Rangfærslur í nýjasta fréttapistli samtakastjórnar

Í nýjasta pistli samtakastjórnar um námumálið sem birtist í Kirkjufréttum þann 2. febrúar 2024 er mikið um rangfærslur. Hér verður litið á þær helstu en það er nauðsynlegt að safnaðarmeðlimir taki upplýsta afstöðu í námumálinu.

 

Fjöldi safnaðarmeðlima sem eru ósáttir með stöðu námumála og vilja frekari upplýsingar

Enn og aftur dregur samtakastjórn úr fjölda þeirra sem eru á móti henni eða vilja einfaldlega meiri upplýsingar eða umræðu:

„Samningur sem stjórn Kirkjunnar gerði um framhald á nýtingu á námu í eigu Kirkjunnar [hefur] orðið að umræðu- og deiluefni hjá nokkrum safnað[a]rmeðlimum.“

Meirihluti safnaðarstjórna hefur í langan tíma viljað fá svör við fjölda spurninga um námumálið og bað um upplýsingafund um námumálið – en samtakastjórn neitaði að halda hann. Meirihluti aðalfundarfulltrúa hafnaði skýrslu samtakastjórnar um námumálið og kaus að biðja Deildina um að láta nefnd rannsaka námumálið. Slíkt hefði verið algjör óþarfi ef það hefðu aðeins verið „nokkrir“ safnaðarmeðlimir sem voru með spurningar varðandi nýja samninginn.

 

Dómsmálið

Námumálið „hefur ekki náðst að leiða til lykta innan okkar hóps og er málið til meðferðar hjá dómstólum“.

Af þessari setningu mætti álykta að þar sem ekki hafi verið hægt að leysa námumálið innan trúfélagsins verði það leyst frammi fyrir dómstólum. En þetta er auðvitað ekki rétt. Málið er enn til meðferðar innan trúfélagsins – aðalfundur bíður eftir rannsóknarskýrslu um námumálið frá nefnd á vegum Stór-Evrópudeildarinnar og munu fulltrúar koma saman aftur þegar skýrslan er tilbúin. Á seinnihluta yfirstandandi aðalfundar mun því námumálið halda áfram innan trúfélagsins, burtséð frá því hver úrskurður í dómsmálinu er.

Ef dómari vísar málinu frá merkir það einungis að Héraðsdómur telur málið ekki eiga heima hjá sér. M.ö.o. með frávísun fæst aðeins úrskurður um formsatriði stefnunnar en ekki efnislegt innihald hennar. Frávísun myndi því ekki leysa námumálið.

Ef dómari tekur málið fyrir mun úrskurður hans ekki leysa námumálið því stefnan snýst aðeins um brotabrot af því: um undirritun samtakastjórnar á nýja samningnum. Hvort sem dómari myndi dæma þá undirritun löglega eða ólöglega væri námumálinu ekki lokið: ef undirritunin er dæmd ólögleg hefur það afleiðingar í för með sér. Ef undirritunin er dæmd lögleg þá er enn fjöldi spurninga um bæði gömlu samningana og nýja samninginn sem ekki hefur verið svarað og óvíst hvort væntanleg skýrsla nefndarinnar muni gera þeim góð skil eður ei.

Ef samtakastjórn vill leysa málið, hví fór hún fram á frávísun málsins? Vill hún ekki að dómstólar komi með úrskurð í a.m.k. þessu eina atriði um undirritun samningsins?

 

Álit fagaðila og efri stjórnsviða Aðventkirkjunnar

„Ekkert í yfirferðum fagaðila eða hjá æðri stigum Kirkjunnar okkar svo sem endurskoðun Aðalsamtakana (GCAS) hefur leitt nokkuð misjafnt í ljós enda hefur stjórnin alla tíð unnið í góðri trú“.

Það er ekki skýrt hvað átt er við með „misjafnt“ í þessari setningu enda er orðið frekar almennrar merkingar. En það virðist vera skýrt að hér sé átt við að ekkert misjafnt hafi komið í ljós hjá samtakastjórn (miðað við framhald setningarinnar).

