Beiðni um gögn varðandi ástæður skýrslutafar og lögmæti frestunar á aðalfundi

Eins og alkunna er meðal aðventista ákváðu fulltrúar 41. aðalfundar að fresta fundarlokum frá 25. september 2022 til 11. desember 2022 og veittu samtakastjórn umboð til að starfa fram að því. Í millitíðinni átti nefnd (sem Stór-Evrópudeildin skipaði) að rannsaka námumálið og skrifa skýrslu um málið. Þann 11. desember 2022 átti seinnihluti aðalfundar að fara fram og helstu dagskrárliðir hefðu verið námuskýrsla nefndarinnar og kjör nýrrar samtakastjórnar. Tvennt hefur síðan gerst, eða réttar sagt, ekki gerst: engin skýrsla hefur borist og seinnihluti aðalfundar hefur ekki verið haldinn. Núna í febrúar 2024 hefur 41. aðalfundur staðið yfir í rúma 16 mánuði.

Engar útskýringar á aðgerðarleysi nefndarinnar

Aðalfundarfulltrúar hafa engar skýringar fengið á því hvers vegna skýrsla, sem Daniel Duda formaður Deildarinnar, fullvissaði þá um að yrði tilbúin eftir rétt tvo mánuði, hefur ekki borist. Í tilkynningu sinni um frestun aðalfundar (Kirkjufréttum, 24. nóvember 2022) sagði Daniel Duda einungis:

„Vegna óviðráðanlegra aðstæðna verður skýrslan ekki tilbúin 11. desember eins og vonast var til.“

Samtakastjórn virðist ekki vita hverjar þessar óviðráðanlegu aðstæður eru – eða vill a.m.k. ekki deila þeim með safnaðarmeðlimum á Íslandi. Í áfangaskýrslu sinni sem birt var síðastliðið haust segir samtakastjórn einvörðungu: 

„Það er ofar okkar skilningi hvers vegna slík töf hefur orðið.“

Það þarf sennilega að skilyrða þessa fullyrðingu. Samtakastjórn er væntanlega ekki að segja að töfin sé yfirskilvitleg, óskiljanleg mannlegri hugsun. Hún á sennilega við að ástæðurnar fyrir töfinni séu þekktar en það sé óskiljanlegt eða óþolandi hví þær taki svona langan tíma. Eins og ef maður segir: „Það er ofar mínum skilningi af hverju strætó er orðinn hálftíma of seinn þegar veðrið er svona gott.“

Það eru einhverjar áþreifanlegar ástæður fyrir því af hverju nefndin hefur ekki byrjað störf sín eða hvers vegna hún hóf þau svona seint (ef hún byrjaði í desember 2023). Þær gætu t.d. verið að þeir sem áttu að skipa nefndina séu uppteknir við annað og hafi ekki tíma fyrir þessi nefndarstörf. Þeir gætu hafa hafnað beiðni um að sitja í nefndinni. Þeir gætu átt í erfiðleikum með rannsóknina. O.s.frv.

Samtakastjórn lýkur efnisgreininni í áfangaskýrslunni með því að segja óupplýstum safnaðarmeðlimum að þau þurfi einfaldlega „að vera þolinmóð og treysta því að verkið verði unnið á Guðs hátt og samkvæmt tímasetningu Guðs“. Samkvæmt hefðbundnum skilningi margra aðventista leiðir forsjón Guðs aðalfundi og skipanir í nefndir og störf. Var þá tímasetning ákvörðunar aðalfundarfulltrúa ekki „samkvæmt tímasetningu Guðs“ og hann þurfti að leiðrétta hana með 16 mánaða frestun á seinnihluta aðalfundar? Enn og aftur setur samtakastjórn fram trúarlegt tal sem þæfir aðeins málin. Hún ætti heldur að sýna safnaðarmeðlimum þá virðingu að upplýsa þá um ástæður þess að töf hefur orðið á skýrslunni.

