur sem virðast vanta?, (3) Eru núverandi skilmálar í samningnum ásættanlegir og geta þeir talist góð ráðmennska fyrir kirkjuna?, (4) Ef ekki, hvaða ráðleggingar væru gerðar varðandi breytingar á samningnum?, (5) Eru haldbær rök fyrir því að endurskrifa/rifta samningnum við Eden?
Hvers vegna bað samtakastjórn GCAS að rannsaka EM en ekki íslenska viðskiptalögfræðinga? (1) á hvaða skjölum er rannsóknin byggð? (2) Hvaða upplýsingar hafa þeir fengið?
Af hverju þurfti mikinn þrýsting frá safnaðarmeðlimum til þess að þið báðuð um rannsókn GCAS á námusamningnum sex árum eftir að Harald vakti athygli á málinu?
Það liggur fyrir að bæði formaður kirkjunnar sem og fjármálastjórinn staðhæfðu í kjölfar opna bréfsins að beðið yrði niðurstöðu GCAS áður en frekar yrði aðhafst í samningsmálum varðandi Lambafellið, en á þeim tíma voru samningsmál við leigutaka námunnar eigi að síður í fullum gangi. Hvers vegna var þessu haldið fram af beggja hálfu, en þó við mismunandi kringumstæður, meðan verið var að semja við leigutakana?
Hvíldardagshelgihald
Af hverju finnst ykkur það vera í lagi sem „leiðtogar“ Kirkjunnar að styðja safnaðarmeðlimi í því að brjóta fjórða boðorðið í stað þess að fræða þá um skaðsemi þess?
Hvernig réttlætið þið það að gera viðskiptasamning um eign kirkjunnar við tvo meðlimi kirkjunnar vitandi það að þeir virða ekki hvíldardagshelgihald?
EM er í eigu tveggja aðventista. Hvernig réttlætist regluleg hvíldardagsvinna verktaka þeirra? (1) Þó að það væri mögulegt einhvern veginn að réttlæta hana, hvers vegna var hér ekki nýtt tækifæri til vitnisburðar um helgi hvíldardagsins með því að biðja verktakana um að vinna ekki í námu kirkjunnar á hvíldardögum? (2) Hver er skoðun samtakastjórnar á þessari hvíldardagsvinnu? (3) Hvers vegna hefur samtakastjórn ekki svarað safnaðarmeðlimum um skoðun sína, í ljósi þess að hvíldardagurinn er grundvallaratriði í trú sjöunda dags aðventista?
Vinsamlega gefið mér hugmynd af svari til þeirra sem spyrja af hverju ég geti ekki unnið fyrir þá á laugardögum þegar kirkjan mín leyfir trúfélögum mínum að vinna efni í námu sem er eign kirkjunnar?
Nýi samningur KSDA við Eden Mining (2022)
Þið birtuð sem gleðitíðindi („I am pleased to inform you…“) í Kirkjufréttum að Kirkjan hafi fengið kr. 24.524.614 í sinn hlut vegna malarsölu í Lambafelli árin 2017 -2021. Það láðist að geta þess hversu há umboðslaunin voru sem féllu í hlut Eden Mining. Hversu há er sú upphæð?
Nú hefur komið fram að Kirkjan hefur fengið kr. 24.524.614 í sinn hlut vegna malarsölu frá Lambafelli árin 2017-2021. Gerir samtakstjórn sér ekki grein fyrir því að þetta er mjög lág upphæð fyrir það magn sem tekið hefur verið úr námunni á þessu tímabili?
Hvað hafa margir rúmmetrar verið teknir úr námunni árin 2017-2021?
Hvers vegna gerði samtakastjórn samning við EM á ný árið 2022 þegar e.t.v. hefði verið hægt að gera samninga beint við þá sem myndu raunverulega reka námuna og selja efnið af svæðinu og sleppa því að hafa millilið?
Er söluferlið í núverandi samningi (frá 2022) eins og það var í samningnum frá 2009? Þ.e.a.s. mun EM fá visst verð á rúmmetra frá fyrirtæki sem snýr sér síðan við og selur efnið fyrir mun hærra verð?
Hvernig á að ráðstafa fjármununum sem koma úr námunni?
18. grein laga kirkjunnar virðist hafa verið brotin við gerð samnings til 30 ára um malarnám. Þar sem samtakastjórn finnst 18 gr. ekki eiga við í þessu máli þá vinsamlegast gefið tvö dæmi þar sem 18 gr. á við.