Þessu til stuðnings vísar samtakastjórn til „yfirferða fagaðila“ en minnist ekki á hverjir þeir eru svo það er ekkert hægt að segja um þær yfirferðir. Næst vísar samtakastjórn á yfirferðir „æðri stiga Kirkjunnar okkar svo sem endurskoðun Aðalsamtakanna (GCAS)“. Hér er því átt við yfirferð bæði hjá GCAS sem og æðri stigum (þar sem „svo sem“ gefur til kynna að um fleiri en eina yfirferð sé að ræða).

GCAS-skýrslan rannsakaði aðeins hvort Eden Mining hefði borgað samkvæmt skilmálum eldri samninganna en tók ekki að sér rannsókn á framferði samtakastjórnar í tengslum við námusamningana.[1] Að vitna í GCAS því til stuðnings að samtakastjórn hafi ekki gert neitt rangt er því órökrétt. Fyrir utan það að GCAS viðurkenndi að Eden Mining hefði í mörgum atriðum ekki farið eftir samningsskilmálum en þar sem samtakastjórn hefði ekkert sagt um það hefðu samningarnir haldið áfram að vera í gildi. Slíkt framferði vekur auðvitað spurningar um hvers vegna samtakastjórn aðhafðist ekkert þrátt fyrir samningabrot. Það væri jafnvel hægt að segja um slíkt viðhorf að eitthvað „misjafnt“ hafi verið í gangi.

Samtakastjórn tiltekur ekki hvaða aðrar yfirferðir á framferði samtakastjórnar í námumálinu hafa farið fram á efri stjórnsviðum Aðventkirkjunnar. En í ljósi þess að samtakastjórn lýsir því yfir að hún sé öll af vilja gerð til að svara spurningum í námumálinu og veita upplýsingar langar mig því hér, formlega og opinberlega, að biðja samtakastjórn um að veita safnaðarmeðlimum gögn þessum yfirferðum til staðfestingar. Ennfremur hvet ég aðra safnaðarmeðlimi – sem og safnaðarstjórnir – til að fara fram á birtingu þessara gagna. Þar til samtakastjórn gerir það er tilvísun hennar í slíkar yfirferðir óstaðfest og þar með í raun merkingarlaus.

 

Álit samtakastjórnar á gagnrýni

Samtakastjórn lýsir því yfir að hún sé ekki hafin yfir gagnrýni svo fremi sem gagnrýnin sé sett málefnalega fram. Þetta kemur mér persónulega á óvart því í opinberum skrifum mínum um námumálið hef ég reynt að skrifa faglega og málefnalega um námumálið. Engu að síður hefur samtakastjórn hvorki svarað gagnrýni minni né sýnt það að hún telji að gagnrýni mín sé málefnaleg.

Sem dæmi um þetta get ég nefnt viðbrögð samtakastjórnar við skrifum mínum um námumálið snemma árs 2023. Þann 3. janúar 2023 sendi ég safnaðarmeðlimum opið bréf sem var samantekt á námumálinu. Þrem dögum síðar í Kirkjufréttum þann 6. janúar 2023, fjölluðu stjórnendur um óvini Gyðinga á dögum Nehemía og sögðu að opin bréf Sanballats hefðu verið „stefna Satans“ og ósvaraverður rógburður. Það þarf ekki mikla ályktunarhæfni til að átta sig á því að samtakastjórn hafði hér í huga gagnrýna safnaðarmeðlimi sem hafa skrifað opin bréf – ég birti t.d. opið bréf þrem dögum áður en samtakastjórn skrifaði þetta.[2] Í það minnsta var þessi biblíusaga ekki ákjósanlegust til að útskýra fyrir safnaðarmeðlimum að samtakastjórn væri opin fyrir gagnrýni og teldi hana geta átt rétt á sér.

Annað dæmi: þann 3. febrúar 2023 birti samtakastjórn opið bréf í Kirkjufréttum þar sem hún tilkynnti safnaðarmeðlimum að ónafngreindir meðlimir hefðu dreift „lygum og villandi upplýsingum“ í fjölmiðla innan lands og utan.[3] Á þessum tímapunkti held ég að ég hafi verið eini nafngreindi meðlimurinn sem hafði tjáð mig í fjölmiðlum varðandi námumálið og því hlýt ég að álykta að samtakastjórn hafi því verið að kalla skrif mín lygar og villandi upplýsingar. Hún áréttaði hinsvegar ekki í hverju þessar lygar og villandi upplýsingar fælust. Er slíkt rétt framkoma af aðila sem telur sig ekki vera yfir gagnrýni hafinn?