Engar útskýringar á lögmæti frestunar seinnihluta aðalfundar – aðeins fullyrðingar um óbirt gögn

Í uppfærðri áfangaskýrslu sinni (Kirkjufréttum, 20. október 2023) staðhæfir samtakastjórn að það hafi verið staðfest af þremur aðilum að frestun hennar á seinnihluta aðalfundar og áframhaldandi seta hennar og umboð eftir 11. desember 2022 sé lögum samkvæmt:

„Þetta verkferli [frestun seinnihluta aðalfundar eftir 11. desember 2022 þar til skýrsla liggur fyrir] hefur verið staðfest sem löglegt og rétt af Stór-Evrópudeildinni, íslenskum lögfræðingi Kirkjunnar ásamt lögfræðingum Aðalsamtakanna. …

Nokkrir meðlimir hafa yfir áhyggjum af valdsviði stjórnar Kirkjunnar. Stjórnin fer með fullt vald eins og stjórnir hafa á hverjum öðrum tíma. Þegar fulltrúar aðalfundar samþykktu að stjórnin sæti áfram þar til aðalfundur kæmi saman aftur þá voru stjórninni ekki settar neinar takmarkanir á hlutverki sínu.

Vald stjórnar Kirkjunnar hefur verið staðfest af Stór-Evrópudeildinni, íslenskum lögfræðingi Kirkjunnar ásamt lögfræðingum Aðalsamtakanna.“

Í fyrstu efnisgreininni fullyrðir samtakastjórn að hún hafi fengið staðfestingu frá þremur aðilum þess efnis að frestun hennar á seinnihluta aðalfundar sé réttmæt og lögleg. Ég skora hér formlega á samtakastjórn um að birta þessi gögn – er það ekki réttur aðalfundarfulltrúa að fá að sjá þau?

Í annarri efnisgrein rangtúlkar samtakastjórn ákvörðun aðalfundarfulltrúa. Þeir samþykktu ekki að samtakastjórn sæti áfram án nokkurra skilyrða. Þvert á móti tóku þeir sérstaklega fram að seinnihluti aðalfundar skyldi haldinn þann 11. desember 2022. Samtakastjórn getur á engan réttan hátt skilið þá ákvörðun að aðalfundur hafi þar með verið að gefa henni starfsleysi eins lengi og henni sýndist að bíða eftir námuskýrslu nefndarinnar.

Í þriðju efnisgrein fullyrðir samtakastjórn að hún hafi fengið staðfestingu frá sömu þremur aðilum á því að hún sitji löglega. (Þetta er í raun hin hliðin á því að frestun seinnihluta aðalfundar hafi verið lögleg og því er hér sennilega um sömu gögn að ræða og samtakastjórn vísar til í fyrstu efnisgrein.) Ég skora enn og aftur á samtakastjórn að birta þessi gögn. Hún hefur sjálf haft orð á því að hún skilji erfiða ástandið í söfnuðinum og að hún hafi stundum verið of sein til að upplýsa meðlimi um gang og eðli þeirra. Ef það ber að taka mark á slíkum orðum hefur samtakastjórn hér kjörið tækifæri til þess að sýna þau í verki með því að upplýsa safnaðarmeðlimi - og þá sérstaklega aðalfundarfulltrúa - um gang mála.

Ennfremur skora ég á aðalfundarfulltrúa um að hafa samband við samtakastjórn og biðja um þessi gögn. Að sitja og bíða þögul(l) er auðvelt að túlka sem þegjandi samþykki við framferði samtakastjórnar. Ég bið ykkur að sinna fulltrúaskyldu og hagsmunum trúfélagsins með því að láta ekki ykkar eftir liggja og að þið biðjið um þau gögn sem þið hafið fullan rétt á að sjá.

Previous
Previous

Heidelberg ætlar sér að hefja framkvæmdir í sumar

Next
Next

Rangfærslur í nýjasta fréttapistli samtakastjórnar