Hvers vegna var ekki gert útboð á frjálsum markaði svo kirkja SDA gæti fengið mörg tilboð í námuleiguna /vinnsluna eins og gert er á almennum markaði og valið besta tilboðið?
Hvers vegna er samningurinn til svona langs tíma?
Hvers vegna ákvað samtakastjórn að leyfa utanaðkomandi aðilum að leggja línurnar fyrir kirkju SDA á Íslandi hvað varðar viðskiptahætti sína í stað þess að viðhalda þeirri viðskiptahefð sinni að tilkynna safnaðarmeðlimum samningaviðræður og kjör samningsins?
Hver óskaði eftir þessari miklu leynd yfir samningunum sem er svo mikil að safnaðarmeðlimir mega ekki einu sinni lesa samningin í heild sinni? Var það EM eða Heidelberg?
Hver eru kjör nýja samningsins miðað við þann gamla? Hvað fær kirkja SDA á Íslandi á rúmmetrann í nýja samningnum? Hvað borgar Heidelberg á rúmmetrann og þá hverjum? EM? Hvað borgar síðan EM Kirkjunni á rúmmetrann?
Hvernig skýrir samtakastjórn það, að þegar að heilt fjall hverfur, þá sé það ekki sala á eign? (1) Hvers vegna má samtakastjórn ekki selja eign en má leigja eitthvað sem hefur í för með sér sölu á efni sem er margfalt meira virði en þær eignir sem samtakastjórn má ekki selja upp á sitt eindæmi? Eru þetta skynsamleg lög eða lagatúlkun? (2) Hvernig tryggir slíkt ósamræmi hagsmuni Kirkjunnar, ef samtakastjórn má á aðra höndina taka gígantískar fjárhagslegar ákvarðanir sjálf, en er meinað að taka miklu minni fjárhagslegar ákvarðanir? (3) Er ekki andi laganna sá að gæta þess að smár hópur meðlima (samtakastjórn) ráðskist ekki með fjármuni Kirkjunnar án samráðs við safnaðarmeðlimi?
Af hverju fannst ykkur ekki skipta máli að hafa breiðan stuðning safnaðarmeðlima á bak við ykkur við undirritun nýs samnings um miðjan janúar? Samningurinn er undirritaður þegar vitað var að fjölmargir safnaðarmeðlimir voru ósáttir og með spurningar um malarnámuna.
Hvers vegna fór samtakastjórn út í samningaviðræður við EM á sama tíma og hún bað GCAS að rannsaka fyrirtækið? Og hvers vegna undirritaði samtakastjórn nýjan langtímasamning við EM áður en GCAS rannsókninni lauk?
Af hverju var það svona mikið mál fyrir samtakastjórn að komast hjá 18 gr. laga Kirkjunnar við undirritun nýs samnings? Væri ekki eðlilegra að fylgja anda laganna en að reyna að komast undan?
Hvaða hagsmunir eru það fyrir Kirkjuna að leyna nýja samningnum fyrir safnaðarmeðlimum?
Hvernig brugðust forsvarsmenn Eden Mining við þegar þið fóruð fram á að enda samninginn frá 2009 („sem hafði það markmið að gefa Kirkjunni stöðugar tekjur“) og hætta viðskiptum við þá varðandi Lambafell?
Hvers vegna tók samtakastjórn ákvörðun um að gera nýjan samning og hunsa þá gríðarlegu óánægju sem safnaðarmeðlimir hafa tjáð ?
Formaður samtakanna fullyrti á safnaðarstjórnarfundi í Hafnarfirði nokkrum dögum áður en nýr samningur var undirritaður að ekkert yrði aðhafst fyrr en niðurstaða GCAS lægi fyrir. (1) Hvers vegna var skrifað undir nýjan samning nokkrum dögum síðar? (2) Hvenær fá safnaðarmeðlimir að sjá nýja samninginn?
Af hverju var malarnám í Lambafelli ekki boðið út til að Kirkjan fengi sem hæst verð?
Hvernig er hægt að útskýra aðkomu GT verktaka og Lambafells ehf. að rekstri Lambafellsnámunnar sem verktöku en ekki framsal námuréttinda? Ef aðkoma þessara meintu verktaka var ekki framsal námuréttinda, í hverju felst þá framsal námuréttinda? Hvað var 8. grein samningsins að banna?
Ef það er hægt að sýna fram á það með gildum rökum að 18 grein laga Kirkjunnar hafi verið brotin, munuð þið viðurkenna mistökin?