Ennfremur, hvers vegna sýnir samtakastjórn ekki að orð sín séu ekki orðin tóm með því að svara opinberlega spurningum safnaðarstjórnanna?

 

Umboð samtakastjórnar eftir 11. desember 2022

„Eðli máls samkvæmt starfar stjórn og fer með málefni Kirkjunnar þar til næsta stjórn tekur við. Það er því alrangt að stjórnin sé umboðslaus þegar hlé er gert á aðalfundi.“

Hverjum er verið að svara með þessari efnisgrein? Hefur einhver í alvöru haldið því fram að þegar hlé er gert á aðalfundi starfi engin stjórn? Hér svarar samtakastjórn enn og aftur einhverju sem enginn heldur fram og svarar um leið ekki spurningu sem margir hafa varpað fram. Í þessu tilviki er hún þessi: á hvaða lagagrundvelli starfar samtakastjórn eftir að umboð hennar til 11. desember 2022 rann út? Hefði hún ekki átt að kalla til aðalfundar 11. desember 2022 í ljósi breyttra aðstæðna þar sem fulltrúar hefðu getað ákveðið að framlengja umboð hennar eða að hætta að bíða eftir námuskýrslunni frá Deildinni? Ian Sweeney kom m.a.s. til landsins einmitt þá helgi og prédikaði í Hafnarfirði svo ekki er hægt að skýla sér bakvið það að ekki hefði verið hægt að halda aðalfund vegna skorts á fulltrúa frá Deildinni.

Kristilegt samfélag og eining

„Það er okkur afar þungbært að málið hafi farið svona langt enda viljum við fyrst og síðast að sátt og friður ríki innan okkar raða. … Það er einlæg von okkar að við náum  öll í sameiningu að skapa frið og sátt í Kirkjunni og að kraftar okkar og fjármunir framvegis nýtist til að sinna okkar rétta hlutverki.“

Af ávexti verka er best að vega trúverðugleika orðanna. Vill samtakastjórn í einlægni koma á friði í söfnuðinum? Lítum á nokkur atriði sem virðast benda til þess að hún vilji það en aðeins á sínum forsendum sem hún metur meir en alvarlegt ástand safnaðarins.

Undanfarið hefur Gavin Anthony formaður haldið prédikun um hvernig beri að fyrirgefa og ná sáttum á biblíulegum grundvelli. En það vekur athygli að þessi prédikun verður ekki flutt á Akureyri og Selfossi. Af hverju verður hún ekki flutt þar?

Í prédikun sinni segir Gavin að sá sem brotið hefur verið á beri að hafa samband við brotaðila og bjóða honum á sinn fund til að bjóða honum fyrirgefningu. En þó að Gavin hafi prédikað þessa ræðu tvívegis veit ég ekki til þess að hann hafi hringt í þá í söfnuðinum sem hann hefur opinberlega sagt hafa brotið gegn sér (og öðrum í samtakastjórn), þ.e. þá sem eru framarlega í námumálinu. Hvers hringir hann ekki í þá og fer þannig eftir sínum eigin orðum?

Þvert á það að vilja einingu hafa sumir samtakastjórnarmeðlimir hætt að mæta í skráða söfnuði KSDA og halda sína eigin sérsamkomu í Suðurhlíðarskóla. Eiginkona eins stjórnarmeðlims hefur lýst því yfir oftar en einu sinni að hópurinn í Suðurhlíð hafi þurft að flýja Hafnarfjarðarsöfnuð út af illri meðferð. Sumir þessara meðlima hafa flutt safnaðarbréfin sín í leyfisleysi frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (sem telst því ekki löglegur flutningur á safnaðarbréfi). Þessi hópur er ekki skráður söfnuður en hagar sér eins og söfnuður, þó allt opinberlegt sé loðið hvað varðar hann. Hvað hefur þessi hópur gert til þess að reyna að koma á einingu og friði í söfnuðinum? Hefur hann ekki þvert á móti skapað sundrungu í trúfélaginu og það með suma samtakastjórnarmeðlimi í fararbroddi?

