Samtakastjórn, gagnsæi og spurningar

Í síðustu Kirkjufréttum (2. febrúar 2024) birtist pistill frá samtakastjórn varðandi námumálið. Málfarið er svo ólíkt vanalegum pistlum frá stjórninni að það er óumflýjanlegt að velta því fyrir sér hvort annar penni sé þarna á ferð, í það minnsta prófarkarlesari með nokkuð frjálsar hendur.

Það sem helsta athygli vekur í pistli samtakastjórnar er það að hún segist vera öll af vilja gerð til að svara spurningum um námumálið.[1] Þetta skýtur skökku við starfshætti samtakastjórnar undanfarin ár. Hér verða aðeins tekin tvö dæmi.

Dæmi eitt

Þegar safnaðarstjórnir sendu samtakastjórn fjölda spurninga um námumálið svaraði samtakastjórn í skýrslu sem lögð var fyrir 41. aðalfund með þeim orðum að það „að hafa fund einungis til að svara spurningum myndi líklegast leiða til meiri frekar en minni sársauka“. Skýrslunni lauk svo með tillögu samtakastjórnar – sem er nýmæli í skýrslum fyrir aðalfund – sem var þess efnis að best væri að safnaðarmeðlimir hættu að ræða námumálið yfirhöfuð.[2]

Dæmi tvö

Eftir fyrrihluta 41. aðalfundar – þ.e. frá september 2022 – hætti samtakastjórn að birta fundargerðir sínar, en hún hafði áður undirstrikað mikilvægi slíkra birtinga fyrir gagnsæi og upplýsingastreymi innan safnaðarins. Nú er væntanlega eitthvað rætt um námumálið á fundum samtakastjórnar. Svo ef henni er sannlega í mun að stuðla að gagnsæi og upplýsingagjöf – hvers vegna sýnir hún það þá ekki í verki með að birta fundargerðirnar sínar?

Spurningar handa samtakastjórn (úr fyrsta opna bréfinu)

Fyrst að samtakastjórn segist vera viljug til að svara spurningum safnaðarmeðlima ætla ég að ríða á vaðið og birti hér bara tvo ósvaraða punkta opna bréfsins (sem samtakastjórn barst frá mér og öðrum safnaðarmeðlimum þann 5. desember 2021):

  1. Hvers vegna hefur verið unnið í námunum á hvíldardögum?

  2. Í hverju fólst og felst óvenjulega hár rekstrarkostnaður Eden Mining? (Þeir sækja hvorki efni í námurnar né vinna það né selja – þriðji aðili sér um starfsemina í raun frá A til Ö)

Ósvaraðar spurningar í skýrslu minni um námumálið

Svo vill til að ég hef líka skrifað nokkuð ítarlega skýrslu um námumálið (og er efni hennar uppistaða þessarar vefsíðu). Einn af fyrstu köflunum var í spurningaformi og ég afrita hann hér að hluta:

  1. GCAS-rannsóknin: Hvers vegna var ekki hægt að halda aðalfund áður en GCAS-skýrslan barst en það var hægt að skrifa undir nýjan samning þó hún væri ókomin?

  2. Viðhorf til Edens: Eden virðist stundum ekki hafa borgað á réttum tíma skv. samningi, virðist stundum ekki hafa reiknað greiðslur sínar rétt og virðist ekki hafa ekki veitt samtakastjórn nægileg gögn til að staðfesta réttan útreikning greiðslna. Hvers vegna hefur samtakastjórn látið slíkt líðast? Hvers vegna hefur samtakastjórn dregið taum Edens í gegnum allt ferlið og ekki nýtt sér rétt sinn til að laga málin eða semja upp á nýtt? Á samtakastjórn ekki að verja hagsmuni KSDA þó það kosti e.t.v. það að rifta samningi eða takast á við viðskiptamenn sem vinna mögulega gegn þeim hagsmunum beint eða óbeint?