Það hefur komið fram að yfir ein milljón rúmmetrar af efni hafi verið tekið úr Lambafelli árin 2017-2021. Samkvæmt samningi sem Björgun ehf, dótturfyrirtæki Hornsteins ehf hefur við landeiganda annars staðar í sama fjalli er hlutur landeiganda rúmlega 300 kr per rúmmetra. Það þýðir þrjú hundruð milljónir fyrir eina milljón rúmmetra. Af hverju eruð þið svona ánægð með 24.524.614 og skrifið að það sé blessun Guðs að fá brotabrot af upphæðinni sem þið ættuð að hafa fengið?
Hvað er Eden Mining búið að taka marga rúmmetra úr Lambafelli?
Finnst stjórnendum Kirkjunnar siðferðislega rétt að gera nýjan samning við Eden Mining ehf þrátt fyrir að hafa í höndunum skýr gögn um það að Eden Mining ehf hafi mögulega snuðað Kirkjuna um fjármuni? Eða a.m.k. komust ekki til botns í málinu áður en samið var á ný?
Af hverju var það svo mikilvægt fyrir stjórn Kirkjunnar að leita allra leiða til að þurfa ekki að segja upp samningnum frá 2009 og losna við að framfylgja 18 gr laga kirkjunnar sem kveður á um að það þurfi aðalfundar samþykkt fyrir þeim samningi sem þið undirrituð um miðjan janúar 2022?
Í dag (2022) átti ég leið um Þrengslin. Engin starfsemi var sýnileg í Lambafellsnámunni austantil. Í dag er reyndar sunnudagur, en það breytir því ekki að engin tæki eru þar til staðar. Hversu lengi hefur sú staða varað? Hvers vegna er þessu þannig varið? Hvert er tekjutap kirkjunnar á þeim tíma sem starfsemin hefur legið niðri?
Rannsókn samtakastjórnar (kjörtímabilið 2016–2019) stöðvuð
Harald Óskarsson vakti athygli á árið 2015 að ekki var allt með feldu varðandi Lambafells samning Kirkjunnar við Eden Mining. Stjórnin sem tók við 2016 setti málið í rannsókn sem gekk brösulega vegna áhugaleysis fjármálastjóra. Af hverju afþökkuðu þið að lokið yrði við rannsóknina?
Samtakastjórn
Nú er staðan sú að Sandra og Þóra eru í laganefnd en þær eru einnig í samtakastjórn. Er eðlilegt að þær taki þátt í því að leggja mat á réttmæti eigin gjörða? Einnig er Audrey Anderson í laganefnd en skv. tilkynningu frá samtakastjórn var Stór-Evrópudeildin með í ráðum við gerð nýs samnings.
Gera meðlimir samtakastjórnar sér grein fyrir því að þið eruð persónulega ábyrg ef það kemur í ljós að þið hafið ekki gætt hagsmuna Kirkjunnar og tekið ákvarðanir gegn hag Kirkjunnar þrátt fyrir að vita af misferli?
Ef stjórnendur Kirkjunnar þyrftu að velja á milli þess að vernda hag Kirkjunnar eða að styggja ekki Eden Mining ehf, hvort myndu stjórnendur Kirkjunnar velja?
Ég hef margoft árum saman nefnt í samræðum að Kirkjan getur haft nægar tekjur af námunni til að reka t.d skólastarfið okkar en verið gert lítið úr því „Jarðefnið eru bara smámunir“ Af hverju vildi Kirkjan ekki hafa meira út úr námunni undanfarin ár?
Ef það verður uppvíst að samtakastjórn vissi eða hefði getað vitað um þetta fjárhagslega tjón en viðhafðist lítið sem ekkert til að stöðva það og samdi á ný þrátt fyrir rauð flögg og aðvaranir, hvernig mun samtakastjórn axla ábyrgð á því?
Ef það verður uppvíst að EM hefur valdið Kirkjunni fjárhagslegu tjóni, hvað ætlar samtakastjórn að gera til að fá það bætt? (1) Er samtakastjórn búin að gera ráðstafanir eða setja varnagla um áframhaldandi samstarf við EM ef uppvíst verður um tjón?
Hvers vegna eru málin nú eins og þau eru? Hvers vegna brugðust þið ekki við þegar spurningar voru sendar á ykkur? Hvers vegna var ekki strax talað við þá sérstaklega sem sendu frá sér spurningar?