 

Boðun og fjármál

Að sama skapi leggur samtakastjórn enn og aftur áherslu á boðun fagnaðarerindisins og starfsemi KSDA í skrifum sínum:

„Fjárhagsleg afkoma Kirkjunnar hefur aldrei verið betri, sem veitir okkur ný tækifæri til að breiða út boðskapinn og vera einstaklingum sem og samfélaginu til góðs. … Það er einlæg von okkar að við náum öll í sameiningu að skapa frið og sátt í Kirkjunni og að kraftar okkar og fjármunir framvegis nýtist til að sinna okkar rétta hlutverki.“

En sýnir samtakastjórn þetta í verki? Tvö aðalboðunarverkefni samtakastjórnar hafa verið Suðurhlíðarskóli og Hope Channel Ísland. Nýr skólastjóri, Lilja Ármannsdóttir, hefur unnið mætagott starf og það er gott að sjá að skólastarf aðventista haldi áfram. Hope Channel Ísland er góð hugmynd en eftir mörg ár og margar milljónir sést ekki mikill árangur. Ef litið er á vefsíðu og YouTube-síðu sjónvarpsrásarinnar sést næstum ekkert efni. Svona lítil framleiðsla eftir svona mikinn tíma og peninga er bágur afrakstur hjá verkefni sem hefur verið sett í öndvegi. Ein ástæðan er sennilega sú – að því er ég best veit – að stjórnendur Hope Channel Ísland eiga erfitt með að úthluta verkefnum og fá aðra um borð með sér. Ég veit t.d. ekki til þess að íslenskir aðventguðfræðingar og prestar hafi almennt verið beðnir um að búa til efni; a.m.k. hefur ekki birst efni eftir neinn þeirra. Og það sama má segja um fólk framarlega í heilsuboðskapnum.

Og hvað með boðunarverkefni Hafnarfjarðarsafnaðar sem hefur skilað tugum skírna á undanförnum árum? Það hefur gerst ekki vegna hjálpar samtakastjórnar, heldur þrátt fyrir seinagang hennar til að styðja átakið. Sem dæmi má nefna að þó að núverandi samtakastjórn hafi fleiri á launaskrá en undanfarnar samtakastjórnir í sennilega áratugi, þá hafa þau ekki svarað beiðni Hafnarfjarðarsafnaðar um að borga Vigdísi Jack fyrir starf hennar en hún er í raun biblíustarfsmaður í hlutastarfi og hefur verið stólpi í vinnunni með spænskumælandi gestum og nýjum meðlimum í söfnuðinum. Og sem annað dæmi má nefna það að samtakastjórn vildi hreinlega leggja niður Hafnarfjarðarsöfnuð og sameina hann Reykjavíkursöfnuði. Hvernig hefði slíkur samruni styrkt boðunarstarf trúfélagsins á höfuðborgarsvæðinu?

Og hvað með starfsemina í Reykjavíkursöfnuði? Nú þegar Reykjavíkursöfnuður er með bæði búð og súpueldhús sýna meðlimir samtakastjórnar því áhuga að selja Reykjavíkurkirkju – rétt áður en hún verður friðuð sem bygging sökum aldurs – og vilja þar með missa einu bygginguna okkar í miðbæ höfuðborgarinnar og leggja niður starfsemina þar. Og til hvers? Nú til þess að eignast meiri peninga til boðunar – með því að leggja niður boðun.

Og hvað með Hlíðardalsskóla? Í stað þess að nýta sér betri fjárhagsstöðu trúfélagsins (sem samtakastjórn vill vera láta) til þess að nýta svæðið til boðunarstarfs hefur samtakastjórn sagt samningnum við Hlíðardalssetrið upp – til þess að nýta svæðið til að búa til meiri peninga. Meiri peninga til hvers? Til boðunar – með því að leggja niður eitt ákjósanlegasta tækifærið til boðunar og starfsemi, en fyrir þá sem þekkja sögu aðventista er það vani þeirra að kaupa landeignir til að geta sinnt starfsemi sinni.