  3. Lengd samnings: Gömlu samningarnir voru til margra áratuga og nýi samningurinn er það einnig. Námurekstur er í örri þróun sem merkir að það er landeiganda í hag að hafa samninga til styttri tíma til að geta endursamið um kjör eftir tiltölulega stuttan tíma. Að semja til mjög langs tíma telst að semja af sér. Eðlilegur tími fyrir venjulega námuvinnslu væri um áratugur. Hvers vegna voru allir samingarnir til svona langs tíma og hvernig hefur það verið KSDA í hag?

  4. Viðskipti: Formaður og samtakastjórn hafa lýst því yfir að ef að til þess kemur að verða fyrir órétti sé það kristileg skylda að láta undan og þjást í stað þess að standa á réttindum sínum. Hvernig skilaboð eru þetta til safnaðarmeðlima almennt? Að það sé hægt að komast upp með óheilindi gagnvart trúfélaginu án afleiðinga? Er það ókristilegt að verja hagsmuni KSDA?

  5. Nýi samningurinn: Nýi samningurinn hefur á sér fjölmarga fleti sem söfnuðurinn í heild sinni hefur ekki rætt. Hver er náttúruverndarstefna aðventista á Íslandi? Þjóðfélagsáhrifastefna þeirra? Viðskiptastefna þeirra? Hvað skal gera ef aðventistar bera ábyrgð á umsvifum sem eru umdeild? Skiptir það ekki máli ef það er minnihluti þeirra sem verða fyrir áhrifum umsvifanna? Hversu margir í Þorlákshöfn þurfa að lýsa yfir óánægju sinni með fyrirhugaðar framkvæmdir áður en það skiptir aðventista máli? Eða eiga aðventistar að fylgja stjórnmálamönnunum í bæjarfélaginu einungis? Eða firra sig allri ábyrgð og áhuga á málinu, sem varðar bókstaflega nágranna Aðventkirkjunnar? Hvernig ber okkur að elska náungann eins og okkur sjálf í þessu máli?“

Formaður Gavin Anthony útskýrði reyndar á GCAS-fundinum að það stríddi gegn verkferlum KSDA að samtakastjórn svaraði spurningum safnaðarmeðlima – hún gæti aðeins svarað formlegum spurningum frá safnaðarstjórnum. Þess vegna hefði opna bréfinu ekki verið svarað. Í Kirkjufréttum núna segist samtakastjórn hinsvegar vera reiðubúin að svara spurningum safnaðarmeðlima. Í ljósi þessara nýjustu ummæla vona ég að mér berist svör og að samtakastjórn muni sýna í verki að hún er „alltaf reiðubúin til svara“.

Ósvaraðar spurningar safnaðarstjórna (frá 2022)

Ef svo verður að samtakastjórn segir á ný að hún geti aðeins svarað spurningum safnaðarstjórna þá langar mig að ítreka að þær hafa þegar sent samtakastjórn fjölda spurninga. Ég hvet safnaðarstjórnir til að birta þær spurningar þar sem um opinbert mál er að ræða og því hollast að safnaðarmeðlimir almennt fái að sjá skýrt hvaða spurningar söfnuðirnir vilja fá svör við.


[1] „Stjórnin [hefur] tíð unnið í góðri trú og upplýst safnaðarmeðlimi eftir kostum um allar ákvarðanir. Við ítrekum að við erum alltaf reiðubúin til svara fyrir þau sem vilja spyrja spurninga, ræða við okkur málið eða óska eftir frekari upplýsingum um það eins og mög[u]legt er.“ Samtakastjórn, fréttapistill, Kirkjufréttir, 2. febrúar 2024.

[2] „Niðurstaða stjórnarinnar var sú að hafa fund einungis til þess að svara spurningum myndi líklegast leiða til meiri frekar en minni sársauka innan Kirkjunnar og myndi samt skilja Kirkjuna eftir án þess að lausn væri fundin. … [Því] er eftirfarandi tillaga lögð fram:

MÆLT MEÐ

Í fyrsta lagi að reka þetta mál ekki frekar þar sem það er ekki í þágu Kirkjunnar.“ Samtakastjórn, „Skýrsla varðandi námuna“, fundargögn fyrir 41. aðalfund KSDA, bls. 81, 84.

Previous
Previous

Rangfærslur í nýjasta fréttapistli samtakastjórnar