Eru undirliggjandi einkahagsmunir ríkjandi milli fjármálastjóra kirkjunnar vegna einkaframtaks hennar og hennar maka erlendis annars vegar og leigutakanna hins vegar?
Nú liggur fyrir, bæði í ótilgreindu bréfi til Jóns Hjörleifs Stefánssonar sem og í skriflegri yfirlýsingu leigutakanna nú í mars, að aðstandendur að opna bréfinu (dags. þann 5. des. 2021) teljist rógberar, lygarar og haldnir lítilli sem engri dómgreind, auk annars. Er ykkur kunnugt um þessi viðbrögð, og ef ekki, hvers vegna?
Ég hef heyrt það útundan mér að þið í yfirstjórninni hafið velt því fyrir ykkur hvort fyrir liggi forsendur þess að lögsækja vissa safnaðarmeðlimi vegna skrifa þeirra í ykkar garð. Er þetta rétt? Ég hef einnig heyrt að það sé ekki þess virði að reyna að eiga við safnaðarmeðlimi sem eru gagnrýnir í námumálinu, heldur sé tilvist og aðkoma Eiríks leigutaka öllu mikilvægari og því beri að halda honum með öllum ráðum innan kirkjunnar. Er þetta rétt?
Hvers vegna hafði yfirstjórn kirkjunnar aldrei samband við þá sem undirrituðu opna bréfið (dags. þann 5. des. 2021) til að ræða málin?
Eins og sjá má eru spurningarnar ítarlegar og ná yfir námumálið allt.
Beiðni um opinn upplýsingafund – og svo um rannsóknarnefnd þegar samtakastjórn neitar að halda upplýsingafund
Eftir að GCAS-skýrslan hafði verið kynnt fyrir safnaðarstjórnum á fundi í maí 2022 og í ljós kom að samtakastjórn ætlaði sér ekki að svara spurningum safnaðarstjórna á þeim fundi, þá greiddi meirihluti safnaðarstjórna atkvæði með því að samtakastjórn héldi annan opinn upplýsingafund um námumálið.
Samtakastjórn grundaði málið yfir sumarið 2022. Hún var búin að skipuleggja dagskrá slíks fundar þegar hún ákvað, einhverra hluta vegna, að hætta við það. Hún kynnti þessa afstöðu sína fyrir fulltrúum 41. aðalfundar (sem haldinn var 22.–25. september 2022) í Skýrslu um námuna sem var í fundargögnum. Þar komst samtakastjórn að þeirri niðurstöðu að best væri að svara engum spurningum og láta málið niður falla.
Þetta líkaði aðalfundarfulltrúum ekki og þeir kusu að Stór-Evrópudeildin myndi skipa nefnd sem myndi fara yfir námumálið.
Rannsóknarefni námunefndarinnar
Í ljósi þess sem á undan var gengið hlýtur að vera ljóst að meðlimir óskuðu þess að nefndin myndi svara spurningum safnaðarmeðlima sem höfðu verið settar fram, t.d. af safnaðarstjórnum. Þetta má einnig sjá í orðun samþykktarinnar sem er væntanlega viljandi orðuð frekar almennt (til að spanna stórt svið):
Deildin sem næsta stjórnvald Kirkju Sjöunda-dags aðventista á Íslandi skipi einn eða fleiri óháðan aðila til þess að fara yfir málsatvik og staðreyndir varðandi námuvinnslu í landi Breiðabólsstaðar.
Stuttu eftir aðalfundinn sagði samtakastjórn að rannsóknarsvið námunefndarinnar væri „málið allt“:
Tillaga var lögð fram um að Evrópudeildin hlutast til um málefni um rekstur námunnar á þann hátt að kalla til óháða nefnd sem myndi fara yfir málið allt. Sú nefnd myndi svo skila af sér niðurstöðu á framhalds- aðalfundi þann 11. desember. Tillagan var samþykkt svo aðalfundi er því frestað fram að þeim tíma.[3]
Formaður setti fram sömu skoðun í pistli sínum í Kirkjufréttum í mars sl.:
Aðrir telja að námunefndina verði að skila niðurstöðu sem fyrst eins og kosið var um í september 2022. Sífellt aukinn fjöldi alvarlegra og stundum mjög ósannar ásakana – í gegnum samfélagsmiðla, tölvupósta og lögfræðinga – gerir það ómögulegt að halda aðalfund ef sannleiksgildi þessar[a] ásakan[a] hefur ekki verið ákvarðað af hlutlausum aðila, annað hvort af/eða bæði af dómstólum og námunefnd. Hvernig getum við hist og tekið skynsamlegar ákvarðanir þegar svo mikið af röngum upplýsingum er enn í umferð sem sannleikur?