Sú ályktun virðist óumflýjanleg að það sé ekki hægt að taka yfirlýsingar samtakastjórnar um boðunaráhuga mjög alvarlega. Hún styður ekki boðunarstarf safnaðanna, sér ekki til þess að hennar eigið áhersluverkefni Hope Channel skili árangri og vill selja eignir til þess að eignast peninga í stað þess að nota þær í starfsemi trúfélagsins. Kristján Ari Sigurðsson er formaður Hafnarfjarðarsafnaðar og löggiltur endurskoðandi – hann hefur því bæði umsjón með virku boðunarstarfi og er menntaður í því að greina fjármál. Hann lagði eftirfarandi mat á samtakastjórn í bréfi sínu sem birt var í Samantektinni þann 22. september 2022:

„Virðist sem að veraldlegur auður hafi spillt hugum leiðtoga okkar, sem reyndust tilbúnir til þess að fórna mikilvægum kristnum meginreglum fyrir tímabundinn veraldlegan ávinning.“

Sem guðfræðingur get ég bætt því við að Jesús sagði: „Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá“. Orðin ein merkja ekki neitt, hversu fögur sem þau eru, sé ekki farið eftir þeim í verki. Að segja eitt og gera annað í trúmálum kallast á íslensku skinhelgi eða helgislepja. Þetta kann fólki að þykja ókurteisi – en því lengur sem samtakastjórn viðurkennir ekki eða sér ekki ósamræmi orða sinna og athafna er okkur meðlimum ómögulegt annað en að benda á þetta ósamræmi svo fólk falli ekki fyrir innantómum orðum.


[1] Fyrsta atriðið var að afla sér skilnings á samningunum. Annað atriðið var: „Greining fjárhagsupplýsinga til að ákvarða hvort tekjur sem mótteknar eru frá Eden Consulting PLC uppfylltu skilmála samningsins.“ Þriðja atriðið var að athuga hvað gera ætti hefðu tekjur ekki verið réttar. GCAS-samningurinn, bls. 2.

[2]      „Þegar við byrjum þetta nýja ár saman er hér spurning til að spyrja okkur: hver er fyrsta skylda okkar sem Guð hefur lagt fyrir okkur á Íslandi árið 2023? …

              Þegar Sanballat og bandamenn hans komust að því að Nehemía hafði lokið við að endurreisa múra Jerúsalem, beindu þeir athygli sinni að því að eyðileggja verk þeirra [gyðinga] sem eftir voru. Fyrst reyndu þeir að lokka Nehemía burt frá starfi sínu til að hitta þá á Ono-sléttunni þar sem þeir ætluðu að meiða hann (Nehemía 6.1-2). Þegar það virkaði ekki skrifuðu þeir opið bréf sem innihélt alvarlegar rangar ásakanir á hendur Nehemía persónulega sem ætlaðar voru til að leka til allra gyðinga og letja þá (Nehemía 6.5-9). …

              Óvinur fólks Guðs reyndi að nota ótta og kjarkleysi til að spilla verki Guðs. …

              Svo þegar við göngum inn í 2023, þá er ábyrgð okkar að halda þessum fókus og láta ekki trufla okkur af stefnu Satans. Ellen White tjáir sig um árásirnar á Nehemía: ,Ítrekaðar beiðnir [beiðnir] munu koma inn til að kalla okkur frá skyldu; en eins og Nehemía ættum við að svara staðfastlega: „Ég er að vinna mikið verk, svo að ég kemst ekki niður. Við höfum engan tíma til að leita á náðir heimsins, eða jafnvel til að verjast rangfærslum þeirra og rógburði. Við höfum engan tíma að missa í sjálfsuppgjöri. Við ættum að halda stöðugt áfram í starfi okkar og láta það hrekja lygarnar sem illgirni kann að valda okkur til skaða. Rógorð mun[u] margfaldast ef við stoppum til að svara þeim.‘“ Gavin Anthony formaður, Þóra Sigríður Jónsdóttir aðalritari og Judel Ditta fjármálastjóri, Kirkjufréttir, 6. janúar 2023. Vanalega er aðeins nafn formanns undir hugvekjupistli fréttabréfsins en óvant þeirri venju skrifuðu allir þrír stjórnendur undir í þetta skiptið.

[3]      Samtakastjórn, opið bréf til safnaðarleiðtoga og safnaðarmeðlima, Kirkjufréttir, 3. febrúar 2023.

Previous
Previous

Beiðni um gögn varðandi ástæður skýrslutafar og lögmæti frestunar á aðalfundi

Next
Next

Samtakastjórn, gagnsæi og spurningar