Aðrir telja að við þurfum að byrja á sátt. En sátt þarf að byggja á sannleika og réttlæti. Aftur, hvernig getum við náð sáttum þegar sannleikurinn hefur ekki verið staðfestur, af námunefndinni og dómstólum?[4]
Mögulega gæti rannsóknarsvið námunefndarinnar, af einhverjum orsökum, hafa þrengst. Í tilkynningu námunefndar sem birtist fyrst í Kirkjufréttum þann 31. maí sl. stendur:
SKILGREININGAR FYRIR STÖRF NEFNDARINNAR
1. Að fara yfir niðurstöður GCAS skýrslunnar varðandi 2009 samninginn.
2. Greina annmarka á samningi 2009.
3. Að fara yfir ferlið fram að undirritun nýja samningsins og gera tillögur ef ef er viðeigandi.
4. Að meta hvort nýi samningurinn taki á einhverjum annmörkum sem tilgreindir eru í lið 2 hér að ofan.
5. Að gera tillögur, eftir því sem við á, um sátt og leiðir um framhaldið.[5]
Hvernig ber að túlka þessa fimm liði er enn óvíst en mun koma í ljós þegar nefndin skilar af sér. En ef rannsóknarsvið hennar hefur þrengst þannig að hún fer ekki yfir „málið allt“ – en það virðist vera skýrt að það er vilji bæði safnaðarstjórna og aðalfundarfulltrúa að málið allt sé skoðað – þá munu safnaðarmeðlimir sitja uppi með tvær ónægar skýrslur og spurningar sem enn hefur ekki verið svarað.
[1] Fyrri samþykktin um GCAS-rannsóknina er ekki hægt að finna í birtum fundargerðum; hún er sennilega ein af „trúnaðarmálunum“ sem eru merkt sem slík í fundargerðunum. Það er líklegt að samþykktin sé 2021/47, samþykktin áður en rannsókn Kristjáns Ara var hafnað (samþykkt 2021/48) þar sem rannsókn hans var hafnað á þeim forsendum að GCAS-rannsóknin kæmi í staðinn. Samtöl höfundar við Kristján Ara Sigurðsson.
Samtakastjórn ákvað svo að hætta við rannsóknina. Þessi ákvörðun kemur ekki fram í birtum fundargerðum samtakastjórnar 2021. En þessu til staðfestingar eru orð formanns: „The Executive committee has requested the TED to facilitate an external audit of Eden mining. This was originally to be performed by GCAS but the cost was deemed too high and alternative arrangements are being sought with another GC body. We had hoped this audit would have been finished early Summer, but due to the need for alternative arrangements, we are unsure when this will take place, although we have requested this to be completed as quickly as possible. Until this audit is completed, the Conference will not be commenting further on matters relating to Eden Mining.“ Gavin Anthony formaður, tölvupóstur til Jóns Hjörleifs Stefánssonar, 20. ágúst 2021.
Í október 2021 ákvað samtakastjórn að nýju að biðja GCAS um rannsókn: „ÞAR SEM Kirkjan hefur undanfarið unnið að því að gera nýjan samning við Eden Mining sem kallar á aðkomu lögfræðideildar Aðalsamtakanna sem og Evrópudeildarinnar og lögfræðings á Íslandi,
SAMÞYKKT
Að fjarlægja atriði 1,4 og 5 úr tillögubréfi frá GCAS og fara fram á lækkun kostnaðar í samræmi. Eftirfarandi tvö atriði verði lögð fram til rannsóknar GCAS
1. Að ákvarða hvort tekjur frá Eden mining hafa verið í samræmi við samninginn.
2. Greina þá þætti sem þarf að hafa í huga varðandi tekjur sem hefðu ekki borist samkvæmt skilmálum samningsins.“ Samtakastjórn, samþykkt 2021/92, 5. október 2021.
[2] Upprunalegu spurningunum fimm var lekið til skýrsluhöfundar.
[3] „Fréttir frá aðalfundi“ (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 30. september 2022, áhersla mín.
[4] Gavin Anthony, „Nokkur orð frá Gavin“ (frétt nr. 1), Kirkjufréttir, 14. mars 2024.
[5] Námunefndin, „Tilkynning til meðlima – frá Námunefndinni“ (frétt nr. 1). Kirkjufréttir, 31. maí 2024.